Frábær árangur það sem af er

Alveg er það ótrúlega skemmtilegt að sjá hversu vel Arsenal hefur staðið sig það sem af er þessu tímabili. Ég held að það hafi ekki margir búist við því enda liðið ungt og að sumu leyti óreynt. Ég vissi að þarna var gott efni en bjóst við að það myndi taka eitt til tvö ár í viðbót þar til blómin spryngju út. En það er greinilegt að liðið er ekki eins óreynt og maður hélt og þeir hafa sýnt sannkallaða meistaratakta það sem af er vetri. Ég vona að þeir haldi áfram á sömu braut og vona að þeir fái eina eða tvær dollur. Ég meina, hendinni yrði ekki slegið á móti fleirum, en það má ekki ætlast til of mikils enda hafa þeir gert betur en flestir bjuggu við.
mbl.is Arsenal skoraði 7 mörk gegn Slavia Prag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott að heyra

Þetta eru gleðifréttir en verst að þetta er ekki afturvirkt. Ég vildi gjarnan sjá þriðjung af námslánunum mínum hverfa. Ég borgaði af þeim í fimm ár áður en ég fór aftur í skóla og það sá varla á. Það er rétt svo að ég hafi náð að borga vextina. Ef ég fæ ekki hálaunað starf að námi loknu (sem ég fæ ábyggilega ekki því hugvísindi þykja ekki þess virði að borga vel fyrir slík störf) þá verð ég örugglega að borga af þessum lánum þar til ég fer á eftirlaun.
mbl.is Námsmenn fagna frumvarpi um LÍN
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bubbles á sviði

Mikið hefur verið rætt um óperusöngvarann Paul Potts sem sigraði í bresku hæfileikakeppninni Britain's got talent. Minna hefur verið talað um annað magnað atriði úr sömu keppni, Damon Scott og Bubbles. Sting upp á að þið kíkið á þetta.

 


Undirbúningur undir veturinn

Undanfarin ár hefur októbermánuður verið óskaplega fallegur í Vancouver og vetrarveðrið, þ.e. rigningin, ekki hafist að alvöru fyrr en í nóvember. Í ár erum við ekki svo heppin. Eftir tiltölulega leiðinlegt sumar fengum við nokkuð stutt haust og októbermánuður hefur verið ógurlega blautur. Undanfarnar tvær vikur hefur t.d. næstum því rignt upp á hvern einasta dag. Og gallinn er að þetta er komið til að vera. Við megum eiga von á rigningu meira og minn þar til í apríl eða svo. Í fyrra rigndi næstum því samfellt í tvö mánuði. Við fengum einn rigningarlausan dag inn í miðju, eða svo.

Ég hef yfirleitt ekki gert margt til að undirbúa mig undir rigninguna, nema ég er alltaf með regnhlíf í töskunni og þegar regnið verður sem verst fer ég í regnkápu og regnbuxur. Skórnir eru yfirleitt bara strigaskór, nema þegar pollarnir verða of miklir, þá hef ég farið í gömlu kuldaskóna mína frá Manitoba sem hafa þykkan plastsóla sem nær uppá skóna. En þeir eru of heitir fyrir venjulegt Vancouverveður. Enda gerðir fyrir 40 stiga kulda í Manitoba.

stígvélEftir þennan blauta októbermánuð fór ég því loks út í dag og fann mér gúmmístígvél. Ég mátaði reyndar ein tískustígvél í gær en þau voru of stór og ég vil ekki þurfa að vera í tvennum pörum af ullarsokkum. Svo ég fór í sérverslun með rigningarvörur og fann þar tvenn pör af stígvélum númer fimm (sirka 35 og hálft). Önnur voru hvít með loðkraga og ég vildi þau ekki. Hin voru blá með hundum og köttum (sbr. It's raining cats and dogs 'það rignir hundum og köttum'). Ég labbaði um í þeim í svolítinn tíma til að venjast því að vera í bláum gúmmístígvélum með teiknimyndum á, og ákvað að ef ég færi meir út í rigninguna ef ég ætti góð stígvél, þá væri það þess vel virði. Þau kostuðu reyndar um 5000 krónur en það er ekki hægt að fá mikið ódýrari stígvél en það. Þetta eru hvorki svört Nokia né blá Viking, en þau ættu að duga eins vel.

Ég held ég verði bara býsna flott í stígvélunum mínum - og regnkápan mín er blá svo ég verð öll í stíl. Kannski ég sýni ykkur mynd af mér í múnderingunni einhvern daginn. 


Hlustið á mig en ekki Reuters

Það er greinilegt að Mogginn trúir fremur Reuters en mér því ég benti á það í gær að þessi morð hefðu ekki verið framin í Vancouver heldur í nágrannaborginni Surrey. Ég hef náttúrulega rétt fyrir mér þannig að ég sting upp á að Mogginn fari að bera allar Reuters fréttir undir mig. Þeir vita greinilega ekkert hvað þeir eru að segja, enda er þessi kerling sem talar inn á myndböndin þeirra ein sú al-leiðinlegasta sem fyrirfinnst og þótt breskur framburður geti verið flottur þá er hennar það ekki. Auk þess er hún sama sem mónótónísk. 

Ég endurtek: Þessi morð voru í Surrey, ekki í Vancouver. Klínið ekki á okkur annarra borga morðum. Ég vil ekki hafa það. 

Að þessari tölu lokinni ætla ég að fara og fá mér morgunverð, læra svo svoleiðis og fara svo í bíó og horfa á beina útsendingu á leik Vancouver Canucks og Columbus Blue Jackets. Það er liðið í borginni þar sem Tim, minn fyrrverandi býr, svo ég skipaði honum að fara á leikinn og garga svo niður til þjálfara Vancovuer að ég sé skotin í honum. Ég er ekki viss um að hann geri það fyrir mig en maður veit aldrei. Leikurinn er ekki sýndur í sjónvarpi en í staðinn fær maður að sjá hann á risaskjá sem er svolítið spennandi. Vonandi að þeir vinni því þeim hefur ekki gengið of vel að undanförnu. 


mbl.is Sex voru myrtir í Vancouver
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Litir haustsins

Ég fékk mér göngutúr um hverfið í dag (svona nokkurn veginn það eina sem ég gerði). Point Gray (hverfið mitt) er í haustlitunum, gulum og rauðum, og hvassviðrið fyrir helgina sveipaði götur og gangstéttir gulum ljóma laufblaðanna. Ég tók með mér myndavélina og tók myndir. Set nokkrar þeirra hér inn svo þið getið séð hvernig þetta leit út. Takið eftir að skreytingar fyrir Hrekkjavökuna eru líka svona smám saman að koma upp. Enda bara rúm vika þangaðtil. Svona er sem sagt Vancouver í dag.

Fire hydrant  Yellow tunnel   

Walking the dog  Leaves on the ground

 Signs of fall   Doorway

Changed colours  A squirrel


Þetta gerðist bara ekki í Vancouver

Þetta er nú ekki alveg rétt, nema Kópavogsbúar og Garðbæingar séu til í að vera sagðir í úthverfi Reykjavíkur. Þetta fólk fannst í Surrey sem er borg í nágrenni Vancouver - ekki úthverfi borgarinnar. Surrey er 317.4 ferkílómetrar að flatarmáli og þarna búa 394,976 manns, og borgin er þar með sú tólfta fjölmennasta í landinu (og Vancouver sú áttunda).

Við höfum alveg nóg af glæpum hér í Vancouver svo ekki sé verið að bæta á okkur glæpum þeirra yfir í Surrey.

Hér má sjá nánar um þetta.

Reyndar gerðist það líka í gær að flugvél flaug á blokk í Richmond sem er nágrannaborg okkar hér í suðri. Alþjóðlegi flugvöllur stórvancouversvæðisins er í Richmond og þessari Piper Seneca vél var hreinlega flogið inn í íbúð á sjöttu hæð. Flugmaðurinn lést og tveir íbúar íbúðarinnar voru fluttir á sjúkrahús. Enn er ekki vitað nákvæmlega hvað gerðist en vitni hafa lýst því þannig að vélinni hafi verið flogið á miklum hraða inn í íbúðahverfi og að hún hafi rétt misst af öðru fjölbýlishúsi áður en hún endaði inni í þessari íbúð. Margir sögðust hafa hugsað til ellefta september þegar þetta gerðist.


mbl.is Sex fundust látin í kanadísku húsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um dvalarleyfi og framtíðina

Í morgun fékk ég póst frá kanadíska innflytjendaeftirlitinu þar sem þeir biðja mig um að senda passann minn og tvær ljósmyndir á skrifstofu þeirra í London. Þetta er væntanlega lokaáfanginn í  því að fá varanlegt dvalarleyfi í landinu. Mér skilst reyndar að fyrst fái ég bara einhvern pappírssnepil en svo komi kortið sjálft þar sem kemur fram að ég sé 'permanent resident'. Ef ég vil get ég svo sótt um ríkisborgararétt tveimur eftir tvö ár, nema ég verði þá þegar komin heim - þá gæti ég nefnilega misst öll þessi réttindi. Því vil ég helst vera hér áfram í nokkur ár í viðbót svo ég fái kanadísk réttindi og þá get ég komið og farið eins og mér sýnist. En ég viðurkenni að mig langar alltaf af og til að flytja heim. Hins vegar er ekki besti tíminn núna. Íbúðarverð á Íslandi er geðveikt og ég vil ekki fara heim og hokra einhvers staðar. Fremur vil ég bíða aðeins og vona að markaðurinn lagist. Þess vegna er ég að hugsa um að sækja um postdoc stöður fyrir næsta ár. Postdoc stöður eru tímabundnar kennslustöður og eru hugsaðar til þess að veita nýútskrifuðum doktorum tækifæri til þess að hafa lága kennsluskyldu og nota tímann til rannsókna, svo þeir geti aukið líkurnar á góðum háskólastöðum síðar. Ég mun ekki klára nógu snemma til þess að geta sótt um SHHRC styrk (þá þarf maður að vera búinn í apríl) en ég get hugsanlega sótt um Killam postdoc stöðu. Fjórar eru auglýstar við kanadíska háskóla í ár: í Calgary, Edmononton og Dalhousie í Halifax. Calgary og Dalhousie hljómar vel en ég vil síður búa í Edmonton. Finnst það ekki spennandi borg. Calgary er alla vega nálægt frábærum skíðasvæðum og Halifax er eins og lítil Reykjavík. Þar að auki er beint flug þangað frá Íslandi sem væri magnað. En bara tilhugsunin um að fara setur hnút í magann á mér. Ég vil ekki fara frá Vancouver. Ekki strax. Þetta er svo dásamlegur staður.  

Og hvar á að setja bjórinn?

Bjór og léttvínssvæðin í matvöruverslunum í Bandaríkjunum og í Quebec (eina fylki Kanada þar sem leyfilegt er að selja bjór og léttvín í matvöruverslunum) eru vanalega stór og plássmikil þar sem verður að bjóða upp á þokkalegt úrval til þess að þetta borgi sig. Eina leiðin til þess að koma þessu fyrir í núverandi verslunum hlýtur því annað hvort að tákna minna vöruval að öðru leyti, eða að öllu er þjappað meira saman og bjórnum og léttvíninu troðið inn.

Eða er ætlunin að selja aðeins eina tegund af bjór og eina tegund af rauðvíni annars vegar og hvítvíni hins vegar? Ekki get ég séð að það sé mjög gagnlegt. Fólk á sínar uppáhaldstegundir og fer varla að skipta yfir í þær örfáu sem seldar eru í matvöruversluninni, bara til þess að sleppa við ferð í ríkið. Ég skil ekki af hverju þetta er svona mikið metnaðarmál fyrir fólk. Mér hefur aldrei þótt tiltökumál að fara í mismunandi verslanir til þess að kaupa góða vöru og get ekki séð að áfengi eigi að vera undanskilið. Þegar ég bjó í Winnipeg fórum við yfirleitt yfir ána í franska hverfið til að kaupa gott brauð og í ítalska búð fyrir besta kjötið. Fannst það vel virði. Hefði getað keypt hvort tveggja í hverfisbúðinni en valdi gæði framyfir þægindi. Ætli það verði ekki það sama með Tuborg aðdáanda sem getur bara keypt Krónubjór í matvöruversluninni.


mbl.is Í startholunum með Euroshopper-bjór
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baráttan gegn krabbanum heldur áfram

Októbermánuður er krabbameinsmánuður í Kanada og hefur margt verið gert til þess að vekja athygli á krabbameinsvörnum svo og til þess að safna peningum til krabbameinsvarna. Gert er ráð fyrir að einn þriðji allra einstaklinga í Bresku Kólumbíu munu einhvern tímann á ævinni fá krabbamein.

Ýmsir einstaklingar og samtök hafa tekið þátt í átakinu og árið 1998 hóf NHL, hokkísambandið, samvinnu við Krabbameinssamtök Kanada um sameiginlegt átak. Á þessum tæpu tíu árum sem liðin eru hafa sjö milljónir dollara (sirka 434 milljónir íslenskra króna) safnast.

Síðastliðinn laugardagur var sérstakur krabbameinsdagur í hokkíinu og var krabbameinsfélagið með sértakan bás í hokkíhöllinni til þess að kynna starfsemina, peningum var safnað og þjálfaraliðið sýndi stuðning með því að klæðast allir bleikum skyrtum og bindum (nema Rick Bowness aðstoðarþjálfari sem lét bindið nægja eins og sjá má). Þá voru leikmenn allir með bleikan límmiða á hjálminum þar sem stóð: hockey fights cancer. 

Málið er að það hefur alveg ótrúleg áhrif þegar íþróttamenn leggja málefnum lið. Sérstaklega þegar um að ræða hokkílið í Kanada. Það sem hokkíleikmenn gera hefur tvöföld, ef ekki margföld, áhrif á við það sem aðrir íþróttamenn taka sér fyrir hendur - það kemst ekkert annað sport nálægt. Þess vegna er virkilega mikilvægt að fá slíkan stuðning.

Og að þessu sinni stendur þetta liðinu nærri. Í vor greindist faðir Ryan Keslers, eins leikmanna liðsins með krabbamein (carcinoid cancer, hvað sem það nú er), og nú í sumar greindist móðir Alain Vigneault þjálfara með ristilkrabba. Bæði hafa farið í uppskurð og bæði eru á batavegi.

Jájá, ég veit ykkur er alveg sama hvað gerist í einkalífi erlendra hokkíleikmanna og þjálfara. En ég blogga fyrir mig og mér finnst það fallega gert að taka þátt í að safna peningum til góðgerðarmála. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband