Komin heim
23.8.2007 | 04:43
Þá er ég komin norður fyrir landamærin á ný. Heim í litlu íbúðina mína. Ferðin heim var tiltölulega róleg en löng. Við lögðum af stað frá Lake Oswego um tuttugu mínútum yfir sjö í morgun og ég var komin heim rétt um hálf sjö í kvöld. Lestarhlutinn var notalega en rútuparturinn tiltölulega pirrandi. Það var fyrst og fremst vegna þess að fyrir framan mig sat ástfangið par sem var stanslaust að kyssast og þau gátu ekki sleikst almennilega - nei, þau þurftu að vera að smella kossum hvort á annað alla leiðina þannig að ég gat ekki sofið fyrir einhverjum bölvuðum kossahljóðum. Og nei, ég er ekki bara öfundsjúk vegna þess að mér fannst strákurinn fremur óspennandi. Þar að auki hefði ég bara kysst almennilega en ekki stundað þetta mömmukossaflens. Og til að bæta gráu ofan á svart þá svaf náunginn fyrir aftan mig megnið af leiðinni og hraut svona ógurlega. Sem sagt, hrotur fyrir aftan, kossar fyrir framan, og ég sem gleymdi iPodnum mínum í hleðslu heima. Og til að toppa söguna kom Rósa kerlingin í heimsókn um miðjan dag, aðeins fyrr en ég hafði búist við, og ég var því ekki alveg nógu vel sett með það sem til þurfti. Og ég sem vanalega er alltaf með slíka aukahluti í bakpokanum.
Síðustu dagar hafa annars verið mjög yndislegir. Á mánudagskvöldið fór ég með Joanne á ToastMasters fund og það var áhugavert. Ég kenndi einu sinni Tjáningu við MA þannig að ég er almennt hlynnt svona klúbbum. Á eftir fórum við út að borða með David sem er svona on-again-off-again kærasti Joanne. Þau eru off-again eins og er en hann hefur verið að hringja í hana upp á síðkastið þannig að hann vill greinilega vera on-again.
Í gær fór ég svo í dýragarðinn með Max og það var alveg stórskemmtilegt. Garðurinn er mjög fallegur og margt skemmtilegt að sjá þarna. Hápunkturinn var án efa oturinn sem við horfðum á dágóða stund. Hann synti sama hringinn aftur og aftur og megnið á bakinu. Eftir nokkra stund lét hann sig fljóta á bakinu og fór að sjúga einhvern fjandann...eitthvað langt, rautt...Guð minn góður, þetta hlýtur að vera draumur allra karlmanna...að geta sogið sitt eigið... Við roðnuðum pínulítið þegar við föttuðum hvað það var sem hann var að totta á og af og til það sem eftir er dagsins hlógum við pínulítið og hugsuðum um oturinn!
Um kvöldið fórum við út að borða með öðrum vini Joanne. Þessi heitir Ken og hann vill líka alveg vera meira en vinur. En hann er of gamall og þar að auki ekki líklegur til að vilja festa ráð sitt. Vinur hans Randy kom með líka - myndarlegur maður en enginn virðist hafa sagt honum að karlmenn eiga alls ekki að vera með yfirvaraskegg. Skil bara ekki þessa áráttu sumra karla. Vita þeir ekki að ef maður er með skegg á það að vera báðum megin við varirnar - ekki bara fyrir ofan, ekki bara fyrir neðan. Ellen og Peter komu líka með. Þau fara allt of sjaldan út eftir að Ellen varð svona veik, en nú er hún búin að fá þennan fína hjólastól og ætti ekki að vera neitt að vandbúnaði. Við þurftum að draga þau með en svo voru þau alveg himinlifandi yfir ferðinni.
En sem sagt, þetta var alveg hin fínasta afslöppunarferð til Oregon og ég þarft að fara aftur á djammið með henni frænku!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 04:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Ekki ástarhandföng
23.8.2007 | 02:51
![]() |
Ástarhandföngin" máð út |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Um athugasemdir
21.8.2007 | 17:08
Einhvers staðar nýlega las ég að mælikvarðinn á hversu skemmtilegt eða áhugavert blogg væri, væri ekki fjöldi heimsókna á síðuna heldur fjöldi athugasemda. Samkvæmt þessu er ég alveg hrútleiðinleg því þótt heimsóknir síðasta sólarhring séu vel yfir þúsund þá hef ég aðeins fengið fimm athugasemdir síðan á föstudag (fjögur blogg skrifuð) og þar af eru tvær frá mér.
Einu skiptin sem hressist verulega í athugasemdakerfinu hjá mér er ef ég óvart móðga einhvern eða einhver athugasemdin móðgar einhvern. Ef ég skrifa um pólitík eða eitthvað sem viðkemur fjármálaheiminum þá hressist heldur betur í kerfinu.
Gallinn er að mér þykir ekkert gaman að skrifa um svoleiðis. Það er miklu skemmtilegra að skrifa um það við hvað ég er að fást, eða hvað ég hef nýlega séð eða lesið. Það er greinilega ekki eins skemmtilegt aflestrar en ég hef nú aldrei bloggað fyrir aðra - bara sjálfan mig, enda fékk ég að heyra nýlega í athugasemd að ég væri sjálfselsk af því að ég vonaði að krónan lækkaði ekki meira.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Tók einhver eftir því...
21.8.2007 | 05:56
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kanarnir eru fínir þegar þeir eru ekki saman í hóp
20.8.2007 | 23:22
Það er svo merkilegt með kanann að einstaklingarnir eru alveg yndislegt fólk upp til hópa en þegar þeir koma saman, eða þegar þeir eiga að kjósa, þá eru þeir þvílíkir asnar að maður vill ekkert hafa með þá að gera. Ég er búin að vera á stórPortlandsvæðinu síðan á föstudagskvöld og hef ekki mætt neinu nema almennilegheitum og kurteisi. Í dag þurfti ég t.d. að taka strætó frá klifursalnum og heim til Joanne og ég vissi eiginlega ekki hvar ég átti að fara út úr strætónum. Joanne hafði sagt mér að ég færi út við Osweego point og að það væri bíóhús rétt hjá. Ég spurði ökumann strætósins hvort hann vissi hvar Osweego Point væri en hann vissi það ekki. Ég spurði þá útí bíóhúsið og hann mundi eftir einu sem var svona nokkurn veginn á leiðinni. Ég ákvað að láta á það reyna. Allt í einu sé ég skilti þar sem á stendur Foothills Drive, og ég þekkti að það var nafnið á götu Joanne. Svo ég spurði vagnstjórann hvar næsta stoppistöð væri. Hann sagði sirka tveimur götum ofar. Svo ég sagði að þetta hefði einmitt verið gatan. Og jújú, þarna var kvikmyndahúsið. Heldurðu að þessi elska hafi ekki sagt: Heyrðu, við búum bara til stoppistöð hérna. Og svo stöðvaði hann vagninn og hleypti mér út. Þeir gera þetta nú ekki allir vagnstjórarnir.
Dagurinn var annars fremur rólegur. Ég hafði ætlað í dýragarðinn með Max en það var mígandi rigning þegar ég vaknaði þannig að ég fór í verslunarmiðstöð í staðinn. Alltaf gaman að koma í búðirnar sem ekki eru í Kanada, svo sem Victoria's secret, Nordström, JCPenny, Macy's o.s.frv. Þetta var líklega langgáfaðast í rigningu. Um eitt leitið kom Joanne svo og skutlaði mér í klifurhús sem hún hafði fundið á netinu (ég hafði fundið klifurhús og ætlaði þangað en hún fann annað sem var nær. Þarna var eingöngu verið að bouldera sem hentaði mér því það var einmitt það sem ég ætlaði að gera. Salurinn var risastór og boðið var upp á sirka 200 leiðir. Skalinn var kannski örlítið hærri en hjá Cliffhanger. Ég gat klifrað allar V1 leiðirnar en mér fannst V2 erfiðari en ég er vön. Það sem var verst var að veggirnir voru hærri en í Cliffhanger og dýnan undir þynnri. Mér var því alls ekki vel við að fara alla leið upp. Stundum sleppti ég því hreinlega að klára því ef ég dytti af síðasta haldi var fallið nokkuð hátt og auðvelt að snúa ökklann. Það sem gerði þetta enn erfiðara var að af því að leiðirnar enduðu svo hátt varð maður að klifra aftur niður en gat ekki bara stokkið eins og ég er vön. Maður gat því ekki sett allan sinn kraft í að komast upp. Eitthvað varð að vera eftir fyrir niðurleiðina. Í eitt skiptið þar sem ég þurfti mjög hátt til að klára og næstsíðasta hald var mjög slæmt lenti ég í því að þegar ég reyndi að ná aftur næstsíðasta haldinu á niðurleiðinni missti ég takið og datt alla leið niður. Það hafa líklega verið einir þrír metrar og mér fannst ég heppin að lenda rétt. Þess vegna er ég svo hrifin af Cliffhanger. Mér finnst ég öruggari þar. En þetta var auðvitað þrælskemmtilegt og ég klifraði alveg fjölda leiða. Af nógu var að taka. Þetta er hins vegar ekki eins vinalegt og í Cliffhanger því svæðið er svo stórt að maður situr aldrei og horfir á aðra klifra og það var erfiðara að kynnast nokkrum. Allt hefur sína kosti og galla. Ég klifraði m.a. eina leið þarna á klettinum sam hangir úr loftinu. Þá varð maður að byrja á því að hífa sig upp svo maður fái grip fyrir fæturnar. Gott fyrir magavöðvana.
Á leiðinni til baka keypti ég sætabrauð og ætlaði að koma við hjá Ellen og Peter en hringdi þó á undan því ég vildi ekki bara mæta á svæðið ef ske kynni að þau væru að blunda. Þau svöruðu ekki símanum svo ég fór heim til Joanne í staðinn. Vona að Ellen hringi í mig þegar hún fer á fætur og þá get ég rölt uppeftir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Djammið í Portland
20.8.2007 | 05:35
Í gærkvöldi (laugardagskvöld) fór ég á djammið með Joanne frænku minni og ég get sagt ykkur að hún er snillingur í djamminu. Hún hefur allt sem mig vantar (kjark og þor) þegar kemur að þeirri hlið lífsins. Hún húkkaði fyrsta gæjann í bílastæðahúsinu þegar við vorum að leggja. Eftir um einnar mínútu spjall ákvað hún að við ætluðum að fara með honum á pöbb sem við og gerðum. Hittum tvo vini hans sem reyndust vera hjón. Við vorum að vona að vinirnir væru tveir karlmenn. En þá vantaði sko ekki og Joanne óð á milli þeirra, talaði við alla og daðraði eins og henni væri borgað fyrir þetta. Ég held hún sé núna átrúnaðargoðið mitt. Enda hef ég aldrei talað við eins margt fólk á djamminu, hvorki karla né konur (við töluðum nefnilega við nokkur pör og þannig komu konurnar inn í þetta líka). Það komu upp mörg ferlega fyndin atriði. Við fórum fyrst á bar sem hét Henry's og síðan á The Vault og þegar við komum á síðari staðinn rákumst við á stelpu sem við höfðum rekist á nokkrum sinnum á Henry's. Svo við spjölluðum aðeins við hana. Ég sá þá geysilega myndarlegan strák og nefndi það við stelpurnar. Þá sagði nýja vinkona okkar: "Heyrðu, ég skal fara og segja honum að þér finnist hann sætur." Og með það fór hún og mér leið eins og ég væri tólf ára og stakk af inn á klósett. Einhverjum klukkutímum seinna var ég sem oftar í röðinni eftir klósettinu þegar einhver náungi fer að spjalla við mig. Og hvað segir hann: "Heyrðu, heitirðu Kristín?" (Já) "Vinkona þín kom til vinar míns fyrr í kvöld og sagði að þér þætti hann sætur. Hann var í brúnni skyrtu!" Ég sökk niður í jörðina en var enn og aftur bjargað af klósettinu! Ég var í alvöru komin aftur í grunnskóla. Ég sá hvorugan þessa stráka aftur. En það þurfti nú ekki að kvarta yfir karlmannaúrvalinu því Joanne laðaði þá til sín eins og mykja laðar til sín flugur. Og ef ég var ekki alltaf að tala við einhvern fór hún og sótti karlmenn og sagði: "Þú verður endilega að hitta frænku mína frá Íslandi."
En ég verð að segja ykkur frá dásamlegustu tilviljun síðustu ára. Joanne elskar dýr og langar mikið að búa í sveit og hafa dýr. Ég var að stríða henni á að hún þyrfti bara að auglýsa eftir góðum bónda. Þá fengi hún mann og sveitabæ í einu. Fremur stuttu eftir að við komum inn á The Vault sér Joanne mann standa við barinn og horfa á hana. Svo hún gefur honum merki um að koma og setjast hjá sér, sem hann og gerir. Um fimm mínútum inn í samtal þeirra segir hann við hana: "Joanne, hvað er það sem þú vilt?" (og á við svona almennt - út úr lífinu, sambandi, etc) Og Joanna svarar: "Æ, ég held ég vilji bara nokkrar hænur." Og hann svarar: "Og ég á einmitt hænur". Í ljós kom að hann er býsna vel settur vínekrueigandi og á víngerð og ekrur út um alla Oregon. Hann á líka búgarð í Montana þar sem hann er með hænur ásamt öðru. Þvílík tilviljun. Þarna fann Joanne sinn bónda. Þau tvö töluðu saman allt kvöldið og knúsuðu hvort annað svolítið. Hann hringdi svo í dag að láta vita að hann hefði þurft að fara til Eugene en að hann vildi hitta hana aftur. Kannski eitthvað meira eigi að gerast á eftir þeim.
Og rétt eins og við byrjuðum á því að húkka stráka í bílahúsinu endaði strákastandið líka þar. Bruce hænsnabóndi fylgdi okkur að bílnum eins og góðum dreng sæmir og við hittum líka tvo mexíkóska stráka á leiðinni þangað sem enduðu á því að labba með okkur að bílnum líka. Og þar hoppuðum við upp í jeppann hennar Denise, vinkonu Joanne og keyrðum heim. Ég held ég hafi aldrei upplifað annað eins djamm og með henni frænku minni.
Dagurinn í dag var rólegur enda við þreyttar. Við borðuðum síðbúinn hádegisverð með Ellen og Peter og Max, sonur Joanne kom líka í heimsókn. Hann er 22 ára og algjör dúlla. Við þrú fórum síðan aðeins út í sveit á lítinn bændamarkað og fundum meira að segja lítinn bæ þar sem voru hænur, endur, kalkúnn, gæsir og eitthvað fleira. Joanne hafði tekið með sér brauð og varð umsvifalaust umkringd af fiðurfé. Þetta var alveg stórskemmtilegt. Á bændamarkaðinum var líka hægt að kaupa blóm. Þá fór maður sjálfur út með klippur og klippti bara þau blóm sem maður vildi. Það kostaði um 700 krónur að kaupa fulla fötu af blómum. Gott verð og skemmtilegt að gera þetta svona.
Á morgun þarf Joanne að vinna en Max vinnur á veitingahúsi á kvöldin svo hann á frí á daginn. Þannig að við frændsystkinin ætlum að skreppa í Oregon dýragarðinn á morgun og njóta lífsins aðeins. Á þriðjudaginn held ég að ég fari svo og prófi klifurhús í Portland. Ég held að ég stoppi of stutt hérna. Það er svo margt skemmtilegt hægt að gera. Ég verð bara að koma aftur og þá get ég farið aftur á djammið með Joanne. Ég verð hvort eð er að safna kröftum áður en ég get gert það aftur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 05:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Komin til Oregon
18.8.2007 | 15:32
Ég sit nú í gestaherbergi frænku minnar í Lake Osweego, Oregon, lítilli borg í nágrenni Portland. Ég ætlaði að sofa út en vaninn er líklega orðinn sterkur svo ég vaknaði upp klukkan átta eins og flesta daga. Hefði reynt að kúra mig nema ég þurfti að að losa mig við svolítið vatn. Svo í staðinn kveikti ég á tölvunni og komst að því að einhver í nágrenninu er með WiFi tengingu svo ég komst inn á netið. Í stað þess að skrifa meira nú set ég inn það sem ég var að dunda mér við að skrifa í lestinni í gær.
-----------------------
Þessa stundina sit ég í lest á leið frá Seattle, Washington til Portland, Oregon. Ég er búin að vera á ferð í sjö klukkutíma.Ég varð að taka daginn snemma og vaknaði klukkan sex, kláraði að pakka niður og borðaði morgunverð á meðan ég spjallaði við mömmu á Skypinu. Hún var eldhress þrátt fyrir sjötíu árin og var farin að undirbúa partýið. Klukkan sjö var ég mætt út á strætóstöð og tók vagninn niður að VC Clark þar sem ég skipti yfir í lest yfir að Broadway, skipti yfir í aðra lest niður að Main þar sem aðal umferðamiðstöð borgarinnar er. Þar tók ég svo rútuna niður til Seattle. Klukkan var orðin átta og rútan full þegar lagt var af stað.
Það tók rúman klukkutíma að komast niður að landamærunum og þar urðu allir að fara úr rútunni og fara í gegnum vegabréfa- og tollskoðun. Það gekk alveg ótrúlega hægt og sérstaklega töfðu fyrir hópur unglingsstúlkna og kínverskt part. Þessi sex voru næstum því fimmtán mínútur að fara í gegnum vegabréfaskoðunina og á meðan komst enginn eitt né neitt. Það kom loks að mér og ég var alveg ótrúlega heppin með tollvörð. Hann var nýtekinn við og þetta var pottþétt almennilegast embættismaður Bandaríkjanna sem ég hef nokkurn tímann þurft að eiga við. Hann brosti og hló (sem maður sér næstum því aldrei), spurði mig út í námið og við enduðum á löngum samræðum um stöðu indjánamála í Norður Ameríku á meðan hann skráði inn allar upplýsingar um mig. Ég held hann hafi meira að segja daðrað pínulítið því hann sagði að það væri eitt af því góða við starfið að hann fengi að hitta skemmtilegt og áhugavert fólk. Ég hafði orð á því að hann hitti víst ansi marga á dag og hann svaraði því að það væri rétt en ekki væru allir skemmtilegir! Ég tók þessu að sjálfsögðu sem hóli. Svona eiga landamæraverðir að vera, ekki yfirlætisfullir leiðindarpúkar eins og þeir eru flestir. Ég gæti sagt margar sögur af við ræðum mínum við landamæra- og tollverði.
Við komum loks til Seattle og þar höfðum við klukkutíma áður en lestin legði af stað til Portland. Lestarstöðin er nógu falleg utan frá en er eins og lítið og ljótt vöruhús að innan. Þar að auki er plássið lítið og erfitt að fá nokkrar upplýsingar án þess að fara í langa röð. Ég settist niður og borðaði samlokuna mína. Það minnir mig reyndar á að ég gleymdi að segja frá því hvernig ég óvart smyglaði bannvöru inn í Bandaríkin. Eftir að ég var búin að fá samþykki frá vegabréfaeftirlitin varð ég að fara í gegnum tollskoðun. Tollvörðurinn spurði mig hvort ég væri með ávexti eða nautakjöt. Ég hafði borðað bananann minn áður en kom að landamærunum, enda vissi ég að Bandaríkjamenn eru viðkvæmir fyrir slíku, en ég var hins vegar með samloku með mér sem ég hafði gripið í gær í Safeway (löglega). Ég mundi ekkert hvað var á henni svo ég dró samlokuna upp úr töskunni og í sameiningu komumst við tollvörður að því að ekkert nautakjöt væri á henni. Bara skinka. Þegar ég kom aftur í rútuna var ég orðin svolítið svöng en vildi ekki borða samlokuna mína strax svo ég rótaði í bakpokanum og komst að því, sem ég hafði gleymt, að ég var með stóran poka af beef jerky, sem er þurrkað nautakjöt!!! Hm hm. Ég er sem sagt orðin smyglari. Eins gott að ég var ekki handtekin. Annars hafði ég mestar áhyggjur af klifurkrítinni sem ég var með mér. Fullur poki af hvítu dufti! Ef þeir hefðu bara séð það held ég hefði verið dregin inn í eitthvert herbergi og látin afklæðast!
En ég var í Seattle áður en kom að þessum útúrdúr. Ég sá að fólk fór að raða sér upp mjög snemma, tæpum klukkutíma áður en lestin átti að leggja af stað. Ég vissi ekkert af hverju en datt í hug að þetta hefði eitthvað með sæti að gera. Þegar röðin var orðin virkilega löng fór ég loks og spurði einhvern. Þar var mér sagt að sætin væru ekki númeruð og að fólk væri búið að raða sér upp til þess að ná sem bestum sætum. Mér þykir gott að hafa gluggasæti á slíkum ferðum svo ég skellti mér í röðina, enda gat ég alveg eins beðið þar eins og einhvers staðar annars staðar. Notaði tækifærið til þess að hringja til Akureyrar og tékka á stöðu sjötugsafmælisins. Þar var búið að vera gargandi stuð í allan dag, og þarna um kvöldmatarleytið var bara pása. Von var á fleira fólki um kvöldið. Svona eiga afmæli að vera.
En sem sagt, nú sit ég í lestinni á leið til Seattle og verð að dunda mér eitthvað í fjóra klukkutíma. Ég veit ekkert hvenær ég get sett þessa færslu inn en vonandi verður þess ekki langt að bíða.
---------------------------------
Joanne frænka mín tók á móti mér við lestina og við stoppuðum heima hjá henni (ég fór í sturtu eftir langa ferð) áður en við fórum til Ellenar og Peters í kvöldmat. Við sátum og spjölluðum í nokkra klukkutíma en fórum heim um níu leytið því Ellen og Peter voru orðin þreytt. Þau er bæði 82 ára og orðnir heilmiklir garmar. Ellen þjáist af Pulmunari Fibrosis sem ég veit ekki hvað heitir á íslensku en þýðir að hún á erfitt með að anda og er í súrefni. Fæturnir á Peter eru orðnir slæmir og hann á erfitt um gang. Þetta gerist víst þegar fólk eldist.
Við Joanne spjölluðum í nokkurn tíma eftir að við komum til baka en fórum líka snemma í háttinn. Ég svaf afskaplega vel og hluta næturinnar með eitt stykki kött undir rúminu. Veit ekki hvenær hann yfirgaf mig.
Í kvöld ætlum við Joanne á djammið að kíkja á stráka. Það er tími til kominn. Orðnir tveir mánuðir síðan við Martin hættum saman og ég hef ekki gert neitt í málinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Til hamingju með afmælið mamma
17.8.2007 | 05:24
Móðir mín elskuleg er sjötug í dag. Ég trúi því eiginlega ekki því hún er svo ungleg. Lítur varla út fyrir að vera sextug, hvað þá sjötug. Ég vildi að ég gæti verið hjá henni á þessum stóra degi en úr því gat ekki orðið svo ég verð að láta nægja símtal og kveðjur hérna á vefnum. Vona að þið sameinist öll um að senda henni falleg hugarskeyti.
Mamma og pabbi hafa alltaf verið dásamlegir foreldrar. Auðvitað rífumst við mamma stundum en við erum fljótar að fyrirgefa hvor annarri og hún og pabbi eru án efa meðal minna bestu vina. Ég hef alltaf getað leitað til þeirra þegar ég á í vandræðum. Þau hafa líka alltaf stutt mig í öllu sem ég geri og ég held að þau hafi sjaldan vantað þegar ég var að keppa á skíðum, í frjálsum eða öðrum íþróttagreinum. Þau eru einmitt svona foreldrar sem gera allt fyrir börnin sín, og það er ekki bara ég sem hef fengið að njóta góðmennsku og gjafmildi þeirra. Ég er viss um að bærður mínir segðu hið sama, þótt stundum hafi barnabörnunum verið spillt aðeins og mikið. En er það ekki það sem afar og ömmur eiga að gera?
Ég set inn tvær myndir með þessari færslu. Annars vegar mynd af mömmu og ömmu og hins vegar mynd af mér og mömmu frá síðustu áramótum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Vitlaus kerling
17.8.2007 | 00:12
Ég var að koma heim úr skólanum í dag með strætó (eftir að hafa hjálpað tveimur kennurum mínum að flytja) og þegar strætóinn ætlaði að beygja inn Blanca varð hann að stoppa því það var búið að setja upp umferðakeilur til að stoppa umferðina. Neðar í götunni sáum við kyrrstæðan strætó svo og brunabíl. Það virtist sem ein rafmagnslínan sem heldur strætó gangandi (þeir tengjast rafmagnslínum í loftinu) hafi slitnað. Það var ljóst að strætó gæti ekki keyrt niður þessa götu á næstunni og af því að það var ekki langt heim til mín þaðan þá fór ég bara út úr vagninum og gekk heim.
Ég labbaði niður með götunni og gat því séð skemmdirnar vel en það sem var merkilegast, og er ástæða þessa skrifa, sá ég þegar ég nálgaðist umferðakeilurnar hinum megin við staðinn. Þar var líka búið að loka á umferð en stuttu áður en ég kem að keilunum kemur kerlingarálft á stórum bíl, hægir á sér við keilurnar, og keyrir svo bara yfir eina þeirra, og dregur hana með sér undir bílnum. Hún gat vel séð slökkviliðsbílinn og strætisvagninn á miðri götu. Það var engin leið að komast fram hjá. Og það var enginn staður sem hún gæti hafa átt erindi á sem hún gat ekki komist á með því að beygja niður á Tolmie í staðinn. En kerla keyrði bara inn götuna og var loks stoppuð af slökkviliðsmanni sem gargaði alveg vitlaus á hana að það væri ástæða fyrir því að búið væri að loka götunni og hún skyldi hundskast á burt. Hún maldaði greinilega eitthvað í móinn því hann hélt áfram að reyna að útskýra fyrir henni að hún gæti bara ekki keyrt yfir umferðakeilur eins og ekkert væri. Svo skipaði hann henni að snúa við en hún hélt nú ekki. Það tók nokkurn tíma áður en sneri loks til baka. Ég greip keiluna með mér og labbaði með hana á sinn stað enda á leiðinni. En mikið rosalega getur sumt fólk verið heimskt og tillitslaust.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ætti að taka hokkíþjálfara sér til fyrirmyndar
16.8.2007 | 15:45
Ég skrifaði færslu um það í vor, þegar ég var að horfa á Stanley bikarinn, hvernig hokkíþjálfarar eru ólíkir þjálfurunum í ensku fótboltadeildinni, sérstaklega þjálfurum stærri liðanna. Menn eins og Fergusson, Mourhino og já, líka Wenger, eru síkvartandi, alltaf með eitthvert skítkast og virðast helst aldrei viðurkenna neitt sem þeirra eigin leikmenn gera. Og ef þeir geta ekki neitað því að leikmenn hafi gert það sem þeir gerðu þá koma þeir með afsaknir, eins og að þeim hafi verið ögrað.
Ég horfði á alla blaðamannafundi eftir leiki Vancouver í hokkíinu, bæði viðtölin við Vigneault, þjálfara Canucks, en einnig þjálfara andstæðinganna, og aldrei nokkurn tímann sá ég þá segja neitt ljótt um andstæðinginn, og ef þeirra leikmenn höfðu verið reknir út af þá gerðu þeir aldrei neitt til þess að afsaka það. Einu sinni gerðist það að Vigneault viðurkenndi að hann væri ekki ánægður með hvernig hitt liðið hafði reynt að koma höggum á markvörð Canucks, en það var ekki fyrr en hann var beinlínis spurður. Og þá sagði hann að já, hann væri óánægður með það og hann væri búinn að ræða þetta við rétt yfirvöld, og svo var það ekki nefnt meir. Þessir menn sýna leikmönnum, dómurum og öðrum þjálfurum geysilega virðingu og kurteisi.
Það kemur reyndar fyrir að svo er ekki og ég veit um eitt síðasta vetur þar sem þjálfari var í vondu skapi og hreytti í allt og alla, en hann virtist aðallega fúll út í fréttamenn og neitaði að svara spurningum þeirra. Ég veit líka til þess að tveir framkvæmdastjórar (Bryan Burke hjá Anaheim og hvað sem hann heitir hjá Minnesota Wild) hafi háð nokkurs konar stríð í fjölmiðlum en svoleiðis hlutir eru algjör undantekning.
Ég vildi geta notið ensku knattspyrnunnar án þessa væls sem kemur frá þjálfurum. Hver þeirra sem á í hlut. Þetta er skemmtileg íþrótt og þarna spila margir frábærir knattspyrnumenn og það ætti að vera aðalatriðið.
![]() |
Ferguson: Ronaldo var ögrað og hann féll í gildruna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)