Innilega til hamingju með daginn öll sömun
17.6.2007 | 17:51
Til hamingju með daginn elskurnar mínar. Vona að 17. júní sé hlýr, þurr og góður á Íslandi. Það er alltaf svo gaman að fara niður í bæ og hitta fólk og sjá allt það sem um er að vera.
Ég fer bráðum niður í bæ til að hitta íslenskan kór sem er hér í bæ og ég ætla að keyra með þeim yfir í Maple Ridge (sem er svona Hafnafjörður). Þá get ég bæði sagt þeim frá því sem merkilegt er á leiðinni og fengið far að auki.
Segi ykkur kannski frá deginum í kvöld eða á morgun.
Get varla trúað því að í dag sé ár liðið frá því ég djammaði með Íslendingum í Ottawa. Auður, það var nú meiri dagurinn!
Í dag eru líka liðin átján ár síðan ég útskrifaðist úr MA. Ótrúlegt!!!
Og nú ætla ég að syngja: Hæ hó jibbíjey og jibbí-í-ey, það er kominn sautjándi júní...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Að sinna vinnu sinni
17.6.2007 | 17:39
Það sem mér finnst yfirleitt verst við veitingu fálkaorðunnar er að flestir sem fá hana eru einfaldlega að sinna vinnu sinni. Þeir fá borgað fyrir allt sem þeir gera. Og eðli vinnunnar vegna taka stjórnvöld eftir því. Pabbi minn var frábær trésmiður sem sinnti sinni vinnu eins vel og hægt var að búast við, og betur, en aldrei hefur hann fengið fálkaorðu. Og þó held ég að hann hafi lagt heilmikið til íslenskra skipasmíða. Ég hef haft kennara sem höfðu meiri áhrif á mig en flestir aðrir og sem lögðu grunninn að menntalífi hundruða ef ekki þúsunda ungmenna sem lærðu hjá þeim. Enginn þeirra hefur fengið fálkaorðu. Af hverju fær fólk í sumum stéttum fálkaorðu fyrir að sinna vinnu sinni vel en aðrir, sem sinna sinni vinnu alveg jafn vel, fá enga slíka viðurkenningu?
Hvers vegna er þessi orða ekki veitt fólki sem leggur sig fram um að gera Ísland betra í sínum frítíma? Fólk sem gerir það áhuga síns vegna, ekki vegna þess að það fær borgað fyrir það?
Og nú er ég ekki að segja að þarna á listanum sé ekki fólk sem á þessa orðu skilda, því sjálfsagt hafa sumir lagt sig fram umfram vinnuskyldu, en oftast er það nú þannig að fólk hefur atvinnu að því að gera það sem það fær viðurkenninguna fyrir.Ég er til dæmis mjög ánægð með að sjá að Guðrún Kvaran skuli hafa fengið orðuna enda hefur hún gert mikið til verndurar íslenskri tungu. Og þarna eru ábyggilega aðrir sem einng hafa farið nokkra aukakílómetra til að láta gott af sér leiða.
Fyrir nokkrum árum fékk fjöldi Vestur Íslendinga fálkaorðuna. Þau áttu öll skilið að fá hana því allt var þetta fólk eyddi stórum hluta af frítíma sínum í það að kynna Ísland, kynna íslenska menningu, og að halda saman því þjóðarbroti sem fluttist vestur um haf. Þar má nefna t.d. fyrrverandi konsúl í Gimli, Neil Bardal sem lagði alveg ótrúlega vinnu í allt sem íslenskt var og var alltaf til staðar til að hjálpa við hvaðeina sem uppá kom. Þarna má líka nefna skurðlækninn Ken Thorlaksson sem nú hefur verið formaður þriggja fjáröflunarnefnda sem hafa staðið að því að byggja upp íslenskudeildina við Manitóbaháskóla, bókasafnið, ofl. Enginn þeirra sem fékk orðuna þarna vestra hafði atvinnu af því að kynna Ísland og vestur íslenskt samfélag. Þau gerðu það einfaldlega af því að þau elska landið, þau eru stolt af uppruna sínum og þau vilja allt til gera til þess að þessi tengsl haldist áfram.
Svoleiðis fólk á að fá Fálkaorðuna.
![]() |
Fálkaorðan veitt á Bessastöðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ég hef lent í þessu
17.6.2007 | 04:02
Þegar ég var fimm eða sex ára fór ég, ásamt foreldrum mínum og bróður, í gullbrúðkaup afabróður míns og konu hans. Þetta var alveg risastór veisla með fjölmörgum þjónum, mat og flotteríi. Einn þjónanna kom að borðinu okkar og spurði hvað við vildum drekka. Við Gunni bróðir vildum kók. Eftir svolitla stund kom þjónn með kók, ekki sá sem tók við pöntuninni heldur annar, og ég saup á, enda fékk ég ekki oft svoleiðis dýrindisveitingar. En um leið og ég fékk vökvann upp í mig hryllti mér við og ég lýsti því yfir að þetta væri ógeðslegt kók. Gunni smakkaði sitt og tilkynnti að þetta væri brennivín. Hann var tólf ára og hefur varla haft mikla reynslu af áfengi (annars veit ég aldrei) en sjálfsagt var þetta ekki brennivín. En áfengi var það. Börnunum, fimm ára og tólf ára var sem sagt færð einhver áfengisblanda í afmælinu. Þjónninn margbaðst afsökunar á þessu og sagðist hafa gripið þessi tvö glös í þeirri trú að þarna væri kók en ekki eitthvað síður barnvænt.
Þetta sem gerðist þarna á Applebees er því alls ekkert einsdæmi.
![]() |
Tveggja ára gamalt barn fékk áfengi í stað eplasafa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 04:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Matardagur
17.6.2007 | 01:48
Þetta hefur nú verið meiri matardagurinn. Planið var að hitta Juliönnu klukkan tíu yfir bröns og ég stillti klukkuna á níu. Ég er búin að vera eitthvað svo þreytt undanfarið að ég vildi sofa frameftir og svo bara fara í sturtu og uppí strætó. Þá væri ég heldur ekki orðin of svöng áður en ég borðaði.
Julianna hringdi hins vegar klukkan hálfníu til að láta mig vita að nú kæmist ekki fyrr en ellefu. Þetta þýddi bæði að hún vakti mig upp af draumum og skildi mig svo eftir með tvö tíma fram að matnum. Það er ekki séns að ég geti gert nokkuð skapaðan hlut á fastandi maga í tvo klukkutíma þannig að ég neyddist til að fá mér morgunverð.
Svo hálfsofin fór ég út á stétt að sækja blaðið (já, þeim er hent að húsinu eins og í amerísku bíómyndunum) og þar sem ég stend þarna á stéttinni, á náttfötunum, með blaðið í hendinni er kallað til mín: Góðan daginn (reyndar var það Good morning en þið vitið hvað ég meina). Þarna stóð þá einn af vinnumönnunum við hliðina. Ég hélt þeir ættu ekki að vinna á laugardögum en það var greinilega ekki rétt. Ég var bara fegin að ég var í náttbuxum því það hefur komið fyrir að ég hef hlaupið út á brókinni ef þannig liggur á mér.
Ég hitti Juliönnu klukkan hálfellefu á Sophie's, vinsælum morgunverðarstað. Þar var biðröð út úr dyrum en við fengum fljótt borð og ég hámaði í mig Eggs Benedict, enda hafði ég passað mig á að borða ekki of stóran morgunverð tveimur tímum áður. Eggs Benedict er svoooooooo gott. Eftir matinn fórum við aðeins niður í bæ en Julianna þurfti svo í hárgreiðslu en ég labbaði um þar til ég þurfti að hitta nokkrar stelpnanna úr fótboltanum. Við höfðum ákveðið að fara og hlaupa saman.
Ég hitti þær klukkan hálftvö og við vorum fimm sem enduðum á að hlaupa saman sex kílómetra. Við hlupum rólega, mun hægar en ég hleyp þegar ég er ein, en þetta var auðvitað mun skemmtilegra. Þar að auki hlupum við í Stanley Park og þar er alltaf fallegt. Eftirá vildu stelpurnar hins vegar fara út að borða. Mér fannst ég ennþá pakksödd en þó voru liðnir fjórir tímar frá því að ég borðaði. Svo ég ákvað að fara með þeim, enda það mun skemmtilegra en að láta sér leiðast heima. Sherry þurfti reyndar að fara heim að undirbúa afmæliskvöldferð en ég Kirsten, Leah og Katie fórum í leit að mat. Hlaupabúðin þar sem við hittumst, The Running Room, er á Denman, rétt hjá Stanley Park og þar er nóg af góðum matsölustöðum svo við skelltum okkur á stað sem heitir Joe's, og sátum þar þangað til rúmlega fjögur. Það var alveg súper.
Núna er svo rólegt kvöld framundan. Ef það er eitthvað gott í sjónvarpinu þá held ég að ég sitji bara fyrir framan imbann, en það er líka hugsanlegt að ég reyni að læra eitthvað, nú eða kannski ég fari út og sparki bolta. Ég þarf að æfa tæknilegu atriðin betur. En mér ætti alla vega ekki að leiðast hvað sem ég geri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sigur gegn Wildcats
15.6.2007 | 17:46
Í gær spiluðum við gegn Vancouver Wildcats. Við erum í fjórða sæti deildarinnar og þær í fimmta sæti þannig að það var fyrirfram ljóst að þetta yrði spennandi leikur. Þær mættu með sirka nítján stelpur sem þýddi að þær gátu endalaust verið að skipta inn á og koma með óþreyttar stelpur (skiptingar eru ótakmarkaðar í deildinni). Við höfðum þrjá varamenn þannig að við gátum hvílt þreyttar en vorum ekki stanslaust að breyta til - sem mér finnst besta staðan. Ég verð pirruð ef við höfum of marga varamenn.
Ég stóð mig hins vegar óvenjuvel í þessum leik, skoraði eitt mark og átti stoðsendingu í öllum hinum. Ég vildi að fótboltinn væri eins og hokkí þar sem maður fær stig fyrir stoðsendingar, því þá hefði ég fengið fimm stig fyrir leikinn.
Við byrjuðum leikinn ótrúlega vel, sem er óvenjulegt. Vanalega tekur það okkur nokkurn tíma að komast í gang og við lendum einu eða tveimur mörkum undir áður en við tökum við okkur. Í þetta sinn var það betra. Fyrsta markið var nú ekki fallegt. Ég skaut á markið úr þröngri stöðu í hægra horni og markmaðurinn varði. Hún hélt hins vegar ekki boltanum og þvaga myndaðist fyrir framan og Katie náði loks að ýta boltanum innfyrir. Ljótt mark en þau gilda jafnmikið og hin.
Annað markið kom innan við tíu mínútum síðar. Ég hleyp upp hægri kantinn en er hlaupin niður af brussu sem fannst þetta víst mjög fyndið. Ég hreinlega flaug og rispaðist öll á hægri síðunni - sem nú er í stíl við marið á hægri mjöðm. Þetta gerðist ekki langt fyrir utan vítateig Wildcats og ég fékk aukaspyrnu. Sendi háan bolta inn í vítateiginn og beint á höfuðið á Benitu sem skallaði boltanum örugglega í markið. Þetta var glæsilegt mark hjá henni - eitt það flottasta sem liðið okkar hefur skorað, en náðist því miður ekki á myndband. Ég hafði tekið vídeóvélina mína með og stelpurnar filmuðu þegar mér var hent niður, en einhverra hluta hættu þær að mynda þar og tóku ekki aukaspyrnuna. Skil ekki hvers vegna. Benita var voða sár þegar hún frétti að markið hennar hefði ekki nást.
Þriðja markið var annað mark Katie. Ég fæ boltann um 35 metrum frá marki Wildcats en hafði tvo varnarmenn á mér. Ég vissi af Katie einhvers staðar fyrir framan mig með tvær stelpur á sér og af því að hún hleypur hratt sendi ég boltann bara inn í vítateiginn, en ekki svo fast að markmaður nái boltanum. Katie klikkaði ekki, komst að boltanum á undan varnarmönnum og skoraði örugglega.
Fjórða markið var mitt. Ég fékk boltann á miðju, sendi hann framhjá varnarmanninum sem var vinstra megin við mig (sem er óvenjulegt því ég fer nær alltaf til hægri), hljóp svo að boltanum og tók hann inn. Inn í vítateig voru tvær stelpur komnar á mig og önnur sparkaði mig nær niður en ég náði að halda jafnvægi og skjóta framhjá markmanninum. Þetta mark má sjá hér fyrir neðan.
Fimmta markið var næstum því alveg eins og þriðja markið. Ég sendi boltann inn í vítateig og Katie kom og skoraði. Hún er ný hjá okkur, 22 ára gömul stelpa sem hefur bæði gott vald á boltanum og getur hlaupið hratt að auki. Þannig að hún er eiginlega eins og Benita og ég settar saman. Benita hefur ótrúlegt vald á boltanum en hleypur ekki hratt. Ég hleyp hratt en er ekki nærri eins lipur með boltann. Gallinn er að Katie er hugsanlega að flytja til London þannig að við munum missa hana aftur í haust.
En mikið var gaman að vinna Wildcats stelpurnar. Og dómarinn var góður. Hún gerði ekki mörg mistök (en auðvitað einhver eins og þau öll) og hún mundi eftir okkur frá því í fyrra og spjallaði heilmikið við okkur.
Hún kom til mín eftir leikinn og sagði: Stína, hvernig stendur á því að kona kominn á þinn aldur getur hlaupið svona hratt? Ég sagðist ekki vita af hverju en ég væri ákaflega þakklát fyrir það.
Ég geri mér grein fyrir að þessi pistill virkar líklega eins og montpistill. Æi, það er ekki svo oft að ég fæ að monta mig á einhverju.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 18:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Vigneault vann Jack Adams bikarinn
15.6.2007 | 06:59
Í kvöld voru NHL verðlaunin veitt. Þetta er svona nokkurs konar óskarsverðlaun hokkísins. Veitt eru verðlaun fyrir verðmætasta leikmanninn, besta nýleiðann, besta varnarmanninn, besta þjálfarann, prúðasta leikmanninn, og eitthvað fleira. Markmaður Vancouver Canucks, Roberta Luongo var tilnefndur til þrennra verðlauna en spáði því á rauða teppinu fyrir hátíðina að hann fengi engin þeirra. Það fór enda svo. Maður skilur ekki alveg hvernig maður sem er tilnefndur sem verðmætasti leikmaðurinn nær ekki að vinna sinn eigin flokk, besti markmaður, sérstaklega þar sem sá sem valinn var besti markmaðurinn, Martin Brodeaur var ekki tilnefndur sem verðmætasti leikmaðurinn. En svona er þetta stundum.
Það sem kætti mig framar öðru var hins vegar það að Alain Vigneault, þjálfari Canucks fékk Jack Adams verðlaunin sem besti þjálfarinn. Hann hafði verið tilnefndur til þessa verðlauna þegar hann var þjálfari Montréal Canadiens árið 2000 en fékk ekki þá.
Alain er vel að þessum verðlaunum kominn enda tók hann síðastliðið haust við liði sem hafði ekki einu sinni komist í umspilskeppnina árið áður (playoffs). Liðið spilaði þokkalega í haust þegar þeir voru að venjast algjörlega nýju kerfi, nýjum anda og nýjum þjálfara en eftir jólin spiluðu strákarnir eins og englar og unnu Norðvestur deildartitilinn að lokum. Þá unnu þeir fyrstu seríuna í umspilinu en voru svo slegnir út af Anaheim Ducks sem unnu Stanley bikarinn. Hver veit hversu langt Vancouver hefði komist ef þeir hefðu ekki lent á móti öndunum svo snemma. Úrslitakeppnin er hins vegar ekki tekin til greina við veitingu NHL verðlaunanna því það er reglulega tímabilið sem gildir.
Vigneault var flottur þar sem hann mætti á hátíðina í smóking, ásamt táningsdætrum sínum tveimur. Hann var og mjög hógvær í þakkarræðu sinni og benti á að ef einhver verðlaun endurspegluðu liðsheildina fremur öðrum þá væru það verðlaun þjálfara. Hann hefði aldrei getað þetta ef hann hefði ekki frábæra aðstoðarmenn, skilningsríka yfirmenn og góða stráka á skautum.
Hann er svo mikil dúlla.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 07:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
YouTube og Bluesfest
14.6.2007 | 22:01
YouTube er án efa algjör snilld. Þarna er hægt að finna allan fjandann sem maður finnur hvergi annars staðar. Ég hef til dæmis horft á nokkur lög frá níunda áratugnum sem ég man eftir að hafa horft á á mínum unglinsárum. Horfði m.a. á flest öll myndböndin með Falco, sem ég held statt og stöðugt fram að hafi verið hinn mesti snillingur. Þetta var ágætt afturlit til fortíðar.
En þarna finnur maður líka tónlistarmenn sem eru að mestu óþekktir og sem ekki er endilega auðvelt að sjá annars staðar. Á Ottawa Bluesfest í fyrra sá ég fjöldan allan af tónlistarmönnum, þekktum og óþekktum. Mér fannst til dæmis geysigaman að náunga að nafni Elvis Perkins. Hann er sonur Anthony Perkins sem líklega er einna frægastur fyrir hlutverk sitt í Psycho myndunum. Perkins greyið lést úr Aids fyrir nokkrum árum. Móður Elvis lést svo í árásinni á tvíburaturnana. Hann hefur því átt nokkuð erfitt líf og margir texta hans eru litaðir af því. Set inn eitt lag með Elvis Perkins:
Af þeim tónlistarmönnum sem ég þekkti ekki fyrir Bluesfest var ég samt einna hrifnust af Eric Lindell (er með eitt laga hans í spilaranum mínum hér til hægri). Á YouTube fann ég ekki bara upptökur með honum heldur fann ég þetta lag sem var tekið upp á Bluesfest í fyrra. Ég var sem sagt á staðnum þegar hann spilaði þetta. Gæðin eru ekkert ógurlega góð enda var ólöglegt að taka upp þarna svo einhver hefur smyglað inn einhverjum smágræjum, en það sem samt gaman að þessu.
Þarna sá ég líka í fyrsta sinn hina frábæru kanadísku söngkonu Feist. Ef þið hafið ekki heyrt í henni nú þegar skulið þið endilega hlusta á hana. Og þessi upptaka er mun betri (einhver hefur smyglað inn góðum græjum).
Önnur kanadísk stjarna er Sam Roberts, sem einnig var á Bluesfest 2006:
Að lokum set ég svo inn Blue Rodeo, sérstaklega fyrir Bjarna. Þetta er líka tekið upp á Bluesfest í fyrra:
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
VISA-svindl
13.6.2007 | 18:56
Þegar ég kom heim frá Íslandi eftir jólin voru skilaboð á símsvaranum mínum um að samningur minn við VISA væri að renna út og ég yrði að tala við þá til þess að halda áfram að hafa sömu lágu vextina á kortinu. Átti ég að ýta á 9 til að tala við starfsmann þeirra. Ég hunsaði þetta enda nóg að gera eftir heimferðina og ég nennti ekki að eiga við VISA. Þar að auki fannst mér þetta lykta eitthvað illa.
Um tveimur mánuðum síðar fékk ég aftur sama símtal og enn á símsvarann. Ég átti fund með bankafulltrúanum mínum stuttu seinna svo ég nefndi þetta við hana og hún hringdi fyrir mig í VISA deildina þeirra en þeir könnuðust ekki við neitt. Sögðu að ég skuldaði þeim svolítið en þeir höfðu ekki hringt í mig.
Núna áðan fékk ég enn eina hringinguna svo ég ákvað að gera eitthvað í málinu. Ekki að tala við þá auðvitað enda var ég orðin viss um að þarna væri maðkur í mjölinu, heldur hringdi ég beint í VISA deildina hjá CIBC og sagði þeim frá þessum símtölum. Ég var spurð að því hvort ég hefði gefið þeim upp vísanúmerið mitt. Ég sagðist aldrei hafa talað við þá, bara lagt á. Konan sem ég talaði við sagði að það væri gott því þau vissu af þessu og málið væri í rannsókn. Þetta var sem sagt kortasvindl eins og mig grunaði. Það eina sem ég get gert er að halda áfram að leggja á þegar þeir hringja.
Það er alveg ótrúlegt hvað maður þarf orðið að passa sig á öllu.
Fyrr í vetur fékk ég hringingu um að ég hefði unnið mér inn siglingu (sem gat passað því ég tók þátt í alls kyns getraunum á skíðasýningu sem ég fór á). Ég þurfti sjálf að koma mér til Flórída þaðan sem skipið átti að fara, og að auki varð ég að borga um $300 (18 þúsund) fyrir einhver ákveðin gjöld. Ég hélt nú ekki. Djöfulsins glæpamenn alltaf að plata mann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Merkileg uppgötvun
13.6.2007 | 16:39
Ég er búin að finna ástæðuna fyrir því að ég er ekki gift ennþá. Ég las í blaðinu í morgun að stúlkur sem eiga gott samband við föður sinn hafi tilhneigingu til þess að leita sér maka sem minnir á föðurinn. Ekki hvað varðar karakter, stærð, háralit, o.s.frv....nei, heldur hvað varðar ákveðna andlitsdrætti svo sem stærð og lögun nefsins. Og þá er vandinn alveg kristaltær. Ég hef alltaf átt mjög gott samband við foreldra mína og ég er greinilega að reyna að finna nefið hans pabba. Og það er sko ekkert auðvelt að finna það. Síðast þegar ég gáði var Martin, t.d. ekki með slíkt nef sem þýðir væntanlega að samband okkar er dauðadæmt. Enginn fyrrum karla í mínu lífi hefur heldur verið með slíkt nef, og ég man bara ekki eftir að hafa séð slíkt nef nokkurs staðar annars staðar en á pabba og systkinum hans. Það erfist greinilega ekki því ekkert okkar systkina er með þetta nef hans pabbané nef mömmuenda er mamma enn að velta því fyrir sér hvernig þau bjuggu til þetta nef sem við höfum öll (og ég held öll barnabörnin líka).
En sem sagt, nú verð ég að fara og hreinlega leita að svona skíðabrekkunefi og þegar ég finn karl á réttum aldri með svoleiðis nef, verð ég hreinlega að kasta mér á hann. Og svona einfalt var þetta eftir allt saman. Bara spurning um nefið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Vantar hjálp með moggabloggsspilarann
13.6.2007 | 00:28
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)