Draumurinn búinn

Í kvöld tapaði Vancouver 2-1 fyrir Anaheim í framlengingu númer tvö í hokkíinu. Anaheim vann þar sinn fjórða sigur í seríunni og Vancouverliðið er komið í sumarfrí. Borgin er örugglega í sorg í kvöld og það mun taka einhvern tíma að jafna sig. Vonandi fáum við loks langþráð sumar svo við getum farið á ströndina og sólað okkur í staðinn.

Á meðan mun afgangurinn af Kanada sameinast í stuðningi við Ottawa sem vonandi fer alla leið. 


Hvað með íslensk kindabrúðkaup?

Ef Íslendingar væru neyddir til að giftast kindum þegar þeir eru staðnir að svipaðri iðju og þessi súdanski bóndi með geitinni, þá væru þó  nokkur kindabrúðkaup haldin í landinu. Á mínum unglingsárum vann ég sumarvinnu í stóru fyrirtæki þar sem voru, þegar best lét, um 200 starfsmenn, þar af kannski tíu konur. Einhvern tímann fékk ég mér permanent og eins og unglingspilta er siður þá olli þessi nýja hárgreiðsla heilmiklu jarmi frá starfbræðrum mínum í yngri kantinum. Einu sinni sem oftar byrjaði einn þeirra að jarma á mig þegar við biðum eftir því að dyrnar inn í mötuneytið væru opnaðar en þá vildi ekki betur til en að akkúrat á þeirri stundu gekk fram hjá okkur þekktur kindaserðir. Hann tók þetta jarm auðvitað umsvifalaust til sín og ég hélt hann ætlaði að drepa strákgreyið. Það góða við þetta var að ég slapp við jarmið eftir þetta. 
mbl.is Geitabrúðurin öll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrumuveður

Það er þrumuveður úti núna. Mér brá svo þegar ég heyrði í fyrstu þrumunni fyrir um tíu mínútum að ég trúði því varla að þetta hefði verið þruma. Í Winnipeg fengum við iðulega þrumuveður en hér í Vancouver er það mjög sjaldgæft. Þannig að mér finnst alltaf þrumuveður tilheyra sléttunum. En þetta var þruma og ef ég hefði efast um það  lengi þá var allur vafi tekinn af fyrir um tveimur mínútum þegar húsið alveg nötraði. Í Winnipeg var alltaf skemmtilegt í þrumuveðri. Við bjuggum á elleftu hæð með útsýni yfir stóran hluta borgarinnar og þegar þrumuveðrið kom drógum við gardínurnar frá svefnherbergisglugganum, lögðumst upp í rúm og horfðum á eldingarnar lýsa upp himininn. Við vorum líka vön að telja sekúndurnar frá því sáum eldinguna og þar til við heyrðum þrumuna og reikna þannig út hversu nálægt okkur eldingarnar voru. Þetta er ekki eins skemmtilegt þegar maður býr í gömlu timburhúsi sem ekki aðeins nötrar í þrumunum, heldur sem einnig myndi brenna upp ef eldingu slægi þar niður. Fyrstu helgina mína í Kanada sá ég brunarústirnar af sumarhúsi sem hafði verið lostið eldingu árið áður.

Það er líka svolítið ógurlegt þegar maður er í bíl og þarf að keyra í gegnum eldingarnar. En einu sinni vorum við Tim að keyra heim til Winnipeg frá Lethbridge í Alberta og keyrðum á svipuðum hraða og þrumuveðrið ferðaðist yfir Manitoba. Það var nokkuð sunnan við okkur svo við þurftum aldrei að keyra í gegnum það, en í rúman klukkutíma ferðaðist veðrið með okkur svo allan tímann sáum við eldingarnar dansa í loftinu, næstum eins og norðurljós. Það var nú skemmtilegt.

 Það var annars ekki skemmtilegt hjá  mér í gær. Fyrst tapaði fótboltaliðið mitt, Presto, fyrsta leiknum í sumarkeppninni (skíttöpuðum meira að segja) og þegar ég kom heim var fjórði leikur Vancouver og Ducks hálfnaður. Staðan var 1-0 fyrir Vancouver og stuttu síðar bættu þeir við marki og komust í 2-0. En snemma í þriðja hluta skoruðu endurnar og fimm mínútum fyrir leikslok jöfnuðu þeir leikinn. Þá var farið í framlenginu og eftir tvær mínútur skoruðu endurnar enn einu sinni og staðan í seríunni er því 3-1 fyrir öndunum. Leikurinn á morgun verður í Anaheim og með sigri slá þeir Vancouver út úr keppninni. Það er því að duga eða drepast, svo maður grípi til lélegra slagorða.


1. Maí

Ég óska öllum til hamingju með daginn, þótt á Íslandi sé hann næstum búinn. Ég er búin að syngja Nallann og ætla núna á eftir að taka Maístjörnuna og Fram allir verkamenn.

Þegar ég hugsa um fyrsta maí í gegnum tíðina verð ég svolítið sorgmædd yfir því hvernig hann hefur þynnst í gegnum árin. Ég hef reyndar ekki verið heiima á þessum degi í ein átta ár en eftir því sem ég heyri frá vinum og ættingjum er lítið eftir af hátíðleikanum sem áður einkenndi þennan dag. Ég man að afi var vanur að klæða sig í sín bestu föt, með hatt á höfði og 1. maí næluna í brjóstinu, og spássera niðri í bæ, í veðri sem alltaf var gott í minningunni.

Eitthvert árið sem ég var í háskólanum fórum við nokkrar stelpur úr íslenskunni saman í skrúðgöngu. Ég man að Marín var þar og ég er nokkuð viss um að Berglind og Laufey voru þar einnig. Er það ekki Berglind? Við fundum okkur stað í göngunni fyrir aftan kvenréttindakonur og fyrir framan herstöðvarandstæðinga. Okkur leið vel þarna því þá tilheyrðum við báðum hópum. Fljótt var farið að hlaða á okkur alls konar dóti og einhver var kominn með skilti og einhver annar með tamborínu, Marín held ég. Þetta var rosalega skemmtilegt. Og þannig þrömmuðum við niður Laugarveginn og öskruðum slagorð. Ég sakna þess. Ætli ég verði ekki að syngja Nallann aftur.


Skriftarþreyta

Kann einhver góð ráð um það hvernig maður á að koma sér að verki þegar þreyta og leiðindi setjast að manni? Ég er að reyna að skrifa doktorsritgerðina mína og er núna búin að vera að skrifa í um fjóra mánuði. Stundum skrifa ég mikið og stundum skrifa ég lítið. Þessa dagana veit ég ekkert hvernig ég á að halda mér að verki. Kannski er þetta skriftarstífla og kannski er ég bara þreytt á verkinu . En ég þarf að finna leið til að koma mér að verki aftur.

Dýrin ræða pólitík

Af því að kosningar nálgast vil ég minna á þessa snilld úr smiðju Nicks Parkers. Einhver hefur talsett myndina upp á nýtt til að gera grín að Bandaríkjamönnum.

 


Mad world

Ef einhver hér hefur ekki heyrt lagið Mad World með Gary Jules þá gef ég ykkur kost á að bæta úr því. Setti lagið í tónlistarspilarann í dag svo þið þurfið ekki nema að velja það hér til hægri og hlusta. Þetta lag er annars gamalt Tears for Fears lag en gekk einhvern veginn aldrei upp í þeirri útsetningu. Útgáfa Gary Jules var flutt í kvikmyndinni Donny Darko og síðan í Xbox auglýsingu og hvort tveggja var frábært til þess að vekja athygli á laginu. 

Set hér inn textann ef einhvern langar að syngja með:

Mad World
Gary Jules (cover of Tears for Fears)

All around me are familiar faces
Worn out places, worn out faces
Bright and early for their daily races
Going nowhere, going nowhere
Their tears are filling up their glasses
No expression, no expression
Hide my head I want to drown my sorrow
No tomorrow, no tomorrow
And I find it kind of funny
I find it kind of sad
The dreams in which I'm dying
Are the best I've ever had
I find it hard to tell you
I find it hard to take
When people run in circles
It's a very, very
Mad World
Mad world


Children waiting for the day they feel good
Happy Birthday, Happy Birthday
And I feel the way that every child should
Sit and listen, sit and listen
Went to school and I was very nervous
No one knew me, no one knew me
Hello teacher tell me what's my lesson
Look right through me, look right through me
And I find it kind of funny
I find it kind of sad
The dreams in which I'm dying
Are the best I've ever had
I find it hard to tell you
I find it hard to take
When people run in circles
It's a very, very
Mad World
Mad World
Enlarging your world

Mad World. 


Útskriftarbúningurinn

Ég útskrifaðist tvisvar sinnum frá Háskóla Íslands; fyrst með BA próf og síðar með MA próf. Í bæði skiptin lét ég mig hafa það að fara að útskriftinni og í bæði skiptin var það býsna löng og leiðinleg athöfn. (Þegar ég fékk próf frá Kennó var ég ekki á landiny og þurfti því ekki að sitja undir ræðum.) Það sem mér fannst alltaf vanta var samt einhvers konar klæðnaður eða einkenni, svona eins og stúdentshúfan er, eða kyrtlarnir sem Ameríkanirnir klæðast.aboutImage Þegar ég skráði mig í framhaldsnám fannst mér það því heilmikill bónus að þegar ég loksins lyki námi og fengi gráðuna mína þá fengi ég líka að klæðast almennilegum svörtum kyrtli. Það var mér því mikið sjokk þegar ég uppgötvaði að doktorar klæðast ekki sömu fötum og þeir sem hljóta aðrar gráður. Í staðinn fær maður litskrúðugan kyrtil og húfu aftan úr miðöldum. Og til að gera vont verra þá hefur hver skóli um sig sérstaka liti og UBC þarf auðvitað að hafa einhvers konar sambland af rauðu og bláu. Alveg ótrúlega ljót samsetning. Sjáið bara myndina hér á síðunni sem tekin er af heimasíðu UBC. Þessu mun ég þurfa að klæðast. Og ég sem var farin að hlakka til að fá fína mynd af mér við útskriftina. Tek það fram að sú athöfn er ekki í nánd. Ég vonast eftir að útskrifast að ári liðnu.

Hvers vegna meiðsli eru aldrei gefin upp

Ég komst að því í dag af hverju er aldrei gefið upp hvað amar að hokkíleikmönnum þegar þeir meiðast. Hokkí er fremur hrottaleg íþrótt þar sem oft brjótast út slagsmál og þar sem það er ekki vítavert að henda mönnum til og frá og berja þá upp við vegg. Svo framarlega sem þeim er ekki brugðið og ekki er barið á hokkíkylfuna. Þar er algengt að góðir leikmenn séu teknir verr en aðrir en það sem ég frétti í dag var að slasaðir leikmenn fá enn verri meðferð. Ef til dæmis er vitað að einhverjum sé illt í náranum, má hann eiga von á því að flest höggin sem hann fær séu einmitt þar. Allt til að koma honum algjörlega úr leiknum. Það er vegna þessa sem þjálfarar og leikmenn segja aldrei opinberlega hvað er að meiddum leikmönnum. Í gær þegar Mithcell fór af velli var mikið lagt upp úr því að hann héldi áfram að spila því ekki var gott að viðurkenna fyrir öndunum að án Mithcell væri varnarlína Vancouver komin niður í fimm menn. Því þá hefði mátt búast við að þeir varnarmenn sem væru eftir fengju enn harðari meðferð. Þetta þykir manni ógeðfellt en leikmenn Vancouver verða að vera harðir af sér ef þeir vilja lifa af þessa seríu. Endurnar spila mjög líkamlegan leik og ráðast iðulega á mótherja sína. Vancouver Cancucks, aftur á móti, gera það ekki og synd er að segja að þeir verða að fara að berja til baka.

Ofbeldi í hokkíi er annars versti hnjóðurinn á þessarri annars ágætu íþrótt en því miður eru aðdáendur leiksins oft hrottalegir aular sem elska slagsmálin framar öllu öðru. Þeir vilja ekki láta breyta reglunum.

En sem sagt, nú veit ég af hverju Vigneault sagði að Mithcell þjáðist að flensulegu skautaheilkenni. Annars get ég nú lagað örlítið frásögn mína af þeirri umsögn í gær. Ég heyrði nefnilega aldrei spurninguna, bara svarið, og get því sagt að eftir að Vigneault sagði að Mitchell þyrfti nýja skauta og að þeir væru að leita að skautum handa honum sagði víst einhver blaðamanna: "Nú, er hann ekki með flensu?" Það var þá sem Alain sagði að hann hefði "flu-like skate syndrom". En sem sagt, aldrei er gefið upp hvað amar að leikmönnum svo hitt liðið ráðist ekki á viðkomandi líkamshluta í næsta leik.  


Um Evróvisjón

Ég er búin að vera í letikasti í dag og hef setið við tölvuna og horft á íslenska sjónvarpið. Núna var ég að ljúka við að horfa á Eurovision þáttinn þar sem Eiríkur og hinir sitja og gefa lögunum í undankeppninni stig. Ég hafði ekki heyrt neitt af Eurovison lögunum áður og það sem var ánægjulegast við þennan þátt var hversu margir hafa yfirgefið þessa leiðinlegu Eurovison formúlu og eru farnir að senda almennileg lög. Mér fannst til dæmis lagið frá Ungverjalandi alveg magnað og vona að  það eigi eftir að ná langt. Lagið frá Andorru var líka mjög skemmtilegt og jafnast alveg á við lögin frá Sum42 og slíkum hljómsveitum sem eru vinsælar hér vestra. Aðalatriðið er að þó þessi lög séu kannski formúlulög þegar borin saman við þá tegund tónlistar sem þau tilheyra, þá er þetta ekki Eurovison formúlan lengur. Og það er mjög mikilvægt. Ég held annars að eitt stærsta skrefið sem stigið var í  þá átt að breyta keppninni hafi einmitt veirð þegar Páll Óskar fór út og nuddaði sig fyrir framan Evrópu. Ömurlegt lag en breytti miklu fyrir þá keppendur sem komu árin þar á eftir.

Ég vildi að ég gæti séð þetta í sjónvarpinu. Ekki það að gæði Eurovision séu svo mikil heldur vegna þess að það er ákveðin menning (eða ómenning) fólgin í keppninni og mér finnst ég svolítið utanveltu að eiga þess ekki kost að horfa. Kannski verður þetta eins og heimsmeistaramótið í handbolta; hægt að  horfa á netinu ef maður borgar fyrir það. En það gekk nú ekki fyrir mig með handboltann því ég fékk skilaboð um að ég væri ekki  með réttu græjurnar. Virðist sem útsendingin hafi ekki verið gerð aðgengileg fyrir makkafólk.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband