Færsluflokkur: Bloggar

Skíðaferð og súkkulaði

Í gær fór ég á skíði í Whistler. Veðrið var yndislegt og það var frábært að skíða þarna uppfrá. Whistler svæðið er mjög skemmtilegt og nóg af brekkum. Það voru ekki einu sinni svo margir þarna að maður þurfti aldrei að bíða lengi eftir lyftunum. Við fórum meðal annars yfir á nýjasta svæðið sem opnaði núna í vetur og þar voru býsna fáir þannig að við gátum rennt okkur beint í lyftuna. Helsti gallinn var að það er búið að vera of hlýtt undanfarið þannig að snjórinn var nokkuð blautur, sérstaklega í neðri brekkunum. 

Í morgun voru ekki margir vöðvar í líkamanum sem voru ekki sárir. Bakið að drepa mig, bakvöðvarnir í lærunum sárir og meira að segja vöðvar í brjóstkassanum sem létu af sér vita. Ég hef skakklappast um í dag án þess að geta rétt almennilega úr mér. Svona er það þegar maður kemst sjaldan á skíði - þá er líkaminn ekki tilbúinn.

Átti annars góðan páskadag. Þvældist um á náttfötunum fram að hádegi, las blaðið, horfði á vídeó, slappaði almennt af. Verslaði í matinn (hér eru matvörubúðir opnar flesta hátíðardaga). Um fjögur leytið fór ég til Rosemary og Doug í mat og borðaði hjá þeim grillað svínakjöt. Það var mjög gott. Kom heim um hálfníu og talaði við Martin í rúman klukkutíma. Sem sagt, afslöppunarhelgi.  Það eina sem vantaði var NóaSiríus páskaegg. Fékk ekkert slíkt í ár. Borðaði Purdy's egg en þótt það sé gott þá er það ekki eins og að borða ekta íslenskt páskaegg með málshætti og nammi innan í. Verð sennilega að plata mömmu til að senda mér egg á næsta ári.


Skunkar og bruni

Í kvöld labbaði ég niður tíundu götu að 10-11 búð til þess að kaupa dagskort fyrir Whistler svæðið. Ég ætla á skíði á morgun og það er ódýrara að kaupa dagskort í Vancouver því borgin niðurgreiðir kortin fyrir íbúa sína. Þau eru ekki niðurgreidd neins staðar annars staðar og því er dýrara að  kaupa kortið á svæðinu.

Þetta varð nokkuð athyglisverður göngutúr. Þótt þetta sé ekki mjög langt, um hálftími hvora leið náði ég að verða á vegi þriggja skunka. Og tvisvar sinnum var ég óþægilega nærri þessum illa lyktandi dýrum. Í fyrra skiptið var brotin pera í einum ljósastaur og því nærri svartamyrkur á um 60 metra svæði. Eina ljósið sem sjást var frá stjörnunum og frá nærliggjandi húsum. Ég sá því ekki skunkinn fyrr en hann var aðeins í nokkra metra fjarlægð frá mér. Ég hraðaði för minni en hljóp ekki því ég vildi ekki styggja hann. Næsti skunkur var í garði á upplýstu húsi svo ég sá hann í tæka tíð og labbaði eftir götunni á meðan ég fór framhjá. Sá þriðji olli mér næstum hjartaáfalli. Hann var inni í garði og kom út úr runna beint fyrir framan mig. Aðeins um metri var á milli okkar og ég sá rassgatið á helvítinu vel. Hjartað sökk niður í buxur og ég hélt hann ætlaði að spreyja mig. En sem betur fer sá hann mig ekki sem ógn og lét það vera að gusa á mig. Sem betur fer, mér þykir vænt um fötin sem ég var í og hefði ekki viljað henda þeim. Þið sem hafið fundið lyktina af skunki vitið hins vegar að fötum er ekki bjargað ef maður lendir í að vera spreyjaður. Ég hef heyrt að ekkert dugi. Og hárið maður. Hvað ætli maður þurfi að sápa það oft til að ná lyktinni úr? Skunklykt er virkilega með ógeðslegri fýlum sem ég hef nokkurn tímann fundið. Einu sinni ældi ég næstum því vegna þess að svo sterk skunklykt kom inn um svefnherbergisgluggann. Þegar ég bjó í kjallara þurfti ég að loka glugganum oft í viku vegna þess að skunkur var fyrir utan. Jakk. Þvílíkur viðbjóður.

Annað athyglisvert gerðist á leiðinni. Ja, gerðist ekki beint. Ég gekk framhjá hárgreiðslustofunni minni og sá að þar var búið að loka og á hurðinni var skilti sem á stóð að lokað væri vegna bruna. Ég mundi ekki eftir neinum bruna en leit svo á lóðina við hliðina þar sem átti að standa hús. Þar var bara spýtnabrak. ég mundi að ég hafði séð þetta fyrir nokkrum dögum en það er búið að rífa svö mörg hús á svæðinu á undanförnum þremur árum að ég hafði ekki hugsað mikið um það. Þegar ég kom heim leitaði ég á netinu að fréttum af bruna í hverfinu og í ljós kom að fyrir akkúrat mánuði var stórbruni þar sem þrjár verslanir brunnu og Éliane hárgreiðslustofan varð fyrir verulegum skemmdum. FYRIR MÁNUÐI!!! Hvar var ég? Hvers vegna tók ég ekki eftir þessu? Þetta er ekki svo langt frá þar sem ég bý. Og ég hef mörgum sinnum farið þarna framhjá í strætó síðan þá. Og ég sem les meira að segja blöðin á morgnana. En þetta fór alveg fram hjá mér. Ég þarf greinilega að finna nýja hárgreiðslustofu þegar ég neyðist til að láta klippa mig. Ég reyni að láta líða eins langt á milli og hægt er til að spara peninga.

En nú ætla ég að fara að sofa því ég þarf að vakna snemma til að komast til Whistler á þolanlegum tíma. 


Sól og blíða á föstudaginn langa

Á ensku kallast föstudagurinn langi 'Good Friday'. Hef aldrei skilið það. Veit ekki hvað er svona gott við þennan dag.  Jesús var krossfestur! Myndi frekar segja að páskadagur ætti að vera 'Good Sunday' eða þá að uppstigningadagur ætti að heita 'Good eitthvað'.

Föstudagurinn langi er orðinn svo innbyggður í mig að ég finn fyrir því að það sé hátíðisdagur þótt vanalega séu allir dagar meira og minna eins hjá mér.

Af því ég er ekkert að kenna þessa önn og sit bara heima og vinn við ritgerðina mína renna dagarnir einhvern veginn út í eitt hjá mér. Ég þarf reyndar að halda þeim eitthvað aðgreindum því ég þarf vanalega að fara á einhverja fundi og einhverja fyrirlestra í hverri viku, auk þess að fara til hnykklæknis og á fótboltaæfinar. En samt er það svo að laugardagar og sunnudagar eru orðnir eins og hverjir aðrir dagar. En í morgun vaknaði ég með þessa tilfinningu að það væri helgidagur. Svo ég svaf til hálfníu til að halda upp á það. En samt finnst mér að ég megi ekki fara með þennan dag sem hátíðisdag svo ég hef verið að vinna og ætla að reyna að ná nokkrum klukkutímum við ritgerðina. Er búin að ná um einum og hálfum tíma í morgun og stefni á að vinna nokkra tíma í viðbót.

En það er svolítið því veðrið er dásamlegt (yfir tuttugu stiga hiti og sól) og ég veit það á ekki að endast. Þannig að mér finnst ég eiginlega verða að nýta þetta veður. Eftir umhugsun hef ég fundið lausnina. Taka með mér greinar og skrifbók, labba niður á strönd, finna autt borð og sitja þar og læra. Þannig get ég unnið en á sama tíma notið veðursins og meira að segja horft svolítið á fólk og hunda. Nú ætla ég að klæða mig í eitthvað sumarlegt (klukkan er hálftvö og ég er nýkomin úr náttfötunum) og labba niðureftir. 

 


sól, rigning, hlaup og skokk

13 dagar til hlaups.

Ég uppgötvaði mér til mikillar skelfingar í síðustu viku að þá voru aðeins rúmar tvær vikur í Vancouver Sun 10 kílómetra hlaupið og ég hef sama og ekkert hlaupið í vetur. Eins og ég hef sagt áður þá er það aðallega vegna þess að það hefur rignt svo mikið og það eyðileggur hlaupastígana í skóginum. Alla vega, það skiptir ekki máli lengur. Það sem skiptir máli er að ég er ekki komin í form ennþá.

Svo ég fór að hlaupa í síðustu viku. Það hjálpaði að sólin fór að skína og við fengum eina fimm meira og minna þurra daga. Svo ég hljóp út í skóg. Það er svo miklu skemmtilegra en að hlaupa á bölv. götunum. Og ég enda alltaf á því að hlaupa mikið  lengur þegar ég fer í skóginn. Þannig að bæði föstudag og sunnudag hljóp ég í sextíu mínútur og gekk svo í einar fimmtán þar á eftir. Í gær var hnéið á mér ekki eins slæmt og það er vanalega ef ég hleyp lengur en í fjörutíu  mínútur þannig að það er allt á uppleið. Ég held það hjálpi að ég reyni að labba mikið inn á milli. Á laugardaginn gekk ég til dæmis niður í klifurhús, en það er um tveggja tíma gangur. Ég klifraði svo í klukkutíma og var þá orðin þreytt. Sólin breytir öllu. Um leið og hún fer að skína er svo miklu skemmilegra að fara út og hlaupa, hjóla eða ganga. Og þá syngur maður bara eins og í gamla daga:

Sól sól, skín á mig!
Ský ský burt með þig!
Gott er í sólinn' að gleðja sig.
Sól sól skín á mig!

P.S. Set inn mynd af hlaupaleiðinni frá því í gær. Hljóp fyrst í skóginum og svo niður á strönd. Labbaði að lokum upp brekkuna heim til mín.

 


Til samanburðar

Þegar ég flutti fyrst til Reykjavíkur frá Akureyri var ég alveg sjokkeruð yfir því hversu mikið rignir í höfuðborginni. Eftir nokkra daga hringdi ég í mömmu og bað hana að senda mér gúmmískóna mína, sem ég hafði ekki notað síðan ég var fjórtán ára (þá gengum við Sigga vinkona um í hvítum ullarsokkum og gúmmískóm og fannst við hrikalega töff).

Nú í mars var úrkoma í Reykjavík sem sagt 129 mm í samanburði við 58mm á Akureyri. Það er ekki alveg eðlilegur samanburður þar sem úrkoma í Reykjavík var 57% yfir meðallagi en á Akureyri aðeins 35% yfir meðallagi.  En samt, staðreyndin er sú að það rignir mun meira fyrir sunnan.

Það er hins vegar skemmtilegt að bera þetta saman við það rigningarhelvíti sem ég er í núna. Á Akureyri rigndi sem sagt 58mm í mánuðinum. Hér á Vancouver svæðinu rigndi 50,6 mm á EINUM DEGI. Það er reyndar næstmesti rigningardagur (í mars) frá upphafi en sýnir samt muninn. Við það má bæta að það rigndi vel flesta daga mánaðarins svo ég hugsa að rigningin hér hafi verið margföld Reykjavíkurrigning. Ég virðist sem sagt alltaf flytja í blautara umhverfi í hvert sinn sem ég flyt. (Sem er reyndar ekki alveg rétt því ég flutti frá Reykjavík til Winnipeg og þar rignir ekki mikið.)

Hins vegar virðist ég alltaf flytja til stærri borgar í hvert sinn sem ég flyt á milli staða. Hvað verður næs? New York?

Að lokum vil ég vekja athygli fólks á þáttunum 'Planet Earth' sem nú eru sýndir á Discovery Channel. Ef íslensku stöðvarnar hafa ekki hugsað sér að sýna þessa þætti þá hvet ég þær til að endurskoða þá ákvörðun. Það sem ég hef séð er alveg ótrúlegt. Kíkið hér á nokkur myndskeið: http://dsc.discovery.com/beyond/?clik=www_nav_beyond 

Smellið á hlekkinn 'Planet Earth' og þar getið þið skoðað brot úr þáttunum. Vel þessi virði.  


mbl.is Rigning í mars í Reykjavík 57% yfir meðallagi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

66 gráður norður í Amazing Race

Ég horfði á Amazing Race í kvöld (tveggja tíma spennandi þáttur) og ein stelpan var í jakka frá 66 gráðum norður. Mjög fallegum meira að segja. Góð auglýsing fyrir þá enda horfa margir á þennan þátt. Mér datt í hug að hún hefði kannski tekið þátt í seríunni sem fór til Íslands og keypt jakkann þar (öll sem keppa núna hafa jú tekið þátt í einhverri af fyrri keppnum). Eða er 66 kannski farið að selja í búðum erlendis?

Dómskerfið er djók

Þetta mál sýnir enn og aftur að dómsmál eru í köku á Íslandi. Það er sem sagt verra að taka myndir af konu til að niðurlægja hana og gera grín að henni, heldur en það er að taka mynd í þeim tilgangi að fróa sér! Ef einhver karl hefði tekið nektarmynd af mér hefði ég nú frekar viljað að hann héldi þeirri mynd innan veggjar eigin svefnherbergis en að hann færi með hana út sem einhvern brandara.

Hvernig er það, er einhver stjórnmálaflokkanna með áætlanir um bætt dómskerfi? Mér sýnist það vera með brýnni málum á Íslandi.


mbl.is Sýknaður af ákæru fyrir að taka mynd af naktri konu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forhúð eða ekki forhúð

Bíddu, er þetta Déjavu? Ég hélt ég hefði lesið þessa frétt fyrir tveimur mánuðum eða svo? Kannski var það einhver önnur stofnun þá, en ég var alla vega búin að lesa nokkurn veginn það sama.

Annars er ég komin að þeirri niðurstöðu að umskurður sé bara af hinu góða, svo framarlega sem hann sé framkvæmdur af réttum aðilum. Þetta er miklu hreinlegra dæmi þar sem engin forhúð er lengur til staðar til að safna sýklum. 


mbl.is WHO mælir með umskurn sem þætti í alnæmisvörnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dómsmál látins manns

í gær las ég frétt um lækni sem lést úr eyðni í fyrra. Þótt hann sé látinn hefur hann nú verið ákærður af fyrrverandi elskuhuga fyrir að hafa ekki látið elskhugann vita af því að hann var smitaður. Ákærandinn, Mark Carney, sagðist hafa sofið hjá hinum látna í að minnsta kosti tíu skipti á tveggja mánaða tímabili og engar getnaðarvarnir verið notaðar.

Það er ekkert nýtt í þessarri frétt, svona dæmi eru alltaf að koma upp. Nú fyrr í vetur var til dæmis verið að dæma í máli fótboltamanns sem svaf hjá fjölda kvenna án þess að segja þeim að hann væri smitaður. Það sem er merkilegt við þessa frétt, og sem er ástæða þess að ég skrifa um það hér, er að nafn hins látna læknis er Frank Sigurdson. Hann var sem sagt Vestur-Íslendingur.  


Alvarlegar fréttir fyrir blaðamenn

Í fréttinni segir:  "Nefnd sem fer með menntamál, vísindi og menningarmál og segir að samkvæmt fjölmiðlalögum sé blaðamaður sá sem safnar upplýsingum, kryfur þær til mergjar og veitir upplýsingar í gegnum fjölmiðil samkvæmt samningi við hann, eða sá sem tilheyrir blaðamannafélagi."

Samkvæmt þessu eru margir blaðamenn í raun ekki blaðamenn því langt því frá allir kryfja fréttirnar til mergjar. Get ég þar tekið dæmi þá blaðamenn sem fyrst og fremst segja fréttir frá erlendum vettvangi. Margir þeirra hafa það fyrst og fremst að verki að safna saman mikilvægum fréttum úr erlendum fjölmiðlum og þýða yfir á íslensku. Þar er ekkert krufið. Þeir eru því ekki blaðamenn. Og svo eru það lélegir blaðamenn sem kannski safna upplýsingum og veita þeim í gegnum fjölmiðil en kryfja ekkert. Ekki blaðamenn.

Þetta gerir auðvitað ekki bloggara blaðamenn, og ætti heldur ekki að gera það (þótt stundum komi mikilvægar fréttir fyrst fram á bloggum), en þetta takmarkar þá sem venjulega eru kallaðir blaðamenn. Veit einhver hvort til er svipuð skilgreining um hvað telst blaðamaður á Íslandi?


mbl.is Bloggarar ekki blaðamenn að mati litháískrar þingnefndar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband