Áskorun til íþróttafréttamanna

Á Íslandi taka fjögur lið þátt í Íslandsmótinu í íshokkí, þótt eitt þeirra spili einungis í karlaflokki. Leikið er í fjórum flokkum karla og einum flokki kvenna. Þótt þetta sé því lítið íþróttasamband miðað við t.d. knattspyrnusambandið eða handknattleikssambandið er ljóst að þó nokkur fjöldi manns leikur íshokkí á landinu. Því er það ófyrirgefanlegt að þessi íþrótt skuli ekki fá neitt pláss í fjölmiðlum.

Um þessar mundir stendur yfir Heimsmeistaramótið í hokkí meðal leikmanna undir tvítugu. Í dag er verið að leika til undanúrslita. Ég sá ekkert í Mogganum um þetta mót og ekkert á Vísi. Á báðum stöðum eru oftar fréttir úr ameríska fótboltanum sem er þó enn minna stundaður á Íslandi en hokkí.

Hvernig væri að fjölmiðlar fari að sýna þessari íþrótt aðeins meiri áhuga. Ágætt væri að segja t.d. reglulegar fréttir af Íslandsmótinu, en einnig mætti segja frá - og jafnvel sýna frá - stórmótum eins og heimsmeistarakeppnum og ég er viss um að margir vildu sjá af og til leiki úr NHL deildinni enda hvergi leikið eins frábært hokkí.

Sumir myndu kannski segja að hokkí væri ekki nógu vinsælt á Íslandi til þess að það sé þess virði að segja/sýna frá því, en hvers vegna er það? Af því að íþróttin hefur aldrei verið almennilega kynnt fyrir Íslendingum. Hversu margir hafa farið á leik? 1% kannski. Íshokkí er hröð og spennandi íþrótt og þótt minna sé skorað en í handbolta eða körfubolta er hraðinn ekki minni. Ég veit alla vega að ég sit með hjartað í maganum þegar ég horfi á  leiki. Ef af og til væru sýndir leikir í sjónvarpi og sagt frá í blöðunum er ég viss um að fleiri fengju áhuga.

Fjölmiðlamenn, gerið nú eitthvað í málinu og sýnið þessari íþrótt svolitla virðingu. 


Sykrað og sætt

Bragðlaukarnir eru undarlegir. Sumt fólk vill einfalt bragð og borðar því aðeins eina sort í einu (sumir verða meira að segja vitlausir ef mismunandi sortir snertast á disknum), á meðan aðrir reyna á bragðlaukana með því að blanda saman mörgu í einu. Ég er af seinni gerðinni.

Sérstaklega finnst mér gott ef bragð stangast algjörlega á, eins og t.d. þegar maður blandar saman söltu og sætu. Sú blöndun gerir mig algjörlega óða. Ég man þegar ég fékk Kettle Corn poppkorn í fyrsta sinn. Ég gat bara ekki hætt að borða. Tróð mig hreinlega út af poppinu (Kettle Corn er þegar maður lætur bæði sykur og salt út á poppið – sykurinn þarf að fara út með korninu svo hann svona hálfbráðni með og svo festist saltið utan á). Ef ég á Kettle Corn örbylgju popp – svona þrjá poka í einum pakka – þá borða ég popp þrjá daga í röð. Þess vegna kaupi ég næstum aldrei svoleiðis.

Annar dásamlegur matur þar sem salt og sykur blandast saman er svona týpískur enskumælandi morgunverður (morgunverðurinn er ekki enskumælandi en er vinsæll í enskumælandi löndum - alla vega Kanada, USA og UK) þar sem maður borðar pönnukökur með sýrópi (ekki íslenskar pönnukökur heldur amerískur - eru meira svona eins og lummur án sykurs og rúsína) og síðan morgunverðarpylsur. Pylsurnar eru saltar og góðar og pönnukökurnar sætar, þ.e. eftir að maður hellir sýrópinu yfir. Hér í Kanada er náttúrulega algengast að hella yfir þetta hlynsírópi en mér finnst svona ömmusíróp býsna gott líka. Ekki gengur að nota þetta enska í grænu dollunum með ljóninu sem maður kaupir alltaf á Íslandi (þótt það sé almennt gott síróp og frábært í frosting).

Það er sjaldan sem ég leyfi mér svona morgunverð en gerði það þó að morgni nýársdags enda ástæða til að breyta til.

Mmmm, salt og sykur. Óhollt og gott. 


Um ábyrgð þeirra sem brjóta lögin

Fólk sem nýlega var bjargað í Grouse fjalli hér fyrir ofan Vancouver hefur nú fengið í hendurnar reikning fyrir björgunina. Fólkið var á svæði sem var algjörlega lokað vegna snjóflóðahættu. Þetta er gert vegna þess að talið er að það megi draga úr ferðum fólks inn á lokuð svæði ef það má eiga von á að þurfa að borga fyrir björgun. Á hverju ári drepst fjöldi manns í Norður Ameríku vegna þess að það asnast inn á lokuð svæði. Nú síðast í gær eða fyrradag lést maður í Whistler eftir að hann fór inn á svæði sem hefur verið lokað í 25 ár. Náunginn vann fyrir Whistler og var því vel kunnugt um hættuna. Vinur hans slapp með skrekkinn en mun nú hugsanlega verður kærður fyrir athæfið. Þeir sem brjóta svona lög eru yfirleitt alltaf ungir karlmenn í leit að púðursnjó.

Ég hef oft hugsað um þetta þegar björgunarsveitir okkar heima hætta lífi sínu til þess að leita að fólki sem fór t.d. upp á hálendi illa búið þegar spá var slæm. Er eitthvað hægt að gera til þess að fá fólk til þess að hugsa svolítið?  


Aðeins meira um Skaupið

Lausleg úttekt á bloggheimum benti til þess að ég væri í miklum minnihluta með það að hafa hlegið vel og lengi að Skaupinu. En í dag horfði ég á Kastljós og Ísland í dag, þar sem talað var við fólkið á götunni, og þar virtist meiri hlutinn
hrifinn af Skaupinu. Kannski eru bloggarar óvenju neikvæðir (dah!).
Kannski þýðir það að neikvætt fólk er líklegra til að blogga – þarf
að skammast yfir öllu. Kannski ég hefði átt að strengja nýársheiti
eftir allt saman: Vera jákvæðari og skammast minna.

Áramótin 2007-2008

Jæja, þá er árið 2008 runnið upp og mitt fyrsta blogg að líta dagsins ljós. Ég er ekkert búin að vera lengi á fótum,  svaf fram að hádegi enda fór ég seint í rúmið.

Gærdagurinn var rólegur svona framan af. Ég fór og klifraði svolítið og gekk bara ágætlega. Fékk töluverða hjálp frá ungum strák sem þarna var og sem sýndi mér ýmislegt gagnlegt. Ég stoppaði á nokkrum útsölum á leiðinni heim en keypti ekki neitt enda vantar mig svo sem ekkert. Þegar ég kom heim horfði ég á áramótaskaupið og hló mikið. Fannst þetta gott skaup. Sá á lestri bloggsíðna að ég var í minni hluta. Mér finnst það allt í lagi.

Um fimm leytið fór ég til Rosemary og Dougs þar sem ég borðaði roast beef a la Doug með kartöflum og ýmsu grænmeti. Í eftirmat var bland af súkkulaðiköku og ostaköku sem ég hafði hvort tveggja keypt í Capers af því að ég vildi koma færandi hendi og hafði ekki tíma til að baka sjálf. Við horfðum svo á hokkíleik kvöldsins, sem því miður tapaðist, og spjölluðum svo fram undir ellefu.

Þá rauk ég niðreftir til Martinu, eins kennara míns. Þar voru nú ekkert rosalega margir og sumir farnir, sérstaklega barnafólk. Mætti líka Peter vini mínum sem var á leið í annað partý. En þarna var góður hópur og mikið spjallað. Á miðnætti var drukkið kampavín og maðurinn hennar Martinu opnaði opinberlega vefsíðu sem hann hefur unnið að undanfarin ár. Síðan dönsuðu þau hjón vals sem er víst austurrískur siður á nýársnótt (Martina er austurrísk). Við horfðum líka á myndina 'Dinner for one' sem er sýnd í þýsku og austurríski sjónvarpi á gamlársdag á hverju ári. 

Um tvö  leytið fórum við fjögur, ég Mark, Martin og Beth niður að English bay sem er ströndin neðan við miðbæinn þar sem Martin og Beth ætluðu í nýárssund. Martin hafði fengið boð frá einhverjum vinum um að fara í sund klukkan hálf þrjú en þegar við komum þangað fundum við engan. Í ljós kom að Martin var 12 klukkutímum á undan áætlun, allir hinir hafa synt nú í dag. En hann fór nú samt út í og tók nokkur sundtök áður en hann flúði upp úr. Beth guggnaði hins vegar og lét nægja að vaða út í. Ég stakk nú bara fingri ofaní enda ætlaði ég aldrei með í sundið. Fór bara sem móralskur stuðningur.

Ég kom heim um fjögur leytið og hringdi þá í  mömmu og pabba og talaði við þau í um klukkutíma. Pabbi á afmæli á nýársdag þannig að ég varð að óska afmælisbarninu til hamingju. Ég fór því ekki að sofa fyrr en um fimm leytið.

Þannig að þetta voru bara ágæt áramót þótt engum flugeldum væri skotið upp. 


Megi árið 2008 verða okkur öllum gleðilegt!

Ég vil óska öllum vinum, vandamönnum, bloggvinum og blogglesendum gleðilegs árs. Eins og sum ykkar vita kannski hef ég spáð því að árið 2008 verði mun betra ár en 2007 og ég vona að það eigi við um alla. Ég er alla vega sannfærð um að það mun eiga við mig.

Ég óska sjálfri mér þess að ég klári ritgerðina og útskrifist, finni mér góðan mann, fari að minnsta kosti einu sinni til Íslands, fari oft á skíði, skori mörg mörk í fótbolta, verði betri klifrari, missi ein tvö þrjú kíló í viðbót, nái að hitta alla vini mína, líka þá sem búa í fjarlægum löndum (þ.e. fjarri bæði Íslandi og Kanada) og verði almennt hamingjusöm.

Ykkur hinum óska ég þess að allir ykkar (raunhæfu) draumar rætist og að þið eigið yndislegan tíma með vinum og ástmönnum og að þið verðið almennt hamingjusöm.

Ég ætla ekki að strengja nein áramótaheit enda ekki gert það í mörg ár, en ég ætla samt að gera mitt besta til þess að allt ofangreint rætist.

 

 


Munið þið eftir þessari mynd?

YouTube er eitt það skemmtilegasta sem fram hefur komið á Netinu undanfarin ár. Maður getur endalaust fundið dásamleg myndbönd. Það sem mér finnst allra skemmtilegast er þó þegar ég finn gömul mynbönd eða hluta úr bíómyndum sem ég hef ekki séð síðan ég var krakki.

Í kvöld horfði ég t.d. á eftirfarandi fjögur myndbönd úr stórkostlegri bíómynd sem ég er viss um að allir á mínum aldri, og þeir sem eldri eru, þekkja. Veit ekki með þau yngri en ég fer ekki ofan af því að allir krakkar eiga að horfa á þessa mynd og helst oft.

 

 

 
 

Vindurinn ógurlegi (sem ég er löngu hætt að skilja)

Ég er algjörlega hætt að vita hvort vindur er mikill eða ekki eftir upplýsingar frá veðurstofu. Það var nýbúið að breyta kerfinu þegar ég flutti til Kanada þannig að ég hafði aldrei náð að tengja metra á sekúndur við vindinn. Svo kom ég hingað út þar sem notaðir eru kílómetrar á klukkustund og fyrsta hugsun var að það ætti bara að vera metrar á sekúndu sinnum hundrað. En sem betur fer þurfti ég ekki að hugsa mikið þegar ég fattaði að það eru þúsund metrar í kílómetra en sextíu mínútur í klukkustund. Þessi reikningur gekk því ekki.

Það gengur þó betur að skilja vindstigin hér því ég get alla vega borið hraðann við hraða bíla sem einnig er reiknaður í kílómetrum á klukkustund. Annars skiptir það svo sem engu hérna hver vindurinn er því við fáum næstum því aldrei almennilegan vind. Kannski tvisvar á ári og þá hrynja trén, en hér er næstum aldrei hvasst. Ekki eins og heima.

En helst vildi ég bara hafa gömlu vindstigin. Ég veit hvað það þýðir þegar við fáum 12 vindstig.


mbl.is Mjög hvasst undir Hafnarfjalli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sævar syngur á plötu

Síðustu tvo dagana hef ég haft jóladiskana mína þrjá í spilaranum (sem tekur einmitt þrjá diska). Ljótu hálfvitana, Ellen og Álftagerðisbræður. Ljótu hálfvitarnir minna mig að sumu leyti á Spaðana, sérstaklega kassettuna sem þeir gerðu áður en þeir gáfu út geisladisk. Svolítið svipuð gleðitónlist og fyndnir textar.  Ekki er ég þó frá því að textar hálfvitanna séu fyndnari.

Annars datt mér eftirfarandi í hug þegar ég hlustaði á fjórða lag disksins, Raunasaga úr fjölbýlishúsi, ljóð, texti og söngur: Sævar Sigurgeirsson:

Bekkurinn okkar í MA, sem var B-bekkur málabrautar, var mjög söngelskur og voru allir nema Sissó flugmaður í Söngfélaginu. Það var enda svo að í bekkjarpartýum var mikið sungið. Þetta var almennt mikill listabekkur því þó nokkrir gerðu tónlist að sínu framtíðarstarfi og margir voru í leiklistarklúbbnum. En Sævar söng ekki. Þótt hann væri leikandi uppi á sviði alla daga þá tók hann bara ekki þátt í söngnum (var þó held ég í söngfélaginu). Ég er ekki viss um að hann hafi neitt útskýrt það nema með því að hann langaði ekki að syngja, en auðvitað litum við öll svo á að hann væri bara vitalaglaus. Ekki svo. Á fjórða ári setti leikfélagið upp söngleikinn Gretti og þar lék Sævar Tarzan og söng hástöfum. Og viti menn, hann gat vel sungið. Nú er hann kominn á plötu og syngur bara skratti vel, þótt hann syngi ekki öll lögin sín þar (held að Toggi syngi alla vega eitt þeirra). Já, svona er nú hægt að draga rangar ályktanir.

Ég vil óska strákunum til hamingju með þessa plötu. Hún er virkilega skemmtileg. 

P.S. Sævar, ef þú sérð þetta, vona að þú reiðist mér ekki þótt ég rifji nú í annað skiptið upp sögur af þér úr Menntó! 


Er að lesa Karitas án titils

Í dag datt ég í það að lesa Karitas án titils eftir Kristínu Mörju Baldursdóttur og þessi bók er algjör snilld (eins og mér hafði verið sagt). Ég náði loks að rífa mig frá bókinni af því að ég var orðin svöng og nú er ég að hugsa um að reyna að vinna eitthvað áður en ég leyfi mér að lesa meira því ef ég byrja að lesa aftur verður ekkert úr lærdómnum í dag. Og þótt nú sé jólavikan þá fær maður svo sem aldrei frí frá ritgerðasmíð - fyrr en ritgerðin er búin. En Karitas freistar. Það er spurning hvort lestur eða skriftir vinna stríðið.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband