Aðalmálið er ekki...
21.12.2007 | 20:34
Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að blogga um þessa frétt en mér finnst ég verða að minnast á eitt atriði hér sem virðist fara ógurlega fyrir brjóstið á mörgum.
Fyrst vil ég þó taka eftirfarandi fram:
1. Ég held að það hefði verið betra fyrir Femínistafélagið að koma boðskap sínum á framfæri á aðeins nærgætnari hátt.
2. Óskin hefði átt að vera um að FÓLK hætti að nauðga, ekki bara karlmenn, því þótt karlmenn séu gerendur í rúmum 90% tilfella eða svo (án þess að ég hafi neinar tölur fyrir framan mig), þá eru konur gerendur í sirka 10% tilfella og við hljótum öll að vilja að þær hætti líka að nauðga.
En hér kemur að því sem hefur pirrað mig mest í umræðunni. Fólk virðist vilja lesa út úr þessari ósk Femínistafélagsins að þau séu að ásaka alla karlmenn um það að vera nauðgarar. Ég get ekki verið sammála þessu. Lítið á eftirfarandi ósk:
Ég óska þess að allir hætti að reykja.
Finnst þeim sem ekki reykja þessi ósk ósæmanleg? Finnst þeim vegið að sér? Finnst ykkur þessi fullyrðing gefa það í skyn að allir reyki? Ekki mér. Mér finnst merkingin einfaldlega eiga við þá sem reykja því eingöngu þeir sem reykja geta hætt að reykja. Við hin getum það einfaldlega ekki (nema við byrjum fyrst að reykja).
Mér finnst það sama með óskina frá Femínistafélaginu. Þeir hljóta að eiga við þá karlmenn sem nauðga (og ættu auðvitað að eiga við alla sem nauðga eins og ég nefndi áður). En það að allir karlmenn taki þetta til sín og fari að móðgast og þykjast vera ásakaðir um að vera nauðgarar er auðvitað bara útúrsnúningur. Það ætti að ekki að vera aðalmálið í þessari umræðu.
Ég vona að engum verði nauðgað um þessi jól (hvorki af karli né konu), ég óska þess að allir fái nóg að borða, að enginn verði fyrir ofbeldi, hvorki líkamlegu né andlegu, og ég vona að allir hafi einhvern til þess að faðma og kyssa og óska gleðilegra jóla.
![]() |
Ekki um jólakort að ræða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Bara nákvæmlega svona Kristín hefði ekki getað orðað það mikið betur.
Það er ekki hægt að fólk þurfi sífellt að segja "taki það til sín sem eiga það".
Gleðileg jól ,taki það til sín sem eiga það
Margrét (IP-tala skráð) 21.12.2007 kl. 20:54
Líklega er þetta rétt hjá þér, en það breytir því þó ekki að þessi ummæli eru gríðarlega særandi í garð karlmanna sem samfélagshóps. Það væri eðlilegt fyrir samtök líkt og Feministafélag Íslands að reyna að koma boðskap sínum á framfæri á annan máta.
Jú, setningafræðilega er þetta eflaust rétt setning og þeir eiga að taka þetta til sín sem eiga, en kommon -- þetta er gríðarlega ósmekklegt.
Ég vona sjálfur að Félag Ábyrgra Feðga kæri þetta, og við sjáum hvað setur.
Gleðilega hátíð!
Ómar (IP-tala skráð) 21.12.2007 kl. 21:30
Ég er algjörlega sammála Ómari.
Ég hef borið virðingu fyrir feminstum í gegnum árin, ég er jafnréttissinnaður og finnst eðlilegt að algjört jafnrétti sé á milli karla og kvenna. Það sem feministafélagið hefur verið að gera á undanförnum vikum er bara langt í frá skynsamlegt og hefur skaðað félagið mikið að mínu mati.
Til að koma í veg fyrir misskilning þá hef ég og margir aðrir byrjað að nota nýtt orð, sem er öfgafeministi og mér finnst það ágætt að nota orð sem skilur á milli þeirra feminista sem eru að berjast fyrir jafnrétti og þeirra sem eru að berjast gegn karlmönnum, eins og feminstafélagið er að gera þessa vikuna.
Núna verð ég væntanlega skotinn í kaf fyrir þessi orð og jafnvel kærður af hinu nýstofnaða Öryggisráði Feministafélagsins!
Mummi Guð, 21.12.2007 kl. 22:37
Ég segi nú bara eins og vinkona mín um þetta jólakort: ÞETTA ER SICK!
En vissulega kemur fátt orðið á óvart úr þessari átt, hve yfirgengilegt sem það er.
ásdís óskasdóttir (IP-tala skráð) 22.12.2007 kl. 02:47
Er ekki staðfest með PISA-rannsókninni að lesskilningi íslenskra unglinga fer hrakandi? (Miðað við eitthvert mark sem OECD setti árið 2000 til að nota við samanburð.) Ef andfemínistar kjósa að skilja jólasveinakort Femínistafélags Íslands sem hatur gagnvart körlum, er það vegna slaks lesskilnings, ónógrar málfræðikunnáttu eða heiftar? Er það vegna þess að innihaldið - ekki bara framsetningin - kemur við kaunin? Afskaplega góðir punktar hjá þér, Kristín. Held ég fallist á málflutninginn í einu og öllu.
Ég vildi óska þess að karlar sem konur sem æsa sig yfir boðskap jólasveina Femínistafélagsins (sem ég sá einhvers staðar, man ekki hvar, að hefði ekki endurútgefið þetta tiltekna kort) taki upp baráttu gegn nauðgunum og hvers konar ofbeldi öðru með þeim leiðum sem þau telji betri en leiðir Femínistafélagsins, gerist þannig samherjar. Ég vildi óska þess að þeir sem segjast vera jafnréttissinnar eyði minna púðri í að berjast við "öfgafemínista" en að berjast fyrir jafnréttinu.
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 22.12.2007 kl. 08:08
Karlmenn eru 95% þeirra sem nauðga. Þannig er nú það.
Er aöl sammála þér og hann Ingólfur er með þetta alveg 100% rétt.
Gleðileg jól.
Jenný Anna Baldursdóttir, 22.12.2007 kl. 11:50
Framsetningin skiptir máli.
Tvö dæmi:
A Stúfur óskar þess að konur hætta að reykja.
En fleiri konur en karlar reykja vissulega.
B Stúfur óskar þess að konur hætti að vera dræsur.
En karlar eru ekki dræsur, það er a.m.k. notað annað orð yfir það hjá körlum.
Ég gæti jafnvel trúað að hærra hlutfall kvenna séu dræsur en karla sem eru nauðgarar. Við skulum alla vega vona það.
Það er ekki gróf móðgun að gefa í skyn að einhver reyki. En það er gróf móðgun að gefa í skyn að einhver sé dræsa eða nauðgari.
Haukur (IP-tala skráð) 22.12.2007 kl. 12:26
Dræsa þýðir eitthvað sem er dregið ,dragnót er til dæmis kölluð dræsa á mínu heimili.Ekkert ljótt við það.
Hvað varðar konur stendur í sömu bók stúlkuræfill,flenna.Ekki særist á mér hörundið við það heldur
Margrét (IP-tala skráð) 22.12.2007 kl. 12:55
Kæra Margrét!
Ég veit ekki hver þessi "sama bók" sem þú vísar til er, en í íslensku orðabókinni eru samt tilteknar merkingar þá orðið er notað yfir konur, sem líklegast fæstar yrðu stoltar af. En þetta er orðhengilsháttur. Í þessu samhengi hefði t.d. mátt nota orðið hóra eða mella. Mér leiðist bara afskaplega að nota slík orð og valdi því "meinlausara" orð. En úr því að konur vilja snúa út úr, þá sleppi ég orðunum hér lausum.
Annars man ég ekki betur en að sumum konum, afar skiljanlega, hafi þótt afskaplega ömurlegt þegar eitt flugfélag var að markaðssetja Ísland með ímynd lauslátra kvenna. Það getur vel verið að sumir karlar taki það ekki til sín þegar fjallað er um karla sem nauðgara, en það er ekki algilt og verður ekki slegið út af borðinu með orðunum: Mér finnst það ekki.
Haukur (IP-tala skráð) 22.12.2007 kl. 14:14
Skoðum greinilega ekki sömu orðabókin Bíbí minn.
Haukar drita-allir Haukar drita
Dvergar ljúga-allir dvergar ljúga
stelpur vaxa- allar stelpur vaxa
karlar nauðga TAKI ÞAÐ TIL SÍN SEM EIGA ÞAÐ
Margrét (IP-tala skráð) 22.12.2007 kl. 14:46
Kæra Margrét
Þetta síðasta innlegg lagði heilmikið til málanna. Stórt H í Haukur, vísun í dverga og lygar. En annars vildi ég óska þess að konur væru málefnalegar. Einhverra hluta vegna teldi ég samt, og nú mátt þú leiðrétta mig, að þér þætti ekki beinlínis til hróss að vera kulluð subba (sjá skilgreiningu á orðinu dræsu í íslenskri orðabók útgefinni af Eddu (3. útgáfuna) og fyrri útgáfum (a.m.k. 2. útgáfunni). Og svo eru ekki allar merkingar orða alltaf að finna í orðabókum. En alla vega þá óska ég þess líka að konur hætti að vera subbur. En ég held að umræðan sé á villigötum með því telja að aðal atriðið sé að kryfja hvað felist í orðinu dræsa.
En ég get glatt þig með því að ég hef ákveðið að taka áskorun femínistafélagsins til greina og láta af nauðgunum.
Haukur (IP-tala skráð) 22.12.2007 kl. 19:05
Það sem mér finnst að þessum jólakveðjum frá feministum, er ekki bara það að mér finnst þær vera að skilgreina alla karlmenn sem nauðgara, heldur líka það að þær eru að misnota jólasveininn.
Hvað fyndist ykkur um að sjálfstæðisflokkurinn færi að auglýsa að jólasveinninn væri sjálfstæðismaður og hann styddi uppbyggingu álvera og Askasleikir vill að fleiri virkjanir verða gerðar. Ég væri algjörlega á móti því, finnst fáránlegt að blanda jólasveininum í einhverja baráttu félaga og samtaka. Við eigum öll jólasveininn og eigum að bera virðingu fyrir honum. Það gerir feminstafélagið ekki.
Mummi Guð, 22.12.2007 kl. 20:02
Ég held að við séum öll sammála því að þetta útspil Femínistafélagsins var ekki mjög skynsamlegt. Og það er synd því ég held að félagið berjist fyrir góðu málefni. Og það má líka segja að þetta hefur komið heilmikilli umræðu af stað en því miður ekki umræðu um það sem við ættum að vera að ræða um, þ.e. jafnrétti kynjanna, ofbeldi og þá sérstaklega kynferðisofbeldi, o.s.frv. Og þar sem það er greinilegt að karlmönnum þótti að sér vegið með þessum skilaboðum þá er vissara að huga vel að því sem sagt er, því sem betur fer eru flestir menn góðir og heiðarlegir menn sem myndu aldrei brjóta gegn annarri manneskju á þennan hátt. Og auðvitað má ekki setja þá í sama far og ótínda glæpamenn, sem nauðgarar eru að sjálfsögðu. Eins og ég sagði áður þá sá ég ekki árás á alla karlmenn með þessum skilaboðum en bara það að aðrir sjá það bendir til þess að orðalagið sé of tvírænt. Ég vona að Femínistafélagið haldi áfram að berjast fyrir jafnrétti því það er greinilega nauðsyn á, en ég vona líka að þau passi sig á því hvað nákvæmlega er sagt og að það særi engan að óþörfu.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 22.12.2007 kl. 20:15
Gleðileg jól mín kæra og hafðu það sem allra best

Margrét St Hafsteinsdóttir, 22.12.2007 kl. 21:53
Gleðileg Jól.
Ingigerður Friðgeirsdóttir, 23.12.2007 kl. 23:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.