Færsluflokkur: Bloggar

Ljóskan og páskarnir

Ég hefði líklega átt að setja þennan inn fyrir tveimur vikum. 

Þrjár ljóskur dóu í bílslysi og héldu því á fund Lykla-Péturs. Hann sagði þeim að til þess að komast inn í himnaríki yrðu þær að segja honum út á hvað páskarnir ganga.

Fyrst ljóskan til að svara var bandarísk og hún sagði: "Páskarnir eru hátíð þar sem fjölskyldur koma saman og borða kalkún og segja fyrir hvað þær eru þakklátar." "Neeeiii", sagði Pétur og sendi hana niður til helvítis.

Næsta ljóska var bresk og hún sagði: "Á páskum fögnum við fæðingu Jesú og skiptumst á gjöfum". "Nei nei nei", sagði Pétur og sú breska fór sömu leið og sú bandaríska.

Þriðja ljóskan var kanadísk og hún sagði: "Páskarnir eru kristin hátíð sem haldið er uppá á sama tíma og gyðingar halda upp á Passover. Jesú var að halda uppá Passover með lærissveinum sínum þegar Júdas sveik hann og Rómverjar handtóku hann og hengdu hann á krossi þar sem hann lést. Þeir lögðu hann til hvílu í helli og settu stóran stein fyrir..."

"Mjög gott", sagði Lykla-Pétur.

En þá hélt ljóskan áfram: "...og á hverju ári koma gyðingarnir og velta steininum frá gröfinni, og Jesú kemur út. Ef hann sér skuggann sinn þá fáum við sex vikur í viðbót af hokkíi!!!" 


Gott gengi kanadísku liðanna í NHL

Leikurinn í kvöld fór 2-1 fyrir Canucks og þeir leiða núna seríuna 3-1, þurfa aðeins einn sigur í viðbót til að komast í næstu umferð. Ottawa er í nákvæmlega sömu stöðu, vann líka í dag og leiða 3-1 á móti mörgæsunum. Gott gengi þar. Ég er ánægð hér heima í Vancouver og ég er viss um að Auður situr heima hjá sér í Ottawa (nei sennilega sefur - klukkan hálf þrjú þar), hæstánægð með sína menn.

Það hefur ekki gengið eins vel hjá Calgary en þeir unnu þó Detroit í dag og staðan í þeirri seríu er því 2-1 fyrir Detroit. Þeir geta ábyggilega unnið þetta ef þeir ná að spila að getu.


Íslandsmyndir

Í gærkvöldi hlóð ég töluvert mörgum myndum frá Íslandi inn á flickr síðuna mína: http://www.flickr.com/photos/stinamagga/

Einar í fótboltaKíkið endilega á. Ég er enginn sérstakur ljósmyndari og þegar ég valdi myndir til að setja inn þarna blandaði ég saman myndum sem mér finnst flottar og myndum af stöðum sem ég hélt að útlendingar vildu kannski sjá. Þannig að þarna eru til dæmis myndir frá Þingvöllum sem eru ekkert sérlega merkilegar nema hvað staðurinn er merkilegur. En ég vona að alla vega sumar myndirnar séu nokkuð sniðugar.

Uppáhaldsmyndin mín er þessi sem ég set inn með þessum pistli og er af Einari bróðursyni mínum að spila fótbolta við Árna bróður sinn á Kljáströnd við Eyjafjörð. Þar eiga bróðir minn og fjölskylda konu hans sumarhús. 

 


Búin að hlaupa 10 kílómetrana

Ég er komin heim úr hlaupinu og stóð mig bara vel að mínu mati. Ég hafði upphaflega skráð mig í flokkinn sem áætlaði að klára hlaupið á 60-65 mínútum en var orðin sannfærð um að ég myndi aldei ná því vegna þess að ég væri búin að hlaupa allt of lítið upp á síðkastið. En einhvern veginn hafði ég nóga orku og hjóp þetta á sirka 60 mínútum. Það er um þremur mínútum betur en í hitt skiptið sem ég hef hlaupið tíu kílómetra (sem var fyrir fjórum árum í Winnipeg). Ég var því bara ánægð. Það eina sem skyggði á gleðina var það að ég hefði getað verið undir klukkutímanum ef ég hefði átt auðveldara með síðustu tvo kílómetra. Gallinn var að eftir um átta kílómetra urðum við að hlaupa yfir Cambie brúna og þar var geysilega erfitt að komast áfram. Fjöldi manns labbaði upp og fór ekkert eftir reglunum um að ganga hægra megin og hlaupa vinstra megin. Ég var því að sviga í gegnum liðið og einu sinni átti ég erfitt með að komast í gegnum þvöguna því einhverjir kallar gengu hlið við hlið og mynduðu hálfgerða línu sem ég komst ekki í gegnum. Þetta var svolítið pirrandi því ég vissi að stutt var í lokin og ég átti töluvert eftir að orku. 

Þetta var annars alveg ótrúlegt. Rúmleg 54.100 manns tóku þátt í hlaupinu og það tók vel yfir klukkutíma að byrja. Ég byrjaði um miðjan hóp og fyrstu hlauparar voru þegar komnir í mark áður en ég lagði af stað. Það var líka kalt og biðin leiðinleg. En um leið og ég komst yfir ráðslínu fékk ég orku sem ég vissi ekki af og það hjálpaði mikið. Eftir um sjö kílómetra var ég orðin nokkuð þreytt og ákvað að labba aðeins þegar ég sæi átta kílómetra merkið en ég sá það aldrei og fór hvort eð er að hugsa um eitthvað annað þannig að ég hljóp meira og minna alla leiðina. Ég labbaði smá hluta í brekkunni upp að Burrard brúnni og einnig við vatnsstöðvar því ég vildi drekka nóg, en að öðru leyti hljóp ég allan tímann. Og ég hljóp meira að segja mun hraðar en ég geri þegar ég er að dóla mér sjálf í skóginum. En það er auðvitað eðliegt og á við alla. 

Á morgun fæ ég að vita nákvæmlega tímann minn. 


Paraskevideskatriaphobia

Í dag er föstudagurinn þrettándi (ég ætla að horfa á Jason vs. Freddy) sem þýðir að fólk sem þjáist af paraskevidekatriaphobia er líklega vitstola. Og nei, paraskevidekatriaphobia er ekki hræðsla við löng orð heldur hræðsla við föstudaginn þrettánda! Já, það er til orð yfir það. Og það er til fólk sem er hrætt við föstudaginn 13. 

Við þetta skal bæta að Margaret Thatcher fæddist föstudaginn 13. október 1925 og Olsen tvíburarnir fæddust föstudaginn 13. júní 1986. Það er kannski ástæða til að óttast þennan dag.


Unnusta eða ekki unnusta

Það er skrítið að lesa um að verið sé að spá í því að Jóakim trúlofist unnustu sinni. Ég hélt að stúlkan gæti ekki verið unnusta hans fyrr en þau væru trúlofuð! Samkvæmt mínum skilningi er 'unnusta' heitbundin stúlka, sem sagt, trúlofuð kona. Ég fletti reyndar upp í orðabók til að athuga þetta og þar er sú merking gefin en einnig merkingin 'kærasta', þannig að ég geri ráð fyrir að strangt til tekið sé þetta rétt notkun hjá mogganum. En ég nota þetta aldrei svo og ég er ekki viss um að ég hafi nokkurn tímann heyrt þetta orð notað um manneskju sem ekki er trúlofuð. Eða er ég farin að rugla saman við 'fiancé' í ensku?
mbl.is Konunglegri trúlofun spáð í Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hraði á þeim gömlu

Ég fór út að hlaupa áðan og gömul kelling hljóp framhjá mér. Mér fannst það ógurlega niðurlægjandi.

Týpískt

Kannski er Ronnie bara svona hrikalega leiðinlegur þegar hann er edrú! Annars er svo sem ekkert nýtt að þeir sem eru drukknir eða dópaðir þoli ekki að aðrir séu edrú. Ég man nú bara þegar ég var unglingur -  mér var boðið oftar í glas en nokkrum öðrum í kringum mig vegna þess að svo margir áttu erfitt með að sætta sig við að einhver væri ekki að drekka.

Ég sá annars Stones síðastliðið haust og þar var ekkert um ofbeldi á sviðinu. Kannski var Ronnie ekki hættur að drekka þá! 


mbl.is Richards sparkaði í Wood á sviði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kærasti Mörthu

Samkvæmt slúðurritunum, og sumum alvarlegri dagblöðum líka, er Martha Stewart ekki bara vinur Simonyis heldur einnig kærasta hans. Hér vestra er Stewart hálfgerður dýrlingur fyrir sjónvarpsþætti sína og vörurnar sem framleiddar eru undir hennar nafni. Þessi dýrlingur féll reyndar af stalli fyrir nokkrum árum þegar hún fór í fangelsi fyrir fjármálabrask en að fangelsisvist lokinni kom hún aftur í sjónvarp og lítið virtist hafa breyst. 

Ég á Mörthu Stewart borðbúnað. Hann er bara nokkuð laglegur og var mjög ódýr í þokkabót. Ekki allt slæmt sem að kellingunni kemur þótt ekki sé nú kærastinn fríður. 


mbl.is Geimferðalangur kominn til alþjóðlegu geimstöðvarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stríð og friður

Í dag halda Kanadamenn upp á að 90 ár eru liðin frá baráttunni við Vimy Ridge í Frakklandi þar sem fjórar herdeildir kanadíska hersins gersigruðu Þjóðverja. Þessi bardagi er talinn stærsti sigur Kanada í stríði og margir telja hann marka upphaf Kanada sem þjóðar. Þessi hátíðahöld koma degi eftir að sex kanadískir hermenn létust í Kandahar í Afganistan og 51 kanadískur hermaður hefur nú látist síðan stríðið hófst þar fyrir fimm árum. Það er kannski ekki hár tollur í stríði en hermennirnir eru  þarna sem friðargæsluliðar og Kanadamenn eru almennt á móti því að halda herliði í landinu. Almenningur vill herdeildirnar heim og ekki sjá fleiri kanadísk mannslíf tekin í baráttu sem kemur landinu ekkert við.

Ég á sjálf mjög erfitt með að skilja allt sem viðkemur hernaði. Kannski er það afleiðing þess að vera alin upp í herlausu landi þar sem enginn hefur ógnað okkur í hundruði ára. Ég á ekki afa eða langafa sem börðust fyrir Ísland og enginn í minni fjölskyldu hefur fallið fyrir byssu. Fólk hér hefur beinni tengsl við stríð og flestir eiga ættingja sem börðust í annarri hvorri heimstyrjöldinni. Það hefur því frekari ástæðu til þess að láta sig slíkt varða. En samt sem áður hafa Kanadamenn nokkrar áhyggur af því að fólk er farið að gleyma. Þeir sem börðust í fyrri heimstyrjöldinni eru flestir dánir og börnin þeirra sem börðust í síðari heimstyrjöldinni eru yfirleitt komin yfir áttrætt. Ungt fólk í dag hefur lítinn áhuga á styrjöldunum og nýleg könnun sýndi að aðeins rúmlegur helmingur Kanadmanna gat nefnt baráttuna við Vimy Ridge sem mikilvægustu orrustu kanadíska hersins. Aðeins um fjórðungur gat nefnt helstu hetju þeirrar baráttu. Af því að ég hef almennt áhuga á sögu skil ég af hverju fólk hefur áhyggjur af því að þessi saga gleymist og ég er viss um að ef Ísland hefði barist í styrjöld þá hefði ég meiri áhuga á einstökum baráttum. En almennt séð verð ég að viðurkenna að fátt sem styrjöldum kemur heillar mig eða vekur mér áhuga. Kannski vegna þess að fæst stríð er hægt að réttlæta. Það þarf ekki nema að nefna nýjustu dæmin í Afganistan og Írak.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband