Leita hjálpar bloggara (og lesendur blogga)

Ég er næstum því búin með pítusósuna mína. Sem er hræðilegt því ég elska pítusósu. Það er alveg ótrúlegt hvað ég borða mikið meira af grænmenti þegar ég á pítusósu, því það er svo gott að brytja niður kál, gulrætur og papriku, blanda við pítusósu og troða inn í pítubrauð.

Í hvert sinn sem ég fer til Íslands kaupi ég pítusósu og fer með mér út en þori aldrei að taka mikið með mér vegna þess að maður veit aldrei hvað tollverðirnir koma til með að taka af manni.

Hér er það sem ég þarf að vita:

1. Veit einhver um sósu sem seld er í Norður Ameríku og er svipuð íslensku pítusósunni?

2. Veit einhver um góða uppskrift að pítusósu? (ég hef eina sem er þokkaleg en ekki alveg nógu lík þessari alvöru).

Vona að þið getið hjálpað mér því ég verð að verða mér úti um meiri pítusósu.


Rauða drullan hræðir mig

Þegar ég las Draumalandið hans Andra var lýsing hans á vinnslu súráls líklega það sem sjokkeraði mig mest. Samkvæmt þeim upplýsingum sem hann gefur skapast þrjú tonn af rauðri, eitraðri drullu við hvert tonn af súráli sem vinnst úr báxíti. Þrjú tonn!!! Og hugsið ykkur, slíka verksmiðju vilja menn byggja á Húsavík.

Þótt ég hafi alltaf strítt Guðrúnu Helgu frænku minni á því að Húsavíkurfjall sé lítið og ljótt þá er Húsavík fallegur bær á fallegum stað og það er hræðilegt til þess að hugsa ef nágrennið verður allt sett rauðum drullupyttum. Samkvæmt því sem segir í bókinni myndi fyllast vörubíll af þessarri drullu á þriggja mínútna fresti, allt árið um kring.

Hér áður fyrr var mér eingöngu í mun um að fá EKKI stóriðju í Eyjafjörðinn enda fallegegastur fjarða á landinu. Mér var nokk sama um hvað aðrir vildu fá til sín. En eftir að sjá þessar upplýsingar verð ég að segja að ég má ekki hugsa til þess að frændur mínir Þingeyingar láti glepjast af slíkum óhugnaði. 

Hér að neðan má sjá myndir af rauðu drullunni og mengun á Jamaica frá þessarri gagnlegu síðu:  http://www.jbeo.com/


Þetta er ekki að virka

Getur einhver útskýrt fyrir mér nákvæmlega hvað þessi setning þýðir?  'Þetta er ekki að virka'

Ég hef séð þessa notkun í auknum mæli á vefnum síðustu mánuði en man ekki eftir þessu fyrir tveimur árum eða svo. Meining virðist vera nokkurn veginn: 'Mér líkar þetta ekki' eða 'þetta er ekki nógu gott'. Er þetta þýðing úr setningunni 'This doesn't work'? Ef svo er, fyndið að hér skuli notaður framvinduháttur en ekki einföld nútíð eins og í enskunni. En það er svo sem í stíl við aukna notkun framvinduháttar almennt.

Þið sem lesið þetta, endilega segið álit ykkar hér í 'athugasemdum' því ég hef virkilegan áhuga á því að vita nákvæmlega hvernig fólk skilur þessa setningu.


Forða skal börnum frá illum sögum

Ég mun þurfa áfallahjálp ef Harry Potter deyr. Nógu var ég nú niðurbrotin við lok síðustu bókar. Annars er Harry nú leiðinlegri en margar aðrar söguhetjur bókarinnar þannig að það er kannski skást að hann deyji. Þar að auki er  ég ekki viss um það sé gott fyrir hann að lifa ef hann fær allan kraftinn úr Voldemort til sín.

Annars er alltaf verið að hlífa börnum meira og meira fyrir óhugnaði. Lítið bara á Grimms ævintýrin sem alltaf er verið að fegra. Fyrir nokkrum árum var ég að segja bróðursyni mínum Rauðhettu og þegar kom að því að úlfurinn át ömmuna sagði sá litli: "Nei, hann át hana ekki. Hann setti hana inn í skáp." Ég var auðvitað hissa á þessu en samþykkti þessa breytingu samt sem áður. Spurði svo bróður minn síðar hvort hann hefði virkilega verið að segja syni sínum þessa vitleysu en fékk þá að vita að í nýrri myndskreyttri barnabók sem drengurinn hafði fengið var þetta svona. Í sömu seríu mátti líka finna söguna af grísunum þremur þar sem þeir tveir vitlausari sluppu yfir til þess gáfaðasta án þess að verða étnir.

Upphaflega var tilgangurinn með sögunum sá að kenna börnum um lífið. Samkvæmt grein sem ég las fyrir mörgum árum var gömul útgáfa af Rauðhettu þannig að Rauðhetta matreiddi ömmuna eftir að úlfurinn drap hana, notaði beinin sem uppkveikju, blóðið sem vín og kjötið át hún svo ásamt úlfinum. Samkvæmt greininni átti sagan að kenna ungum stúlkum um þroskaferlið þar sem þær byrja sem Rauðhetta, verða svo móðir þegar þær elda matinn og síðan eldri virðulegar konur sem fá að setjast niður og snæða góðan mat. Okkur finnst þetta auðvitað ógeðslegt og kannski var gott að sagan var milduð úr svona hrolli, en það er nú allt í lagi að úlfurinn haldi áfram að éta ömmuna og Rauðhettu, sérsaklega þar sem þær sleppa út úr maganum í lokin. Eru krakkar eitthvað síður hræddir við óþekkta hluti nú en áður, þótt búið sé að þynna út sögurnar? 


mbl.is Hvað ef Harry Potter deyr?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er hrikalega fyndið

 

Hillary þeysist um með Demókratakórinn að baki sér: http://www.michaelhodges.com/hillary.html


Ótrúleg byrjun

Chicago birnirnir skora á fyrstu mínútunni. Alveg ótrúlegt. Vinatieri sparkaði 62 yards til Hester sem hljóp með boltann 92 yards og skoraði TOUCHDOWN!!!!! Þvílík byrjun. Þetta gæti orðið skemmtilegur leikur. Hvað kallast annars yards á íslensku? Höfum við eitthvað orð yfir það? En touchdown? Er það snertimark?

Superbowl-æsingur

Superbowl keppnin hefst ekki fyrr en eftir einn og hálfan tíma en æsingurinn er orðinn mikill á Dolphin Stadium í Florida. Sumar sjónvarpsstöðvarnar eru búnar að vera að senda út fótboltaundirbúninginn í allan dag.

Ef þið vitið ekki með hvoru liðinu þið eigið að halda (og er alveg sama um að það skuli vera Vestur-Íslendingur í liði Colts) þá getið þið farið hingað til þess að velja hvaða lið hentar ykkur: http://playoffs.nfl.com/bandwagon/index.asp?entry=sbcompromogif

 


Íhaldsmenn horfa á íþróttir og óttast hryðjuverk

Þetta var niðurstaðan úr könnun sem nýlega var gerð í Kanada á háttum stuðningsmanna íhaldsflokksins. íhaldsmenn skipa núverandi  minnihlutastjórn undir forystu Stevens Harpers, forsætisráðherra, en flokkurinn á undir högg að sækja og í nýjustu skoðanakönnun er hann nokkuð neðar Frjálslynda flokknum. Þess vegna var gerð þessi könnun til þess að fá betri vitneskju um hverjir kjósa flokkinn. Í ljós kom að nokkur stór hópur er hylltur undir flokkinn en ekki tilbúinn til þess að kjósa hann nema að ákveðnum áherslum verði breytt. Það er auðvitað hópurinn sem Harper þarf að vinna yfir til sín.

Reyndar var líka gerð könnun á svokölluðum Harpers Kanadamönnum, það er, fólki sem myndi kjósa Steven Harper, sama í hvaða flokki hann var. Þar kom í ljós að þetta eru fyrst og fremst karlmenn, þeir drekka Tim Hortons kaffi, horfa yfirleitt ekki á CBC (ríkissjónvarpið), telja Don Cherry kanadíska táknmynd en ekki þjóðarskömm (trúið mér - hann er algjör trúður (sjá hér til hægri)), horfa aðallega á íþróttir í sjónvarpinu, eru skíthræddir við hryðjuverk, eru heldur ríkari en aðrir, er nokkuð sama um umhverfið, eru á móti byssuskráninu og er illa við að hommar og lesbíur fái að gifta sig.

Var nokkurn tímann gerð könnun á því fólki sem fylgdi Davíð Oddssyni í gegnum þykkt og þunnt? Ég veit að hann átti aðdáendur út fyrir Sjálfstæðisflokkinn og það hefði verið gaman að sjá hvernig fólk studdi hann og bera það saman við áhangendur Stevens Harpers. Gætum við búist við svipaðri manngerð eða var það allt annað fólk sem studdi Davíð? Eigum við annars nokkurn stjórnmálamann í dag sem hefur eins mikinn stuðning og Davíð hafði? Hvern gæti verið gaman að skoða? Annars væri líka skemmtilegt að gera svona könnun á fylgismönnum Steingríms J. og athuga hvort allt væri nákvæmlega öfugt við það sem einkennir fylgismenn Harpers. Hey, Moggamenn, hvað með svona skemmtilega könnun á fylgismönnum einstakra stjórnmálamanna???


Náttúran ber vitni um gróðurhúsaáhrifin

Ég var að enda við að horfa á viðtal við David Suzuki, einn frægasta umhverfisverndarsinna í heimi. Hann sagði að við þyrftum ekki nema að horfa á dýralífið til þess að sjá gróðurhúsaáhrifin í kringum okkur. Farfuglarnir eru farnir að koma til Kanada fyrr á vorin á hverfa suður seinna á haustin. Hann sagðist hafa spurt gamlan Cree indjána að því eftir hverju hann hefði tekið og sá gamli sagði að það væri nóg að horfa á bjórinn (beaver). Fyrr á árum var bjórinn á fullu við að safna vistum fyrir veturinn í september. Á sama tíma lægi hann nú á bakinu í sólbaði og teldi sig greinilega hafa nógan tíma áður en vetur gengi í garð. 

Ef þið viljið vita meira um David Suzuki þá er þetta besti staðurinn til þess: http://www.davidsuzuki.org/ 


Fyrir utan vítateig

Það versta við þetta var að þetta var ekki einu sinni víti. Kanadíska sjónvarpið sýndi brotið hægt og það var alveg greinilegt að brotið var fyrir utan vítateiginn. Það var sjálfsagt rétt að senda Senderos út af en Middlesborough átti samt bara að fá aukaspyrnu.

Reyndar voru Arsenalmenn heppnir stuttu síðar þegar Lehman steig út fyrir vítateig með boltann í hendinni í sókn sem leiddi til marks Henrys. Þannig að við getum kannski sagt að þetta jafnaðist út.


mbl.is Tíu leikmenn Arsenal náðu jöfnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband