Á útihátíð

Nú er verslunarmannahelgin að ganga í garð með tilheyrandi fylleríum, brekkusöng, ótímabundnum þungunum o.s.frv. Þetta er búið að vera svona í tugi ára en þó hefur eitt breyst frá því ég var unglingur. Aldur þeirra unglinga sem fá að fara á útihátíð hefur hækkað. Ég fór á útihátíð fjórtán ára. Í Atlavík. Þá var það algengt að unglingar færu og hérumbil allir vinir mínir og jafnaldrar fóru á þjóðhátíð. Aðeins ein af vinkonum mínum fékk ekki að fara. Við vorkenndum henni ógurlega. En foreldrum okkar var ekkert vel við þetta. Það þurfti að tuða og nauða og beita öllum brögðum áður en leyfi fékkst. Og við vinkonurnar fengum ekki að fara fyrr en ákveðið var að foreldrar Siggu vinkonu minnar myndu keyra okkur á staðinn, hjálpa okkur við að koma fyrir og sækja okkur svo að útihátíð lokinni. Þar að auki myndu þau vera á Egilsstöðum alla helgina svo stutt væri að fara ef eitthvað kæmi uppá. Við gengum að þessu fúslega enda skipti öllu að fá að fara.

Það var ekki bara að þetta væri útihátíð og þarna yrðu alls kyns hljómsveitir, þar á meðal Stuðmenn sem ég dáði og dýrkaði á þessum tíma, heldur var það sem skipti mig öllu máli koma Ringo Starr. Ég var gífurlegur Bítlaaðdáandi og búin að vera það síðan ég var tíu eða ellefu ára, og ég ætlaði ekki að láta Ringo koma til landsins án þess að fá að sjá hann. Enda var það þess virði. Þótt hann hefði bara spilað örfá lög (eins hvers staðar las ég þrjú en ég man bara eftir Johnny B Goode) þá var bara svo mikil upplifun að sjá hann. Utan við Ringo og Stuðmenn var þarna hljómsveitakeppni sem hljómsveitin Fásinna vann. Ég veit ekki hvort þeir héldu eitthvað áfram en man þó að þar var ákaflega myndarlegur rauðhærður maður. Ég man lítið eftir hinum hljómsveitunum en skilst þó að bæði Dúkkulísur og Greifarnir hafi veirð þarna. Það er nú býsna merkilegt svona eftir á að hyggja. Ég man aðallega eftir því að hafa staðið á risastóru sviðinu og hlustað í undran á tónlistina. 

Þetta var stórkostleg útihátíð.Alls konar gullkorn urðu til sem maður getur enn vísað til eins og þegar ég bað Mæju vinkonu okkar eitthvert hádegið um bita af súkkulaðinu hennar. Hún horfði þá á súkkulaðið í smá tíma og sagði svo raunamædd: Já en...það minnkar alltaf. Þar með var það útrætt og ég fékk engan bita.

Það var líka ákaflega fyndið fannst okkur þegar við hittum Elvu og Mæju fyrsta morguninn. Þær höfðu komið með rútunni frá Akureyri og akkúrat á þessum klukkutíma eða svo þegar myrkur er í ágúst. Þær voru því að býsnast við að koma upp tjaldi í svarta myrkri. Um morguninn finnst þeim eins og fólk sé alltaf eitthvað að detta á tjaldið þeirra eða alla vega svona að slá í það. Þetta var víst eins og á umferðamiðstoð. Enda kom í ljós að þær höfðu tjaldað á miðjum göngustíg.  

Í annað skipti gerðist það að þegar við Sigga komum að tjaldinu okkar var búið að leggja annað tjald ofan á okkar tjald. Við tókum það bara af og héldum í burtu. Síðar um daginn þegar við vorum aftur við tjaldið okkar kom til okkar strákur. Hann spurði: Heyrðu, var tjald ofan á ykkar tjaldi hérna í morgun? Já, sögðum við. Hann svaraði þá: Já fyrirgefðu, en sko, þetta er nefnilega karlmannstjald og það vildi endilega komast uppá kvennatjald.

Ýmislegt annað gerðist og var sagt sem ástæðulaust er að nefna í þessu bloggi. 

Málið var reyndar að við Sigga drukkum ekki og það munar held ég gífurlega að unglingarnir séu edrú þegar þeir fara á útihátíð því miklu fleira getur gerst þegar fólk er drukkið en þegar það er með fullu ráði. Ég held til dæmis að flestar nauðganir sem fara fram á svona hátíðum hafi með drukkið fólk að gera. Kannski ekki allar, en flestar. Enda kannski flestir drukknir á þessum hátíðum. Hjá okkur var það nú samt staðreynd að við mættum þarna bláedrú, vorum bláedrú, og skemmtum okkur konunglega. Við þurftum ekkert áfengi til að skemmta okkur. Því ætti það líka að hafa verið nauðsynlegt? Þarna voru einhver þúsund manns (mig minnir að það hafi verið 3000 eða 4000), frábær tónlist, dásamlegt umhverfi...getur maður beðið um meira?

Aaaaah, Atlavík 84. Þú munt seint gleymast. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já ég gleymi heldur ekki Atlavík, það var geggjuð útihátíð. Staðsetningin, tónlistin, stemmningin, upplifunin, veðrið (líka rigningin síðasta daginn)! Systir mín kom með tjald fyrir mig að norðan (ég var í sveit fyrir austan) og svo sagði hún mér bara að tjaldið mitt væri á svæði fjögur og það væri appelsínugult! Það er skemmst frá því að segja að ég og vinkona mín sváfum fyrstu nóttina í tjaldi stórusystur vinkonu minnar. En þvílík útíhátíð. Seinna fór ég á útihátíð á Kaldadal og hún var bara sukkuð og ljót í samanburðinum!

"Mér" minnir líka ...heheh :)

Rut (IP-tala skráð) 29.7.2011 kl. 11:59

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Ókei, nú skammast ég mín niður í rassxxx. Ég sem trúi því statt og stöðugt að ég sé laus við alla þágufallssýki. Greinilega er ekki orð að marka mann.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 29.7.2011 kl. 13:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband