Færsluflokkur: Bloggar
Málverksýning og útisigur
4.11.2007 | 07:08
Ég fór á opnun málverkasýningar í dag. Listamaðurinn er Heidi Maddess, fyrrverandi nemandi minn í íslensku hér í Vancouver. Sýning á verkum hennar opnaði í New Westminster í dag og eru öll verkin unnin á Íslandi eða undir íslenskum áhrifum og sýna íslenska náttúru. Margar myndanna voru alveg rosalega flottar.
Ég hef ekki séð hana síðan við sáum Björk á tónleikum hér í sumar og við tölum alltaf um að við þurfum að hittast oftar en svo verður aldrei neitt úr því. En við höldum alltaf sambandi samt sem áður og hún býður mér alltaf á opnanir sýninga sinna.
Það tók reyndar stóran hluta dagsins að fara þetta. Ég lagði af stað á sýninguna um þrjú leytið og var ekki komin heim fyrr en klukkan sjö, þrátt fyrir að hafa varla stoppað nema um hálftíma eða fjörutíu mínútur á sýningunni. Þetta er spölur að ferðast og hjálpar ekki til að strætó gengur sjaldnar á laugardögum.
Ég kom tímalega heim til að horfa á leik Vancouver við Colarado Avalanche sem leikinn var í Denver. Colarado var ósigrað á heimavelli og Vancouver liðið búið að missa 50% varnarmanna sinna í meiðsli. Það var því ljóst að þetta yrði uppávið. Reyndar var ég ekki sannfærð um að það væri svo slæmt að missa þessa leikmenn. Liðinu hefur ekki gengið sem skyldi og margir orðnir neikvæðir. Ég taldi því mögulegt að ungu strákarnir úr Manitoba gætu komið með neistann sem á þyrfti að halda. Það reyndist rétt og bæði Luc Bourdon, Alexander Edler og Jannik Hansen eru allt ungir strákar um tvítugt með takmarkaða reynslu í efstu deild en þeir spiluðu frábærlega. Vigneault lék líka snilldarleik þegar hann setti Naslund á línu með tvíburunum (Svíalínan) og þessir þrír frábæru leikmenn sem allir hafa spilað langt undir getu í haust, náðu svona frábærlega saman að þeir skoruðu og lögðu upp þrjú af fjórum mörkum liðsins í 4-3 sigri. Hann er búinn að breyta stöðugt um línur í allt haust í von um að finna sigurlínuna en það er alveg sama hver hefur spilað með tvíbbunum, ekkert hefur almennilega fengið þá til að smella í gang. Fyrir leikinn í kvöld voru þeir sameiginlega með níu stig (mörk og stoðsendingar) en fengu sex í leiknum í kvöld. Loksins mátti sjá Vancouver spila eins frábærlega og þeir gerðu eftir jólin í fyrra. Á fimmtudaginn spila þeir í Calgary og svo á föstudag spila þeir aftur við Colarado nema á heimavelli. Ég mun sjá þann leik og það er reyndar leikurinn sem ég keypti upphaflega miða á (leikurinn á fimmtudaginn var aukaleikur fyrir mig af því að ég fékk miða á hálfvirði). Ég vona að þeir sigri þar því ég mun ábyggilega ekki hafa efni á að fara á fleiri leiki í vetur, nema aftur verði boðið upp á miða á hálfvirði.
Núna ætla ég að fara að sofa því ég spila leik á morgun (í fótbolta) á móti United Tigers og það er vissara fyrir okkur að vinna þann leik ef við viljum halda okkur í toppbaráttunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Útsvar
3.11.2007 | 21:52
Áðan horfði ég á spurningarþáttinn Útsvar frá því í gær. Mamma hafði sagt mér frá því að minn gamli kennari og vinur Erlingur Sigurðarson væri einn þátttakenda. Hef reyndar líka tengingar við hin tvö í liðinu. Leikkonan unga er systir hennar Ólu Siggu sem var með mér í bekk í MA og Pálmi er giftur frænku minni (eða það segir mamma mér).
Þetta var hinn skemmtilegasti þáttur og þetta segi ég ekki bara vegna þess að Akureyringar unnu. Það sem er skemmtilegt við þennan þátt er að margar spurningarnar eru ekki svo erfiðar svo maður getur sjálfur svarað slatta. Mér fannst alltaf gallinn við Spurningarkeppni framhaldsskólanna að spurningar voru yfirleitt svo níðþungar að maður vissi yfirleitt ekki svarið við neinum þeirra, og það er ekki endalaust hægt að skemmta sér yfir því hversu klárir þessir krakkar eru.
Hef annars verið að hlusta á Katie Melua eftir að ég las um að hún væri á Íslandi. Hún er alveg mögnuð. Hafði aldrei heyrt í henni áður en mun pottþétt hlusta meira á hana núna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Besta stjörnusýnin hingað til
3.11.2007 | 08:38
Ég veit reyndar ekki hvað 'celebrety spotting' kallast á íslensku en 'stjörnusýn' verður að duga. Hér kemur sagan. Ég hringdi í Juliönnu í kvöld og þá var hún á leið í Richmond Centre verslunarmiðstöðina og spurði mig hvort ég gæti ekki hent mér upp í strætó og hitt hana þar. Tim, maðurinn hennar var í strákapartýi með vini sínum sem varð fertugur um daginn. Svo ég mætti Juliönnu en það tók sinn tíma svo klukkan var að nálgast átta þegar ég komst loks til Richmond. Og auðvitað var lokað klukkan níu. Julianna ætlaði þá að fara í Red Rock spilavítið þarna í Richmond og dró mig með. Ég hef aldrei farið í spilavíti áður og aldrei haft áhuga. Er ekki mikill gamblari. En ég fór með Juliönnu. Þar hittum við Tim og vini hans þrjá sem voru þarna komnir eftir go-cart og hlaðborð. Julianna er fjárhættuspilari og settist að einni vélinni sem byggð er á þáttunum The Munsters sem ég held við höfum aldrei séð á Íslandi. Alla vega, við sitjum þarna við vélina og skipumst á að ýta á takkann. Við unnum stundum og töpuðum stundum og ég held að þegar uppi er staðið höfum við tapað um 20 dollurum. Ég spilaði náttúrulega ekkert enda hef ég ekki efni á að spila upp á þessa fáu dollara sem ég á, en Juliönnu fannst skemmtilegra að ég tæki virkan þátt svo við gerðum þetta svona saman.
Og hér kemur að stjörnusýninni. Ég hef sagt frá því áður að ég hafi séð fræga fólkið en yfirleitt hef ég ekki orðið neitt sérlega spennt því oftast eru þetta smástjörnur sem mér er nokk sama um (nema þegar ég sá Janet Wright úr Corner Gas). Að þessu sinni sá ég leikara sem skiptir öllu meira máli. Hann er skoskur leikari sem ég kynntist um leið og ég flutti til Kanada því hann lék Mr. Vicks í þáttunum um Drew Carey. Eftir það sá ég hann í nokkrum bíómyndum og hef alltaf lagt mig fram eftir því að sjá allt það sem hann gerir. Nú síðast fékk hann svo starf sem umsjónarmaður þáttarins The Late Late Show á CBS. Ég sé hins vegar aldrei þessa þætti því þeir byrja ekki fyrr en um eitt eða tvö á næturnar.
Ef þið vitið ekki enn hver þetta er þá mun nafnið ekkert hjálpa ykkur en hann heitir Craig Ferguson og það er hann sem er á myndinni hér á síðunni. Magnaður grínisti og hann var einmitt með uppistand í spilavítinu þetta kvöld. Ég hefði þekkt hann strax þótt ég hefði ekki vitað það, en það var ferlega gaman að sjá hann þarna. Hann labbaði nokkrum sinnum fram hjá okkur og einu sinni stóð hann næstum því við hliðina á Jóhönnu þegar einhverjar kerlingar stoppuðu hann til að lýsa yfir hrifningu sinni. Ég sagði ekki neitt enda finnst mér að fræga fólkið eigi að fá að vera í friði, en það var gaman að sjá hann þarna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Gangan yfir Granville brúna
2.11.2007 | 07:44
Þegar ég fór á leikinn í kvöld ákvað ég að taka strætó niður að Granville og Broadway og labba svo þaðan niður að GM Place þar sem leikurinn fór fram. Þetta virðist ekki langt en tekur þó ótrúlega langan tíma að labba þetta, sérstaklega ef maður er með myndavél meðferðist. Ég smellti af nokkrum myndum og set tvær þeirra inn hérna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Jarðskjálftar og þrumuveður
1.11.2007 | 16:08
Þegar ég bjó í Reykjavík kom það iðulega fyrir að ég vaknaði nokkrum sekúndum fyrir jarðskjálfta. Það hlýtur að vera að einhverjar bylgjur hafi komið á undan skjálftanum sem vöktu mig. Alla vega átti ég það til að glaðvakna um miðja nótt og rétt náði að furða mig á því hvað hafði vakið mig þegar skjálftinn reið yfir.
Í nótt gerðist nokkuð svipað nema ekki vegna skjálfta. Ég glaðvaknaði allt í einu og lá þarna í myrkrinu og hlustaði á regnið bylja á húsinu í örfáar sekúndur þegar yfir reið þessi ógurlega þruma sem virtist hrista húsið. Og síðan ekki sögunni meir. Ég rölti fram á klósett fyrst ég var vöknuð, leit út um gluggann á hellidembuna fyrir utan en sá engar eldingar og heyrði engar fleiri þrumur.
Í Winnipeg voru þrumuveður mjög algengt, sérstaklega á heitum sumardögum. Þá áttum við Tim það til að draga gluggatjöldin vel frá herbergisglugganum og lágum svo upp í rúmi og horfðum á borgina lýsast upp. VIð vorum á elleftu hæð í borg með ekki mörgum háhýsum. Gluggarnir voru til suðurs og meira og minna eintóm einbýlishús eða þriggja hæða bloggir til suðurs. Það er svo skemmtilegt að horfa á þrumuveðrið á sléttunum. Himininn er svo stór og lýsist allur upp í svona veðrum. Maður sá æðarnar í eldingunni ótrúlega vel. Yfirleitt töldum við sekúndurnar á milli eldingarinnar og þrumunnar og gátum þannig séð hversu nálægt okkur veðrið var. Stundum kom þruma beint yfir blokkinni og hún titraði öll. Þá fannst okkur gaman.
Einu sinni vorum við að keyra heim frá Lethbridge í Alberta til Winnipeg og þegar við vorum nálægt Brandon, Manitoba sáum við þrumuveður beint suður af okkur. Það virtist fara á sama hraða og við þannig að í langan tíma gátum við horft á eldingarnar í suðrinu. Það var pínulítið erfitt fyrir Tim að keyra því þetta var svo fallegt. En algjörlega öruggt. Það er hins vegar ekki skemmtilegt að keyra inn í þrumuveður. Þrumuveður er eins og birnir. Frábært í fjarlægð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hrekkjavaka, hokkí, klukkubreytingar og så videre
1.11.2007 | 06:39
Hér var Hrekkjavakan haldin hátíðleg í dag og allt fylltist af litlum skrímslum með poka að betla nammi. Við hér í húsinu vorum leiðindapúkar og höfðum útiljósið slökkt til marks um að hér væri ekkert nammi að fá. Það var af bitri reynslu. Fyrst árið mitt hér hlakkaði ég mikið til og hafði keypt helling af nammi til að gefa liðinu, en margir voru svo vanþakklátir að mér varð nóg um. Margir þökkuðu ekki fyrir sig og sumir kvörtuðu yfir því að það væru allir með eins nammi (það var hægt að kaupa ódýra poka með litlum nammistykkjum úti í kjörbúð og flestir nýttu sér það). Ég varð svo pirruð á frekjunni, og þegar bættist við að ég þurfti að hlaupa upp og niður stigann í tæpa tvo tíma (ég bý uppi í risi) þá ákvað ég að einu sinni væri nóg. Og þar með var hrekkjavökuþátttöku minni lokið.
Á morgun fer ég hins vegar á hokkíleik og mun sjá Canucks spila á móti Nashville. Þetta er að öllum líkindum síðasta árið sem Nashville hefur hokkílið því þeir tapa milljónum dollara á hverju ári (fólk í Nashville hefur ekki áhuga á hokkíi, bara á kántrítónlist) og því er talið líklegt að liðið verði selt í vor. Líkur eru á að það verði selt til Kansas sem er fáránlegt því áður hefur verið reynt að vera með hokkílið í Kansas og það gekk ekki. Eigandinn var sama sem búinn að gera samning við ríkan Kanadamann sem ætlaði að flytja liðið til Hamilton (um klukkustund suður af Toronto) en einhverjir Kanar komu í veg fyrir það. Ég vil fá liðið til Winnipeg að endurnýja Winnipeg Jets. En alla vega, þetta verður síðasti séns til að sjá Nashville og það er eins gott að mínir menn vinni.
Á sunnudaginn verður klukkunni breytt. Hún verður færð fram um klukkutíma sem þýðir að það verður dimmt klukkutíma fyrr á kvöldin. Þetta ruglar mig alltaf. Og ég VERÐ að muna að breyta klukkunni á laugardagskvöldið því ég á að spila fótbolta klukkan ellefu á sunnudaginn og má ekki við ví að fara tímavillt.
Á morgun ætla ég að skella mér í Ikea og í Costco með Rosemary. Mig vantar nýjan standlampa í svefnherbergið því sá sem ég hef brotnaði og liggur nú upp að kommóðunni til að vera nýtilegur. Fyrir tveimur dögum rak ég mig í hann þegar ég var að hátta mig og fékk allt galleríið í hausinn. Það var ekkert þægilegt. Verð því að bjarga málum. Get ekki verið lampalaus því það er ekkert loftljós.
Hef ekkert annað að segja svo sem. Fór reyndar að klifra í dag og lallaði svo aðeins niður í bæ áður en ég kom aftur heim. Lærði næstum ekkert nema ég átti tvo fundi með nefndarmönnum mínum í morgun. Sem sagt, náði tveggja tíma vinnu. Það er nokkrum klukkutímum of lítið. En nú er ég farin að sofa - og þið hin eruð að vakna. Ég segi því ekki góða nótt við ykkur en hvísla því að sjálfri mér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Getur þessi fullyrðing verið rétt?
31.10.2007 | 00:24
![]() |
Stærsti heiti reitur í heimi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Hreinlega ekkert jafnast á við íslenska nammið
30.10.2007 | 16:57
Ég borða ekki oft nammi sem er að hluta til vegna þess að hér vestanhafs er ekkert um sérlega auðugan garð að gresja. Snickers og Mars eru náttúrulega bandarískar framleiðslur og ég er mjög hrifin af mars með dökku súkkulaði, og eins KitKat með dökku súkkulaði. En það er ekki margt annað boðlegt. Þegar ég kaupi súkkulaðistykki kaupi ég svissneska súkkulaðið Lindt því Cadbury's er ekki svo gott og Hersey's er nokkurn veginn óætt. Reyndar er hægt að kaupa nammi í Bandaríkjunum sem heitir Nut Roll og það er glettilega gott. Það eru hreinlega salthnetur með hvítri fyllingu. Því miður fæst það ekki í Kanada. Við erum hins vegar með Coffee Crisp, súkkulaðikex með kaffibragði, og það fékkst lengst af ekki syðra, en nú er víst hægt að kaupa það á sumum stuðum í Bandaríkjunum.
Reyndar er að sumu leyti gott að hér er ekki gott nammi því þá borða ég minna af því. Og mér veitir ekkert af að halda áfram í heilsufæðinu.
Nei, íslenska nammið ber af. Lindu buff er reyndar alls ekki eins gott og það var þegar það var búið til á Akureyri. Og ég segi það ekki af því að ég er Akureyringur. Nei, þeir breyttu uppskriftinni. Kaffisúkkulaðið frá Lindu er líka alltaf dásamlegt. Appelsínusuðusúkkulaði frá Monu er magnað og allt rjómasúkkulaði frá Nóa Siríusi (en þó sérstaklega rúsínusúkkulaði, sem ekki er hægt að kaupa frá neinum framleiðanda hér í Kanada). Þristur er dásamlegur, Eitt sett alltaf gott, og allur lakkrís ómissandi. Þá má ekki gleyma karmellunum íslensku sem eru betri en ég hef fengið annars staðar.
Og ég ætla ekki einu sinni að byrja á því að tala um kartöfluflögur því það er ekkert eins gott og paprikustjörnur frá Stjörnusnakki.
Je minn, ég verð að hætta að hugsa um nammi. Ég er ekki einu sinni búin að borða morgunverð.
![]() |
Íslenskt nammi vinsælt vestanhafs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Ert þú barrakúda?
30.10.2007 | 16:27
Í útvarpinu í morgun var rætt um konur sem eru barracuda (barrakúda er samheiti ýmissa ránfiska). Það eru sem sagt konur sem eltast við karlmenn á mjög agressívan hátt.
Í framhaldinu af þessari umræðu var rætt við ungan mann á þrítugs aldri og hann spurður út í sín samskipti við svokallaðar barrakúdur. Hann sagðist einu sinni hafa verið eltur inn á klósett af einni og að það hafi verið tiltölulega vandræðalegt. Sagði líka að oft kæmu þessar konur einfaldlega upp að sér og bæðu hann að taka sig heim með sér. Hann sagðist einfaldlega segja 'no way'. Þá spurði karlspyrillinn á útvarpsstöðinni hvort hann tæki konurnar heim með sér ef þær væru kynþokkafullar og aðlaðandi, og strákurinn sagði já. Það voru sem sagt bara óaðlaðandi konurnar sem hann hefði ekki áhuga á. Þá var kvenspyrlinum í útvarpinu nóg boðið og sendi frá sér viðeigandi hljóð, og karlspyrillinn sagði við hana: Hvað, ertu að segja mér að ef virkilega aðlaðandi karlmaður kæmi til þín og sýndi þér áhuga, að þú myndir ekki fara heim með honum. Og hún svaraði: Ef þetta væru orðin sem hann segði við mig: "Taktu mig með heim" þá segi ég nei. Ekki séns, alveg sama hversu aðlaðandi hann er.
Kannski er þetta munur á karlmönnum og konum, en kannski er þetta bara munurinn á þessum tveimur. Ég skal ekki segja.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Útsýnið mitt
29.10.2007 | 23:46
Ég ákvað að sýna ykkur myndir sem ég tók út um gluggana í íbúðinni minni. Sú fyrri er tekin í norður, út um stofugluggann og sýnir eitt af stóru skipunum sem liggja alltaf hér út með sundinu. Myndin er reyndar tekin með aðdráttarlinsu - sjórinn er ekki alveg svona nálægt mér, en þetta er samt hluti af útsýninu sem ég hef hér úr stofunni. Alveg dásamlegt skal ég segja ykkur.
Seinni myndin er tekin út um svefnherbergisgluggann í austurátt og sýnir hornið á Sasamat og Sjöundu götu. Hér tekur maður yfirleitt alltaf fram nálægast hvaða horni maður býr. Af því að það hjálpar engum að vita að ég bý á 4521 W 7th ave. En þið sjáið á þessari mynd hversu dásamlegir haustlitirnir eru og ég get sagt ykkur að hverfið mitt, sem er alltaf fallegt, er alveg yndislegt þessa haustdaga.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)