Færsluflokkur: Bloggar

Kemur ekki á óvart

Þetta eru engar nýjar fréttir fyrir mér. Annað árið sem ég bjó í Kanada var skoskur náungi í bekknum mínum og hann var einmitt að taka þetta próf. Einn daginn kom hann með prófið sitt í tíma og las yfir bekkinn og í  ljós kom að Kanadamennirnir vissu aðeins svörin við um helmingi spurninganna. Almennt þekkja Kanadamenn sögu og landafræði mjög illa. Á sléttunum var yfirleitt sagt að þekking Torontobúa á vesturhluta landsins væri Vancouver. Þeir vissu ekkert hvað væri þar á milli. Og ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig stendur á því að svo margir vita ekki um stórviðburði í sögu landsins eins og til dæmis sprenginguna í Halifax, FLQ krísuna, Louis Riel, o.s.frv. Svo maður tali nú ekki um heimsviðburði. Einn fyrrum nemandi minn vissi ekki hvaða stórveldi annað en Bandaríkin var aðalleikmaður í kalda stríðinu. Annars er ekkert að marka að svo margir innflytjendur standist prófið því þeir kaupa bók með svörunum í og þurfa bara að læra þau utanað. Það eina sem ekki er í bókinni og þeir þurfa að athuga annars staðar eru breytanlegar staðreyndir eins og til dæmis hver er sitjandi borgarstjóri í borginni þeirra o.s.frv.

Mér sýnist að á myndinni sé þetta CN turninn í Toronto. 


mbl.is Helmingur Kanadamanna of fáfróður til að mega vera Kanadamenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hið stóra svið Rollinganna

Rollingarnir spiluðu hér í haust og á staðnum þar sem ég klifra var auglýst eftir starfsmönnum til þess að setja upp sviðið og taka það niður. Tekið var fram að viðkomandi þyrfti að geta klifrað 5.10c nokkuð þokkalega. Ég get klifrað 5.10c en mér leist ekki á hæðina á sviðinu því ég er óvenju lofthrædd af klifrara að vera. Svo ég sótti ekki um þótt mér hefði ekki veitt af peningnum. Vanalega er mikið öryggi við það að klifra því maður er vel bundinn inn og reipið kyrfilega fest á vegginn/klettinn, en í svona dæmi, þegar verið að er taka niður sviðið, er auðvitað ekkert öruggt. Þarna virðast mennirnir hafa verið bundnir í bita sem féll, og þá þýðir lítið að vera með belti og ólar. Óttalega sorglegt. Ætli þetta hafi verið fastastarfmenn eða klifrarar sem þeir réðu þarna í Madríd?


mbl.is Sviðsmenn Rolling Stones létust af slysförum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ultimate frisbee

Í kvöld prófaði ég nýtt sport, ultimate frisbee (nýtt fyrir mér - ekki nýtt af nálinni). Ég man eftir að hafa kastað frisbee diski þegar ég var tíu eða ellefu ára en annars hef ég alltaf litið á þetta sem hálfgert hundasport. Hér er þetta hins vegar mjög vinsæl íþróttagrein svona á meðal almennings. Reglurnar eru samsafn úr körfubolta, fótbolta og fleiri greinum. Liðið hans Ryans (mannsins hennar Marion) vantaði fleiri stelpur og nú þegar fótboltinn er kominn í frí ákvað ég að skella mér. Það var reyndar skrítið að spila alvöru leik í fyrsta sinn sem maður prófar, en það gekk bara ágætlega. Ég skil reyndar enn ekki almennilega reglurnar og kerfin, og svoleiðis, en ég náði svona því helsta. Ég komst að því að ég er ágætis varnarmaður í þessu því ég náði að komast inn í býsna margar sendingar og kom meira að segja í veg fyrir þó nokkur mörk skoruð. Ég skoraði meira að segja eitt stig sjálf með því að blokkera sendingu og hlaupa svo inn í marksvæðið og grípa diskinn þar. Almennt er ég hins vegar ekki góð í sókn því þótt ég sé góð að grípa og að hlaupa þá kasta ég diskinum mjög illa. Ég þarf að læra köstin betur. Reyndar er alveg hellingur sem ég þarf að læra betur. Þetta er býsna flókinn leikur þegar maður hefur aldrei spilað hann áður.

Við töpuðum fyrri leiknum 11-7 (leikið er til 11) en síðari leikurinn var varla leikinn nema í tíu mínútur eða svo því svo varð slys. Einn strákurinn úr okkar liði féll illa á öxlina sem fór úr lið, og jafnvel eitthvað verra. Við urðum að hringja á sjúkrabíl og enginn þorði að hreyfa hann því hann var að drepast úr sársauka, og þar að auki fann hann ekki lengur fyrir handleggnum á sér. Það tók sjúkrabílinn óra tíma að koma þannig að leiknum var að lokum frestað. Þarna lá greyið í grasinu, í mígandi rigningu, sárkvalinn, og ekkert hægt að gera. Við hrúguðum yfirhöfnum yfir hann, settum föt undir höfuðið, ein stelpan hélt í höndina á honum til að halda handleggnum á sínum stað og annar studdi við. Svo þurfti að skipuleggja hvað ætti að gera við bílinn hans, hver færi með honum á spítalann o.s.frv. Sjúkrabíllinn kom að lokum og handleggurinn var skoðaður vel, og síðan var stráknum gefið hláturgas svo hann fyndi ekki eins mikið til þegar þeir færðu hann. Ég vona bara að þetta hafi ekki verið of alvarlegt, en það er alltaf slæmt að fara úr axlarlið. Stundum er víst eins og öxlin fari stanslaust úr lið eftir að það gerist í fyrsta sinn. Vona að hann sleppi betur en svo. Það var gott að fara í heitt bað þegar ég kom heim enda búin að vera úti í mígandi rigningunni þá í um fjóra tíma og allt gegnblautt.


Morgunverðurinn - mikilvægasta máltíð dagsins

Eins og þið hafið kannski tekið eftir þá þykir mér ákaflega gaman að skrifa um mat og hugsa um mat. Það er að hluta til vegna þess að ég hugsa mikið um hvað getur verið bæði hollt (og grennandi) og gott á sama tíma. 

Morgunmatur er líklega sú máltíð sem mér hefur alltaf fundist ein svo allra vandasamasta. Ég ólst upp við það að borða oft hafragraut á morgnana og ein af erfiðustu æskuminningunum er þessi:

Ég vakna upp í svarta myrkri við ódauninn af hafragrautnum og hljóðið frá morgunleikfimi útvarpsins. Úff, ég skelf við tilhugsunina.

Ég hef stundum borðað hafragraut eftir að ég varð fullorðin og það er helst að ég geti komið honum ofan í mig með því að setja mikið af púðursykri útá. Einu sinni sagði mamma mér frá því að afi hefði verið hrifin af því að setja sykur á hafragrautinn sinn. Henni fannst það ógeðsleg tilhugsun enda borðuðum við alltaf saltaðan graut. Ég hugsa um það núna hversu vitlaus ég var að fara ekki þá strax og prófa aðferðina hans afa. Það hefði gert lífið mun auðveldara.

En það var ekki alltaf hafragrautur í morgunverð. Stundum fengum við smurt brauð, eða morgunkorn— vanalega Cherioos eða Corn flakes (seríus og korn flex) en stundum um helgar Cocoa puffs eða Trix, þegar það fékkst ennþá. 

(Útúrdúr: Þegar ég fór til Bandaríkjanna í fyrsta skiptið, árið 1994, hlakkaði ég mest af öllu til þess að fara út í búð og kaupa pakka af Trix, sem ég og samviskusamlega gerði. Það var alveg jafngott og ég mundi, þótt ég væri komin yfir tvítugt, en nú kaupi ég samt aldrei Trix. Kannski kom að því að ég fullorðnaðist.) 

Núna samanstendur morgunverðurinn vanalega af hálfri beyglu með smjöri eða smurosti, kaffi, morgunverdurfullri skál af ávöxtum og ef ég nenni, soðnu eggi (það er til að fá smá prótín með). Saman með dagblaði dagsins skapar þetta ákaflega þægilega morgunstund. Þetta sælgæti má sjá á meðfylgjandi mynd. Annars þykir mér líka ákaflega gott að fara eitthvert út á laugardags eða sunnudagsmorgni og fá mér

Hvað finnst ykkur best að borða á morgnana.


Dásemdarmatur á borðstólum

Við Marion komum við á Granville island í gær eftir klettaklifrið. Granville island er risastór markaður þar sem má kaupa ferska ávexti og grænmeti, nýjan fisk, kjöt, brauð og allt sem mann dettur í hug, eða sama sem. Sá ég þá ekki mér til mikillar gleði að fíkjur eru orðnar þroskaðar og komnar í sölu. Mmmmmm....fíkjur! Á Íslandi fékk ég aldrei svoleiðis gúmmulaði (bara þurrkaðar) og í Manitoba var hægt að kaupa þær í sirka þrjár vikur í kringum mánaðamótin júlí-ágúst. Hér koma þær fyrr og fást lengur. Ég keypti dollu af fíkjum, bungt af grænum baunum og poka af mandarínum—já, það er hægt að fá mandarínur núna þótt engin séu jólin, og það góðar mandarínur. Ótrúlegt. Í dag fór ég svo út í ítalska delíið hér á tíunda stræti og keypti alvöru ítalskt procuttio (svipað og hráskinka), rosemary/hvítlauksbrauð og svolítið af ólífu-tapanade. Stoppaði svo í súkkulaðibúð á leiðinni heim og keypti pínulítið af súkkulaðihúðuðum appelsínuberki og einn mola með banönum og hvítu súkkulaði ganache. Mmmm, þetta ætti að vera góður síðbúinn hádegisverður. Ég vef svo procuttioinu utan um fíkjurnar (líka gott með hunangsmelónu), ólífurnar fara ofan á brauðið og ásamt súkkulaðinu fer þetta allt saman í munninn á mér.

Nú, ég varð að gera eitthvað. Á þessari stundu eru vinir mínir Rosemary og Doug í mat hjá mömmu og pabba og ég giska á að þau séu annað hvort að borða nýtt lambalæri eða hangikjöt.  Ég þarf að forðast heimþrá.


Bloggperri?

Ég virðist hafa misst af miklum fréttum undanfarið. Eyddi svolitlum tíma í morgun við það að lesa blogg bloggfélaga og fór svo þaðan inn á blogg bloggfélaga bloggfélaganna (er þetta flókið?). Komst að eftirfarandi: Mogginn lokaði á blogg Emils nokkurs fyrir hversu dónalegur hann var (ég las bloggið hans einu sinni og langaði ekki að lesa meira) og þó virðist hann hafa verið orðinn geysilega vinsæll. Ókei, ég er enn með á nótunum. En svo fóru málin að flækjast. Emil þessi á að hafa tengst einhverjum að nafni Elías Halldórs sem virðist einhver perri. Hér hef ég greinilega dottið út. Ég man ekkert eftir að hafa heyrt um þennan mann. Barnaklám! Eitthvað í sambandi við Barnaland! Ég gúglaði Elías Halldórsson og þegar ég fékk ekkert á fyrstu síðunni bætti ég við 'perri' en það skilaði litlu gagnlegu. Nógu  margir virðast vera að ræða þetta í bloggheimum en einhvern veginn náði ég ekki að setja saman söguna almennilega. Getur einhver upplýst mig?

Midsommarfest

Á sunnudaginn fór ég á Midsommarfest í Burnaby. ég hefði reyndar átt að fara á laugardeginum þar sem meira var um að vera. Þá var maístöngin reist og dansað í kringum hana og þvíumlíkt, en ég ætlaði að hitta þar Juliönnu, manninn hennar og mömmu, sem var í heimsókn hjá þeim þessa helgi. Við höfðum talað um að hittast þar um eitt leytið.

Það voru hins vegar hátíðir út um allan bæ, þar á meðal grísk hátíð í gríska hverfinu sem lokaði strætóleiðinni og útúrdúrinn og öll umferðateppan á veginum seinkaði strætó um tuttugu mínútur. Það þýddi að ég þurfti að taka mun seinni lest en ætlað var og missti því auðvitað af strætó í Burnby og varð að taka mun seinni vagn. Ég hringdi því í Juliönnu um eitt leytið svo hún vissi að ég sæti og biði eftir strætó. En hvar náði ég henni? Heima hjá sér.....í Suður fokkíng Surrey. Það er alla vega fjörutíu mínútna ferð fyrir hana til Burnaby. Hún sagðist hafa gleymt því að maðurinn sinn væri með nemanda í aukatíma. Það var ekki mikið verið að hringja í mig og láta mig vita að þau yrðu svona sein. Ég mætti því ein á svæðið og þekkti næstum engan. Hitti reyndar Irene í Íslandsbásnum og svo Óla Leifs sem var að fara heim. Ég vafraði því um ein, settist svo niður með roast beef snittu...ein. Löngu seinna kom ég aftur að Íslandsbásnum og þar var Julianna. Ég skammaði hana fyrir að hafa ekki hringt í mig þegar hún kom á svæðið - svona af því að við ætluðum nú að hittast þarna. Hún sagðist vera nýkomin - væri varla búin að vera þarna nema í um hálftíma. HÁLFTÍMA. Ég var þá búin að vera þarna ein í næstum tvo tíma. Ég þarf ekki að taka það fram að ég fór í fýlu. Lágmark að láta mann vita þegar plön fara út um þúfur - sérstaklega þegar allir hafa síma. 

Um hálffjögur var farið að taka saman og ég hjálpaði við að pakka dóti niður í kassa og bera það út í bílinn hans Joe, sem er sonur Ninu Jobin. Hann er alveg ótrúlega líkur Bjarna móðurbróður sínum (Tryggvasyni - geimfara). Ég nefndi það við Juliönnu eftir á (þegar mér var runnin reiðin að mestu) og hún var alveg sammála. Sömu andlitsdrættirnir, sama brúna hárið. Algjörar dúllur báðir tveir. Trúi því ekki að Bjarni sé kominn um sextugt. 

Það minnir mig reyndar á alveg ótrúlega skemmtilegan útvarpsþátt sem ég hlustaði á fyrir nokkrum árum. Þar var viðtal við Svavar heitinn Tryggvason, pabba Bjarna og Ninu, og hélt hann þrumandi ræður yfir útvarpsmanni. Sérstaklega var hann stórorður um Vestur Íslendinga og sjávarútveg. Ég kynntist Svavar eftir að ég flutti hingað til Vancouver og við áttum oft langt tal saman á samkomum í Íslandshúsi. Hann fylgdist greinilega vel með því sem gerðist á föðurlandinu og skammaðist mikið yfir stjórnvöldum. Var alveg sannfærður um að Davíð og hans gengi væru að ganga algjörlega frá landinu. Stundum var honum svo mikið um að maturinn skyrptist út úr honum og þá var betra að sitja ekki of nærri. Það var alltaf gaman að tala við Svavar og hans er sárt saknað. 


Gamla myndin (úr Nolli)

 björnogannameðsigguogömmu

Gamla myndin að þessu sinni er líklega ein af elstu myndunum sem til eru hjá mömmu og pabba og er að öllum líkindum tekin snemma á árinu 1906. Á myndinni má sjá Björn langafa minn og Önnu langömmu mína með elstu dætur sínar tvær. Ég veit ekki hver stúlkan er sem stendur að baki þeim. Amma Stína, á fyrsta árinu, situr í fangi móður sinnar en Sigga í fangi föður síns. 

Fyrir þá sem hafa ættfræðiáhuga mun ég nú gefa aðeins betri upplýsingar.

Langafi minn, Björn Jóhannesson var fæddur á Nolli í Grýtubakkarhreppi, Suður-Þingeyjarsýslu þann 1. febrúar 1877 og kona hans Anna Pálsdóttir fæddist í Hrísey 14. mars 1883. Ef það er rétt hjá mér að þessi mynd sé tekin 1906 þá eru þau hjú sem sagt 29 og 23 ára á myndinni. Sigríður Þóra Björnsdóttir fæddist á Nolli 2. nóvember 1903 og amma, Kristín Björnsdóttir fæddist tæpum tveimur árum síðar, 6, október 1905.  Þar á eftir komu svo Jóhannes Kristján, Guðbjörg, Hólmfríður, Snæbjörn og Ingibjörg (eða Jói, Bogga, Fríða, Snæbjörn og Inga eins og amma kallaði þau). Björn og Anna, svo og börn þeirra sjö mynduðu svo Nollarættina svokölluðu. 

Amma talaði stundum við mig um móður sína. Hún hafði þetta svarta krullaða hár sem ömmu fannst það fallegasta í heimi. Hún sagðist alltaf hafa öfundað móður sína af hárinu. Og langamma var líka duglegust allra. Hún var alltaf að vinna. Þegar amma vaknaði var matur á borðum og mamma hennar á fullu, og þegar allir voru farnir að sofa þá var langamma enn að. Það er svolítið skemmtilegt að löngu seinna lýsti pabbi móður sinni á nákvæmlega sama hátt. Þannig að þótt amma hafi ekki fengið hárið frá móður sinni þá fékk hún greinilega dugnaðinn þaðan.

Ég vildi óska að ég hefði skrifað niður sögurnar sem afi og ömmur mínar sögðu mér. Það er svo hræðilegt að hugsa til þess að minningar þeirra skuli meira og minna allar glataðar.

 

 


Að skilgreina íslenska tungu

Ég var að skemmta mér á Vísindavefnum (http://www.visindavefur.hi.is/) og fann þar þessa skemmtilegu spurningu: Hvernig er hægt að skilgreina íslenska tungu? Eiríkur Rögnvaldsson, vinur minn og fyrrum aðalleiðbeinandi (ég skrifaði bæði BA og MA ritgerð hjá honum) gefur ítarlegt og skemmtilegt svar sem sýnir hversu flókin þessi spurning er í raun og veru. Eða kannski öllu heldur hversu flókið svarið við henni er. 

Þetta minnir mig á sögu sem mér var sögð í einhverri kennslustund í HÍ. Þegar Skánn var hluti af Danmörku sáu Skánarbúar sig sem Dani og litu á tungumálið sitt sem danska tungu. Aðeins einni kynslóð eftir að landsvæðið varð hluti af Svíþjóð fóru Skánverjar að sjá sig sem Svía og tungu sína sem sænsku—og þó hafði tungan breyst ótrúlega lítið á þessum stutta tíma. Þar var það sem sagt stjórnmálaleg staða svæðisins sem skilgreindi tungumálið. Merkilegt.   


Tré og kryddjurtir

Þetta leiðindarveður sem hefur verið hér það sem af er sumri hefur haft góð áhrif á gróðurinn. Í dag tók ég eftir því að eplin á eplatrénu okkar eru farin að vaxa og eru nú á stærð við jarðaber. Kryddplönturnar (steinselja, chives, marjoram, ofl.) dafna vel og uppáhaldið  mitt, lavander, er komið á gott skrið. Mest hlakka ég til þess að brómberin verði tilbúin en það verður ekki fyrr en í seinni hluta júlí eða ágúst. Við munum væntanlega ekki fá neinar perur í ár því í haust var perutréð okkar skorið niður um helming (enda eiga þau víst ekki að vera of há) og það sjokkerar alltaf tréð svo enginn ávextur vex árið á eftir. Þetta gerðist einmitt í hittifyrra þegar stormur braut eina greinina af. Trégreyið þurfti á áfallahjálp að halda og við fengum engar perur það árið. Ég ætla að koma mér upp basilplöntu (andskotansplöntunni hennar Stínu eins og Geiri bróðir kallaði hana hér um árið) og kannski einhverju fleiru. Það munar miklu að geta gripið kryddin beint af plöntunni í stað þess að borga himinhátt fé fyrir þær í búðinni (og henda svo því sem maður ekki notar).

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband