Að skilgreina íslenska tungu

Ég var að skemmta mér á Vísindavefnum (http://www.visindavefur.hi.is/) og fann þar þessa skemmtilegu spurningu: Hvernig er hægt að skilgreina íslenska tungu? Eiríkur Rögnvaldsson, vinur minn og fyrrum aðalleiðbeinandi (ég skrifaði bæði BA og MA ritgerð hjá honum) gefur ítarlegt og skemmtilegt svar sem sýnir hversu flókin þessi spurning er í raun og veru. Eða kannski öllu heldur hversu flókið svarið við henni er. 

Þetta minnir mig á sögu sem mér var sögð í einhverri kennslustund í HÍ. Þegar Skánn var hluti af Danmörku sáu Skánarbúar sig sem Dani og litu á tungumálið sitt sem danska tungu. Aðeins einni kynslóð eftir að landsvæðið varð hluti af Svíþjóð fóru Skánverjar að sjá sig sem Svía og tungu sína sem sænsku—og þó hafði tungan breyst ótrúlega lítið á þessum stutta tíma. Þar var það sem sagt stjórnmálaleg staða svæðisins sem skilgreindi tungumálið. Merkilegt.   


Tré og kryddjurtir

Þetta leiðindarveður sem hefur verið hér það sem af er sumri hefur haft góð áhrif á gróðurinn. Í dag tók ég eftir því að eplin á eplatrénu okkar eru farin að vaxa og eru nú á stærð við jarðaber. Kryddplönturnar (steinselja, chives, marjoram, ofl.) dafna vel og uppáhaldið  mitt, lavander, er komið á gott skrið. Mest hlakka ég til þess að brómberin verði tilbúin en það verður ekki fyrr en í seinni hluta júlí eða ágúst. Við munum væntanlega ekki fá neinar perur í ár því í haust var perutréð okkar skorið niður um helming (enda eiga þau víst ekki að vera of há) og það sjokkerar alltaf tréð svo enginn ávextur vex árið á eftir. Þetta gerðist einmitt í hittifyrra þegar stormur braut eina greinina af. Trégreyið þurfti á áfallahjálp að halda og við fengum engar perur það árið. Ég ætla að koma mér upp basilplöntu (andskotansplöntunni hennar Stínu eins og Geiri bróðir kallaði hana hér um árið) og kannski einhverju fleiru. Það munar miklu að geta gripið kryddin beint af plöntunni í stað þess að borga himinhátt fé fyrir þær í búðinni (og henda svo því sem maður ekki notar).

 


Um vit og fegurð!

Bull og þvæla. Ég á þrjá eldri bræður og það eina sem þeir hafa kennt mér er að fara með dónalegar vísur. Stórefa að  þeir hafi orðið greindir af því. 

Þessir þrír voru reyndar oft látnir passa mig þegar ég var lítil og mamma sagði mér að í raun hafi það bara verið Geiri sem bar ábyrgðina (sá í miðjunni). Haukur (sá elsti) var of latur, og Gunni (sá yngsti) var of mikið fiðrildi. Grey miðjubarnið varð því að skipta um bleyju á litlu systur, mata hana, leika við hana og sinna á allan hátt - aleinn. Hann hefur örugglega orðið greindur af því - alla vega góður pabbi. Reyndar sagði hann við mig oft og mörgum sinnum þegar ég var unglingur að ég hefði verið ofsalega skemmtilegt barn — þar til ég byrjaði að tala. 

Annars man ég eftir tvíburasystrum sem útskrifuðust frá MA nokkrum árum á undan mér. Þegar önnur þeirra dúxaði sagði hin: Já, hún systir mín fékk vitið en ég fékk fegurðina!!! Spurningin er, hvor fæddist á undan? 


mbl.is Elsta systkinið gáfaðast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flughræðsla eða drykkja

Það kom ekki fram hvað fékk þennan mannræfil til að láta svona. Varð hann svona ógurlega hræddur eða var hann fullur?

Ég var einu sinni færð upp á Saga class á leið til Minneapolis eftir að of margir miðar höfðu verið seldir í vélina. Þetta var hin notalegasta reynsla þar sem ég fékk alls kyns fínerí, dvd spilara með fjölda mynda, matseðil til að velja af o.s.frv. Það sem sjokkeraði mig mest var allt áfengið sem boðið var uppá. Flugfreyjurnar voru stanslaust að koma og bjóða upp á vín, bjór, og enn sterkari drykki. Ég þáði smá kampavín í upphafi ferðar en lét áfengið að öðru leyti eiga sig, enda ekki mikið fyrir drykkju. Mér var mun sjaldnar boðið upp á vatn eða gosdrykki en hinu fólkinu var boðið áfengi. Enda var það svo að eftir nokkra tíma flug var einn karlinn orðinn svo drukkinn að hann ákvað að fara bara heim og tilkynnti að hann ætlaði að stökkva út úr vélinni. Hann lagði af stað að dyrunum en tvær eða þrjár flugfreyjur náðu að koma honum í sæti sitt og róa hann. Fljótlega eftir það sofnaði kauði og voru ekki frekari vandræði af honum. En mér fannst þetta merkilegt því að að mínu mati skapaði starfsfólkið þessar aðstæður. Áfengið flaut til hans alla leiðina. Ég hafði alltaf haldið að flugfreyjurnar neituðu að bera áfengi til farþega sem væru orðnir drukknir en þannig var það ekki í þessari ferð. 


mbl.is Óður farþegi reyndi að opna neyðarútgang á flugi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útbitin

Ég er útbitin af moskítum og mig klæjar ógurlega. Hugsið ykkur, það er enn til fólk sem heldur því fram að það séu engar moskítur í Bresku Kólumbíu! Ég hlæ að þeim. Þær eru kannski ekki eins margar og í Manitoba en alveg nóg samt. 

Ástæða þess að  ég er útbitin er sú að við lékum fótbolta óvenjuseint í gær. Leikurinn hófst klukkan hálfníu á upplýstum gervigrasvelli í Burnaby. Við spiluðum á móti North Shore Saints, sem eru efsta liðið í deildinni. Við spiluðum við þær fyrsta leik sumarsins og töpuðum 5-0. Ég veit ekki af hverju við þurftum að leika á móti þeim aftur. Þetta er eina liðið sem við spilum gegn tvisvar í sumar og það þurfti að vera besta liðið. Annars stóðum við alveg í þeim. Þær skoruðu mark á síðustu mínútu fyrri hálfleiks eftir eitthvert moð í vítateignum okkar...algjör klaufaskapur af okkar hálfu. Þær bættu síðan við einu marki undir lok leiksins og unnu því 2-0. Það er minnsti sigur þeirra í sumar. Þær hafa unnið hvert einasta lið með alla vega þremur mörkum þar til nú. Við vorum almennt frekar ánægðar með leik okkar. Það er allt annað að sjá okkur nú en í fyrsta leik sumarsins þar sem við þekktum ekkert hver inn á aðra, enda gengu einar fjórar nýjar stelpur í liðið þá. Nú er bara að vona að við höldum þessum mannskap í haust.

Og nú ætla ég að fara og maka á mig kremi svo ég klóri ekki bitin. Ég losna fyrr við þau ef ég klóra ekki.

Annars er þetta ekkert miðað við fyrstu bitin mín eftir að ég flutti til Kanada. Ég stóð fimm mínútur undir tré og fletti upp á fugli í fuglabók. Að fimm mínútum loknum var ég búin að greina fuglinn (Chickadee) og var komin með 46 bit á leggina. 


Íslendingar í öðru landi

Þjóðhátíðardagurinn var haldinn hátíðlegur í Maple Ridge á sunnudaginn. Maple Ridge er svona Hafnafjörður, nágranni nágrannaborga Vancouver. Til að komast þangað frá Vancouver þarf að keyra til Burnaby, þaðan til Coquitlam, svo til Port Coquitlam, Pitt Meadows og þá loksins kemst maður til Maple Ridge. Þetta er svona einn til einn og hálfur klukkutíma - fer eftir umferð.

Ég hafði verið beðin um að fara fyrst niður í bæ og hitta þar Jónas Þór og kóra úr Borgarfirði sem hann var með á söngferðalagi um vesturströndina. Ég taldi mig nú ekki besta leiðsögumanninn þar sem ég ætti engan bíl, færi aldrei til Maple Ridge og vissi ekki um neitt áhugavert á leiðinni þangað. Efaðist um að Íslendingum þætti spennandi að sjá IKEA, þótt mér þyki alltaf gaman að koma þangað. En ég gerði þetta nú samt. Hópurinn gisti á Holiday Inn á Howe street í miðbænum og þar hitti ég fólki á slaginu tólf. Þá voru allir tilbúnir til að fara upp í rúturnar. Planið hafði verið að stoppa á Burnaby fjalli þar sem er fagurt útsýni yfir borgirnar en það var svo þungskýjað að ég taldi ekki miklar líkur á útsýni. Í staðinn fórum við smá hring í kringum Stanley Park og stoppuðum við Totem súlurnar í garðinum. Þar tók hinn sameiginleg kór eitt lag við hrifningu ferðamanna sem þarna voru. Þaðan lá svo leiðin í gegnum austurhluta Vancouver og svo í gegnum fyrrnefndar borgir. Ég reyndi að benda á það sem spennandi var á leiðinni og segja svolítið frá hinu og þessu.  

BorgarfjardarkorarBílstjórinn var frá Seattle og þekkti svæðið því lítið betur en ég. Hann hafði hins vegar keyrt þangað nokkrum sinnum með hokkílið þannig að hann var nokkuð öruggur á leiðinni þótt hann þekkti ekki áfangastaðinn. Við vorum með útprent frá yahoo maps en viltumst samkvæmt þeim upplýsingum. Sem betur fer var ég líka með upplýsingar frá Naomi og samkvæmt þeim vorum við á réttu róli. Við viltumst því aldrei út af leiðinni þótt um stund hafi ég haldið það. Ég hringdi reyndar í Maggý til að sjá hvort hún þekkti svæðið og hún hló eins og vitleysingur þegar hún heyrði að ég var ekki bara einhvers staðar ein að villast heldur með tvær rútur með mér. Reyndar kom í ljós að næstum allir villtust á leiðinni, og það verr en við. Þannig að þetta var ekki svo slæmt.

Kórinn (ég held þetta hafi verið þrír kórar slegnir saman í einn) var geysilega góður. Lagavalið var skemmtilegt en á sama tíma hátíðlegt, einsöngvararnir þeirra voru góðir og þegar þau tóku Í fjarlægð táraðist ég alveg. á eftir var borðað í einhverja klukkutíma. Yrsa litla hans Gunnars var í miklu stuði og þegar foreldrar hennar voru að fara tilkynnti hún að hún ætlaði ekki með - hún ætlaði að vera eftir hjá mér. Pabbi hennar sagði að þau yrðu bara að fá mig í heimsókn, bjóða mér í mat. Já, Yrsu leist vel á það og svo sagði hún: Komdu, komdu nú. Hún fór í heilmikla fýlu þegar henni var sagt að  ég kæmi ekki núna heldur seinna.

Ég spjallaði við fjölda Íslendinga og fannst mjög fyndið þegar mér var alla vega tvisvar sinnum sagt að ég væri alveg geysigóð í íslensku. Ég varð að segja þeim að það væri kannski ekki skrítið - ég væri Íslendingur. En það sýnir kannski hversu vön þau voru orðin að heyra í Vestur Íslendingum talandi fullkomna íslensku. Eða að ég er orðin svo slæm í móðurmálinu að ég hljóma eins og útlendingur sem er óvenjugóður í málinu. Ég var bara fegin að enginn sagði mér að ég talaði næstum jafnvel og innfæddur Íslendingur.  

Ferðin til baka gekk vel og klukkan var ekki orðin of margt þegar ég var komin heim. Það eina sem vantaði var að syngja Hæ hó jibbíjei, ég hefði átt að gera það.  


Mikilvægi þess að fara á leiki

Þegar ég var ung fór ég stundum á fótboltaleiki með Þór. Vanalega fór ég með pabba og við sátum í stúkunni á Akureyrarvelli. Afi átti hins vegar sinn stað í klöppunum þar sem hann stóð jafnan meðan á leikjum stóð. Löngu eftir að hann dó átti ég það til að líta á staðinn hans eins og hann væri þarna ennþá. Nú er hins vegar búið að jafna út þarna á klöppinni og afi hefði þurft að finna nýjan stað.

En það var alltaf skemmtilegt á leikjum þótt stundum hafi verið eins og liðsmenn aðkomumanna væru miklu fleiri. Og stundum þótti dómarinn ekki alveg sanngjarnt. Þá var öskrað og kallað og margt sagt sem ekki er hafandi eftir. Skemmtilegast var alltaf á leikjum gegn KA. Þær voru nokkrar KA-kerlingarnar sem höfðu alveg ótrúlegan kjaft (sérstaklega ein) og það var stundum alveg drepfyndið að hlusta á þær. Yfirleitt fannst mér þær auðvitað hafa rangt fyrir sér. En þetta kryddaði tilveruna.  

Þegar ég flutti suður fór ég sjaldan á leiki enda voru Þórsarar þá orðnir svo lélegir að þeir spiluðu aldrei í meistaradeildinni og þau voru ekki svo mörg liðin í fyrstu deild úr Reykjavík. Svo ég komst ekki oft á Þórsleiki á höfuðborgarsvæðinu. Ég man reyndar að ég sá þá einu sinni spila á móti Fylki eða Leikni, einhvers staðar í úthverfunum.

En ég fann æ meira fyrir því hve mikið vantaði í líf mitt að fara ekki af og til á leiki. Þannig að ég ákvað að ættleiða reykvískt fótboltalið. Valið stóð á milli Vals og KR. Valur kom til greina af því að bræðrasynir mínir spiluðu fótbolta með yngri flokkum Vals, og KR af því að ég bjó á Nesveginum, í aðeins fimm mínútna gang frá KR vellinum. Þar að auki fór ég oft í leikfimi á KR svæðinu. Þetta sumar, sumarið 1999, spiluðu Valur og KR hvort gegn öðru í þriðja leik sumarsins (eða kannski var það annar leikurinn) svo ég ákvað að þeir myndu spila um hylli mína. Það lið sem ynni þann leik yrði þar með uppáhaldsliðið mitt. KR vann leikinn, held ég bara 5-1 (en ég þori nú ekki að fara með það), og þar með var ég orðinn KR-ingur. Ég fór meira og minna á alla KR leiki það sumarið og átti meira að segja KR trefil. Ég flutti hins vegar til Kanada þegar einir þrír leikir voru eftir af tímabilinu og missti því af því að sjá þá hampa bikarnum.

Þegar ég sé stöðu þeirra í deildinni núna er ég bara ánægð yfir því að KR áhugi minn takmarkaðist fyrst og fremst við þetta síðasta sumar sem ég bjó á Íslandi. Ef ég flyt aftur til Reykjavíkur mun ég sjálfsagt fara afturá leiki með þeim, en á meðan ég bý hér í Kanada læt ég mér nægja að vera Þórsari. Jafnvel þótt þeir hangi nú í neðri deildum og muni aldrei ná þeim hæðum sem þeir náðu á meðan liðið samanstóð af mönnum eins og Dóra Áskels, Bjarna Sveinbjarnar, Nóa Björns, Mola, Hlyni og fleiri góðum.

 


Sum afmæli eru stærri en önnur

Hugsið ykkur ef öll heimsbyggðin fagnaði afmæli ykkar á þennan hátt.
Hér mætast gott kaffi og frábær tónlistarmaður.

 


Hann á afmæli í dag

Til hamingju með afmælið elsku Palli minn. Hvernig er svo að vera orðinn 65 ára og opinbert gamalmenni?

 http://www.cosmopolis.ch/images/music/paul_mccartney/mccartney_photo.jpg


Hver er raunveruleikinn í réttarfarskerfinu?

Veit einhver hvort svona venjulegt fólk hefur aðgang að upplýsingum um þá dóma sem falla í hverju máli á Íslandi? Af þeim fréttum sem við fáum að dæma eru dómar fyrir kynferðisafbrot skammarlega stuttir, sérstaklega ef miðað er við auðgunar- og fíkniefnaglæpi. Ég vildi gjarnan fá að vita hvort þetta er rétt tilfinning hjá mér (og hjá öðrum því ég er ekki ein um þessa skoðun). Ef þetta er rétt, þá vildi ég líka fá að vita hvað er hægt að gera til þess að breyta þessu. Á hvern þarf að ýta? Hverjum þurfum við að koma í skilning um hversu alvarlegir svona glæpir eru? 
mbl.is Tveggja ára fangelsi fyrir nauðgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband