Horfði loks á enska boltann

Ég horfði loks á leik í ensku deildinni í dag. Vanalega eru bara tveir leikir sýndir á laugardögum og þeir eru eldsnemma enda tímamunur mikill á milli Vancouver og Englands. Ég er því vanalega sofandi á mínu græna eyra þegar þessir leikir eru sýndir hér. Nú, ykkur að segja hélt ég alltaf að ég væri svona þokkalega vel gefin manneskja, en það tók mig nú samt sem áður býsna langan tíma að uppgötva að ég get tekið þessa leiki upp og horft svo þegar ég vakna. Þar sem ég er alltaf að taka upp einhverja þætti á kvöldin þegar ég er ekki heima veit ég ekki alveg af hverju ég náði ekki að tengja þetta við fótboltann.

Leikurinn sem ég horfði á í dag var leikur Arsenal og Wigan og það sem sýndi vel hvað er orðið langt síðan ég hef séð Arsenal spila þá get ég nefnt að ég horfði á þá með mikilli aðdáun senda boltann á milli sín án þess að Wigan næði að koma mjög nálægt. Þeim gekk reyndar treglega að skora en ég var samt sem áður full aðdáunar. Þar til um fimmtán mínútur voru liðnar af leiknum og annar þeirra sem lýsti leiknum tilkynnti að leikmenn Arsenal væru ógurlega silalegir og yrðu að fara að sýna sig svolítið. Ég varð bara hissa. Ég hafði heyrt að þeir væru búnir að spila frábæran bolta í allan vetur en mér datt ekki í hug að þeir væru svo mikið betri að þetta væri silalegur bolti. Ég þarf greinilega að sjá þá oftar og þá helst með Fabregas og alla meiddu miðjumennina í liðinu.

Tvö dásamleg mörk undir lok leiksins kættu mig og aðdáendur á vellinum og voru lokatölurnar sanngjarnar. Gaman gaman. Var löngu kominn tími á að sjá fótboltaleik. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Guðmundsson

Flott hjá þér að horfa og detta inn í boltan, er sjálfur nörd fyrir enska fótboltan en þau ógurlegu vonbrigði urðu á síðasta ári að liðið mitt,  Leeds féll í aðra deild og hófu leiktíðina með 15 stig í mínus...bömmer. Auðvitað voru erfiðleikar að horfa eða fylgjast með leik minna manna í beinni þar til ég uppgötvaði beina lýsingu á netinu gegnum heimasíðu Leeds og einnig vef BBC. Það er bara ekki hægt að sleppa því að fylgjst með.

Gísli Guðmundsson, 24.11.2007 kl. 20:07

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Skil hvað þú meinar. Ég horfði alltaf á Arsenal spila þegar ég bjó heima á Íslandi en eftir að ég flutti til Kanada hefur það verið mjög erfitt. Þeir eru reyndar farnir að sýna fleiri Arsenal leiki en lengi vel var það þannig að af þeim tveim leikjum sem þeir sýndu var annar alltaf Manchester leikur. Það takmarkaði mjög það sem maður gat séð með öðrum liðum.

Það er sárt þegar lið manns dettur niður. Alveg ótrúlegt hvað maður getur haft sterkar tilfinningar fyrir íþróttaliði. 

Kristín M. Jóhannsdóttir, 24.11.2007 kl. 20:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband