Kaffihúsamenning

Þegar ég var að alast upp voru engin kaffihús á Akureyri. Og ég efast um að nokkur hefði farið á kaffihús ef þau hefðu verið opnuð. Viðhorf fólks þá var svolítið þannig að maður gæti bara borðað (og þar með drukkið kaffi) heima hjá sér. Ef fjölskylda sást á veitingastað (sem þá var helst Bautinn) þá var viðhorfið svolítið svona: "Jæjajá. Svo hún nennir ekki að elda." Í minni fjölskyldu var ekki farið á veitingahús. Það kom þó fyrir kannski annan hvorn mánuð að keyptar voru pylsur í Nesti. Ein pylsa á mann, ein kók. Þannig splæsti okkar fjölskylda á sig. Einu sinni bað ég um hamborgara. Pabbi leit hneykslaður á mig: "Ertu vitlaus? Hann kostar 80 kr." Þar með var það ekki rætt frekar. En stundum fékk ég hálfétinn hamborgara frá bróður mínum sem keypti stundum þannig góðgæti þegar hann var á rúntinum. Ef hann gat ekki klárað borgarann keyrði hann heim og gaf mér afganginn. Það voru sæludagar. Og fallega gert af bróður mínum.

En ég ætlaði að tala um kaffihús en ekki veitingastað og skyndibita.

Í fyrsta sinn sem ég kom á kaffihús var það á kaffihúsið á torginu sem Bárður sögukennari opnaði. Hét það ekki bara Torgið, eða Kaffitorgið? Eitthvað svoleiðis. Held það hafi verið fyrsta kaffihús á Akureyri. Ég fór þangað einmitt með Bárði og bekknum mínum. Við vorum á öðru ári í MA og Bárður bauð öllum bekknum í kaffi.  Ég átti þá gamla brúnappelsínugula Lödu sem reyndist mér vel. Helmingnum af bekknum var troðið í Löduna og hinum helmingnum í bíl bekkjarbróður míns. Held reyndar að einhverjir hafi þurft að labba en þetta var nú ekki langt. Ég man enn eftir því hversu lágt bíllinn sat, fullur af menntskælingum. Ef við keyrðum yfir ójöfnu hentist bíllinn upp og niður því hann sat á hjólunum og gat ekkert gefið eftir. En alla vega, við fórum niður á torg og á kaffihús Bárðar þar sem við sötruðum aðallega kakó enda ekki allir farnir að drekka kaffi.

Síðan leið langur tími þar til ég fór aftur á kaffihús og sótti þau svo sem aldrei reglulega - ekki einu sinni þegar ég varð virðulegur háskólanemi.

Í Winnipeg fórum við Tim (minn þáverandi) stundum á kaffihús í götunni okkar, og þá sérstaklega ef við vorum að vinna að einhverju saman. Staðurinn hét Second Cup og er kaffihúsakeðja í Kanada, þótt ekki nái þeir reyndar til Vancouver þar sem Starbucks, Blenz og Tim Hortons eru allsráðandi. Blenz og Tim Hortons eru sull, allt of þunnt kaffi (mömmu myndi líka það) en Starbucks má eiga það að kaffið er sterkt og gott.

Það var ekki fyrr en ég flutti til Vancouver og fór aftur í háskólanám sem ég fór að stunda kaffihúsin. Ekki til að sitja, spjalla, reykja og drekka kaffi, eins og gjarnan er með aðra. Ja, reyndar bæði sit ég og drekk kaffi, en ég fer sjaldan á kaffihús til að hitta fólk og aldrei til að reykja. Enda reyki ég ekki og hef aldrei gert, og þar að auki eru reykingar ekki leyfðar á kaffihúsum í Vancouver, né öðrum opinberum stöðum. Meira að segja er búið að banna reykingar í almenningsgörðum.

Nei, ég fer á kaffihús til að læra. Mér gengur betur að einbeita mér að því sem ég er að gera á kaffihúsi en heima hjá mér. Hér get ég reyndar slæðst til þess að fara á netið eða blogga (eins og núna) en ég tek alla vega ekki upp gítarinn eða fer að horfa á sjónvarpið eins og gerist oft heima. Ég get engan veginn lært á bókasöfnum. Verð hreinlega niðurdregin og syfjuð ef ég sit þar. Sennilega of hljótt í kringum mig. Skólinn er heldur ekki nógu ríkur til að útvega framhaldsnemum vinnuaðstöðu. Við höfum reyndar tvö herbergi í deildinni hjá okkur þar sem nemendur geta setið og lært, en maður deilir því með öðrum nemum og það hefur aldrei reynst mér vel.

Þess vegna fer ég sem sagt á kaffihús, drekk kaffi eða te (sem kostar auðvitað heilmikið þegar safnast saman) og skrifa mína ritgerð. Aðallega fer ég á tvö kaffihús. Annars vegar Starbucks í nágrenninu og læri ég yfirleitt vel þar. Tónlistin er passlega hátt spiluð til að skapa stemningu en truflar ekki.   Húsnæðið er  líka þannig að þótt einhver sitji á næsta borði og spjalli þá truflar það ekki heldur. Nema þegar fólk er í símanum - einhverra hluta vegna talar það alltaf hærra í síma en þegar það talar við fólk beint á móti sér. Hinn staðurinn heitir Cuppa Joes, við botn brekkunnar minnar, og það tekur um 25 mínútur að ganga þangað. En vel þess virði. Þangað fer ég oft og sit þar klukkutímunum saman. Er farin að þekkja starfsfólkið. Þetta er góður staður því hann er ekki of vinsæll þannig að oft er nóg næði.

Ég hef þó lært að ekki þýðir að ætla sér að læra á kaffihúsum um helgar. Þá fara mömmur á kaffihús með börnin sín (ég á ákaflega erfitt með að skilja hvers vegna) og þá er alltof mikill hávaði til þess að læra. Þannig að, þá daga verð ég bara að hundskast til að læra heima hjá mér. 

En nú er skólinn að byrja í næstu viku og ég verð aðstoðarkennari í einum áfanga, LING 311 sem er þriðja árs áfangi í hljóðkerfisfræði. Það þýðir að ég þarf að fara yfir heimaverkefni í hverri viku, svo og miðsvetrarpróf og lokapróf. Og þá koma kaffihúsin sér nú heldur betur vel!!!

Annars ætlaði ég nú upphaflega að skrifa um fólkið sem kemur á kaffihúsin og það sem maður heyrir og sér þar, en það verður bara að bíða annars bloggs.


Bráðnun íss hefur marga ókosti í för með sér

Eins og fram kemur réttilega í fréttinni hefur þetta skipsstrand sett aukinn þrýsting á kanadísk stjórnvöld um að bæta björgunaraðstæður í norðurhluta landsins. Þessi þörf verður æ brýnni því meir sem ís bráðnar í norðrinu því fjölmargar skipaleiðir hafa nú opnast sem áður voru undir ís.

Ef ég skildi kanadísku blöðin rétt þá er ástæða þess að þetta sker var ekki á korti einfaldlega sú að leiðin hefur verið undir ís og enginn veit í raun hvernig sjórinn lítur út á stóru svæði sem skipa fara nú um. Og vegna þess að lítið hefur verið siglt þarna um áður hefur ekki verið þörf á sérstökum viðbúnaði á svæðinu.

Nú er rætt um að  koma upp einhverri aðstöðu þarna svo hægt sé að bregðast við á skemmri tíma en gerðist í þetta sinn. Hvað hefði t.d. gerst ef skipið hefði verið að sökkva? Eða ef veður hefði verið slæmt?

Bráðnun íss mun hafa margt í för með sér hvað viðkemur skipaleiðum og stöðu landanna í norðri. Áður hefur t.d. verið siglt í gegnum alþjóðasvæði sem tilheyra engum, en nú er að opnast leið sem liggur á milli kanadísku eyjanna og sem myndi stytta verulega siglingu frá Kyrrahafi til Atlantshafs. Sú leið liggur hins vegar algjörlega innan kanadísks svæðis sem mér skilst að hafi vakið nú þegar einhverja úlfúð á milli og Kanadamanna og Rússa, og að ég held Norðmanna.

Bráðnun íssins mun hafa verst áhrif á ísbjörninn og önnur dýr sem lifa í norðrinu, en hún á eftir að hafa svo margvísleg önnur áhrif líka, sem maður er virkilega minntur á þegar svona hlutir gerast eins og strand skipsins á föstudaginn. Við erum líka farin að sjá risastóra ísjaka brotna, eins og gerðist á Grænlandi fyrir skömmu. Kannski annað Titanicslys sé yfirvofandi.

 


mbl.is Strandaði í Norður-Íshafinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nágrannar

Mig dreymir um að eignast hús, og helst stóra jörð í kring þar sem maður þarf lítið sem ekkert að eiga við nágranna. Er orðin svo þreytt á því að þurfa að búa með fólki sem tekur ekki tillit til annarra. Við Alison í kjallaranum vorum ákaflega ánægðar þegar Rita hin klikkaða flutti loks á burt. En við hefðum svo sannarlega valið aðra í staðin en þá sem við fengum inn. Þau eru kannski ekki mjög slæm og ekkert á við klikkið í Ritu, en þau eru ung hjón sem virðist skítsama um allt í kringum sig. Þau búa sem sagt á miðhæðinni í húsinu mínu. Dæmi:

  • Húsið er með tvöfaldri útihurð þar sem ytri hurðin er þunn glerhurð sem hægt er að opna þannig að gluggi er á hurðinni. Gott til að lofta út. Í helmingi skipta loka þau ekki þessari hurð heldur skilja hana eftir opna. Þetta er hurð! Hversu erfitt er að muna að loka henni. Þetta þýðir að um leið og hvessir þá skellist hurðin aftur og aftur í vegginn. Svefnherbergi Alison er beint undir útidyrunum og hún getur ekki sofið þegar þetta gerist. Hún hefur beðið þau um að loka hurðinni, þau lofuðu, og strax daginn eftir skilja þau hurðina eftir opna.
  • Þau settu risastóra útiplöntu á stigapallinn fyrir framan húsið án þess að spyrja okkur. Þar að auki þrengir þetta að póstlúgunni sem nú þegar er pínulítil og næstum niðri við jörð. Ég er hissa á að pósturinn hefur ekki beðið um að plantan sé færð.
  • Þau settu sitt risastóra útigrill við bakdyrnar að þvottahúsinu þannig að stígurinn að dyrunum þrengist um helming. Þau þurfa aldrei að nota þessar dyr því hjá þeim er innangengt í þvottahúsið, en þetta er eina leið mín í þvottahúsið og ég þarf að burðast hjá með stóra körfu með þvotti. Þar að auki er hjólið mitt í geymslunni og erfitt að koma því framhjá. Þeim er auðvitað alveg sama. Ekki þeirra vandamál.
  • Húsið er reyklaust og þau sögðust þegar þau fluttu inn ekki reykja. Síðan þá hafa þau ítrekað reykt. Reyndar ekki inni, en við innganginn, beint fyrir utan svefnherbergisglugga Alison. Hún bað þau að reykja frekar bakdyramegin þar sem þau hafa svalir. Strax daginn eftir reyktu þau aftur fyrir framan gluggann hennar.
  • Stofan þeirra er beint fyrir ofan stofu og herbergi Alison (og beint undir mínu svefnherbergi). Þau eru með gamalt parket. Alison spurði hvort það væri séns að þau settu mottu á gólfið til að minnka hljóð aðeins því hún heyrir akkúrat allt sem sagt er og hvert fótspor líka. Þau sendu henni póst þar sem þau sögðust vera að leita að mottu, en bættu svo við skilaboðum sem hljómuðu nokkurn veginn svona: Við bjóðum fólki heim þegar okkur sýnist so fokk off. Ókei, þau sögðu það ekki alveg svo en það var tónninn í skilaboðunum.
  • Ó og ég gleymdi að segja að þau skipta endurvinnslunni heldur ekki niður heldur hrúga öllu í blá kassann sem er fyrir plast og gler. Þangað settu þau líka pappír og dagblöð, sem eiga að fara í mismunandi poka. Og ekki nóg með það, þau rígfylltu þetta svo að ekkert pláss var fyrir endurvinnslu mína og Alison. Ég varð að fara og sortera endurvinnsluna þeirra svo þetta yrði ekki allt skilið eftir því þeir sem sækja endurvinnsluna myndu ekki taka þetta svona ósorterað. Ég ætla að sjá hvað þau gera næst áður en ég tala við þau. Kannski kunni annað þeirra reglurnar og kenndi hinu. Ég vona það.
  • Og svo rífast þau eins og hundur og köttur og yfirleitt inni í stofu þannig að Alison heyrir hvert einasta orð og ég heyri nóg til missa einbeitinguna frá lærdómnum.

 

Ef þau væru tvítug og rétt að byrja líf í burtu frá foreldrum þá myndi ég kannski skilja svona eigingirni, en þetta fólk er alveg örugglega um þrítugt og ætti að hafa þroskast nóg. Æi, ég vona að þetta lagist. Sérstaklega Alison vegna sem þarf að þola miklu meira frá þeim en ég. 


Ef Facebook hefði alltaf verið til

Þetta er með því fyndnara sem ég hef séð. Upprunalegi titillinn er 'If historical events had Facebook statuses'. Hugsið ykkkur, nú alast upp kynslóðir sem þekkja ekki lífið fyrir daga Facebook. Það sem heimurinn er alltaf að breytast. Ég tel mig ekki gamla og man þó eftir þeim tíma þegar ekkert sjónvarp var á fimmtudögum og í júlí.

 history-facebook-updates

Fékk þetta héðan: http://coolmaterial.com/roundup/if-historical-events-had-facebook-statuses/

 


Ha?

Ég las þessa málsgrein þrisvar sinnum en er ekki enn viss um að ég hafi náð henni:

Á meðan sögumaðurinn talar sér maður Phoenix í mynda-montage óþægilegra mynda hlæjandi á manískan hátt á milli mynda af ýmsu forvitnilegu sem lesendur geta kynnt sér á netheimum ef þeir komast yfir myndskeiðið.

 Er ekkert eftirlit með því sem Mogginn birtir á netinu?


mbl.is Joaquin Phoenix virðist hafa platað fólk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrir 48 árum

Í dag er samt ennþá merkilegri dagur í sögu Bítlanna því átjánda ágúst 1962 spilaði Ringo Starr í fyrsta sinn opinberlega með Bítlunum og var það hjá garðyrkjusamtökunum Dance í Birkenhead á Englandi. Hann hafði aðeins æft með þeim í tvo klukkutíma. Það var því þennan dag fyrir 48 árum að Bítlarnir urðu til sem John, Paul, George or Ringo.

 


mbl.is Hálf öld liðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stálgítarinn

Ég verð að segja ykkur sögu sem ég las á netinu um daginn og snertir Chris Isaak og bassaleikarann hans Roly Salley. Kenney-Dale Johnson, trommuleikari hljómsveitarinnar, hélt úti bloggi fyrir nokkrum árum og skrifaði þar margt skemmtilegt.

Þeir voru í hljómsveitarútunni sem hefur þráðlaust internet. Roly var á ebay eða einhverri slíkri síðu og hafði boðið í fágætan stálgítar. Svona einn þeirra sem maður situr með í kjöltunni. Chris laumaðist þá aftast í vagninn með aðra tölvu og byrjaði að bjóða í gítarinn á móti Roly. Að lokum var það Chris sem vann og Roly var hundfúll að tapa gítarnum. Vissi ekki að Chris hafði keypt hann. Chris lét senda gítarinn til Atlanta þar sem þeir áttu að spila síðar í túrnum og ætlunin var að láta Hershel spila á gítarinn upp á sviði, svona til að stríða Roly.

 

Nema hvað, þeir eru að spila á tónleikunum í Atlanta þegar Chris stingur upp á að þeir spili hawaiiska lagið Sweet Lei lani en stálgítar er mikið notaður í hawaiiskum lögum. Þeir fara að spila lagið og Hershel spilar á gítarinn, nema hvað Roly spilar bara á sinn bassa og horfir ekkert yfir á hinn enda sviðsins þar sem Hershel er með gítarinn góða. Lagið er að verða búið og Roly tekur enn ekki eftir neinu svo Kenney kallar til hans: Hey, á hvað er Hershel að spila. Nema hvað á ensku er það tvírætt, 'what is Hershel playing' sem getur líka þýtt 'hvað er Hershel að s

pila'. Svo Roly lítur á Kenney eins og hann séð bilaður og segir: "Nú, Sweet lei lani". Og þá fyrst tekur hann eftir gítarnum. Svo Chris útskýrir brandarann fyrir áhorfendum og afhendir gítarinn sínum rétta eiganda.

Á myndinni hér að ofan eru þeir Chris og Roly saman en það er greinilegt þegar maður sér þá á sviði hversu góðir vinir þeir eru og þeir allir í hjómsveitinni.


Magnaðir tónleikar

Það er alltaf gaman að fara á góða tónleika og enn betra þegar boðið er upp á skemmtilegt spjalla á milli laga. Paul McCartney er býsna góður með það, Billy Joe Armstrong í Green Day hafði margt skemmtilegt að segja þegar ég sá þá spila og Fran Healy í Travis var geysi skemmtilegur í bæði skiptin sem ég hef séð hann á sviði. En enginn er betri en Chris Isaak hvað þetta snertir.

Tónleikarnir hófust á laginu Dancing og Chris skellti sér svo beint í Two hearts og Somebody's crying áður en hann bauð gesti velkomna. Chris of félagar bjuggu í Vancouver í þrjú ár á meðan þeir gerðu sína stórkostlegu sjónvarpsþætti og borgin á því alltaf sérstakan stað í hjarta þeirra. Chris sjálfur bjó á húsbáti niðri við Granville island á meðan þeir voru hér. Chris lofaði því að þeir skyldu spila bæði góðu lögin sín. Svo spurði hann hvort einhver í salnum hefði komið á tónleika með þeim áður. Við vorum mörg sem höfðu séð þá áður svo Chris sagði, mjög alvarlega: "Mér hefur alltaf líkað svo vel við hversu góðir Kanadamenn eru með það að gefa fólki annað tækifæri. Þetta sem gerðist síðast, það mun ekki gerast aftur. Við lofum að spila vel í þetta sinn." 

Chris kynnti sérlega fyrir áhorfendum gítarleikara sinn og yngsta meðlim hljómsveitarinnar, Hershel Yatowich, og þóttist vera að kenna honum sviðsframkomu. Hann benti á bassaleikarann, Roly Salley, og sagði Hershel að hann ætti að fylgjast með Roly og læra af honum. Hvernig ætti að heilla áhorfendur o.s.frv. Hann sagði Hershel að nú væri það hans starf að halda okkur sem sátum á svölunum hamingjusömum. Það væri alltaf hætta á að þeir sem sætu þarna uppi fyndust þeir vanræktir svo nú skyldi bætt úr því. Síðan bað hann Hershel að spila eitthvað rómantískt og Hershel spilaði Love me tender. Chris greip míkrafóninn, byrjaði að syngja og gekk svo út í sal. Svo hvarf hann. Við heyrðum bara í honum, gerðum ráð fyrir að hann væri einhvers staðar í hvarfi frá okkur þarna uppi. Nema hvað allt í einu birtist uppi á svölum og gekk niður mín megin. Hann var sirka metra frá mér. Þegar hann kom út á endann á svölunum öskraði hann niður: "Strákar, ég veit ekki hvernig ég á að komast niður héðan", svo hann settist bara í autt sæti og sat og söng við hliðina á ákaflega hamingjusamri konu. Allt í einu kallaði hann: "strákar, haldið tóninum, ég ætla að koma niður" og svo rauk hann af stað niður bakdyr og kom loks hlaupandi upp á svið aftur. 

 Við fengum að heyra I want your love, Cheater's town, Speak of the devil og smellinn Wicked game. Þeir spiluðu líka Best I've ever had, One day, Big wide wonderful world, Worked it out wrong, Take my heart og kántrílagið Western stars sem K.D. Lang hefur tekið upp sína arma. Þegar hann söng Yellow bird lét Hershel gítarinn syngja eins og fugl. Eingöngu magnaðir gítarleikar geta spilað þannig.

Eftir eitt lagið þar sem píanó var í aðalhlutverki kallaði Chris til ljósamannsins og bað hann um að halda fókusnum á hljómborðsleikaranum Scott, sem ekki er hluti af Silfurtónum en hefur spilað með þeim í einhver ár. Þegar ljósið skein vel á Scott sagði Chris: Það er alltof oft að maðurinn fremst á sviðinu með míkrafóninn fær meiri athygli en hann á skilið. Fólk heldur að það sé hann sem hafi hæfileikana og sé aðalsprautan í hljómsveitinni. En ef þið lítið framhjá honum og horfið aftar á sviðið þá finnið þið oft þann sem raunverulega hefur mestu hæfileikana." Scott þóttist snortinn og veifaði til áhorfenda. Nema hvað þá hélt Chris áfram: "Því er ekki þannig farið í þessari hljómsveit, en í sumum öðrum..."

Þeir sungu Dark moon og Return to me. Og svo fór Chris að tala um James Brown. Hann hitti hann einu sinni og var með stjörnur í augum. James Brown var hetjan hans. Svo Chris gekk upp að Brown, kynnti sig og sagðist vera mikill aðdáandi. James Brown leit á Chris og sagði svo: "Ah" (og þetta sagði Chris með svona James Brown rödd.) "Ah". Og svo bætti Chris við: "Alveg síðan þá hef ég reynt að lifa eftir þessu sem best ég get."

 

 

 Hann söng svo James Brown lagið I'll go crazy og skellti sér svo í You don't cry like I do. Svo kom að laginu þar sem Chris níðist á Roly, Baby did a bad thing. Hann gerir það alltaf. Ég hef séð þá þrisvar og alltaf ræðst hann á Roly í þessu lagi. Sennilega af því að bassinn er aldrei meir áberandi en einmitt þarna. Í miðju lagi kynnti hann Roly og sagði að hann hefði sérlegur áhugamaður um ekkjur og fráskyldar konur. Bauð svo tveim brussum upp á svið og kallaði til Roly að þetta gæti verið happakvöldið hans. Þessar tvær voru vel fullar og önnur þeirra greip míkrafóninn af Chris og var næstum hent út. En Chris sagði öryggisverðinum að láta hana í friði, þetta væri ekki henni að kenna heldur Jaegermeister. Svo þóttist hann vera stelpan að hringja í mömmu sína og segja henni að hún væri að dansa uppi á sviði og væri orðin ástfangin. "En mamma, þetta er allt í lagi. Hann er ekki tónlistarmaður. Hann er bassaleikari." Roly þóttist móðgaður yfir þessu en hann er orðinn vanur Chris eftir 25 ára samstarf. Roly er uppáhaldið mitt í hljómsveitinni. Hann lifir sig inn í tónlistina og hann er alltaf brosandi, alveg sama hvað vitleysa kemur upp úr Chris. Ég hefði átt að dansa við hann. Nema hvað ég sat uppi og hefði ekki verið komin á sviðið fyrr en lagið var búið.

 Hljómsveitin var klöppuð upp enda enginn búinn að fá nóg. Við vildum að hann spilaði fram á morgun. Scott og trommuleikarnir komu fyrst fram á sviðið, Kenney-Dale og Kúbumaðurinn sem ég man ekki hvað heitir, enda er hann ekki heldur í Silfurtónum. Kenney-Dale hafði haft sig lítið í frammi sem var svolítið sorglegt því hann er þrælskemmtilegur. Þeir byrjuðu að spila Lonely with a broken heart sem þeir nota stundum til að hefja tónleika. Roly og Hershel komu svo hlaupandi inn og bættu við bassa og gítar og að lokum kom CHris í speglafötunum sínum. Hann hefur gaman af því að vera í undarlegum fötum og heldur því fram að eina leiðin til að klæða sig svona sé að vera í sjóbisnes, svona af því að enginn í hljómsveitinni stundaði skautadans. 

Þeir spiluðu Blue hotel, San Francisco days, Pretty woman og enduðu svo á Blue Spanish sky. Ég veit að Chris hefur notað það sem lokalag á þessu tónleikaferðalagi en ég er svolítið hissa á því. Mér finnst það of rólegt. En kannski var bara ágætt að enda á einhverju rólegu og fallegu. 

En ef þið hafið ekki náð því með þessum lestri þá skemmti ég mér konunglega, eins og alltaf þegar ég sé Chris Isaak á tónleikum.


Ótrúlega algengt

Þetta er víst ótrúlega algengt—þ.e. að birnir festi hausinn í krukkum. Við vorum með einn svoleiðis hér í Bresku Kólumbíu fyrir um mánuði. Reynt var í nokkra daga að ná honum en hann var of styggur. Greyið var orðið grindhorað þar sem hann gat ekkert nærst. Að lokum fannst krukkan en enginn veit hvernig björninn náði henni loks af sér.

Kom fram í blöðum að þetta væri ekki óalgengt og var fólk beðið um að passa krukkur og þvíumlíkt þegar það setur út endurvinnsluna á kvöldin, en hér safna bæjarfélögin endurvinnslu úr bláum kössum einu sinni í viku. Ef krukkurnar eru ekki þvegnar vel þá reka birnirnir hausinn ofan í þær til að sleikja innan úr þeim. Því þarf maður að þvo allt vel áður en það er sett út og einnig að passa sig á að snúa krukkunum á hvolf.

Maður þarf annars að passa sig vel þegar maður býr í ríki bjarnarins. Ég fór t.d. í útilegu í fyrra á stað þar sem birnir eru algengir. Við urðum að hengja upp allan mat. Yfirleitt hengir maður matinn í trjágreinar en við hengdum okkar undir húsgafl á gömlum kofa sem var þarna rétt hjá. Á sumum tjaldstæðum er boðið upp á bjarnhelda járnkassa þar sem maður getur geymt matvælin.

Kemur fyrir að fólk passar sig ekki og þá komast birnirnir í matinn. Það væri svo sem allt í lagi nema vegna þess að birnir fara þá að tengja saman mat og fólk og fer að sækja í tjaldstæði og þá veit enginn hvað getur gerst. Því er best að halda þessum tveim rándýrum fjarri hvort öðru. 


mbl.is Festi hausinn í krukku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sitt lítið um tónleika

Það er alltaf gaman að fara á tónleika þótt maður upplifi þá á mismunandi hátt.Best er auðvitað þegar maður fer á tónleika með tónlistarmönnum sem maður hreinlega elskar af öllu hjarta. Hjá mér eru Paul McCartney einu tónleikarnir sem falla í þann flokk, en sem betur fer hef ég séð hann tvisvar svo ég get alla vega sett tvær færslur í flokkinn. Þegar ég sá Paul í fyrsta sinn þá hreinlega grét ég. Ég var svo hrærð yfir því að ég skyldi fá þetta tækifæri að sjá goðsögnina á sviði. Ég grét reyndar ekki fyrr en í þriðja lagi því í fyrstu tveim lögunum var ég ekki enn farin að trúa því að ég væri þarna og að þetta væri Paul fyrir framan mig á sviðinu. En svo opnuðust flóðgáttirnar og héldust opnar í ein þrjú lög þar á eftir áður en ég jafnaði mig og fór að dansa með hinum.

Stundum er tónlistin bara hluti af tónleikunum. Sviðið, ljósasjóið o.s.frv. spilar næstum jafnmikinn þátt. Þannig voru t.d. U2 tónleikarnir sem ég sá í fyrra, Rolling Stones tónleikarnir að sumu leyti, og pottþétt Creed tónleikarnir sem ég fór á fyrir einum átta árum.

Aðrir tónleikar eru magnaðir af því að þeir fara fram í litlu rými þar sem maður er nálægt tónlistarmönnunum og tónlistin hreinlega umlykur mann. Ég sá t.d. bæði Muse og Travis á tiltölulega litlum stöðum því þeir voru ekki orðnir nógu stórir í N-Ameríku til að fylla stærri staði. Þá voru þeir að spila á leikvöngum í Evrópu. Sá líka Default þegar þeir voru rétt að verða frægir þar sem þeir spiluðu í hálfgerðri hlöðu í Fargo. Og ég myndi líka setja Godsmack og Alice in chains tónleikana undir þann hatt.

Svo eru það tónleikarnir sem koma manni á óvart af því að maður bjóst kannski ekki við miklu. Það gerist sjaldan reyndar því ég fer vanalega ekki á tónleika nema mig langi virkilega, en annað árið mitt í Kanada keypti minn þáverandi miða á tónleika með The Guess Who, sem voru gríðarlega vinsælir í Kanada á sjöunda og áttunda áratugnum (aðalsprautan var Randy Bachman sem síðar stofnaði Bachman Turner Overdrive eða BTO). Ég hafði heyrt eitt eða tvö lög með þeim og fannst þau þokkaleg en ekkert sérstök. Hljómsveitin var hins vegar frá Winnipeg svo Tim fannst við endilega verða að fara. Og ég sé ekki eftir því. Gömlu mennirnir voru hreint magnaðir og krafturinn í American Woman var ótrúlegur.

Af og til kemur fyrir að tónleikarnir valda manni vonbrigðum því manni finnst að maður gæti allt eins hafa setið heima og hlustað á plötuna. Þannig leið mér m.a. þegar ég sá Maroon5 fyrir nokkrum árum. Það var einmitt þegar 'This love' var vinsælt með þeim en einhvern veginn var ekkert gaman á tónleikunum.Ég varð líka svolítið svekkt yfir tónleikunum með Death cab for cutie. Mér finnst bandið æðisleg en tónleikarnir bættu eiginlega engu við.

Og svo eru það tónleikarnir sem maður getur séð aftur og aftur af því að maður veit aldrei hvað gerist næst eða hvað dettur upp úr tónlistarmönnunum. Þannig eru tónleikar með Chris Isaak. Hrein gleði tónleikana út í gegn. Chris er án efa með fyndnari tónlistarmönnum og það er hrein unun að hlusta á hann á milli laga. Og bandið hans, The Silvertones, tekur sig ekki mjög alvarlega svo þeir eru alltaf til í að grínast og sprella.  En af því að ég fór einmitt að tónleika með Chris í kvöld þá ætla ég að segja ykkur nánar frá þeim í annarri færslu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband