Ævintýri næturinnar

Eina mínútu eftir miðnætti í gær labbaði ég út í myrkrið til þess að sækja nýjustu Harry Potter bókina. Sem betur fer var hætt að rigna en það hefði þó ekki skipt miklu máli því ég var í regnkápu og með regnhlíf ef ske kynni að úrhellið hæfist á ný.

Sex mínútur yfir tólf var  ég komin í langa röð í bókabúðinni en af því að flestir höfðu keypt bókina í forsölu alveg skotgekk þetta og tólf mínútum yfir tólf var ég því komin með bókina í hendur. Það var svo sem ekki allt. Í pokanum sem ég fékk var líka örk með límmiðum af öllum bókarkápunum hingað til, pappír til að setja á hurðarhúninn á herbergi manns með colloportis galdri (this spell will magically lock a door, precenting it from being opened), límmiða með eldingarörinu hans Potters (sem maður getur væntanlega sett á sjálfan sig) svo og bókarmerki. Einnig vær hægt að grípa með sér veggspjald en þar sem ég var nokkuð viss um að ég myndi ekki setja Harry Potter veggspjald upp heima hjá mér þá lét ég það vera.

Um hálfeitt leytið skreið ég undir sæng með bókina í hönd (eftir að hafa drepið tvær moskítur) og hóf lesturinn. Á blaðsíðu númer tvö voru augun farin að límast saman en ég var svo þrá að ég komst í gegnum fyrsta kaflann áður en ég lokaði bókinni. Ég held ég hafi ekki náð að hugsa heila hugsun til enda áður en ég var sofnuð.

Vaknaði reyndar um klukkutíma seinna við það að moskíta var að fljúga við höfuðið á mér og íhugaði þá að halda áfram að lesa en ákvað að ég myndi varla komast niður eina blaðsíðu svo ég hallaði mér bara aftur á koddann.

Nú er ég rétt skriðin á fætur, ætla að næra mig og fara svo á vit galdramanna og norna. 


mbl.is Harry Potter rokselst um allan heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er ekki í röð

Eftir tvo tíma hefst sala á Harry Potter hér í Vancouver og ég sit fyrir framan tölvuna en ekki neins staðar í biðröð. Enda er mígandi rigning og það getur varla verið gaman fyrir neinn að hanga fyrir utan bókabúð í þessu úrhelli. Það er annars athyglisvert að á Íslandi hófst sala bókarinnar klukkan ellefu, á miðnætti þeirra í London, en alls staðar annars staðar er haldið í það að hefja ekki sölu fyrr en á miðnætti. Við hefðum í raun getað farið að selja bókina fyrir sex klukkutímum en kannski hefur sölumönnum ekki þótt það eins spennandi eins og að halda sig við miðnætursöluna. Það var reyndar búið að skipuleggja heilmikið Harry Potter partý fyrir börnin í VanDusen garðinum í Vancouver og margar bókabúðir voru einnig með húllumhæ á dagskrá.

Ég hugsa nú að ég lalli út í bókabúð á miðnætti enda tekur það mig ekki nema um sjö mínútur eða svo að ganga þangað. Efast samt um að ég lesi mikið í nótt. Einu sinni gat ég lesið á kvöldin (og næturnar) en það virðist vera einn af þeim hæfileikum sem ég hef misst með árunum. Nú les ég þrjár blaðsíður og sofna svo. Hef það frá mömmu - hún getur aldrei lesið í rúminu.

Var annars að velta því fyrir mér hversu langur tími líður á milli þess að þeir sem mættu í raðir snemma í dag, eða jafnvel í gær, fengu bókina í hendur og hinir sem mættu bara á svæðið á miðnætti (eða klukkan ellefu heima á Íslandi). Fimmtán mínútur? Hálftími? 


mbl.is Biðin á enda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engillinn er hræddur

Í dag hringdi Alison í kjallaranum í mig og spurði hvortað væri nokkur leið að ég gæti tekið mynd af sjali sem hún var að klára. Hún er mikil hannyrðakona og alltaf prjónandi. Hún var búin að hengja sjalið upp á vegg til að jafna það og vildi eiga mynd af því. Svo ég fór niður og tók myndir af sjalinu.

AngelAngel, kötturinn hennar Alison horfði á mig sínum stóru augum og var greinilega skíthrædd við þessa manneskju sem var allt í einu komin inn í íbúðina hennar. Hún sættir sig við mig úti í garði en er greinilega ekki hrifin af gestum inni hjá sér. Hún skreið undir rúm og ég gat ekki stillt mig um að leggjast á gólfið og taka mynd af henni þar sem hún starði á mig í skelfingu. Þarna undir var niðamyrkur en ég sá tvö stór ljós og vissi því hvert ég ætti að beina myndavélinni. 


Kotasæla og Cantaloupe

Ef ykkur finnst kotasæla góð og ef ykkur finnst melóna góð, þá er fátt betra en að nota kotasælu sem ídýfu fyrir melónuna. Þetta á ekki svo vel við vatnsmelónu—aðallega hunangsmelónur og cantaloupe (þessar appelsínugulu). Þegar ég bjó í Winnipeg borðuðum við Tim, minn þáverandi, oft slíkt góðgæti í morgunverð (og ofnristað brauð með smjöri). Þá var melónunni skipt í helminga, ruslinu hent út og melónan síðan skorin í bita innan í hýðinu þannig að allt kjötið var enn á sínum stað en var nú laust svo hægt var að borða það með gaffli. Kotasælan var síðan sett innan í miðjuna og þá fékk maður alltaf nóg af kotasælu með hverjum bita. Súper alveg. Og frábær morgunverður (eða síðdegissnakk) á heitum sumardegi.

Annars eru vatnsmelónur frábærar þessa dagana. Sérstaklega þessar minni sem ég veit ekki hvað kallast. Ég er búin að stúta nokkrum svoleiðis upp á síðkastið. 


Hið fínasta kvöld í Vancouver

Kvöldið í kvöld var virkilega skemmtilegt. Ég var mætt heima hjá Marion og Ryan klukkan fimm, tilbúin að spila ultimate. Við spiluðum einhvers staðar í austurbænum en ég veit nú ekki nákvæmlega hvar. Fer ekki oft á þessar slóðir. 

Við unnum fyrsta leikinn með eins marks mun en við höfðum verið virkilega næs við hitt liðið. Reglan er að það mega aðeins spila fjórir leikmenn af sama kyni á hverjum tíma, fjórir strákar og þrjár stelpur, eða fjórar stelpur og þrír strákar. Hitt liðið hafði aðeins tvær stelpur og gat því bara leikið með sex leikmenn. Til þess að leikurinn yrði skemmtilegri samþykktum við því að spila líka bara með sex leikmenn. Við erum svo næs.

Seinni leikurinn var ekki eins skemmtilegur. Að hluta til var það vegna þess að hitt liðið var mun betra en við, en aðallega var það vegna þess að þau voru ekki mjög skemmtileg. Ekki er leikið með neinn dómara og því er það undir hverjum og einum að láta vita ef hann/hún telur brotið á sér. Þau sögðu að leikmaður hafi verið innan marksvæðisins þegar hún var það ekki, ein stelpan ætlaði að komast upp með að hafa farið útaf vellinum með diskinn, en sem betur fer var það stoppað. Þetta var ekkert alvarlegt en yfirleitt er fólk svo gott og skemmtilegt og allir líta á þetta sem leik, enda erum við í sjöundu deild eða eitthvað svoleiðis. En við vorum í of góðu skapi til að pirra okkur of mikið á þessu.

Eftir leikinn var ákveðið að fara saman út að borða, þótt klukkan væri að nálgast tíu. Ástæðan var sú að Mo hinn austurríski er að flytja heim til sín og mun því ekki spila meira með okkur. Það verður erfitt að fylla skarð hans því ég held svei mér þá að Mo geti flogið. Alla vega sér maður hann iðulega svífa í loftinu.

Við fórum á breskan pöbb þar sem hægt er að fá svona týpískan pöbbamat. Lengst af talaði ég við Katie, Martin Oberg, Erin og Brad því við sátum á öðrum endanum og þar komst ég meðal annars að því að launin fyrir að kenna ensku sem erlent tungumál eru algjörlega skítsamleg. Ekki það að ég geti farið út í það, en það var samt athyglisvert að vita þetta. Katie hefur verið að kenna ensku en ætlar í haust að hætta því og fara í stað þess að kenna í grunnskóla.

Chris og Toby fóru fyrstir heim og síðan Erin og Brad svo hópurinn þrengdist og við mynduðum einn stóran spjallhóp. Þar komst ég að því að  kvikmyndagerðamaðurinn Jason er mikill aðdáandi Sigurrósar og á alla diskana með þeim. Er búinn að fara og sjá þá þrisvar sinnum á tónleikum. Honum fannst það spennandi þegar ég sagði honum að ég hefði séð þá áður en þeir urðu virkilega frægir. 

Nú verð ég að fara að sofa. Ætla í verslunarleiðangur með Rosemary í fyrramálið, svo ætlum við Marion að klifra og líklega munum við Martin líka þurfa að funda vegna tímaritsins. Við þurfum helst að koma því í prentun á mánudaginn. 


Súkkulaði hefur tilhneigingu til að hverfa

Þegar ég var fjórtán ára fórum við fjórar vinkonurnar í Atlavík um verslunarmannahelgi. Ringo Starr kom á svæðið og átta sterkir hestar hefði þurft til að halda mér í burtu (eða að mamma og pabbi hefðu sagt nei). Þetta var alveg ótrúleg helgi, margt gert og margt sagt.

Ég og Sigga fengum far hjá foreldrum hennar sem voru á Egilsstöðum á meðan við vorum í Atlavík, en Elva og Mæja tóku rútuna frá Akureyri. Við Sigga komum um miðjan dag á fimmtudegi, settum upp okkar tjald og höfðum það gott það sem eftir lifði kvölds. Elva og Mæja komu hins vegar einhvern tímann þennan eina klukkutíma sem myrkur er á Íslandi fyrstu helgina í ágúst. Þær þurftu því að þreifa sig áfram í myrkrinu og fundu loksins fremur slétt svæði þar sem þær tjölduðu í myrkrinu. Snemma morguns vöknuðu þær við að óvenju margir virtust vera að  labba fram hjá tjaldinu þeirra og sumir hverju hálfduttu yfir þær. Þegar þær loksins skriðu út kom í ljós að þær höfðu tjaldað á tiltölulega þröngum göngustíg sem tengdi tjaldstæðin. Þær urðu að færa tjaldið sem Mæja kallaði flottasta tjaldið á Laugum (nema hvað við vorum í Atlavík). 

Einn daginn þegar við Sigga komum að okkar tjaldi var búið að rífa niður tjaldið við hliðina á okkur og leggja það yfir okkar tjald. Við tókum tjaldið niður og settum það á sinn stað og fórum svo aftur á rápið. Síðar sama dag rákumst við á strák sem sagði við okkur:
-Heyrðu, var búið að leggja tjald yfir ykkar tjald fyrr í dag?
-Já, við tókum það niður.
-Ég vil bara fyrirgefa þetta. Þetta er nefnilega strákatjald og það vildi endilega komast uppá stelputjald!!!

Annars var það ekki þetta sem ég vildi sagt hafa, þótt nú nálgist verslunarmannahelgi og ég gæti haldið uppá að 23 ár eru síðan ég sá  Ringo Starr í Atlavík. Nei, ástæðan fyrir þessari færslu er gullkorn sem kom út úr Mæju einhvern tímann yfir helgina. Við sátum allar inni í tjaldinu okkar Siggu og borðuðum kvöldmat. Mæja hafði keypt súkkulaðistykki og var að maula á því sem eftirrétti. Ég fékk skyndilega mikla súkkulaðiþörf og spurði Mæju hvort ég mætti fá bita. Horfir þá ekki Mæja lengi vel á súkkulaðið sitt og segir að lokum: En, en, það minnkar alltaf!!!

Því miður er þetta vandinn með súkkulaði (og reyndar flest), það minnkar sem af er tekið. Ég fékk engan súkkulaðibitann.

Ástæða þess að ég fór að hugsa um þetta núna er sú að það er liðin vika síðan Rosemary kom frá Íslandi með fullan poka af nammi frá mömmu og pabba. Ég kaupi ekki oft nammi en ef ég á það þá endist það ekki lengi. Það minnkar því það sem af er tekið.


Frábærar flugfréttir

Var að frétt að Icelandair væri búinn að gera samning um að fljúga 5 sinnum í viku til Toronto frá og með næsta vori. Þetta mun víst verða heilsársflug, ekki bara eitthvað sem takmarkast við sumartímann.  Þeir mun halda áfram að fljúga til Halifax, og jafnvel oftar en nú er og þeir eru víst einnig að athuga með flug til Winnipeg, Montreal, Ottawa og St. John's. Ég vildi reyndar sjá Vancouver á dagskrá eða jafnvel Calgary, en það munar samt ótrúlega miklu ef þeir fara að fljúga til Toronto. Þá þarf maður ekki lengur að fljúga í gegnum Bandaríkin til að komast heim, og það er yfirleitt hægt að fá flug til Toronto á þokkalegu verði. Halifax hefur aldrei nýst mér sérlega vel því það kostar of mikið að fljúga þangað frá Vancouver.

Ég vona að þeir nái að halda verði niðri því þá geta Íslendingar almennilega farið að kynnast þessu stórkostlega landi, og Kanadamenn geta farið að fljúga til Íslands í auknum mæli. Þótt ég sé ekki alltaf hrifin af öllu sem Icelandair viðkemur þá standa þeir sig nú yfirleitt frekar vel og bara það að geta sloppið við bandaríska tollinn og innflytjendaeftirlitið er stórkostlegt.

Nú getið þið öll komið í heimsókn til mín. Ég er með svefnsófa inni í stofu.   


Um ábyrgðarleysi fólks

Það er fátt sem pirrar mig eins mikið og fólk sem sinnir ekki því sem það á að gera. Ég er núna að ritstýra málvísindatímariti. Fyrir rúmum mánuði rann út fresturinn til þess að birta grein í tímaritinu, og þar með fá að flytja fyrirlestur á ráðstefnu um tungumál af Salish ætt sem haldin verður í Kelowna eftir tvær vikur. Við Martin Oberg, sem er meðritstjóri  minn, settum allt á fullt, lásum allt yfir, gerðum athugasemdir um innihalda og útlit og sendum til baka til höfunda. Þeir fengu um tíu daga til að laga þetta og senda til okkar aftur. Flestir brugðust skjótt við en við þurftum að ýta á eftir nokkrum. Síðan tók við önnur umferð af yfirferð og við sendum aftur athugasemdir til þeirra sem á þurfti að halda. Lokaatriðið er svo að láta alla vita blaðsíðunúmerin sín, sem þeir síðan bæta við á síðurnar og senda til baka til okkar. Nema hvað, einn höfunda hefur ekki enn sent inn greinina sína frá fyrstu umferð, sem lengi vel þýddi að við gátum ekki sett blaðsíðunúmer á neinn sem kemur á eftir honum í stafrófinu. Martin er búinn að senda honum nokkur bréf en fær ekkert svar. Og þetta er einn af stóru körlunum í rannsóknum á Salish tungumálum. Kannski er það þess vegna sem hann heldur að hann geti gert hvað sem er. Í dag færðum við hann aftur fyrir stafrófsröðina svo við gætum haft allt annað tilbúið, en hvað gerist næst veit ég ekki. Ég er búin að leita ráða hjá kennurunum sem eiga að vera til ráðgjafar um tímaritið og bíð núna eftir þeirra áliti. Við þurfum að setja þetta í prentun snemma í næstu viku (helst á morgun) og ef við heyrum ekki frá honum fljótlega verðum við annað hvort að birta greinina hans með öllum villunum, eða þá að við getum ekki haft greinina með. Og ég er viss um að það myndi skapa vandamál á mörgum sviðum.

Ég skil ekki í svona fólki. Hann getur ekki afsakað sig á því að hann sé einhvers staðar í sumarfríi og hafi ekki tölvupóstsaðgang. Þú sendir ekki grein inn í tímarit og ferð svo í burtu. Sérstaklega þar sem hann veit að tímaritið verður að vera tilbúið þegar ráðstefnan hefst. Þetta er bara dónaskapur og mér er skapi næst að henda greininni hans út.

En vitiði, þetta er alltaf svona. Það er alltaf fólk sem tekur ekki ábyrgð á neinu og veltir vandanum yfir á aðra. Svona er þetta t.d. í félögum. Það er alltaf sama fólkið sem gerir allt og aðrir koma sér undan öllu. Mitt vandamál er að ég ætlast of oft til þess að allir séu eins; eða réttara, að allir séu eins og ég: Samviskusamt og ábyrgðarfullt fólk. En þar sem ég er komin yfir miðjan fertugsaldurinn ætti ég að hafa lært að þessu er því miður ekki þannig farið.


Tölvuvesen og moskítuvesen

Ég eyddi megninu af morgninum í að bakka upp tölvuna mína ef ske kynni að ekki væri hægt að gera við hana. Ég þurfti að færa öll gögn yfir á fartölvuna og þaðan brenndi ég síðan diska. Ég þorði ekki að brenna á diska beint af borðtölvunni því ég las einhvers staðar að þegar maður tengdi svona tvær tölvur saman væri best að engin önnur firewire tengi væru í gangi. Ég veit ekki hvort það er rétt en ég vildi ekki taka sénsinn. Fartölvan hefur ekki mikið geymsluminni þar sem ég hef engöngu notað hana til þess að geta skrifað þegar ég er á ferðalögum, og því varð ég að fylla fartölvuna, brenna, fylla fartölvuna, brenna, o.s.frv. Þetta tók óratíma.

Marion kom og sótti mig laust fyrir klukkan eitt og við keyrðum með vélina í viðgerð. Þar er tveggja tíma biðtími eftir því að litið verði á hana. Það er því vissara fyrir mig að venjast því að hafa bara fartölvuna. Kannski ég verð að stækka minnið í henni. Eftir að vélin var komin í viðgerð fórum við og klifruðum. Ég náði að klára V3 sem ég var að vinna að og Marion kláraði V2 sem hún hafði átt í vandræðum með. Báðar kláruðum við svo eitthvað sem við höfðum aldrei prófað áður. Ég er pottþétt að verða betri og betri klifrari. Gallinn er að mér finnst svo skemmtilegt í grjótglímunni að ég klifra orðið alltof sjaldan með reipi.

Marion keyrði svo beint til Mission þar sem hún kennir Lilloet mál en ég skrapp upp á Commercial Drive og fór í svolítinn gluggaverslunarleiðangur (hvað kallast window shopping á íslensku?). Ég settist loks niður við ítalskt bakarí, borðaði nokkurs konar ítalskt vínarbrauð, drakk kaffi og las í bókinni sem ég á að skrifa um. Ég er næstum því búin með hana og þarf því fljótlega að fara að skrifa. Ég hef aldrei skrifað ritdóm áður svo þetta verður svolítið erfitt.

Nóttin sem leið var fimmta eða sjötta nóttin í röð þar sem ég berst við moskítur. Ég hafði sett á mig lavander olíu því moskítum á að finnast lyktin af því vond, en mín eiginlega sæta líkamslykt var greinilega of góð því ég var samt bitin. Ekkert virðist virka á þessi helvíti. Ég er viss um að þær eru enn hér einhvers staðar. Því miður getur venjuleg moskíta lifað í um tvær vikur þannig að það er vel hugsanlegt að sama moskítan sé alltaf að stinga mig.  

P.S. Um það bil sem ég ætlaði að ýta á 'vista og birta' sá ég tvær moskítur útundan mér. Ég náði annarri, hin er enn einhvers staðar. Þá veit ég það, helvítin eru enn á sveimi.


Frábærir grínþættir

Ef ske kynni að einhver frá Sjónvarpinu eða Stöð2 skyldi villast inn á þetta blogg þá ætla ég að segja ykkur frá nokkrum frábærum kanadískum þáttum sem íslenskar sjónvarpsstöðvar ættu að kaupa í staðinn fyrir margt af þessu ameríska rugli.

Í fyrsta lagi, Corner Gas er alveg frábær sjónvarpsþáttur með dásamlegum persónum. Aðalsprautan, Brent Butt, leikur bensínstöðvareiganda í Dog River, smábæ í Saskatchewan.  Hjá honum vinnur besservisserinn Vanda og á hverjum degi eru þau trufluð við vinnu sína af Hank, sem er skólabróðir Brents og auðnuleysingi. Aðrir aðalkarakterar eru Lacy sem rekur kaffisöluna við hliðina á bensínstöðinni, foreldrar Brents, Oscar og Emma, og löggurnar tvær, Karen og Davis. Það sem þessu liði dettur í hug er alveg frábært og minnir um margt á lífið í litlu sjávarþorpum Íslands. Fyndnasta atriði þáttanna var þegar nýr dýralæknir kom frá nágrannabæ sem er enn minni en Dog River og í einu atriðinu er hún að afsaka sveitamennsku sína við Emmu og Lacy: "You have to forgive me, I'm used to slower pace." Emma lítur á hana með forundran og segir: "There is a slower pace?"


Corner Gas þættirnir hafa náð geysilegum vinsældum og eru líklega langvinsælustu grínþættir sem komið hafa frá Kanada. Búið er að selja þá út um allan heim. Hér er síðan þeirra: http://www.cornergas.com/ 

Annar frábær þáttur, sem ég hef þó séð mun minna af en lofar góðu miðað við það sem ég hef séð er Little Mosque on the Prairie (Húsið á sléttunni hét á ensku Little House on the Prairie). Þátturinn fjallar um þorp á sléttunum þar sem enska biskupa kirkjan er í fjárhagsvandræðum og leigir því safnaðarheimilið undir mosku. Þarna er gert ótæplegt grín að bæði kristnum og múslimum. Sem dæmi úr þættinum sem ég sá í kvöld. Biskupinn er að koma og presturinn er hræddur um að ef biskupinn sjái hversu fáir mæta í messu þá muni erkibiskupsdæmið láta loka kirkjunni. Múslímarnir koma með  lausn á vandanum. Þeir munu mæta í kirkju hjá þeim kristnu og þá mun biskupinn verða hrifinn. Þá þarf að þjálfa múslimina, kenna þeim réttu lögin o.s.frv. Þau eru við æfingu þegar presturinn kemur inn, alveg í öngum sínum og segir að biskupinn muni sjá algjörlega í gegnum þetta. Til að mynda hefðu múslimirnir allir staðið upp sem einn þegar þeir áttu að syngja. Það gerðist aldrei í kristnum söfnuði. Það væru alltaf einhverjir sem stæðu upp strax en svo væru aðrir sem stæðu stynjandi á fætur, o.s.frv. Þetta var sem sagt allt æft. Það var líka fyndið að sjá svipinn á múslimunum þegar biskupinn messaði svo á sunnudeginum og fór að tala um reiði guðs.

Einhver amerísk sjónvarpsstöð hefur ákveðið að kaupa þættina en þó eru nokkrar áhyggjur yfir því hvernig Ameríkanar munu taka sjónvarpsþætti sem fjallar svo opinskátt um íslamstrú.  Hér má sjá meira um þessa þætti: http://www.cbc.ca/littlemosque/ 

Þriðji þátturinn sem ég vil nefna er aðeins alvarlegri en þessir tveir  sem  ég hef talað um, en það eru þættirnir Robson Arms. Þeir þættir gerast allir í fjölbýlishúsi í Vancouver þar sem búa skrautlegir karakterar. Undarlegur húsvörður af ítölskum ættum, tuttugu og eitthvað ára gamlir potthausar, eitt hommapar, ein undarleg kona, ungt par með nýfætt barn, o.s.frv. Þetta eru mjög fyndnir þættir en hafa þó alvarlegri undirtón en svona venjulegir grínþættir. Tveir leikaranna eru þeir sömu og í Corner Gas en þarna má líka sjá marga þekkta kanadíska leikara. Sérstaklega eru margir aukaleikarar frægir. Í einum þættinum má t.d. sjá engan annan en Leslie Nielsen.

Hér getið þið lesið betur um Robson Arms: http://www.robsonarms.com/?page=home 

Það er alveg undarlegt að einu kanadísku grínþættirnir sem sýndir eru í íslensku sjónvarpi skuli vera Trailer Park Boys. Það eru nú ljótu vitleysingjarnir. Skora núna á íslensku sjónvarpsstöðvarnar að tryggja sér sem fyrst réttinn að þessum ofangreindu þáttum og sýna nú Íslendingum almennilegan kanadískan húmor.

Frábær grínmynd frá Kanada er svo Men with brooms, þar sem þjóðaríþróttin krulla leikur aðalhlutverk. Sú mynd er líklega fjögurra ára og í aðalhlutverki er enginn annar en Paul Gross sem lék riddaralögregluna í þáttunum Due South hér um árið. Þar má líka sjá Leslie Nielsen sem föður Paul Gross, Peter Outerbridge sem ég man eftir úr þáttunum Michael Hayes sem sýndir voru á Íslandi hér um árið (hann leikur nú aðalhlutverk í þáttunum ReGenesis) og Molly Parker, sem lék í mynd Sturlu Gunnarssonar Rare birds. Í myndinni kemur líka fram kanadíska stórhljómsveitin Tragically Hips sem hefur verið geysivinsæl hér í rúman áratug en hefur aldrei almennilega náð flugi annars staðar.

Margt annað gott kemur frá Kanada en ég læt staðar numið hér. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband