Færsluflokkur: Bloggar

Um vit og fegurð!

Bull og þvæla. Ég á þrjá eldri bræður og það eina sem þeir hafa kennt mér er að fara með dónalegar vísur. Stórefa að  þeir hafi orðið greindir af því. 

Þessir þrír voru reyndar oft látnir passa mig þegar ég var lítil og mamma sagði mér að í raun hafi það bara verið Geiri sem bar ábyrgðina (sá í miðjunni). Haukur (sá elsti) var of latur, og Gunni (sá yngsti) var of mikið fiðrildi. Grey miðjubarnið varð því að skipta um bleyju á litlu systur, mata hana, leika við hana og sinna á allan hátt - aleinn. Hann hefur örugglega orðið greindur af því - alla vega góður pabbi. Reyndar sagði hann við mig oft og mörgum sinnum þegar ég var unglingur að ég hefði verið ofsalega skemmtilegt barn — þar til ég byrjaði að tala. 

Annars man ég eftir tvíburasystrum sem útskrifuðust frá MA nokkrum árum á undan mér. Þegar önnur þeirra dúxaði sagði hin: Já, hún systir mín fékk vitið en ég fékk fegurðina!!! Spurningin er, hvor fæddist á undan? 


mbl.is Elsta systkinið gáfaðast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flughræðsla eða drykkja

Það kom ekki fram hvað fékk þennan mannræfil til að láta svona. Varð hann svona ógurlega hræddur eða var hann fullur?

Ég var einu sinni færð upp á Saga class á leið til Minneapolis eftir að of margir miðar höfðu verið seldir í vélina. Þetta var hin notalegasta reynsla þar sem ég fékk alls kyns fínerí, dvd spilara með fjölda mynda, matseðil til að velja af o.s.frv. Það sem sjokkeraði mig mest var allt áfengið sem boðið var uppá. Flugfreyjurnar voru stanslaust að koma og bjóða upp á vín, bjór, og enn sterkari drykki. Ég þáði smá kampavín í upphafi ferðar en lét áfengið að öðru leyti eiga sig, enda ekki mikið fyrir drykkju. Mér var mun sjaldnar boðið upp á vatn eða gosdrykki en hinu fólkinu var boðið áfengi. Enda var það svo að eftir nokkra tíma flug var einn karlinn orðinn svo drukkinn að hann ákvað að fara bara heim og tilkynnti að hann ætlaði að stökkva út úr vélinni. Hann lagði af stað að dyrunum en tvær eða þrjár flugfreyjur náðu að koma honum í sæti sitt og róa hann. Fljótlega eftir það sofnaði kauði og voru ekki frekari vandræði af honum. En mér fannst þetta merkilegt því að að mínu mati skapaði starfsfólkið þessar aðstæður. Áfengið flaut til hans alla leiðina. Ég hafði alltaf haldið að flugfreyjurnar neituðu að bera áfengi til farþega sem væru orðnir drukknir en þannig var það ekki í þessari ferð. 


mbl.is Óður farþegi reyndi að opna neyðarútgang á flugi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útbitin

Ég er útbitin af moskítum og mig klæjar ógurlega. Hugsið ykkur, það er enn til fólk sem heldur því fram að það séu engar moskítur í Bresku Kólumbíu! Ég hlæ að þeim. Þær eru kannski ekki eins margar og í Manitoba en alveg nóg samt. 

Ástæða þess að  ég er útbitin er sú að við lékum fótbolta óvenjuseint í gær. Leikurinn hófst klukkan hálfníu á upplýstum gervigrasvelli í Burnaby. Við spiluðum á móti North Shore Saints, sem eru efsta liðið í deildinni. Við spiluðum við þær fyrsta leik sumarsins og töpuðum 5-0. Ég veit ekki af hverju við þurftum að leika á móti þeim aftur. Þetta er eina liðið sem við spilum gegn tvisvar í sumar og það þurfti að vera besta liðið. Annars stóðum við alveg í þeim. Þær skoruðu mark á síðustu mínútu fyrri hálfleiks eftir eitthvert moð í vítateignum okkar...algjör klaufaskapur af okkar hálfu. Þær bættu síðan við einu marki undir lok leiksins og unnu því 2-0. Það er minnsti sigur þeirra í sumar. Þær hafa unnið hvert einasta lið með alla vega þremur mörkum þar til nú. Við vorum almennt frekar ánægðar með leik okkar. Það er allt annað að sjá okkur nú en í fyrsta leik sumarsins þar sem við þekktum ekkert hver inn á aðra, enda gengu einar fjórar nýjar stelpur í liðið þá. Nú er bara að vona að við höldum þessum mannskap í haust.

Og nú ætla ég að fara og maka á mig kremi svo ég klóri ekki bitin. Ég losna fyrr við þau ef ég klóra ekki.

Annars er þetta ekkert miðað við fyrstu bitin mín eftir að ég flutti til Kanada. Ég stóð fimm mínútur undir tré og fletti upp á fugli í fuglabók. Að fimm mínútum loknum var ég búin að greina fuglinn (Chickadee) og var komin með 46 bit á leggina. 


Íslendingar í öðru landi

Þjóðhátíðardagurinn var haldinn hátíðlegur í Maple Ridge á sunnudaginn. Maple Ridge er svona Hafnafjörður, nágranni nágrannaborga Vancouver. Til að komast þangað frá Vancouver þarf að keyra til Burnaby, þaðan til Coquitlam, svo til Port Coquitlam, Pitt Meadows og þá loksins kemst maður til Maple Ridge. Þetta er svona einn til einn og hálfur klukkutíma - fer eftir umferð.

Ég hafði verið beðin um að fara fyrst niður í bæ og hitta þar Jónas Þór og kóra úr Borgarfirði sem hann var með á söngferðalagi um vesturströndina. Ég taldi mig nú ekki besta leiðsögumanninn þar sem ég ætti engan bíl, færi aldrei til Maple Ridge og vissi ekki um neitt áhugavert á leiðinni þangað. Efaðist um að Íslendingum þætti spennandi að sjá IKEA, þótt mér þyki alltaf gaman að koma þangað. En ég gerði þetta nú samt. Hópurinn gisti á Holiday Inn á Howe street í miðbænum og þar hitti ég fólki á slaginu tólf. Þá voru allir tilbúnir til að fara upp í rúturnar. Planið hafði verið að stoppa á Burnaby fjalli þar sem er fagurt útsýni yfir borgirnar en það var svo þungskýjað að ég taldi ekki miklar líkur á útsýni. Í staðinn fórum við smá hring í kringum Stanley Park og stoppuðum við Totem súlurnar í garðinum. Þar tók hinn sameiginleg kór eitt lag við hrifningu ferðamanna sem þarna voru. Þaðan lá svo leiðin í gegnum austurhluta Vancouver og svo í gegnum fyrrnefndar borgir. Ég reyndi að benda á það sem spennandi var á leiðinni og segja svolítið frá hinu og þessu.  

BorgarfjardarkorarBílstjórinn var frá Seattle og þekkti svæðið því lítið betur en ég. Hann hafði hins vegar keyrt þangað nokkrum sinnum með hokkílið þannig að hann var nokkuð öruggur á leiðinni þótt hann þekkti ekki áfangastaðinn. Við vorum með útprent frá yahoo maps en viltumst samkvæmt þeim upplýsingum. Sem betur fer var ég líka með upplýsingar frá Naomi og samkvæmt þeim vorum við á réttu róli. Við viltumst því aldrei út af leiðinni þótt um stund hafi ég haldið það. Ég hringdi reyndar í Maggý til að sjá hvort hún þekkti svæðið og hún hló eins og vitleysingur þegar hún heyrði að ég var ekki bara einhvers staðar ein að villast heldur með tvær rútur með mér. Reyndar kom í ljós að næstum allir villtust á leiðinni, og það verr en við. Þannig að þetta var ekki svo slæmt.

Kórinn (ég held þetta hafi verið þrír kórar slegnir saman í einn) var geysilega góður. Lagavalið var skemmtilegt en á sama tíma hátíðlegt, einsöngvararnir þeirra voru góðir og þegar þau tóku Í fjarlægð táraðist ég alveg. á eftir var borðað í einhverja klukkutíma. Yrsa litla hans Gunnars var í miklu stuði og þegar foreldrar hennar voru að fara tilkynnti hún að hún ætlaði ekki með - hún ætlaði að vera eftir hjá mér. Pabbi hennar sagði að þau yrðu bara að fá mig í heimsókn, bjóða mér í mat. Já, Yrsu leist vel á það og svo sagði hún: Komdu, komdu nú. Hún fór í heilmikla fýlu þegar henni var sagt að  ég kæmi ekki núna heldur seinna.

Ég spjallaði við fjölda Íslendinga og fannst mjög fyndið þegar mér var alla vega tvisvar sinnum sagt að ég væri alveg geysigóð í íslensku. Ég varð að segja þeim að það væri kannski ekki skrítið - ég væri Íslendingur. En það sýnir kannski hversu vön þau voru orðin að heyra í Vestur Íslendingum talandi fullkomna íslensku. Eða að ég er orðin svo slæm í móðurmálinu að ég hljóma eins og útlendingur sem er óvenjugóður í málinu. Ég var bara fegin að enginn sagði mér að ég talaði næstum jafnvel og innfæddur Íslendingur.  

Ferðin til baka gekk vel og klukkan var ekki orðin of margt þegar ég var komin heim. Það eina sem vantaði var að syngja Hæ hó jibbíjei, ég hefði átt að gera það.  


Hver er raunveruleikinn í réttarfarskerfinu?

Veit einhver hvort svona venjulegt fólk hefur aðgang að upplýsingum um þá dóma sem falla í hverju máli á Íslandi? Af þeim fréttum sem við fáum að dæma eru dómar fyrir kynferðisafbrot skammarlega stuttir, sérstaklega ef miðað er við auðgunar- og fíkniefnaglæpi. Ég vildi gjarnan fá að vita hvort þetta er rétt tilfinning hjá mér (og hjá öðrum því ég er ekki ein um þessa skoðun). Ef þetta er rétt, þá vildi ég líka fá að vita hvað er hægt að gera til þess að breyta þessu. Á hvern þarf að ýta? Hverjum þurfum við að koma í skilning um hversu alvarlegir svona glæpir eru? 
mbl.is Tveggja ára fangelsi fyrir nauðgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innilega til hamingju með daginn öll sömun

Til hamingju með daginn elskurnar mínar. Vona að 17. júní sé hlýr, þurr og góður á Íslandi. Það er alltaf svo gaman að fara niður í bæ og hitta fólk og sjá allt það sem um er að vera.

Ég fer bráðum niður í bæ til að hitta íslenskan kór sem er hér í bæ og ég ætla að keyra með þeim yfir í Maple Ridge (sem er svona Hafnafjörður). Þá get ég bæði sagt þeim frá því sem merkilegt er á leiðinni og fengið far að auki.

Segi ykkur kannski frá deginum í kvöld eða á morgun.

Get varla trúað því að í dag sé ár liðið frá því ég djammaði með Íslendingum í Ottawa. Auður, það var nú meiri dagurinn!  

Í dag eru líka liðin átján ár síðan ég útskrifaðist úr MA. Ótrúlegt!!! 

Og nú ætla ég að syngja: Hæ hó jibbíjey og jibbí-í-ey, það er kominn sautjándi júní...


Að sinna vinnu sinni

Það sem mér finnst yfirleitt verst við veitingu fálkaorðunnar er að flestir sem fá hana eru einfaldlega að sinna vinnu sinni. Þeir fá borgað fyrir allt sem þeir gera. Og eðli vinnunnar vegna taka stjórnvöld eftir því. Pabbi minn var frábær trésmiður sem sinnti sinni vinnu eins vel og hægt var að búast við, og betur, en aldrei hefur hann fengið fálkaorðu. Og þó held ég að hann hafi lagt heilmikið til íslenskra skipasmíða. Ég hef haft kennara sem höfðu meiri áhrif á mig en flestir aðrir og sem lögðu grunninn að menntalífi hundruða ef ekki þúsunda ungmenna sem lærðu hjá þeim. Enginn þeirra hefur fengið fálkaorðu. Af hverju fær fólk í sumum stéttum fálkaorðu fyrir að sinna vinnu sinni vel en aðrir, sem sinna sinni vinnu alveg jafn vel, fá enga slíka viðurkenningu?

Hvers vegna er þessi orða ekki veitt fólki sem leggur sig fram um að gera Ísland betra í sínum frítíma? Fólk sem gerir það áhuga síns vegna, ekki vegna þess að það fær borgað fyrir það?

Og nú er ég ekki að segja að þarna á listanum sé ekki fólk sem á þessa orðu skilda, því sjálfsagt hafa sumir lagt sig fram umfram vinnuskyldu, en oftast er það nú þannig að fólk hefur atvinnu að því að gera það sem það fær viðurkenninguna fyrir.Ég er til dæmis mjög ánægð með að sjá að Guðrún Kvaran skuli hafa fengið orðuna enda hefur hún gert mikið til verndurar íslenskri tungu. Og þarna eru ábyggilega aðrir sem einng hafa farið nokkra aukakílómetra til að láta gott af sér leiða.

Fyrir nokkrum árum fékk fjöldi Vestur Íslendinga fálkaorðuna. Þau áttu öll skilið að fá hana því allt var þetta fólk eyddi stórum hluta af frítíma sínum í það að kynna Ísland, kynna íslenska menningu, og að halda saman því þjóðarbroti sem fluttist vestur um haf. Þar má nefna t.d. fyrrverandi konsúl í Gimli, Neil Bardal sem lagði alveg ótrúlega vinnu í allt sem íslenskt var og var alltaf til staðar til að hjálpa við hvaðeina sem uppá kom. Þarna má líka nefna skurðlækninn Ken Thorlaksson sem nú hefur verið formaður þriggja fjáröflunarnefnda sem hafa staðið að því að byggja upp íslenskudeildina við Manitóbaháskóla, bókasafnið, ofl. Enginn þeirra sem fékk orðuna þarna vestra hafði atvinnu af því að kynna Ísland og vestur íslenskt samfélag. Þau gerðu það einfaldlega af því að þau elska landið, þau eru stolt af uppruna sínum og þau vilja allt til gera til þess að þessi tengsl haldist áfram. 

Svoleiðis fólk á að fá Fálkaorðuna.  


mbl.is Fálkaorðan veitt á Bessastöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég hef lent í þessu

Þegar ég var fimm eða sex ára fór ég, ásamt foreldrum mínum og bróður, í gullbrúðkaup afabróður míns og konu hans. Þetta var alveg risastór veisla með fjölmörgum þjónum, mat og flotteríi. Einn þjónanna kom að borðinu okkar og spurði hvað við vildum drekka. Við Gunni bróðir vildum kók. Eftir svolitla stund kom þjónn með kók, ekki sá sem tók við pöntuninni heldur annar, og ég saup á, enda fékk ég ekki oft svoleiðis dýrindisveitingar. En um leið og ég fékk vökvann upp í mig hryllti mér við og ég lýsti því yfir að þetta væri ógeðslegt kók. Gunni smakkaði sitt og tilkynnti að þetta væri brennivín. Hann var tólf ára og hefur varla haft mikla reynslu af áfengi (annars veit ég aldrei) en sjálfsagt var þetta ekki brennivín. En áfengi var það. Börnunum, fimm ára og tólf ára var sem sagt færð einhver áfengisblanda í afmælinu. Þjónninn margbaðst afsökunar á þessu og sagðist hafa gripið þessi tvö glös í þeirri trú að þarna væri kók en ekki eitthvað síður barnvænt. 

Þetta sem gerðist þarna á Applebees er því alls ekkert einsdæmi. 


mbl.is Tveggja ára gamalt barn fékk áfengi í stað eplasafa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Matardagur

Þetta hefur nú verið meiri matardagurinn. Planið var að hitta Juliönnu klukkan tíu yfir bröns og ég stillti klukkuna á níu. Ég er búin að vera eitthvað svo þreytt undanfarið að ég vildi sofa frameftir og svo bara fara í sturtu og uppí strætó. Þá væri ég heldur ekki orðin of svöng áður en ég borðaði.

Julianna hringdi hins vegar klukkan hálfníu til að láta mig vita að nú kæmist ekki fyrr en ellefu. Þetta þýddi bæði að hún vakti mig upp af draumum og skildi mig svo eftir með tvö tíma fram að matnum. Það er ekki séns að ég geti gert nokkuð skapaðan hlut á fastandi maga í tvo klukkutíma þannig að ég neyddist til að fá mér morgunverð.

Svo hálfsofin fór ég út á stétt að sækja blaðið (já, þeim er hent að húsinu eins og í amerísku bíómyndunum) og þar sem ég stend þarna á stéttinni, á náttfötunum, með blaðið í hendinni er kallað til mín: Góðan daginn (reyndar var það Good morning en þið vitið hvað ég meina). Þarna stóð þá einn af vinnumönnunum við hliðina. Ég hélt þeir ættu ekki að vinna á laugardögum en það var greinilega ekki rétt. Ég var bara fegin að ég var í náttbuxum því það hefur komið fyrir að ég hef hlaupið út á brókinni ef þannig liggur á mér.

Ég hitti Juliönnu klukkan hálfellefu á Sophie's, vinsælum morgunverðarstað. Þar var biðröð út úr dyrum en við fengum fljótt borð og ég hámaði í mig Eggs Benedict, enda hafði ég passað mig á að borða ekki of stóran morgunverð tveimur tímum áður. Eggs Benedict er svoooooooo gott. Eftir matinn fórum við aðeins niður í bæ en Julianna þurfti svo í hárgreiðslu en ég labbaði um þar til ég þurfti að hitta nokkrar stelpnanna úr fótboltanum. Við höfðum ákveðið að fara og hlaupa saman.

Ég hitti þær klukkan hálftvö og við vorum fimm sem enduðum á að hlaupa saman sex kílómetra. Við hlupum rólega, mun hægar en ég hleyp þegar ég er ein, en þetta var auðvitað mun skemmtilegra. Þar að auki hlupum við í Stanley Park og þar er alltaf fallegt. Eftirá vildu stelpurnar hins vegar fara út að borða. Mér fannst ég ennþá pakksödd en þó voru liðnir fjórir tímar frá því að ég borðaði. Svo ég ákvað að fara með þeim, enda það mun skemmtilegra en að láta sér leiðast heima. Sherry þurfti reyndar að fara heim að undirbúa afmæliskvöldferð en ég Kirsten, Leah og Katie fórum í leit að mat. Hlaupabúðin þar sem við hittumst, The Running Room, er á Denman, rétt hjá Stanley Park og þar er nóg af góðum matsölustöðum svo við skelltum okkur á stað sem heitir Joe's, og sátum þar þangað til rúmlega fjögur. Það var alveg súper. 

Núna er svo rólegt kvöld framundan. Ef það er eitthvað gott í sjónvarpinu þá held ég að ég sitji bara fyrir framan imbann, en það er líka hugsanlegt að ég reyni að læra eitthvað, nú eða kannski ég fari út og sparki bolta. Ég þarf að æfa tæknilegu atriðin betur. En mér ætti alla vega ekki að leiðast hvað sem ég geri. 


VISA-svindl

Þegar ég kom heim frá Íslandi eftir jólin voru skilaboð á símsvaranum mínum um að samningur minn við VISA væri að renna út og ég yrði að tala við þá til þess að halda áfram að hafa sömu lágu vextina á kortinu. Átti ég að ýta á 9 til að tala við starfsmann þeirra. Ég hunsaði þetta enda nóg að gera eftir heimferðina og ég nennti ekki að eiga við VISA. Þar að auki fannst mér þetta lykta eitthvað illa.

Um tveimur mánuðum síðar fékk ég aftur sama símtal og enn á símsvarann. Ég átti fund með bankafulltrúanum mínum stuttu seinna svo ég nefndi þetta við hana og hún hringdi fyrir mig í VISA deildina þeirra en þeir könnuðust ekki við neitt. Sögðu að ég skuldaði þeim svolítið en þeir höfðu ekki hringt í mig.

Núna áðan fékk ég enn eina hringinguna svo ég ákvað að gera eitthvað í málinu. Ekki að tala við þá auðvitað enda var ég orðin viss um að  þarna væri maðkur í mjölinu, heldur hringdi ég beint í VISA deildina hjá CIBC og sagði þeim frá þessum símtölum. Ég var spurð að því hvort ég hefði gefið þeim upp vísanúmerið mitt. Ég sagðist aldrei hafa talað við þá, bara lagt á. Konan sem ég talaði við sagði að það væri gott því þau vissu af þessu og  málið væri í rannsókn. Þetta var sem sagt kortasvindl eins og mig grunaði. Það eina sem ég get gert er að halda áfram að leggja á þegar þeir hringja.

Það er alveg ótrúlegt hvað maður þarf orðið að passa sig á öllu.

Fyrr í vetur fékk ég hringingu um að ég hefði unnið mér inn siglingu (sem gat passað því ég tók þátt í alls kyns getraunum á skíðasýningu sem ég fór á). Ég þurfti sjálf að koma mér til Flórída þaðan sem skipið átti að fara, og að auki varð ég að borga um $300 (18 þúsund) fyrir einhver ákveðin gjöld. Ég hélt nú ekki. Djöfulsins glæpamenn alltaf að plata mann.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband