Getur þessi fullyrðing verið rétt?
31.10.2007 | 00:24
![]() |
Stærsti heiti reitur í heimi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Hreinlega ekkert jafnast á við íslenska nammið
30.10.2007 | 16:57
Ég borða ekki oft nammi sem er að hluta til vegna þess að hér vestanhafs er ekkert um sérlega auðugan garð að gresja. Snickers og Mars eru náttúrulega bandarískar framleiðslur og ég er mjög hrifin af mars með dökku súkkulaði, og eins KitKat með dökku súkkulaði. En það er ekki margt annað boðlegt. Þegar ég kaupi súkkulaðistykki kaupi ég svissneska súkkulaðið Lindt því Cadbury's er ekki svo gott og Hersey's er nokkurn veginn óætt. Reyndar er hægt að kaupa nammi í Bandaríkjunum sem heitir Nut Roll og það er glettilega gott. Það eru hreinlega salthnetur með hvítri fyllingu. Því miður fæst það ekki í Kanada. Við erum hins vegar með Coffee Crisp, súkkulaðikex með kaffibragði, og það fékkst lengst af ekki syðra, en nú er víst hægt að kaupa það á sumum stuðum í Bandaríkjunum.
Reyndar er að sumu leyti gott að hér er ekki gott nammi því þá borða ég minna af því. Og mér veitir ekkert af að halda áfram í heilsufæðinu.
Nei, íslenska nammið ber af. Lindu buff er reyndar alls ekki eins gott og það var þegar það var búið til á Akureyri. Og ég segi það ekki af því að ég er Akureyringur. Nei, þeir breyttu uppskriftinni. Kaffisúkkulaðið frá Lindu er líka alltaf dásamlegt. Appelsínusuðusúkkulaði frá Monu er magnað og allt rjómasúkkulaði frá Nóa Siríusi (en þó sérstaklega rúsínusúkkulaði, sem ekki er hægt að kaupa frá neinum framleiðanda hér í Kanada). Þristur er dásamlegur, Eitt sett alltaf gott, og allur lakkrís ómissandi. Þá má ekki gleyma karmellunum íslensku sem eru betri en ég hef fengið annars staðar.
Og ég ætla ekki einu sinni að byrja á því að tala um kartöfluflögur því það er ekkert eins gott og paprikustjörnur frá Stjörnusnakki.
Je minn, ég verð að hætta að hugsa um nammi. Ég er ekki einu sinni búin að borða morgunverð.
![]() |
Íslenskt nammi vinsælt vestanhafs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Ert þú barrakúda?
30.10.2007 | 16:27
Í útvarpinu í morgun var rætt um konur sem eru barracuda (barrakúda er samheiti ýmissa ránfiska). Það eru sem sagt konur sem eltast við karlmenn á mjög agressívan hátt.
Í framhaldinu af þessari umræðu var rætt við ungan mann á þrítugs aldri og hann spurður út í sín samskipti við svokallaðar barrakúdur. Hann sagðist einu sinni hafa verið eltur inn á klósett af einni og að það hafi verið tiltölulega vandræðalegt. Sagði líka að oft kæmu þessar konur einfaldlega upp að sér og bæðu hann að taka sig heim með sér. Hann sagðist einfaldlega segja 'no way'. Þá spurði karlspyrillinn á útvarpsstöðinni hvort hann tæki konurnar heim með sér ef þær væru kynþokkafullar og aðlaðandi, og strákurinn sagði já. Það voru sem sagt bara óaðlaðandi konurnar sem hann hefði ekki áhuga á. Þá var kvenspyrlinum í útvarpinu nóg boðið og sendi frá sér viðeigandi hljóð, og karlspyrillinn sagði við hana: Hvað, ertu að segja mér að ef virkilega aðlaðandi karlmaður kæmi til þín og sýndi þér áhuga, að þú myndir ekki fara heim með honum. Og hún svaraði: Ef þetta væru orðin sem hann segði við mig: "Taktu mig með heim" þá segi ég nei. Ekki séns, alveg sama hversu aðlaðandi hann er.
Kannski er þetta munur á karlmönnum og konum, en kannski er þetta bara munurinn á þessum tveimur. Ég skal ekki segja.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Útsýnið mitt
29.10.2007 | 23:46
Ég ákvað að sýna ykkur myndir sem ég tók út um gluggana í íbúðinni minni. Sú fyrri er tekin í norður, út um stofugluggann og sýnir eitt af stóru skipunum sem liggja alltaf hér út með sundinu. Myndin er reyndar tekin með aðdráttarlinsu - sjórinn er ekki alveg svona nálægt mér, en þetta er samt hluti af útsýninu sem ég hef hér úr stofunni. Alveg dásamlegt skal ég segja ykkur.
Seinni myndin er tekin út um svefnherbergisgluggann í austurátt og sýnir hornið á Sasamat og Sjöundu götu. Hér tekur maður yfirleitt alltaf fram nálægast hvaða horni maður býr. Af því að það hjálpar engum að vita að ég bý á 4521 W 7th ave. En þið sjáið á þessari mynd hversu dásamlegir haustlitirnir eru og ég get sagt ykkur að hverfið mitt, sem er alltaf fallegt, er alveg yndislegt þessa haustdaga.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fótboltadagurinn mikli
29.10.2007 | 17:42
Í gær var sannkallaður fótboltadagur. Kvennaliðið mitt, Vancouver Presto, lék klukkan tvö í gær gegn Burnaby Inter FC. Við unnum þetta lið í fyrsta leik okkar í haust en síðan höfðu þær ekki tapað leik. Við höfðum reyndar ekki heldur tapað leik en við höfðum bara spilað þrjá leiki en þær fimm. Þær voru því ofar okkur í deildinni en með tvo leiki til góða. Einnig jafnar okkur voru tíkurnar í North Shore Saints en þær eiga einn leik á okkur. Því miður töpuðum við 0-1 gegn Burnaby eftir ákaflega jafnan leik þar sem við áttum þó töluvert fleiri færi. Það er að hluta til mér að kenna að boltinn fór ekki inn. Ég spilað fremur góðan leik, var alltaf á réttum stað, náði nokkrum sinnum að koma mér í gott skotfæri en skaut alltaf hægra megin við markið. Veit ekki alveg hvað var í gangi hjá mér því ég er yfirleitt ekki svona rangeyg. Og það var slæmt að hitta ekki rammann oftar því mér fannst ég að öðru leyti spila mun betur en áður - var miklu agressívari og hafði betra auga fyrir leiknum. Við vorum allar mjög svekktar að leik loknum því okkur fannst við hafa átt að taka þetta. Nú erum við í þriðja sæti en getum komist aftur upp í fyrsta sæti með því að vinna þá leiki sem við eigum til góða. Og við eigum pottþétt að geta klárað veturinn í einu af fyrstu þremur sætunum. Við munum ekki spila við Burnaby aftur en eigum eftir að leika tvisvar við Noth Shore sem er höfuðandstæðingur okkar. Ég fór annars í kaffi um daginn með fyrrum þjálfara þeirra og sagði honum m.a. að við þyldum stelpurnar ekki. Hann var fremur hissa og lofaði mér því að hann hefði ekki kennt þeim að brjóta á okkur og vera tíkur.
En fótboltinn var ekki búinn í gær. Þjálfarinn minn spilar í co-ed liði (blandað karlmönnum og konum) og það vantaði stelpur í gær. Ég bauðst til að spila með þeim (flestar stelpurnar í liðinu eru einmitt úr Presto) þótt ég væri auðvitað dauðþreytt eftir að hafa þegar spilað sirka 90 mínútur. Sá leikur var haldinn í Burnaby 8Rinks sem er risastór hokkíhöll með fjölmörgum hokkíhringjum og einum gervigrasvelli. Lið þjálfarans kallast Nuevos Amigos sem er við hæfi því næstum því allir eru af portúgölskum ættum. Við vorum fjögur sem vorum það ekki. En þvílíka fallega liðið. Bróðir þjálfarans, Phil, er t.d. eins og grískur guð og til að gera þetta enn skemmtilegra þá komu tveir vinir hans að horfa og þeir voru alveg jafnfallegir. En ég var þarna til að spila fótbolta en ekki til að horfa á stráka og fótboltinn gekk betur enn fyrr um daginn. Við unnum 8-2 og hefðum getað unnið stærra en ákváðum að reyni ekki eins mikið í seinni hálfleik eins og þeim fyrri því við vorum að rúlla liðinu upp. Og það er alltaf svolítið vandræðalegt. En það voru greinilega töluverðir hæfileikar í liðinu. Wilhelm er frá Hollandi og er glettilega góður með boltann en hefur svolítið gaman af að sýna sig. Hann er eiginmaður einnar stelpunnar í Presto svo ég hafði hitt hann nokkrum sinnum áður. Hafði líka hitt Phil áður en hann er líka mjög góður. Hann kom og spilaði með okkur í leiknum gegn eiginmönnum í vor (þótt hann sé reyndar ekki eiginmaður heldur bara bróðir þjálfarans). Aðra hafði ég ekki hitt. Ég stóð mig hins vegar býsna vel og skoraði tvö mörk en í bæði skiptin var um að ræða frábærar sendingar, annars vegar frá Phil og hins vegar frá strák sem ég vissi aldrei hvað hét. í bæði skiptin sendu þeir boltann frábærlega fyrir markið og ég þurfti bara að vera á réttum stað og þrusa inn.
Canucks gekk ekki eins vel. Þeir töpuðu 2-3 fyrir Detroit Red Wingers (í annað skiptið á fjórum dögum) og hafa nú unnið aðeins einn af fimm heimaleikjum (en unnið fjóra af sex útileikjum - skrítið). Ég vona að þeir standi sig betur á fimmtudaginn en þá mun ég fara á leik. Það var reyndar fúlt að á síðustu mínútu leiksins skoruðu Canucks mark en það var flautað af. Leikmenn voru reiðir og héldu því fram að þetta væri löglegt mark en Vigneault sagðist sammála dómnum. Að Pyatt hefði ekki bara ýtt pökknum inn heldur líka markmanninum og það er ólöglegt. Hann benti hins vegar á að Red Wings hefðu skorað akkúrat þannig mark á Vancouver í síðasta leik (sem einnig fór 2-3) en þá hefði það ekki verið flautað af.
Í dag er ég svolítið þreytt í vöðvunum eftir að hafa spilað tvo fótboltaleiki en ég ætla nú samt að fara og klifra í dag og á fótboltaæfingu í kvöld. Það sem mig vantar er meira af íþróttum á miðvikudegi eða fimmtudegi því það hrúgast of mikið á sunnudag og mánudag. Vildi að ég gæti spilað fótbolta á fimmtudagskvöldum. Í staðinn verð ég bara að vera duglegri að hlaupa.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Held að United aðdáandi skrifi fréttina
27.10.2007 | 17:21
![]() |
Chelsea lagði City, 6:0 - United í toppsætið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Hitt og þetta
27.10.2007 | 00:07
Ég tók þá ákvörðun í dag að sækja ekki um postdoc stöðu í Calgary. Ég tók þessa ákvörðun fyrst og fremst vegna þess að mér finnst ég ekki hafa nógu góða hugmynd um hugsanlegt verkefni og þótt ég hafi haft nokkrar hugmyndir þá heillaði engin þeirra mig nógu mikið. Og ég vil síður leggja í tveggja ára rannsóknir á efni sem ég er ekki endilega svo spennt fyrir. Eftir mánuð rennur út umsóknarfrestur um postdoc í Dalhousie háskólanum í Halifax og þar sem mér finnst Halifax skemmtileg borg og gæti vel hugsað mér að fara á austurströndina, þá getur vel verið að ég sæki um þar, ef ég hef fengið góða hugmynd um verkefni áður en sá frestur rennur út. Gallinn í Dalhousie er hins vegar sá að þeir hafa bara málvísindaprógram en ekki málvísindadeild, og flestir kennararnir eru í frönskudeildinni. Ég held ég fengi því mun minni stuðning þar en í Calgary. Mánuði síðar rennur út frestur við Alberta háskóla í Edmonton en ég er nokkuð viss um að ég muni ekki sækja um þann styrk. Mig langar alls ekki að búa í Edmonton og deildin þar er alls ekki spennandi þar sem þeir eru ekki beinlínis í teoretískum málvísinum. Ég ætla því að láta þetta liggja á milli hluta um stund og sjá bara hvaða möguleikar bjóðast þegar nær dregur útskrift. M.a. hef ég áhuga á að athuga hvort ég gæti fengið vinnu hjá Vanoc (Vancouver Olympic Committee) og vinna hér fram að ólympíuleikum og njóta lífsins um stund.
Fór á fund með Lisu, öðrum merkingarfræðikennaranum mínum, í dag og hitti svo Andreu yfir kaffibolla. Rakst á Birnu á leiðinni á kaffihúsið og hún slóst í hópinn eftir að hún var búin að fá sér sushi með vinkonu sinni. Þetta var fínt. Við ættum auðvitað að hittast oftar en ég fer bara ekki svo oft upp í skóla.
Núna er ég að horfa á Vancouver leika á móti Washington Capitols (það er fyrsta hlé núna). Staðan er 2-1 fyrir okkur og vonandi að leikurinn vinnist eftir tvo tapleiki í röð. Ég keypti annars miða á leik í næstu viku. Það er svolítið brjálæðislegt af því að ég átti miða á leik í vikunni þar á eftir, en þeir voru að bjóða miða á hálfvirði og ég stóðs ekki mátið. Ég mun því sjá Canucks spila á móti Nashville 1. nóvember og svo á móti Colarado 9. nóvember. Gaman gaman.
Á morgun ætlar Íslendingagengið á snjósýninguna í BC place. Þar er sala á skíðadóti og kynningar á öllum fjöllunum. Ég kaupi mér hugsanlega Edge Card, sem er afsláttarkort í Whistler. Sé til.
Verð að hætta núna, leikurinn er hafinn aftur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fyrrum glæpamaður verður doktor
26.10.2007 | 16:51
Í fyrradag lýsti ég undirheimum Stórvancouversvæðisins sem ég hef þó ekki orðið svo vör við sjálf. Það var svipað þegar ég bjó í Winnipeg. Ég vissi yfirleitt ekkert um það ljóta sem gerðist í borginni, og þó eru framin fleiri morð í Winnipeg en nokkurri annarri borg í Kanada, að Edmonton undanskilinni. Það var ekki fyrr en ég flutti burt úr borginni sem ég heyrði minnst á Winnipeg mafíuna.
Svo var mál með vexti að minn fyrrverandi, Tim, var þá prófessor í heimspeki við Manitobaháskóla (nú við Columbusháskóla í Ohio). Einn nemenda hans, ungur myndarlegur maður, leitaði mikið til hans vegna þess að hann átti við þunglyndi að stríða og Tim hefur alltaf verið góður að tala við fólk í erfiðleikum. Árið eftir að við hættum saman og ég flutti til Vancouver sagði Tim mér að þessi strákur hefði fengið að gista hjá honum í viku. Ástæðan var sú að hann var flæktur í Winnipegmafíuna (alvörumafíuna, ekki listamafíuna) og hafði frétt að það ætti að drepa sig. Glæpamennirnir vissu hvar hann bjó hjá mömmu sinni og hann gat ekki farið þangað. Ég varð dauðskelkuð enda ekkert ólíklegt að þessir menn myndu elta hann úr skólanum og heim til Tims. En það gerðist ekki og strákurinn kom sér í burtu í einhvern tíma. Hann náði hins vegar að klára nám og fékk sitt masterspróf og ótrúlegt en satt, komst inn í Brown háskólann á Rhode Island sem er virkilega góður háskóli.
Um daginn fékk Tim símtal frá honum þar sem strákurinn sagði honum enn meira um glæpastarfsemina í Winnipeg, og þar kom í ljós að hann hafði verið miklu flæktari í glæpastarfsemi en Tim hafði nokkru sinni gert sér grein fyrir. En með dugnaði náði hann að vinna sig út úr þessu, flutti í burtu og er nú í doktorsnámi. Það er sem sagt hægt að rífa sig upp ef viljinn - og hugsanlega utanaðkomandi hjálp - er fyrir hendi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um glæpaheima
25.10.2007 | 16:31
Eins og margir hafa kannski séð í fréttum um daginn þá fundust lík sex karlmanna í íbúðarblokk í Surrey (ekki Vancouver) fyrir skemmstu. Lögreglan varðist fyrst allra frétta en nú hefur komið í ljós að fjórir karlmannanna voru tengdir glæpastarsemi og tveir voru óvart á svæðinu. Annar hinna saklausu var viðgerðarmaður sem var þarna til að gera við gas-arinn, og hinn, rúmlega tvítugur maður, bjó í sömu blokk og hafði ætlað út í körfubolta en endaði einhvern veginn í dauðaíbúðinni. Hinir fjórir voru allir góðkunningjar lögreglunnar og hafa sérstaklega komið að krakk-kókaín málum.
Þessi óhugnarlegu morð hafa vakið mikla athygli á glæpastarfsemi á svæðinu, og Vancouver Province, dagblaðið sem ég fór nýlega að kaupa, hefur verið með rannsóknargreinar á hverjum degi þar sem undirheimar stórborgarsvæðisins eru skoðaðir. Þar sér maður að til er heimur sem fólk eins og ég hreinlega þekkir ekki. Þetta er heimur eiturlyfja, vændis og glæpastarfsemi. Hér eru stundaðir undirheimaklúbbar þar sem allt er vaðandi í eiturlyfjum, 'slömmlávarðar' leigja út gömul hálffallin hótelherbergi til hinna fátæku þar sem allt er vaðandi í skordýrum og ódaunninn er svo sterkur að lyktin næst ekki úr fötunum í marga daga. Fjöldi glæpagengja er yfir 100 og þeir hafa verið að plamma hver annan niður undanfarið. Og dömur veita þjónustu sína hverjum þeim sem getur borgað.
Það eina sem ég hef komist nálægt því að sjá, utan við allt heimilislausa fólkið sem betlar á götunum, er ástandið í lestinni á næturnar. Ég þarf ekki oft að taka lestina eftir miðnætti, sem betur fer, og þegar ég tek hana kem ég inn eða fer út á stóru stöðvunum þar sem skjól er í fjöldanum. Það er verra á minni stöðvum sem hafa séð margar árásirnar á undanförnum mánuðum. 56 ára gömul kona er nýkomin úr dái eftir að hafa verið fórnarlamb fólskulegrar árásar í vor. Ungur drengur var skotinn til bana og fjöldi annarra var rændur eða laminn á leið í lestina eða úr henni.
Eins og ég segi þá sé ég lítið af þessu enda sjaldan á ferðinni eftir miðnætti, og betlararnir á götunum eru þeir einu sem ég verð vör við. Ég bý líka í góðu hverfi þar sem fólk er tiltölulega vel sett og það er eins og við séum vernduð frá umhverfinu. Maður les um ástandið en verður annars lítið var við það. Og mér finnst ég yfirleitt nokkuð örugg, jafnvel á kvöldin. En ég fer helst ekki í austurhluta miðbæjarins ef ég kemst hjá því, og alls ekki eftir myrkur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Og dagarnir líða áfram
24.10.2007 | 22:21
Dagarnir undanfarið hafa verið eitthvað svo rólegir og óspennandi að ég hef eiginlega ekki haft frá neinu að segja. Meira að segja veðrið hefur verið þolanlegt síðan ég keypti fínu stígvélin mín - líklega af því að ég hlakkaði til að geta farið út án þess að verða eins og hundur á sundi. En jájá, síðan þá hefur sólin bara skinið og á víst að halda því áfram.
Átti reyndar voðalega notalegt kvöld hjá Alex og Línu á sunnudagskvöldið, þangað sem einnig komu Hallur og Andrea með stelpurnar sínar, Fönn, Dögun og Birnu. Ókei, Birna er ekki alveg stelpan þeirra en ég held þau hafi kannski ættleidd hana.
Ég er að reyna að vinna. Sest niður og skrifa aðeins í ritgerðinni minni, en tek svo pásu frá því og reyni að hugsa um mögulegt postdoc verkefni. Ef ég ætla að sækja um postdoc stöðu í Calgary verð ég nefnilega að koma með einhverja brilljant hugmynd á innan við viku. Og allar mínar hugmyndir undanfarið hafa verið um ritgerðina en ekki hvað tekur við að henni skrifaðri. Ef ég klikka á þessu mun ég sækja um í Dalhousie í Halifax en þar er umsóknarfrestur ekki fyrr en í desember. Reyndar langar mig að sumu leyti meira til Dalhousie hvort eð er. Calgary hefur reyndar frábær skíðasvæði en Halifax hefur beint flug til Íslands og þar að auki væri að sumu leyti spennandi að skella sér á austurströndina. Mér leið líka vel í Halifax þegar ég fór þangað fyrir nokkrum árum.
Annars er allt við það sama. Íslenskukennslan gekk ágætlega í gær en við enduðum á því að tala meira um íslenska menningu (og ómenningu) en tungumálið. Stundum fer það svo.
Og Vancouver Canucks gengur alls ekki nógu vel í hokkíinu. Þeir eru búnir að tapa fjórum leikjum og vinna fjóra og það er ekki nógu gott. Þeir eru í neðri helming vesturdeildarinnar og þurfa greinilega að bæta sig. Og það er ekki líklegt að það gerist í kvöld því þeir eiga að spila við Detroit Red Wingers með hinn ógurlega Henrik Zettenberg sem er á algjöru flugi þessa dagana. Þar að auki hefur Vancouver aldrei gengið vel í Detroit. En Sami Salo kemur aftur inn í liðið eftir að hafa brotið úlnlið og það er vonandi að hann er það sem þeir þurfa til að smella saman. Mér veitir nefnilega ekkert af fleiri ástæðum til að gleðjast - það er svo mikill skortur á þeim.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)