Færsluflokkur: Bloggar

Efni í L&O

Athyglisverð kenning hjá Birkhed og móður Önnu. Til þess að hún haldi vatni yrði samt eiginlega að sýna fram á að Stern hafi vitað fyrir víst að hann hafi verið faðir barnsins hennar Önnu. Hann færi varla að drepa hana upp á von og óvon um að hann færi faðirinn því hann vildi varla taka slíka áhættu og svo væri Birkhead faðirinn og fengi alla milljarðana.

Kannski megum við eiga von á Law & Order þætti fljótlega þar sem kona, fræg af endæmum, er drepin af elskhuga sínum sem vonast til þess að vera faðir lítillar dóttur hennar, og taka þannig við ríkidæmi. Áður hafði hann drepið táningsson hennar til að tryggja að litla barnið væri einkaerfingi. Svo yrði auðvitað að setja inn flækjur eins og þær að aðrir elskhugar ríku konunnar gætu líka hafa drepið hana í sömu von um að vera faðir barnsins, og vörn lögmannsins er svo sú að þau hafi ætlað að gifta sig og hann hefði því eignast milljarðana sjálfkrafa þannig. Þetta er ekkert ólíklegt (sem efni í L&O þátt, þ.e.) því þeir hafa áður gert þátt sem líkist ótrúlega Britney Spears málinu og svo fjölda mála sem byggjast á öðrum raunverulegum atburðum eða aðstæðum.

Athyglisverð annars að sú kenning að Anna hafi látið gervifrjóvga sig með sæði úr ríka en látna eiginmanni sínum til þess að tryggja erfðamálið sem hún stendur í. Mér sýnist hins vegar að ef það hefði verið málið þá væri hún löngu búin að fara í DNA próf til að sanna þetta. Þýðir lítið að ætla að krefjast arfs síns á þeim grundvelli að hún eigi barn með þeim gamla, án þess að leggja fram sönnun þess efnis.

 

 


mbl.is Erfðaskrá Önnu Nicole send á milli staða áður en hún lést
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með mótor í puttunum

Í dag skellti ég saman öllum hálfskrifuðu köflunum í doktorsritgerðinni minni (svona að gamni til að sjá) og með línubili 1,5 voru þetta um 130 blaðsíður. Þannig að það gengur bara ágætlega að skrifa. Enda er ég búin að vera með mótor í puttunum að undanförnu og hef líklega skrifað um fjörutíu síður núna á síðustu dögunum, plús gengið frá tveimur greinum til birtingar og skrifað tvo útdrætti fyrir ráðstefnur. Nú er bara að vona að þessi vítamínssprauta (hvaðan sem hún nú kom) endist. En þar sem ég mun varla nota nema um helming af þessu í lokaútgáfu ritgerðarinnar er enn mjög langt í land. Þigg hvatningarorð.

Fyrsti stjórnmálamaðurinn

bonesFornleifafræðingar sem unnið hafa að uppgreftri í Ottawa, Kanada hafa fundið 10,000 ára gamla beinagrind sem er talin vera fyrsti stjórnmálamaðurinn.

 


Hissa

Þessi úrslit komu mér algjörlega á óvart. Ég vildi senda annað hvort Heiðu eða Hafstein en var farin að hallast að því að Eldur myndi vinna því svo margir virtust hrifnir af því lagi. En Eiríkur kom algjörlega eins og skrattinn úr sauðaleggnum!!!! Annars er það svo sem allt í lagi að hann skyldi vinna þetta. Ég hef aldrei getað valið sigurvegara, hvorki í undankeppninni né lokakeppninni þannig að  kannski er lag líklegra til sigurs ef mér líkar það ekki.

Nú segi ég bara: Gangi þér vel Eiríkur. Sýndu Evrópubúum hvað í þér býr. Og ekki móðga alheiminn í viðtölum - það virðist ekki vænlegt til sigurs.


mbl.is Eiríkur Hauksson verður fulltrúi Íslands í Helsinki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki skoðun á neinu

Ég hef ekki um neitt að skrifa í dag. Ég fór á tvo fundi í morgun og fór svo að klifra. Eftir klifrið labbaði ég alla leiðina heim. Þetta er um tveggja tíma gangur, eða rúmlega það. Reyndar stoppaði ég í sænska bakaríinu, fékk mér smurtertu og kaffi og las námsefnið.

Set inn þessa mynd af Gallas af því að mér finnst hún svo flott (lesist: finnst hann svo flottur). 


Frábært

Mikið rosalega er ég ánægð með að heyra þetta. Og sko Fredda, rétt kominn til baka og strax farinn að skora. Og gott að heyra að ekki hafi verið um nein stór vafaatriði eða rangstefnumörk að ræða (nema sú umfjöllun eigi eftir að koma). En hvernig fóru þeir að því að brenna af tveimur vítaspyrnum? Hver tók vítaspyrnurnar?

Verst að ég sá ekki leikinn. Hér í Kanada takmarkast enski boltinn við tvo leiki á laugardagsmorgnum (alla vega hjá fátækum námsmönnum sem ekki hafa efni á fullum kapli), og sá fyrri fer fram fyrir allar aldir. Þar að auki er annar leikurinn næstum því alltaf Manchester United þannig að líkurnar á að hinn leikurinn sé Arsenal leikur eru ekki svo miklar. 

En sigur er alltaf sætur, hvort sem maður sér leikinn eða ekki. 


mbl.is Arsenal lagði Bolton í framlengingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alltaf erfiðar svona fréttir

Mér er hrikalega illa við svona fréttir. Jeppinn þarna á myndinni er ekkert ósvipaður þeim sem mamma og pabbi eiga og ég sé á myndinni að þetta er í um tveggja mínútna keyrslu frá húsinu þeira. Og þar sem ég þekki ekki bíla mjög vel í sundur þá gæti þetta alveg eins verið þeirra bíll. Myndi ekki vilja fá að vita á Mogganum að foreldrar mínir hefðu lent í bílslysi. 

Það gerðist líka í fyrra að ég las á Mogganum að sjómaður á Akureyrinni hefði látist í bruna um borð í skipinu og tveir væru alvarlega slasaðir. Ég hringdi umsvifalaust heim því bróðir minn er á Akureyrinni. Þar náði ég ekki í neinn, enda kom í ljós að mamma og pabbi voru á minningarathöfn í kirkjunni. Sem betur fer náði ég loks í annan bróður og fékk staðfest að bróðir okkar væri ómeiddur. En þvílíkur tími. 

Það er augljóslega betra fyrir aðstandendur þeirra sem deyja að nöfnin skuli ekki birtast í blöðunum strax, en það getur líka verið mjög erfitt fyrir aðstandendur allra hinna sem til greina koma á meðan maður veit ekkert.


mbl.is Harður árekstur á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinir?

Bíddu, eiga Íranir og Írakar nú allt í einu að vera orðnir vinir? Það vantar greinilega eitthvað í söguskilning minn.

mbl.is Bush sannfærður um að íranskar úrvalssveitir útvegi uppreisnarmönnum vopn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar voru þeir?

Mér fannst vanta í þessa frétt hvar nákvæmlega mennirnir voru. Þ.e.a.s. ég þarf eki að vita lengdar og breiddargráðu en það hefði verið gott að vita hvort þeir voru á merktu skíðasvæði eða utan þeirra. Hér í Kanada kemur alltaf af og til fyrir að skíða- og brettamenn lenda í snjóflóðum og í flestum tilfellum þegar það gerist eru þeir utan merktra skíðabrauta. Hér er fylgst mjög vel með hver snjóflóðahættan er hverju sinni og staðan metin. Þegar óvenju mikill snjór er á ákveðnum svæðum er þeim lokað og fólk varað við að vera þar á ferð. Þeir sem fara síðan út á þessi svæði eru þar á eigin ábyrgð og eru því að stofna eigin lífi í hættu. Ég er viss um að snjóflóðakerfið er svipað í Ölpunum og því hefði verið gott að vita í þessu samhengi hvort mennirnir voru utan öryggissvæða.

Ég er viss um að það er rosalega skemmtilegt að renna sér utan merktra skíðasvæða, úti í óspilltri náttúrunni, en þá verða menn líka vera vel undir það búnir.  Sumir skíðamenn er vel þjálfaðir; vita hvað á að gera ef til snjóflóðs kemur, hafa rétta búnaðinn og svo framvegis. Hvað með þessa menn sem núna létust?

Það er auðvitað alltaf sorglegt þegar fólk ferst en mér finnst það mun alvarlegra ef slíkt gerist inn á merktum skíðabrekkum en þegar fólk er eitthvað að hálvitast út fyrir það sem er merkt sem öruggt svæði ef þeir hafa ekki þjálfun til þess að vera þar.


mbl.is Tveir Svíar og Þjóðverji létust í snjóflóðum í Austurríki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guði sé lof

Mikið er það huggandi að heyra að Sjálfstæðisflokkurinn skuli vera að bakka með það að stytta framhaldsskólann um eitt ár. Ég hef verið á móti því frá því ég heyrði fyrst af þessu en eftir að ég fór að kenna á háskólastigi í Kanada varð ég enn harðari í afstöðu minni. Hér byrja nemendur átján ára í háskóla og eru langt frá því að vera búnir að taka út þroskann. Fyrsta árinu, og hjá mörgum fyrstu tveimur árunum, er eytt í fyllerí og skemmtanahöld sem íslenskir krakkar taka vanalega út í menntaskóla. Það er alfrægt að nemendur í framhaldsnámi geta ekki verið á sömu stúdentagörðum og þeir sem eru á BA/BS stigi, vegna þess að það eru stöðugt drykkjulæti á vistum yngri nemenda, og hinir eldri vilja frið til þess að læra. Ég hef kennt fjórum árgöngum fyrsta árs nema í háskóla í Kanada og það var mjög áberandi hversu illa þeir voru undir það búnir að vera komnir í framhaldsskóla. Þetta voru átján ára grey sem ekki voru búin að ákveða hvað þau vildu læra, sem ekki voru búin að taka út nema brot þroskans og sem hreinlega voru á þeim aldri þar sem krakkar vilja fyst og fremst skemmt sér. Enda var það ekki oft sem allur hópurinn kom undirbúinn í tíma. Þar að auki má benda á að hér er BA/BS námið vanalega fjögur ár, og fyrsta árið fer í það að taka áfanga úr ýmsum greinum til þess að kynna sér hvað þau vilja nú læra. Þannig að  þegar til kemur eru þau aðeins ári yngri en íslensku ungmennin þegar þau útskrifast úr háskóla og sennilega með verra nám því þau hafa almennt færri einingar í aðalfagi og lærðu hvort eð er minna fyrstu tvö árin. 

Ég er alveg hörð á því að kerfið er betra heima á Íslandi. Þegar íslensk ungmenni byrja í háskólanum tvítug að aldri hafa þau tekið út mun meiri þroska en fyrsta árs nemar vestra (enda þroskast fólk mikið á milli átján og tuttugu ára), taka námið alvarlegra og fá þar af leiðandi miklu meira út úr háskólanáminu. 

Mér finnst allt í lagi að nemendur geti tekið menntaskólann á styttri tíma ef þeir eru tilbúnir til þess að leggja þannig vinnu á sig, enda held ég að þeir sem eru tilbúnir til að leggja harðar að sér til að klára menntó fyrr hafi sennilega þann aga sem þarf til þess að standa sig vel í háskóla, en það ætti ekki að vera gert að neinu keppnikefli fyrir hinn almenna nemanda, né ætti það að verða almenn breyting. Og hvað um það að grunnskólinn hafi lengst um tvö ár og framhaldsskólinn um eina önn? Það þýðir bara að við menntum börnin okkar betur. 


mbl.is Menntamálaráðherra: Stytting námstíma til stúdentsprófs ekki markmið í sjálfu sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband