Nýjar bækur

Í dag fékk ég þrjár nýjar bækur. Það var reyndar bara tilviljun því ég fékk tvær í póstinum en eina þurfti ég að kaupa sjálf. Þeir sem hafa gaman af hugvísindum hafa kannski áhuga á að heyra um þessar bækur en aðrir geta hlíft sér við lesturinn.

Í póstinum upp í skóla fékk ég bókina North American Icelandic eftir Birnu Arnbjörnsdóttur. Bókin er gefin út af mínum gamla skóla, Manitóbaháskóla og ég hef verið beðin um að skrifa ritdóm um þessa bók fyrir AASSC (The Association of the Advancement of Scandinavian Studies in Canada). Ég hef áður lesið doktorsritgerðina hennar Birnu sem þessi bók byggir á að hluta.  Auk þess hef ég sjálf skrifað nokkuð um íslensku eins og hún er töluð í Kanada og safnað heilmiklu af efni. Þannig að þetta ætti að vera skemmtilegur lestur. 

Heim fékk ég svo sent nýjasta heftið af Canadian Journal of Linguistics. Þetta heft er helgað kanadískri ensku og virðist hafa margar spennandi greinar. Ég sá einmitt nýlega sjónvarpsþátt um enska tungu eins og hún er töluð í Kanada og þar var ýmislegt sem ég vissi ekki. Ég hlakka til að lesa þetta hefti.

Eina bókin sem ég keypti var The Logic Book eftir Bergmann, Moor og Nelson. Þetta er kennslubók í rökfræði en í brjálæði mínu ákvað ég að heimsækja heimspekideildina og læra svolitla rökfræði. Það eina sem ég hef áhyggjur af er að ég muni ekki læra neitt gagnlegt. Ég held ég hafi skrifað um þetta áður en í svona kúrsi er fyrst og fremst unnið með setningarökfræði og umsagnarökfræði. Slík grunnrökfræði gagnast hins vegar merkingarfræðingum takmarkað þannig að ég veit ekki hvort ég læri eitthvað gagnlegt. ég er hrædd um að fyrst muni ég kunna allt, og svo, þegar farið verður í sannanir og þvíumlíkt, kunni ég ekki neitt, en ég þarf heldur ekki að kunna það fyrir málfræði. Ég hef áhuga á rökfræði sem tæki fyrir mig í málrannsóknum en hef takmarkaðan áhuga á rökfræði rökfræðinnar vegna. Þess vegna hef ég lítinn áhuga á sönnunum. En alla vega, keypti þessi bók sem kennd verður í tímanum og þurfti að borga óhugnarlega mikið fyrir hana. Það er eins gott að það sé þess virði.

En af því að ég er að tala um bækur. Ég er núna að lesa bók sem heitir Blackfly season og er eftir kanadíska höfundinn Giles Blunt. Þetta er spennusaga sem gerist í smáborg í norður Ontario. Ég hef býsna gaman af henni.


Umræða um ís

Í dag kom ég við í DairyQueen og fékk mér ís með dýfu. Þeir eru reyndar ekki eins kúltiveraðir og heima svo ég varð að láta mér nægja súkkulaðidýfu - ekki boðið upp á lakkrísdýfu hér. En þar sem ég gekk niður Broadway og át minn ís fór ég að hugsa um samræðu sem ég átti við amerískan vin minn fyrir nokkrum árum. Ég hafði eitthvað minnst á við hann hvað mér þætti íslenskur ís (í brauði) góður og hann vildi vita með hvernig bragði. Samtalið getur hafa verið einhvern veginn svona:

Robin: Hvernig bragð viltu helst
Ég: Bragð? Bara svona ísbragð.
Robin: Það er ekki til neitt ísbragð. Það hlýtur að vera eitthvert bragð. Súkkulaði, jarðaberja, vanillu...
Ég: Nei. Það er hægt að fá súkkulaðiís eða jarðaberjaís, en mér finnst bestur ís með engu. Bara venjulegur ís.
Robin: En það hlýtur að vera eitthvert bragð!!!
Ég: Neibb, bara ísbragð.

Löngu seinna áttaði ég mig á að okkar venjulega ísbragð er að sjálfsögðu VANILLA. Robin hafði sem sagt rétt fyrir sér eftir allt saman. Veit ekki á hverju ég var!

Þetta minnir reyndar á aðra samræðu, úr bókinni Good Omens eftir Terry Pratchett og Neil Gaiman. FRÁBÆR BÓK!!!!! Lesa'na!

Adam, antikristur, er að tala við vii sína (þeir eru allir um tíu ára - og allir Bretar) og einn þeirra segir: Í Bandaríkjunum hægt að fá 99 tegundir af ís.
Adam: Það er ekki hægt. Það eru ekki til 99 tegundir af ís. Það er bara súkkulaði, jarðaberja og vanillu. Ja, svo er reyndar hægt að blanda þeim saman og fá súkkulaði OG jarðaberja, eða súkkulaði OG vanillu, eða jarðaber OG vanillu, eða jafnvel súkkulaði, jarðaberja og vanillu...

Bretar hafa sem sagt svipaða súkkulaðimenningu og Íslendingar höfðu í gegnum tíðina. Nú skilst mér að hægt sé að kaupa HaegenDaz á Íslandi. Þar mæli ég fyrst og fremst með Dolce de leche. Fékk einu sinni l de leche shake í HaegenDaz búð í Seattle. Æðislegur. Annars er uppáhaldsísinn minn ekki frá Dolche de leche, heldur frá Ben and Jerry's og það er Chunky monkey. Súkkulaði, bananar og heslihnetur. Alveghreint magnaður ís. Góður er líka Cherry Garcia (að sjálfsögðu nefndur eftir Jerry Garcia úr Greatful Dead) sem hefur súkkulaði og kirsuber.

En áður en ég lýk þessari umræðu, getur einhver sagt mér hvort enn er hægt að fá lakkrísdýfu á ísinn sinn á Íslandi? Vinkona mín er að fara til Íslands í sumar og eftir að ég sagði henni frá þessu undri þá vill hún endilega prófa. Hvar fær hún svoleiðis núna? 


Friðrika litla

Þvílík dúlla! Og hún er alveg nákvæmlega eins og Frikki. Eins og snýtt út úr nösunum á honum.

Ég er náttúrulega enn sár yfir því að hann gekk fram hjá mér og að ég varð ekki næsta drottning yfir Danmörku. Eins og ég hafði nú fastlega búist við að það yrði mín staða í framtíðinni. Var að hugsa um að ráðast á Dani innan frá, skiljiði...hefði ekki verið fínt að hefna einokunarinnar með því að taka yfir konungsfjölskylduna? En svona þróast  nú ekki allt eins og maður ætlar. Í staðinn eru Ástralir orðnir helteknir af fréttum  af danska konungsveldinu - segir mér vinkona mín sem er gift Ástrala. Það er best að una þeim þess. Þeir þurfa jú að búa neðan á hnettinum!

Annars langar mig mikið til Ástralíu og sjá páfagauka og aðra skemmtilega fugla í sínu eðlilega umhverfi. Mig langar mun meira þangað en að vera drottning yfir Danmörku. 


mbl.is Danska konungsfjölskyldan birtir myndir af nýju prinsessunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Púkinn - frábært framtak

Ég verð að óska þeim Moggamönnum til hamingju með að hafa nú tengt púkann við moggabloggið. Ég er auðvitað stuðningsmaður baráttunnar gegn sóðalegri íslensku, þótt stundum vilji nú brenna við að ég flýti mér of mikið við að vista færslurnar mínar og að ljótar stafavillur sleppi í gegn.

Það er alltaf leiðinlegt að lesa illa skrifaðar og sóðalegar færslur og einföld villuleitarforrit geta gert mikið til hjálpar. Við skulum vona að sem flestir nýti sér þennan möguleika og renni púkanum yfir færsluna áður en hún er send út í veraldarvefinn.

P.s. Ég skellti púkanum á það sem ég hafði skrifað hér að ofan en ekkert gerðist. Ég var ekki viss um hvort það þýddi að púkinn virkaði ekki eða hvort ég hafði bara skrifað allt rétt, svo ég ákvað að skrifa einhverja vitleysu til að fullvissa mig um að allt væri í lagi. Skrifaði því jeg upp á gamla mátann... en ekkert gerðist.  Reyndi þá óöfræj en aftur gerðist ekkert! Hey, hef ég misskilið eitthvað? Hvernig virkar þetta? Lítið gagn af púka sem ekki virkar. Meira að segja ógagn - fær mann til að halda að allt sé rétt.


Stuðningur við íslensku flokkana

Á vef sínum benti Gurrí á próf þar sem skoðanir manns eru bornar saman við skoðanir íslensku stjórnmálaflokkanna. Ég skellti mér beint í prófið, enda hef ég alltaf gaman af slíku. Útkoman kom mér nokkuð á óvart.

 
Stuðningur við Sjálfstæðisflokk: 18.75%
Stuðningur við Framsóknarflokk: 40%
Stuðningur við Samfylkinguna: 25%
Stuðningur við Vinstri-Græna: 62.5%
Stuðningur við Frjálslynda flokkinn: 4%
Stuðningur við Íslandshreyfinguna: 40%

Hér kemur ekki á óvart stuðningur við VG, þeir eru sá flokkur sem mér finnst mest varið í núna. Það sem kemur á óvart er hversu mikill Framsóknarmaður ég er....40%. Það er alveg ótrúlegt, sérstaklega þegar tekið er tillit til að það hefur aldrei hvarflað að  mér að kjósa Framsóknarflokkinn. Ég veit ekki hvað það er sem gerir þetta. Ég er líka hissa á að stuðningur við Samfylkingu er mjög lítill. Ég hélt ég ætti meiri samleið með þeim. Það er helst að okkur greini á um Evrópumálin, og að einhverju leiti um sjávarútvegsmál.

Ef þið viljið líka taka prófið þá getið þið fundið það hér: http://xhvad.bifrost.is/ 


Bölvaðir vildarpunktar aldrei nóg

Áðan fékk ég bréf frá Vildarklúbbi Flugleiða þar sem Vörðufélögum voru boðnar ótrúlega ódýrar ferðir á punktum. Þar á meðal var flug til Halifax og til baka fyrir 25.000 punkta. Svo vill til að ég er Vörðufélagi og ég á 33.000 punkta inni svo þetta leit auðvitað frábærlega út. Fyrr í dag sá ég einmitt tilboð á flugi frá Vancouver til Halifax á innan við $200, sennilega nær $350 með sköttum og slíku. Ég sá því í hendi mér að ég gæti hugsanlega farið heim til Íslands í sumar fyrir kannski tuttugu þúsund krónur. En neiiiiii, auðvitað ekki. Fram var tekið að brottfararstaður yrði að vera Ísland. Það er sem sagt hægt að fljúga frá Íslandi til Halifax og til baka en ekki hina leiðina. Mér finnst þetta ógeðslega skítt. Ég er alveg jafn feit í sætinu ef ég byrja í Kanada eins og ef ég byrja á Íslandi. Hvaða andsk. máli skiptir þetta eiginlega? Mér finnst svona algjör della. En af því að ég var full vonar þá athugaði ég hvort eitthvert annað tilboð kæmi til greina en sá að ég þarf að eiga 50.000 punkta til að komast heim. Á þá ekki. Hugsið ykkur. Ég er búin að búa erlendis í átta ár, hef alltaf nema einu sinni flogið heim með Icelandair (og þegar ég gerði það ekki flaug ég með Air Canada til London og svo með Icelandair frá London til Íslands) og ég á enn ekki nema rúmlega fyrir hálfu fari. Og þó fór ég oftar heim þegar ég var í Manitoba á þolanlegum launum. Um áramót munu 6000 punktar fyrnast sem bendir til þess að ég muni aldrei geta átt fyrir ókeypis flugi . Annars var ég svo heppin að finna ódýrt flug um jólin (ja, þolanlega, allt í allt þurfti ég að borga um 50.000 til að fara heim) svo ég þarf auðvitað ekki að fara aftur. Það er bara svo leiðinlegt þegar maður fær svona tilboð og fyllist vonar, og kemst svo af því að ég á ekki sama rétt og aðrir Íslendingar, þótt ég borgi alveg jafnmikið fyrir vísakortið mitt og aðrir og borgi jafnhá þjónustugjöld fyrir Vörðuna.

12. maí

Er það rétt skilið hjá mér að bæði Alþingiskosingarnar og Eurovision séu á laugardaginn? Ef það er rétt, og ef Ísland kemst í lokakeppnina, hvernig ætlar sjónvarpið að höndla það? Koma með fyrstu tölur inn á milli laga í Eurovision?

Sama dag verða tónleikar með Taylor Hicks í Seattle. Mig langar ógurlega að fara enda finnst mér Taylor æðislegur (já já, ekkert að koma meða aulaathugasemdir á smekk minn). Ég hef varla efni á að fara enda þarf fleira að koma til en kostnaðurinn við að fara á tónleikana sjálfa, sem eru ekki nema um 30-50 dollarar, eftir því hvar maður kaupir miða. Er búin að vera á netinu að reikna út allt saman:

Leið 1: Seattleferð með rútu
Fara með rútu niðureftir: $50
Mótelherbergi: $90
Tónleikar (ódýrasti miði): $30
Samanlagt: $170 US

+Get sofið að tónleikum loknum
+get tekið síðustu rútu heim og þar af leiðandi  notið dagsins í Seattle.
-dýrt

Leið 2: Seattleferð með bílaleigubíl og keyra heim eftir tónleika
Leigjabíl og keyra heim eftir tónleika: ca $100 (með tryggingu og bensíni)
Tónleikar: $30
Samanlagt: $130 US

+Ódýrara en kostur 1
+Get farið strax klukkan níu og því randað um Seattle fyrir tónleikana
-hætta á að sofna á leiðinni heim, eða lenda í vandræðum með að fara yfir landamærin að nóttu til.

Leið 3: Fara á tónleikana í Portland í staðinn og gista hjá frænku minni
Lestarmiði: $90
Tónleikar: $40
Samanlagt: $130 US

+ókeypis gisting hjá skyldmönnum
+Get heimsótt skyldmenni og jafnvel slappað af í Oregon í nokkra daga
-Ferðin hvora leið (sem inniheldur rútu til Seattle og svo lest til Portland) tekur hátt í átta klukkutíma
-Myndi stoppa nokkra daga og þar af leiðandi ekki vinna svo mikið á meðan.
-Myndi missa af alla vega einum tíma í rökfræði og hugsanlega einum fótboltaleik.

 Leið 3: Sleppa þessu öllu og horfa bara á Eurovision og kosningasjónvarp á netinu
+Enginn kostnaður
-Ekki eins skemmtilegt.

 

Ég  veit ekki hvað ég á að gera.


Undarlegur skurður

Í gær eða fyrradag tók ég eftir því að ég er með nokkurra sentimetra langan skurð á vinstra hnéinu innanverðu. Ég hef ekki hugmynd um hvernig ég fékk hann. Mér dettur helst í hug að ég hafi rekið mig í þegar ég var að klifra síðast. Í kvöld skildi ég ekkert í að önnur buxnaskálmin virtist blaut. Ég athugaði málið og í ljós kom að þetta var blóð. Einhvern veginn hafði ég rifið ofan af skurðinum og það fór að blæða svona. Ég bara skil ekkert í þessu. Hvaðan kom þessi skurður, hvernig reif ég ofan af honum og af hverju virðist ég aldrei átta mig þegar ég ræðst á hnéið á mér? Ég held ég sé að verða klikkuð.

Þurfum að losna við Stephen Harper

Ég hef akkúrat ekkert álit á Stephen Harper og ég vona að fljótlega þurfi að boða til nýrra kosninga. Reyndar er hinn svokallaði Frjálslyndi flokkur, sem líkastir eru framsóknarmönnum (miðju flokkur sem sveiflast í allar áttir), ekki sérlega trúverðugur heldur en stóð sig þó miklu betur en íhaldsmennirnir. Þegar ég flutti fyrst út til Kanada var Jean Chretien forsætisráðherra landsins og hann var býsna slunginn stjórnmálamaður. Hann var þolanlega vinstrisinnaður, gáfaður og sanngjarn. Ég átti reyndar erfitt með að hlæja ekki að honum en hann var að hluta lamaður í andliti og þegar það bættist við franska framburðinn hans (hann er frá Quebec) hljómaði hann einfaldlega svo hrikalega hlægilega. Ég veit að þetta var ljótt af mér, en þegar spilaðar voru upptökur með honum í morgunfréttunum, og ég nývöknuð, þá veltist ég um af hlátri. Ég skammast mín hrikalega. Á hinn bóginn hafði ég mikið álit á honum sem stjórnmálamanni. Paul Martin, sem tók við af honum, var allt annar handleggur, miklu hægrisinnaðri, mun meira í rassinum á Bush, og opnaði hann leið íhaldsins að valdastóli. Nú hefur flokkurinn kosið nýjan leiðtoga, Stephan Dion, annan frans-kanadískan, og það virðist einfaldlega hafa dugað betur fyrir frjálslynda að hafa leiðtoga frá Quebec. Trudeau, t.d. er enn tilbeðinn sem guð og er þar á stalli með hokkíleikurunum Maurice Richard og Wayne Gretsky. Dion er hins vegar umdeildur og ég veit ekki hvort hann nær að sameina kjósendur nóg til þess að velta Harper-stjórninni.

 Annars myndi ég kjósa NDP (New Democratic Party) ef ég hefði kosningarétt. Þeir stjórnuðu Manitoba þegar ég bjó þar og stóðu sig geysilega vel. Þeir hafa hins vegar ekki nægilegt fylgi á landsvísu til að ógna stóru flokkunum tveimur hægra megin við þá. Það veldur því að kjósendur  NDP kjósa vanalega Frjálslynda í ríkisstjórnarkosningum því þeir vilja að atkvæði sitt gildi. Sama á við sósíalista og græningja. Það þýðir að enginn þessa flokka nær verulegu flugi í ríkisstjórnarkosningum sem er ástæða þess að stóru flokkarnir tveir ná um sjötíu prósentum, sameiginlega.

Annars eru sjtórnmálin í Kanada mjög sérkennileg því hver flokkur er eins og margir flokkar þegar á heildina er litið. Frjálslyndi flokkurinn er til dæmis miðjuflokkur í landsmálapólitíkinni og er þar mótvægi við íhaldsflokkinn. Hér á Bresku Kólumbíu, hins vegar, er sami frjálslyndi flokkur hægra megin og berst þar við demókrata sem er vinstri flokkur. Íhaldsmenn mælast ekki hérna. Í Manitoba kusu flestir frjálslynda í ríkisstjórnarkosningum en í fylkiskosningum fékk frjálslyndi flokkurinn aðeins einn mann, en valdabaráttan stóð á mili demókrata og íhaldsmanna. 

Annað óþolandi atriði við kosningar hér eru einmenningskjördæmin. Það skapar ógurlegt ójafnvægi. Í síðustu kosningum fékk NDP t.d. 17.44% atkvæða á landsvísu en aðeins 29 sæti. Bloc Québécois, hins vegar, sem eingöngu býður fram í Quebec fékk aðeins 10.46% atkvæða á landsvísu (öll í Quebec) og 51 sæti. Þeir fá sem sagt næstum tvöfalt fleiri sæti en NDP þrátt fyrir að hafa aðeins 2/3 af fylginu. Það er vegna þess að í Quebec voru þeir svo oft stærsti flokkurinn og fengu því svo marga menn. Fylgi NDP dreifist svo mikið að aðeins tuttugu og níu sinnum fengu þeir mest fylgi. Ég er mun hlynntari kosningakerfinu á Íslandi.


mbl.is „Ríkisstjórn með hjálpardekk“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfsvorkunn

Enginn virðist vorkenna mér og enginn skrifaði falleg huggunarorð á síðuna mína eftir tapið hjá Vancouver. Og ég sem er svo sorgmædd í dag. Þegar maður er fátækur námsmaður þá hefur maður eiginlega ekki efni á neinu. Ég er búin að fara einu sinni í bíó á þessu ári, aldrei á tónleika... Ég hef eiginlega ekki efni á neinu skemmtilegu, sem er synd því hér er svo margt hægt að gera. Það sem ég hef gert mér til skemmtunar síðan ég kom til baka eftir jólin er að fara í göngutúr þegar ekki rignir og horfa á Canucks spila hokkí. Nú er búið að taka þá frá mér og þá eru bara göngutúrarnir eftir. Ekki sérlega skemmtilegt líf. 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband