Lögreglan í lestinni

Ég fór í matarboð í gærkvöldi til Jönu. Óðinn var í burtu svo við héldum smá kvennakvöld - bara Jana, Maggý, Julianna og ég. Það var voðalega notalegt.

Jana býr í Surrey svo það er löng leið heim. Maggý keyrði mig á lestarstöðina (og hafði sótt mig þangað fyrr um daginn) og eftir það tók við um hálftíma lestarferð og svo um hálftíma strætóferð (stundum tekur hún lengri tíma ef umferð er mikil).

Ástæða þess að ég ákvað að minnast á þessa ferð er sú að strax á fyrstu stöð komu inn lestarstarfsmenna að athuga hvort allir væru búnir að borga. Lestarkerfið hér byggist að sumu leyti á heiðarleika. Þ.e. maður þarf að borga í lestina en ekki er nauðsynlegt að ganga í gegnum hlið eða sýna lestarmiðann að öðru leyti. Í staðinn koma starfsmenn af og til í lestina til að athuga hvort maður er búinn að borga. Því er í rauninni hægt að taka sénsinn því ekki er oft tékkað, en á móti kemur að ef maður er tekinn í lestinni án löglegs fargjalds þá er sektin há.

Í gær komu sem sagt menn inn til að tékka og var ég auðvitað róleg yfir því enda með strætókort sem háskólanemendur við UBC og SFU fá sjálfkrafa (allir fá kort hvort sem þeir vilja eða ekki og við borgum í staðinn rúma $20 á mánuði, sem er ekki nema um fjórðungur af því sem kortið kostar á almennum markaði). Maðurinn kemur að mér og horfir lengi á kortið mitt. Kannski af því að myndin á því var tekin þegar ég byrjaði í UBC og þar er ég með drengjakoll og alls ekkert lík mér í dag. En hann gerði nú enga athugasemd, lét mig fá kortið til baka og hélt áfram til annarra í vagninum.

Þegar búið var að sjá til þess að allir hefðu borgað (ég hef ekki enn orðið vitni að því að einhver hafi verið ólöglega í lestinni) komu báðir mennirnir til baka og stóðu beint fyrir framan mig á meðan þeir biðu eftir því að lestin stoppaði á næstu stöð. Ég virti þá fyrir mér og var sérlega starsýnt á teiserbyssurnar sem báðir höfðu í beltunum og mér varð hugsað til allra teiser-atvikanna sem hafa komið upp á undanförnu ári. En það tók mig smá tíma að átta mig á því hvað var skrítið hér. Bíddu, venjulegir lestarstarfsmenn hafa ekki teiserbyssur. Þetta var lögreglan!!! Síðan hvenær er lestarlögreglan í því að athuga hvort maður borgar í lestina? Vanalega er það gert af venjulegum lestarstarfsmönnum.

Ég hef ekki hugmynd um hvort eitthvað annað var í gangi þarna. Þetta var á þriðjudagskvöldi og því ólíklegt að þeir hafi átt von á miklum drykkjulátum eða öðrum vandræðum. Voru þeir að leita að einhverju? Er eitthvað í gangi? Og í því ljósi, af hverju starði maðurinn svona lengi á kortið mitt áður en hann lét mig fá það aftur?  

En mikið rosalega var eitthvað langt í fattarann hjá mér þarna. Eins og það hafi ekki verið augljóst á fötunum og áletruninni 'police' að þetta voru lögreglumenn. Svona er það annars. Af því að þeir voru að sinna störfum almennra lestarstarfsmanna þá hugsaði ég ekki einu sinni út í það að þetta væru lögregulemenn, fyrr en ég sá bölvaðar byssurnar.

Við þetta má bæta að á síðasta ári hafa komið upp alla vega þrjú tilfelli þar sem lestarlögreglan notaði teiserbyssur á farþega sem voru með læti. Í a.m.k. einu tilfelli virtist það réttlætanlegt en í hinum tveim hefði mátt leysa málin á annan hátt. Það er það sorglega við byssurnar. Þótt af og til komi upp tilfelli þar sem notkun þeirra virðist nauðsynleg þá virðast hin tilfellin enn fleiri. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir

Kannski fær það bara fólk til að borga alltaf inn í lestina, lögreglan er oft notuð til að ógna fólki.

Annars veit ég voða lítið sem ekkert hvernig svona lestarkerfi virkar!

Róslín A. Valdemarsdóttir, 28.5.2008 kl. 17:38

2 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

Hæ.

Bara fyrir forvitni;  Er hún Jana nefnd í höfuðið á ömmu sinni (sem var af Íslenskum ættum og hét Kristjana - kölluð Jana (á íslensku))?    Fannst það nefnilega alveg sérlega skemmtilegt yyrir 16 árum að dóttir mín kynntist innfæddri sem heitir að fornafninu Jana (í höfuðið á ömmu sinni) sem bjó auk þess niður í Surrey.  Svo hitti ég eina 12 ára gamla stúlku í grunnskóla í Vancouverborg - sem bað mig að vísa sér á leið til að læra Íslensku í borginni.  Amma hennar hét einnig Jana (skírð Kristjana).

GAman að kíkja á vangavelturnar þínar.

Takk

Benedikt Sigurðarson, 28.5.2008 kl. 20:36

3 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Það er hugsanlegt Róslín.

Bensi, Jana heitir Kristjana en ég veit ekki hvort hún er skírð í höfuðið á ömmu sinni. Hún er fædd á Íslandi og flutti ekki út fyrr en eftir að hún giftist Óðni manni sínum, sem er hálfur Íslendingur og hálfur Kanadamaður en fæddur í Kanada. Ég held að margar Kristjönur séu kallaður Jana hér vestra því þeim innfæddu finnst ekki auðvelt að segja Kristjana. Við ræddum það reyndar í gær að við erum báðar stundum kallaðar Kris.

Skilaðu annars kveðju frá mér til hans Erlings. Við erum lengi búin að vera ágætis vinir. 

Kristín M. Jóhannsdóttir, 28.5.2008 kl. 22:42

4 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

Bara datt það í hug.  Nöfn V-'Islendinganna hafa líklega þróast meira og minna á grundvelli framburðar-vandræða meðal enskumælandi.

Skila kveðjunni til bróður . . . .

Benedikt Sigurðarson, 29.5.2008 kl. 08:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband