Færsluflokkur: Bloggar
Nefndarfundur
29.8.2007 | 19:58
Eftir fjörtíu og fimm mínútur mun ég funda með nefndinni minni um stöðu mína í náminu. Hingað til hef ég alltaf hlakkað til þessa funda því ég hef staðið mig vel, er á réttum stað í náminu, hef komist inn á þó nokkrar ráðstefnur o.s.frv. Ég hef því fremur fengið hrós en hitt. Nú hef ég aðeins meiri áhyggjur því ég hef ekki gert margt síðan við funduðum í vor. Ég hef reyndar fengið grein birta, sem er gott, en ég hef ekki skrifað eins mikið í ritgerðinni og ég vildi. Nú krosslegg ég því fingur og vona að ég verði ekki skömmuð!!!
Annars er best að ég komi mér upp í skóla. Ég þarf að sækja bók á bókasafnið áður en fundurinn hefst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ljón og krókódílar berjast um bráð
29.8.2007 | 04:24
Þið eruð kannski öll búin að sjá þetta vídeó en ef ske kynni að einhver væri ekki búin að því þá set ég það hér inn. Þarna má sjá ljón ráðast á vatnabuffaló en ekki gengur allt samkvæmt áætlun því þau þurfa að verja bráðina fyrir krókódílum og svo öðrum vatnabuffalóum. Þetta er svolítið langt en vel þess virði að horfa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Styttist í hokkíið.
28.8.2007 | 18:11
Það styttist í að hokkívertíðin hefjist á ný og af því tilefni hef ég breytt aðalmyndinni á blogginu mínu. Fyrsti æfingaleikurinn fer fram 17. september og aðalvertíðin hefst síðan fimmta október. Ég lofa að blogga ekki of mikið um hokkí enda held ég að enginn á Íslandi hafi gaman af því að lesa þau blogg frá mér. En rétt eins og Kanadamenn þurfa að skilja mikilvægi handboltans finnst mér að Íslendingar eigi að fara að sýna hokkíinu aðeins meiri áhuga. Þetta er frábær íþrótt sem skemmtilegt er að fylgjast með. Og ef þið vitið ekki með hvaða liði þið eigið að halda skal ég hjálpa ykkur aðeins: Vancouver Canucks!
(Nei Bjarni, ekki Oilers.)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Frúin taktlausa
28.8.2007 | 17:37
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Á ferð og flugi
27.8.2007 | 23:51
Í sumar keyptu mamma og pabbi sér húsbíl. Þetta var gamall draumur og þau létu sig loks hafa það að fjárfesta í slíku tryllitæki. Daginn eftir að þau keyptu bílinn héldu þau með húsbílaklúbbinum á Vestfirðina og voru þar í eina ellefu daga. Þar rættist annar gamall draumur þeirra. Síðan var það Ásbyrgi og Dalvík og einhverjir fleiri staðir sem ég veit ekkert um, enda hef ég varla heyrt í þeim frá því að þau fengu bílinn. Nú fæ ég bara skilaboð af og til sem segja: Við erum að fara til X, verðum komin eftir Y daga. Nú eru þau að keyra hringveginn og ég frétti af þeim síðast á suðurlandinu. Þau létu sig reyndar hafa það að hringja í mig einu sinni og svo komust þau í tölvu einu sinni þannig að ég veit að þau eru í lagi. Þegar þau voru búin að eiga bílinn í mánuð sagði mamma að þau væru búin að sofa í honum í tuttugu daga af þrjátíu. Ég held að hún hafi verið að ljúga að mér. Ég held að þau sofi alltaf í bílnum. Ég stórefa að þau fari inn í húsið. Reyndar sagði mamma að þegar hún hafi átt afmæli um daginn hafi Gunnar frændi og Etienne sonur hans sofið í bílnum. Ég hef sterkan grun um að þau hafi látið strákunum eftir hjónarúmið og sofið sjálf í húsbílnum.
En svona í alvöru talað, ég er alveg himinlifandi yfir því að þau keyptu þennan bíl. Þau eru búin að ferðast svo mikið síðan og gera svo margt sem þau hefur alltaf langað að gera. Ég er alltaf að segja þeim að ferðast og njóta lífsins. Þau hafa þurft að erfiða alla sína ævi til að koma upp þessum afkvæmum sínum, og nú er sko kominn tími til þess að uppskera.
Bloggar | Breytt 30.8.2007 kl. 04:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Köld nótt og tímaritsgrein
27.8.2007 | 04:58
Það kólnaði ógurlega síðastliðna nótt. Ég vaknaði upp um þrjú leytið og varð að fara í náttföt. Í fyrsta sinn í sumar sem ég hef þurft á því að halda. Vanalega er of heitt til þess að geta verið í slíkum flíkum. Ég þurfti líka að loka glugganum því hann hristist allur í vindinum og hélt fyrir mér vöku. En svo varð dagurinn alveg dásamlegur og hitinn fór yfir 20 stig. Skrítið veður.
Á morgun ætla ég að reyna að vinna við greinina mína. Ó ég var kannski ekki búin að segja ykkur frá því að ég fékk grein samþykkta til birtingar í Nordic Journal of Linguistics. Ég þarf reyndar að laga ýmislegt áður en hún verður birt en samt...alltaf gott að fá birtingu í ritrýndu tímariti (greinar eru sendar í yfirlestur hjá sérfræðingi sem síðan mælir með birtingu eða ekki). Þegar maður sækir um vinnu í háskólum skiptir ekki máli hversu margar greinar maður fær birtar í ráðstefnuritum, það eru ritrýndu tímaritin sem virkilega hafa áhrif.
Ég ætla samt að finna tíma til að klifra og svo þarf ég á fótboltaæfingu. Dagurinn á morgun verður sem sagt fín blanda af íþróttum og málfræði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Garðpartý hjá Sam
26.8.2007 | 17:10
Ég fór í nokkuð merkilegt partý í gær - árlega grillveislu hjá náunga sem heitir Sam. Ég þekki hann ekki neitt en hann er vinur Tonyu og Toby sem eru vinir Ryans og Marion. Þannig er þetta partý einmitt. Sam býður vinum sínum og segir þeim að bjóða sínum vinum og þeim vinum sínum... Tvennt gerir þessa veislu ólíka öðrum sem ég hef farið í.
Í fyrsta lagi var svínakjötið grillað í jörðu. Sam hafði sem sagt grafið holu í jörðina, sett þar brennandi viðarkubba og síðan svínakjöt í járngrind umvafið grænmeti. Síðan mokaði hann yfir og þarna mallaði þetta í marga klukkutíma. Hann var einnig með lambakjöt grillað á venjulegu tunnugrilli. Fólk kom svo með meðlætið, salöt, flögur, kökur...
Í örðu lagi var fólkið þarna ólíkt því fólki sem ég hitti vanalega. Sumir þarna eru miklir áhugamenn um miðaldadót, þið vitið, eins og víkingaliðið sem kemur til Hafnafjarðar á hverju ári. Hér eru mörg slík félög og þessi Sam er í einu slíku(ekki víkingafélagi heldur miðaldafélagi). Ég talaði við nokkra úr þeim félagsskap og þótti náttúrulega stórmerkileg fyrir það eitt að vera Íslendingur. Kannski vegna þess að íslensk sögukennsla hefur undirbúið mann vel undir samræður um landnám og víkinga. Sam vinnur líka sem smiður hjá kvikmyndaverunum hér og ég talaði við nokkra sem hann vinnur með. M.a. hjón sem bæði vinna við kvikmyndir. Hann er smiður og hún sér um að skreyta leikmyndirnar (hengja upp myndir og gluggatjöld o.s.frv.) Þau sögðu að skemmtilegasta myndin sem þau hefðu unnið við hefði verið myndin An unfinished life eftir Lasse Helmström með þeim Robert Redford, Jennifer Lopez, Morgan Freeman og Josh Lucas í aðalhlutverkum. Redfords karakter heitir Einar. Þeim fannst líka merkilegt þegar þau nýlega unnu við mynd með Sissy Spacek í aðalhlutverki. Strákurinn sagðist hafa hugsað: Er hún enn á lífi?
Skemmtilegast var þó að tala við náunga sem heitir Andrew og er gítarsmiður. Hann stofnaði sitt eigið fyrirtæki fyrir tveimur árum eða svo og fór að smíða kassagítara. Það sem er kannski merkilegast við þetta er að hann lærði eðlisverkfræði á sínum tíma og áður en hann fór í smíðarnar vann hann í rúm tíu ár við að búa til forrit fyrir ýmis fyrirtæki. Hann fékk hins vegar leið á því og langaði að gera eitthvað allt annað. Það er ekki oft sem þú hittir þannig fólk - sem hreinlega þorir að breyta svona til og taka áhættu. Hann kunni ekkert að smíða gítar þegar hann tók þessa ákvörðun. Langaði bara að gera það. Frábært. Það minnir mig á stelpu sem ég þekkti þegar ég var á Gamla Garði. Hún var þá í læknanámi. Gerðist síðan læknir, vann við það í nokkur ár og hætti loks og gerðist listamaður. Þetta er fólk sem þorir. Þau eru ekki bara að hætta í einni vinnu og byrja í annarri. Þessi tvö eru búin að eyða mörgum árum í hámenntun, fá svo vel launuð störf með atvinnuöryggi og ákveðinn status, en komast svo að því að kannski er þetta ekki það sem þau vilja gera það sem eftir er ævinnar. Þau eru því tilbúin til þess að hætta fjárhagslega örygginu fyrir listamannslífið sem er þeim meira gefandi en óneitanlega meiri áhætta. Ég hef ekki heyrt nýlega hvernig hefur gengið hjá Margréti, og Andrew segir að ekki sé enn komin nægileg reynsla á fyrirtækið sitt til að vita hvort það muni ganga til framtíðar. Hann er enn að byggja það upp. En ég dáist að svona fólki. Það er eitthvað svo auðvelt að festast í örygginu ef maður öðlast það. Og oft endar fólk á því að vinna allt sitt líf við eitthvað sem því finnst í raun ekkert skemmtilegt, bara af því að það hefur ekki þor, eða getu , til að stefna því öryggi í hættu. Oft er það vegna þess að það er komið með börn og getur því ekki tekið slíka áhættu.
P.S. Gítarinn á myndinni er smíðaður af Andrew.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Ennþá verkfall
24.8.2007 | 17:13
Nú hefur verkfall ruslakarla staðið yfir í 36 daga og ekkert rusl hefur verið sótt á þeim tíma. Borgin hefur gefið leyfi fyrir því að setja rusl í garðtunnurnar (tunnur sér ætlaðar fyrir garðúrgang, eins og hey, greinar, lauf, o.s.sfrv.). Ég gat því hreinsað úr ísskápnum það sem farið var að skemmast og notaði líka tækifærið og keypti ávexti í salat (hafði ekki getað gert það því ég vildi ekki sitja uppi með allt flusið.) Ég hef því ekkert rusl inni í húsinu núna en endurvinnslan hefur safnast upp. Og þetta þarf allt að vera flokkað. Í einu horni eru fimm vikur af dagblaðinu, í öðru annar blaðaúrgangur, í því þriðja dósir, flöskur og þvíumlíkt. Og þetta er ekki stórt eldhús. Mikið hlakka ég til þegar þessu verkfalli lýkur.
Bókasafnsfræðingar eru líka í verkfalli en það hefur svo sem ekki haft nein áhrif á mig enda liggur UBC utan borgarinnar og þar eru bókasafnsverðir við vinnu. Og ég nota aldrei borgarbókasafnið hvort eð er, bara háskólasafnið. Sama má segja um félagsmiðstöðvarnar sem einnig liggja niðri vegna verkfalls borgarstarfsmanna. Eitthvað sem ég nota aldrei.
Það er sem sagt bara ruslið sem hefur áhrif á mig. Var ég annars búin að segja ykkur að stöðumælavörðum var ekki leyft að fara í verkfall. Þeir töldust nauðsynleg þjónusta rétt eins og lögreglan og slökkviliðið. Borgin mátti auðvitað ekki missa af þeim fjármunum sem skapast við ólöglegar lagningar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Komin heim
23.8.2007 | 04:43
Þá er ég komin norður fyrir landamærin á ný. Heim í litlu íbúðina mína. Ferðin heim var tiltölulega róleg en löng. Við lögðum af stað frá Lake Oswego um tuttugu mínútum yfir sjö í morgun og ég var komin heim rétt um hálf sjö í kvöld. Lestarhlutinn var notalega en rútuparturinn tiltölulega pirrandi. Það var fyrst og fremst vegna þess að fyrir framan mig sat ástfangið par sem var stanslaust að kyssast og þau gátu ekki sleikst almennilega - nei, þau þurftu að vera að smella kossum hvort á annað alla leiðina þannig að ég gat ekki sofið fyrir einhverjum bölvuðum kossahljóðum. Og nei, ég er ekki bara öfundsjúk vegna þess að mér fannst strákurinn fremur óspennandi. Þar að auki hefði ég bara kysst almennilega en ekki stundað þetta mömmukossaflens. Og til að bæta gráu ofan á svart þá svaf náunginn fyrir aftan mig megnið af leiðinni og hraut svona ógurlega. Sem sagt, hrotur fyrir aftan, kossar fyrir framan, og ég sem gleymdi iPodnum mínum í hleðslu heima. Og til að toppa söguna kom Rósa kerlingin í heimsókn um miðjan dag, aðeins fyrr en ég hafði búist við, og ég var því ekki alveg nógu vel sett með það sem til þurfti. Og ég sem vanalega er alltaf með slíka aukahluti í bakpokanum.
Síðustu dagar hafa annars verið mjög yndislegir. Á mánudagskvöldið fór ég með Joanne á ToastMasters fund og það var áhugavert. Ég kenndi einu sinni Tjáningu við MA þannig að ég er almennt hlynnt svona klúbbum. Á eftir fórum við út að borða með David sem er svona on-again-off-again kærasti Joanne. Þau eru off-again eins og er en hann hefur verið að hringja í hana upp á síðkastið þannig að hann vill greinilega vera on-again.
Í gær fór ég svo í dýragarðinn með Max og það var alveg stórskemmtilegt. Garðurinn er mjög fallegur og margt skemmtilegt að sjá þarna. Hápunkturinn var án efa oturinn sem við horfðum á dágóða stund. Hann synti sama hringinn aftur og aftur og megnið á bakinu. Eftir nokkra stund lét hann sig fljóta á bakinu og fór að sjúga einhvern fjandann...eitthvað langt, rautt...Guð minn góður, þetta hlýtur að vera draumur allra karlmanna...að geta sogið sitt eigið... Við roðnuðum pínulítið þegar við föttuðum hvað það var sem hann var að totta á og af og til það sem eftir er dagsins hlógum við pínulítið og hugsuðum um oturinn!
Um kvöldið fórum við út að borða með öðrum vini Joanne. Þessi heitir Ken og hann vill líka alveg vera meira en vinur. En hann er of gamall og þar að auki ekki líklegur til að vilja festa ráð sitt. Vinur hans Randy kom með líka - myndarlegur maður en enginn virðist hafa sagt honum að karlmenn eiga alls ekki að vera með yfirvaraskegg. Skil bara ekki þessa áráttu sumra karla. Vita þeir ekki að ef maður er með skegg á það að vera báðum megin við varirnar - ekki bara fyrir ofan, ekki bara fyrir neðan. Ellen og Peter komu líka með. Þau fara allt of sjaldan út eftir að Ellen varð svona veik, en nú er hún búin að fá þennan fína hjólastól og ætti ekki að vera neitt að vandbúnaði. Við þurftum að draga þau með en svo voru þau alveg himinlifandi yfir ferðinni.
En sem sagt, þetta var alveg hin fínasta afslöppunarferð til Oregon og ég þarft að fara aftur á djammið með henni frænku!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 04:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Ekki ástarhandföng
23.8.2007 | 02:51
![]() |
Ástarhandföngin" máð út |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)