Færsluflokkur: Bloggar
Hvers vegna kanadíska riddaralögreglan ætti aldrei að leika jólasveininn
24.11.2007 | 20:14
Mikið hefur verið rætt um notkun taser byssna hér í Vancouver undanfarið; ekki bara vegna dauða Roberts Dsiekanskies heldur einnig vegna ungs manns í Chilliwack sem nú liggur milli heims og helju eftir að hafa verið skotinn með taser og barinn með kylfum, tæpum mánuði eftir dauða Dsiekanskies. Þessi umræða hefur líklega kveikt hugmyndina að þessari mynd sem birtist í Vancouver Province fyrir nokkrum dögum. Þetta er sem sagt ástæðan fyrir því að kanadíska riddaralögreglan ætti ekki að taka að sér hlutverk jólasveins fyrir jólin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Lítið gerst en þokkaleg dagskrá framundan
23.11.2007 | 19:36
Ég hef bloggað skammarlega lítið þessa vikuna. Yfirleitt hef ég eitthvað að segja á hverjum degi en einhvern veginn hef ég bara verið svona andlaus undanfarið.
Dagurinn í dag er fremur skipulagður, ef frá er talinn morguninn sem hefur farið í langan morgunverð, svolitla tiltekt (frekari tiltektar er krafist), spjall við mömmu og pabba, heitt og gott bað... (hehe, ég skrifaði hott og gott - orðin soddan Vestur-Íslendingur). En svo tekur alvaran við. Klukkan hálftvö fer ég á fund með umsjónarkennaranum mínum. Það góða er að við ætlum að hittast á Starbucks og hún hefur lofað að kaupa handa mér graskerslatté sem alltaf er selt fyrir jólin. Ég vona að þetta verði góður fundur og að ég nái að vinna í gegnum vandamál sem ég er að reyna að leysa í ritgerðinni.
Þar á eftir ætla ég að fara og hlusta á fyrirlestur hjá David Pesetsky sem er þekktur málfræðingur. Ég man eftir að hafa hitt hann á ráðstefnu fyrir mörgum árum þegar ég var í MA námi heima á Íslandi. Man þó ekki hvort það var á GLOW í Svíþjóð 1993 eða á einhverri ráðstefnunni í Boston 1994.
Að loknum fyrirlestrinum ætla ég að sleppa því að fara á pöbb með hinum og rjúka fremur heim og horfa á Canucks spila á móti St. Louis. Þeir náðu topp riðilsins í fyrradag með sigri á Minnisota en misstu hann aftur í gær þegar Colarado vann Edmonton. Ef þeir vinna í kvöld komast þeir aftur á toppinn. St. Louis hefur verið á skriði undanfarið og unnið flesta sína leiki síðustu vikurnar en það á við Canucks líka. Af síðustu níu leikjum hafa þeir unnið sjö og tapað tveim í vítakeppni.
Um leið og leikurinn er búinn ætla ég til Halls og Andreu sem ætla að halda Sigurrósar partý í kvöld. Þau eru nýbúin að fá nýja diskinn 'Heima' og það á sem sagt að vera sýningarpartý á disknum. Ég mun reyndar missa af sýningunni þar sem ég ætla að horfa á leikinn, en ég fæ hann bara einhvern tímann lánaðan hjá þeim. En ég ætla samt að mæta síðar því ég efast um að liðið fari heim að sýningu lokinni. Það er orðið langt síðan síðasti Íslendingahittingur var þannig að ég mun hafa gott að því að tala íslenskuna.
Á morgun fer ég svo í skautatíma númer 3. Ég er nokkurn veginn búin að læra að stoppa og er orðin betri í að skauta afturábak. Á morgun eigum við að læra svokallað 'stepover'. Ég hef ekki hugmynd um hvað það kallast á íslensku....yfirstig?
Á sunnudaginn spilum við í fótboltanum á móti Wildcats sem hafa unnið alla sína leiki undanfarið. Þær voru ekki svo góðar þegar við spiluðum við þær í haust þannig að ég hef trú á að þær hafi bætt við leikmanni - einhverri góðri. Við munum þurfa að spila mun betur en um síðustu helgi ef við eigum að eiga séns.
Á mánudaginn er planið að keyra niður til Blaine, Washington, borða mexíkanskan mat (sem er alltaf betri í USA en í Kanada - og ég neita að kalla þetta mexíkóskan mat - hef aldrei samþykkt röksemdafærslu Árna Bö um það af hverju við ættum að segja það) og keyra svo til baka svo ég geti orðið fullgildur meðlimur í kanadísku samfélagi. Vona að ekkert komi uppá.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Rannsókn á málskilningi með snertingu
22.11.2007 | 08:11
Það er mjög sjaldgæft að í dag finnist einstaklingar án heyrnar og sjónar en að öðru leyti alheilbrigðir. Það gerðist þó á fyrstu áratugum síðustu aldar að alvarlegur sjúkdómur gat lagst á bæði þessi skilningsvit. Ég man ekki lengur hvaða sjúkdómur þetta var en hann er mjög sjaldgæfur nú. Þeir sem lentu í þessu áttu því erfitt með að skilja tungumál því þeir gátu ekki heyrt það sem sagt var og af því þeir höfðu ekki sjón gátu þeir ekki notast við táknmál. Ótrúlegt en satt, fyrir þetta fólk var þróuð hin svokallaða Tadoma aðferð þar sem viðkomandi lagði aðra höndina yfir andlitið á þeim sem hann talaði við, þannig að þumalfingur var yfir vörunum, og hinir fingurnir dreifðir yfir kinn og háls. Á þennan hátt gátu þessir einstaklingar náð ótrúlegri tækni við að skilja það sem sagt var við þá.
Þegar ég var á fyrsta ári í málvísindadeildinni hér við UBC gerðum við Diana Gibraiel, bekkjarsystir mín, verkefni, þar sem við athuguðum hvort þessi aðferð gæti hjálpað fólki sem aldrei hefði verið kennt að nota þessa aðferð. Við fengum því venjulega háskólanema sem hvorki höfðu skerta sjón né heyrn til þess að taka þátt í könnun okkar og síðan létum við þá ýmist loka augunum eða þá við gerðum þeim erfitt fyrir að heyra.
Takið eftir að við tókum ekki af þeim bæði sjón og heyrn heldur aðeins annað í einu. Það var vegna þess að við ætluðumst ekki til þess að Tadoma aðferðin kæmi í staðinn fyrir sjón eða heyrn heldur að hún gæti hjálpað til við skilning.
Við fengum spennandi niðurstöður út úr þessu og í ljós kom að allir stóðu sig betur þegar þeir settu hönd á andlit þess sem talaði. Mest kom á óvart að ef viðkomandi græddi mjög mikið á því að nota snertingu þegar sjónin var tekin frá honum þá græddi hann lítið á því ef heyrnin var tekin frá og svo öfugt. Niðurstöður voru marktækar.
Í sumar höfum við Bryan, hljóðfræðikennarinn okkar, unnið að því að gera þessar niðurstöður birtingarhæfar og við eyddum töluverðum tíma í það í haust. Við sendum greinina svo í tímarit og á föstudaginn fengum við svar um það að þeir væru hrifnir af greininni en við yrðum þó að skýra ýmsa hluti betur áður en þeir vildu birta hana.
Við fengum til þess tíu daga. Við erum búin að laga öll smáatriðin en þrennt er enn eftir. Við þurfum að gefa fleiri tölfræðilegar tölur, við þurfum aðeins að laga gröfin sem fylgja greininni og við þurfum að sýna fram á að Diana, sem var sú sem talaði í rannsókninni, hafi ekki talað hærra þegar viðföngin notuðu snertingu. Bryan tók að sér tölfræðina (sem betur fer) og ég ætla að laga myndirnar og mæla raddstyrkinn hjá Diönu. Gallinn er að það er heilmikið verk. Ég eyddi heilmiklum tíma í það að draga hljóðið út úr vídeómyndinni sem við höfðum af rannsókninni, og á morgun þarf ég svo að setjast niður og mæla raddstyrkinn hjá alla vega fjórum viðföngum, í öllum fjórum umhverfum og í að minnsta kosti 10 dæmum. Þá þarf ég bæði að mæla meðalstyrk og hæsta styrk sérhljóðs. Þetta er hvað, 4x4x10x2. Það þýðir 320 mælingar. Þá veit ég hvað ég mun gera á morgun.
Annars get ég sagt ykkur að þetta eru mjög spennandi niðurstöður hjá okkur og það verður gott að fá þær birtar. Fyrir feril minn er það líka mikilvægt því þetta yrði nefnilega önnur ritrýnda birting mín nú í haust. Ég er ánægð með það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Er næstum orðin kanadísk!
19.11.2007 | 23:40
Kæru bloggvinir. Hér með vil ég tilkynna að ég er nú Permanent Residence of Canada. Það þýðir ekki að ég sé orðin ríkisborgari en ég hef nú öðlast flest réttindi sem ríkisborgari hefur, og ég get þar að auki dvalið í landinu eins lengi og ég vil og þarf ekki lengur að vera á tímabundnum leyfum. Þá get ég líka fengið mér vinnu ef mér sýnist svo. Ég þarf reyndar að skreppa yfir landamærin og koma svo aftur inn í Kanada með öll mín nýju plögg svo þetta sé nú löglega gert. Svo ætli ég skjótist ekki niður í Washington ríki einhverja næstu daga!
Og fyrst ég er að tilkynna hluti þá get ég líka sagt ykkur að ég er búin að léttast um 15,2 pund, sem er tæp sjö kíló, nú á síðustu tveim mánuðum. Ég á næstum engar buxur sem passa mér og verð alltaf að reyra að mér belti!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Dagur íslenskrar tungu
16.11.2007 | 23:57
Þótt ég sé íslenskufræðingur að mennt hef ég nú ekki gert mikið í tilefni dagsins, nema ég talaði við mömmu í morgun og talaði þar af leiðandi svolitla íslensku. Og svo hef ég líka bloggað á íslensku - en það geri ég nú flesta daga.
Annars hefur mér alltaf fundist að dagur íslenskrar tungu ætti að vera 14. september. Þann dag fæddust þrír íslenskufræðingar: Gísli heitinn Jónsson, íslenskukennari við MA til margra ára, snillingurinn Sigurður Nordal og svo náttúrulega ég.
Bloggar | Breytt 17.11.2007 kl. 00:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Kveðja
16.11.2007 | 17:51
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Smáleiðrétting
16.11.2007 | 00:24
Ég skrifaði ítarlega um þetta á miðvikudaginn svo ég ætla ekki að bæta miklu við en vil þó benda á tvennt sem rangt í þessari frásögn. Í fyrsta lagi handtók lögreglan aldrei manninn - hvernig hefði hún getað það, hún skaut hann 24 sekúndum eftir hún mætti á staðinn. Í öðru lagi er maðurinn sem tók myndbandið 25 ára en ekki 15 ára. Hann er búinn að vera í fréttum undanfarið vegna þessa myndbands sem lögreglan neitaði lengi vel að skila honum. Það var ekki fyrr en hann fór með málið fyrir dómsstól að hann fékk myndbandið til baka. Lögreglan vildi greinilega ekki að þetta væri sýnt. Ekki skrítið - sýnir þessa lögreglumenn ekki beinlínis í fallegu ljósi. Teiserbyssur eru ofnotaðar. Það er staðreynd.
Ef þið viljið sjá myndbandið í fullri lengd kíkið þá á færslu mína frá því á miðvikudag:
![]() |
Maður lést í Kanada þegar lögreglumenn skutu hann með rafstuðbyssu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Hræðilegur atburður í Vancouver
15.11.2007 | 02:46
Ég var núna rétt áðan að horfa á hrikalegt myndband sem tekið var upp á Vancouverflugvelli fyrir nokkrum vikum. Myndbandið var tekið upp af ungum Kanadamanni sem var að koma heim frá Kína. Hann lét lögreglunni myndbandið í hendur með því loforði að hann fengi það aftur innan tveggja daga, en það gekk ekki eftir og hann varð að lokum að stefna lögreglunni til þess að þeir skiluðu myndbandinu. Nú hefur það verið sýnt í öllum fjölmiðlum og það er ekki gott að sjá hvernig lögreglan ætlar að svara fyrir þessa atburði.
Pólskur maður að nafni Dziekanski lenti á Vancouverflugvelli klukkan fjögur í eftirmiðdaginn þann þrettánda október síðastliðinn. Hann hafði í sjö ár safnað peningum til þess að geta flutt til Vancouver til að vera hjá móður sinni. Í einhverja klukkutíma var honum haldið á flugvellinum áður en honum var veitt landvistarleyfi laust eftir miðnætti. Um klukkan eitt um nóttina var hann enn á flugvellinum og var nú orðinn reiður og fleygði meðal annars tölvuskjá og litlu borði á glervegg þarna á flugvellinum. Aðrir farþegar á svæðinu reyndu að róa hann en þar sem hann talaði aðeins pólsku vissi enginn hvað var í raun að. Öryggisverðir voru kallaðir til en þeir reyndu ekki einu sinni að nálgast manninn heldur gengu í burtu. Stuttu síðar komu fjórir lögreglumenn. Fólkið á staðnum sagði þeim frá því að hann talaði enga ensku en samt sem áður ruku lögreglumennirnir að honum og skipuðu honum fyrir á ensku. Maðurinn hafði róast niður áður en lögreglan mætti á staðinn og virtist reyna að tala við þá á pólsku. Hann gerði ekkert sem getur réttlætt aðgerðir lögreglunnar. Aðeins 24 sekúndum eftir að lögreglumennirnir komu skutu þeir hann með taser byssu. Hann orgaði af sársauka og lögreglumennirnir fjórir réðust á hann og þrýstu honum niður á gólfið. Notuðu meðal annars hnén til þess að skorða hann niður. Þeim virðist ekki hafa verið sagt að það má alls ekki þrengja að öndunarvegi manns sem hefur verið skotinn með taser. Á vídeóinu sem tekið var má sjá annan bláan geisla frá einum lögreglumannanna sem bendir til þess að Pólverjinn hafi verið tasaður aftur á meðan honum var haldið á gólfinu. Rúmum tveimur mínútum eftir að lögreglan mætti á svæðið var hann dáinn.
Á þeim tíu tímum sem Dziekanski var á flugvellinum var ekkert gert til þess að hafa samband við túlk. Allan þennan tíma beið móðir hans fyrir utan og hafði ítrekað beðið flugvallaryfirvöld um hjálp til þess að ná samband við hann. Án árangurs. Ekkert var gert til að hjálpa þessu fólki og því fór sem fór. Þessu hefði auðveldlega mátt afstýra. Hvernig verður þetta 2010 þegar ólympíuleikarnir verða haldnir?
Það eru allir í sjokki. Við vorum búin að heyra frá atburðunum en það var enn ótrúlegra að sjá þetta með eigin augum. Þeir gáfu honum aldrei séns.
Það skal tekið fram að móðir mannsins vildi að þetta vídeó yrði sýnt í fjölmiðlum ef það gæti haft einhver áhrif á lögregluna svo svona atburður megi ekki endurtaka sig.
Hér má sjá vídeóið: http://www.cbc.ca/mrl3/8752/bc/ondemand/video/YVRTASERVIDEO.wmv
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
Um jólaköttinn, Kurt Wallander og manninn sem brosti
14.11.2007 | 08:19
Ég er öll að skríða saman. Enda eins gott. Ég þurfti út í Íslendingahús í dag að kenna. Þetta var næstsíðasti íslenskutími vetrarins. Í næstu viku ætlum við að hafa jólatíma og þá mun ég segja þeim frá íslensku jólasveinunum. Kannski ég kenni þeim vísuna um jólasveinana eða kannski Grýlukvæði. Annars er ég alltaf fremur hrifin af laginu um jólaköttinn. Sérstaklega þegar Björk söng það. Kannski ég taki með mér geislaspilara og spili það.
Eftir að hálsbólgan breyttist í kvef var eins og allur máttur væri úr mér dreginn. Ég veit ekki af hverju ég held þokkalegum kröftum á meðan ég er með verk í hálsinum en er eins og drusla þegar bakterían fer í nefið. Í gær og í fyrradag lá ég mest uppi í rúmi og svaf eða las, eða þá ég skreið fram í stofu og horfði á sjónvarp. Sem betur fer var ég nýbúin að fá mér bókina The man who smiled eftir Henning Mankell þannig að það var bara notalegt að skríða upp í rúm. Ég elska Wallander. Ég er svo sorgmædd yfir því að Mankell er hættur að skrifa um hann. Skrítið annars með ensku þýðinguna á bókunum hans. The man who smiled er held ég fimmta bókin í röðinni en var bara þýdd núna í ár og er nýkomin út í kilju. Það er töluvert síðan bækurnar þar á eftir komu. Ég las í vor t.d. bókina þar sem Linda dóttir Kurts er orðin lögreglukona. Hef ekki hugmynd um af hverju þessi bók var ekki þýdd á réttum stað í röðinni.
Hefur annars einhver annar tekið eftir því hversu Erlendur hans Arnalds er líkur honum Kurt Wallander?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Rafmagnsleysi og annar stormur á leiðinni
13.11.2007 | 19:39
Á forsíðu blaðsins í morgun mátti sjá mynd frá veðurofsanum í gær og þar kom fram að ferjurnar hefðu ekki getað gengið megnið af deginum, 190 þúsund manns hefðu þurft að sætta sig við rafmagnsleysi og fjöldi trjáa hefði fallið. Ekki er vitað hve langur tími líður þar til allir hafa fengið rafmagnið aftur en talið er að alla vega 40.000 heimili séu enn rafmagnslaus.
Þetta grunaði mig. Um leið og ég vaknaði upp í fyrrinótt við hávaðann frá veðrinu vissi ég að einhverjir ættu eftir að lenda í vandræðum vegna þessa. Sem betur fer slapp mitt hverfi því ég hefði drepist úr leiðindum ef rafmagnið hefði farið. Nógu slæmt að vera lasinn en enn verra ef maður getur ekki stytt sér stundir við sjónvarpsgláp. Þegar ég er lasin get ég nefnilega ekki lesið mjög lengi í einu þannig að ég hefði ekki getað látið bókina stytta mér stundir allan daginn. Jafnvel þótt ég sé að lesa Henning Mankell.
Verstu fréttirnar eru þó þær að það spáir öðrum slíkum stormi á fimmtudag. Kannski ég þurfi að kaupa vatnsbrúsa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)