Allar tölvur á íslensku

Pabbi keypti Sinclear spectrum tölvu fyrir heimilið í kringum 1984. Tölvan var bara með 8k og því komst ekki mikið fyrir á henni. Maður hlóð leikina inn af kassettu og þegar átti svo að spila næsta leik varð að hlaða þann leik inn. Sex árum seinna, eða 1990 keypti ég mér svo Hyundai tölvu sem keyrði á DOS. Hún var með svörtum skjá og appelsínugulum stöfum. Myndræni þátturinn var mjög takmarkaður. Ég fékk þó einhverja leiki hjá vinkonu minni, svo sem King's Quest, Space Quest og Leisure Suit Larry, en aðallega notaði ég tölvuna til að skrifa ritgerðir.

Tveim árum seinna eignaðist ég fyrstu alvöru tölvuna. Það var Macintosh Color Classic frá Apple. Ég var fyrst efins um að ég vildi þessa tölvu því skjárinn var svo lítill, en bróðir minn sannfærði mig um að þetta væri tölvan sem ég ætti að fá mér. Ég get sagt að það á vissulega við um mig að 'when you go Mac, you never go back'. Ég hef átt makka síðan og vil alls ekki breyta því.

Þarna haustið 1991 (eða vorið 1992 - man ekki hvort) þegar ég fékk fyrsta makkann minn vakti það auðvitað athygli mína að stýrikerfið var á íslensku. Og það var hægt að fá ýmislegt fyrir tölvuna á íslensku. PC tölvur voru þá allar á ensku og langur tími átti eftir að líða þar til þetta breyttist. Ég man að ég skammaðist oft yfir því þegar PC tölvur voru keyptar í skólana og benti á að þar sem Microsoft neitaði að láta íslenska kerfið sitt ætti að sjálfsögðu ekki að skipta við þá og eingöngu ætti að kaupa makka fyrir íslenska skóla.

Svo flutti ég til útlanda og á þeim árum sem ég bjó í Kanada eignaðist ég fjóra makka: tvær fartölvur og tvær borðtölvur. Stýrikerfið var að sjálfsögðu á ensku enda ég í enskumælandi landi, en ég fékk mér þó íslensku uppfærslurnar til að fá íslenska stafi. Fyrst þurfti ég að kaupa þetta frá Apple búðinni en svo kom þetta ókeypis með síðari tölvunum. Ég stóð alltaf í þeirri trú að heima hefði ekkert breyst og allar Apple tölvur kæmi með íslensku viðmóti.

Það var ekki fyrr en ég flutti heim og var að ræða um mikilvægi íslensks viðmóts á tölvum að ég komst að því að Apple tölvur voru ekki lengur á íslensku - og það sem meira er, höfðu ekki verið það í mög ár. Ég varð eiginlega fyrir sjokki. Þarna hafði sem sagt verið stigið stórt skref afturábak. Ég veit ekki af hverju þetta breyttist. Nýir eigendur sáu kannski ekki mikilvægi íslenskunnar. Kannski var Apple Inc. stífari. Kannski eitthvað annað. Aðalatriðið er að makkarnir eru ekki lengur á íslensku. Sem er hrikalegt þegar tekið er tillit til þess að þeir eru nú mun vinsælli en þeir voru þegar þeir voru á íslensku. Ekki það að hér sé um orsakasamhengi að ræða.

Og nú er farið að nota iPad spjaldtölvur í íslensku skólastarfi - og þær auðvitað á ensku. Í dag spurði ég fulltrúa Apple Inc. um það hvort til standi að þýða stýrikerfi Apple aftur yfir á íslensku. Hann benti fyrst á að lyklaborðið væri til á íslensku en ég svaraði að það væri ekki nóg. Hann sagði þá að þeir væru meðvitaðir um ástandið og þetta stæði til, en það væru mörg verk í gangi og mörg tungumál og hann gat ekki sagt neitt um það hvar í röðinni við værum. Sem sagt, ekki mjög framarlega, eða það les maður alla vega úr svari hans. Hann sagði að fyrsta skrefið væri að vinna með Apple á Íslandi og fá þetta þannig í gegn. Apple á Íslandi skilur vandamálið en þeir þurfa að eiga við þá stóru vestanhafs. Hins vegar held ég að ef við beitum þá þrýstingi þá geti þeir betur beitt Apple Inc þrýstingi. Og ég held að þetta sé það sem við þurfum að gera.

Ef það næst í gegn að koma iPöddum (eða bara pöddum) í skólakerfið þá verður stýrikerfið að vera á íslensku. Við verðum að krefjast þess.

Og svo að Windows sleppi ekki alveg frá þessari umræðu má benda á að þótt Windows sé núna til fyrir íslensku þá eru tölvurnar ekki settar upp með því stýrikerfi þegar notandinn kaupir tölvuna heldur verður hann sjálfur að fara á netið, sækja uppfærsluna og keyra hana inn. Auðvitað á þetta að vera öfugt. Tölvan á að koma til neytandans uppsett á íslensku (eins og Apple tölvurnar voru í gamla daga), og ef fólk vill hafa kerfið á ensku þá geta þeir sótt það á netið og sett upp sjálfir.

Sem sagt, við ættum að krefjast þess að Apple láti þýða stýrikerfið sitt á íslensku og að seljendur tölva með Windows selji tölvurnar með íslenska kerfið þegar upp sett. Erum við nokkuð að ætlast til of mikils?


Gleðilegt nýtt ár

Ég vil óska ykkur öllum farsældar á komandi ári og þakka það sem nú er um það bil að líða. Úti er fólk farið að sprengja burt árið en það mun þó ekki takast fyrr en eftir tuttugu mínútur. En þá mun árið 2012 vissulega taka við og ég ætla mér að njóta þess eins og hægt er. Ég hef lofað mér því að þetta verði stórkostlegt ár.

Árið 2011 í hnotskurn

Ég vil byrja á því að óska öllum gleðlegra jóla og farsældar á nýju ári. Ég hef verið hundlöt við að blogga undanfarna mánuði, og reyndar undanfarin ár, en ég ætla að reyna að fara að bæta aðeins úr því. Er ekki einmitt ágætt að byrja slíkt átak á því að líta yfir farinn veg?

Þetta ár, 2011, hefur verið ár mikilla breytinga og ég veit að ef ég hefði dregið tarotspil í byrjun ársins þá hefði ég dregið 'Dauðann' því það spil er tákn mikilla breytinga og nýs lífs. Það hefði alla vega átt vel við. Ef ég stikla á stóru þá var árið nokkurn veginn svona:

Janúar: Árið hefst á Íslandi

Febrúar: Ver doktorsritgerðina mína

Mars: Fæ atvinnutilboð

Apríl: Flyt til Íslands

Maí: Byrja í nýrri vinnu

Júní: Fer að synda og hjóla á hverjum degi

Júlí: Geng á fjöll

Ágúst: Skila ritgerðinni minni og er þar með búin með námið

September. Kemst loks til Akureyrar í helgarafslöppun

Október: Kynnist mörgu nýju og frábæru fólki

Nóvember: Útskrifast sem doktor

Desember: Lífið er dásamlegt

Þessu ári fylgdi mikið stress og lokahnykkurinn á náminu var erfiður. Það var líka mikil breytinga að flytjast heim eftir tólf ár erlendis, en það gerðust líka margir frábærir hlutir og mér finnst ég komin á beinu brautina. Ég veit að árið 2012 á eftir að verða yndislegt og ég horfi björtum augum fram á við.


Ha, sigraði hún?

Í frétt þar sem fram kemur að stúlkan hafi verið í öðru sæti á mótinu spyr blaðamaður síðan eftirfarandi spurningar:

Kom sigurinn þér á óvart?

Kannski hef ég alltaf misskilið orðið 'sigur' en ég hélt að til að sigra á móti verði maður að vera í fyrsta sæti.Annað sætið er að sjálfsögðu frábær árangur og óska ég Margréti til hamingju með hann en ég held að ekki sé hægt að segja að hún hafi sigrað á mótinu. Alla vega sigraði ég aðeins á þeim skíðamótum í gamla daga þar sem ég var í fyrsta sæti.


mbl.is Dóttir Jóns Gnarr lenti í 2. sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrekkjavaka hinna fullorðnu (Öskudagur fyrir börnin)

Þetta er einfalt: Halloween verður búningahátíð hinna fullorðnu, krakkarnir sníkja nammi á öskudaginn. Algjörlega ástæðulaust að taka upp 'grikk eða gott' hefðina þó svo Halloween sé haldin hátíðleg.

Þetta er náttúrlega nóttin fyrir Allraheilagsmessu (All Saint's day, þess vegna kallað All Hallow's Eve sem styttist í Halloween)) og blandar saman hefðum frá Hátíð hinna dauðu og hátíð heiðingja í kringum uppskeruna. Sú hefð sem nú ríkir í Bandaríkjunum er samtíningur frá þessum degi víða og m.a. er hefðin að sníkja nammi frá Bretlandi og Írlandi en alls ekki frá Bandaríkjunum, enda eldri en Bandaríkin. Sama hefð tilheyrði jólum þar sem fólk gekk á milli húsa, söng jólalög og fékk gotterí fyrir, oft kallað Wassailing. Hér á landi er þetta gert á öskudaginn, nema að börnin fara í fyrirtæki í stað húsa. 

Öskudagurinn á sér langa hefð hér á landi þótt lengst af hafi siðurinn fyrst og fremst verið stundaður á Akureyri. Sjálf ólst ég t.d. upp við það að klæða mig upp á öskudaginn og syngja fyrir nammi og lá þá oft mánaða vinna að baki við söngæfingar. Öskudagurinn er okkar dagur, kominn frá Dönum líklega og við eigum að halda í hann. Ástæðulaust er að endurskapa sömu hefð, fyrir þessi sömu börn, á Hrekkjavökunni.

Því legg ég til að við höldum áfram að njóta þessarar þróunar sem er að verða hér á landi að fullorðnir klæði sig upp og fara í hrekkjavökupartý en að ekki verði tekinn upp 'grikk eða gott'-siður fyrir börnin.

Sem sagt, Hrekkjavaka handa fullorðnum, Öskudagur handa börnum.

P.S. Og "Hrekkjavaka" er fínt nafn, óþarfi að kalla þetta Halloween. 


mbl.is Grikkur eða gott mál?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óþokkarnir í umferðinni

Áður en ég hafði náð í vinnuna í morgun sá ég tvo dóna og þrjá lögbrjóta, og þetta eru bara þeir sem pirruðu mig.

Lögbrjótarnir þrír voru hjólreiðamenn sem voru ekki með ljós. Þar sem enn var tiltölulega dimmt úti eru þetta auðvitað brot á umferðareglum.

Verst var hins vegar fíflið sem var að keyra á jeppanum sínum upp Ægisgötuna af bryggjunni. Hann rauk af stað um leið og græna ljósið kom á Geirsgötunni og beygði til vinstri, beint fyrir bílinn sem kom ofan götuna, og sem átti að sjálsögðu réttinn. Sá sem brotið á varð öskureiður og flautaði eins og fjandinn sem pirraði þann sem svínaði svo sá náunga steig á bremsuna og næstum stöðvaði bílinn á miðri götunni. Það var heppni að hinn lenti ekki aftan á honum. Hvað er að svona fólki? Væri ekki nær að hugsa um fleira en eigin rass og sýna bara almenna kurteisi.

Og svo fyrir utan bygginguna þar sem ég vinn var kvenmaður sem virtist lagstur til hvílu í bílnum sínum. Mér er svo sem sama hvar fólk sefur en þessi hafði lagt bílnum beint fyrir utan bakdyrnar að vinnunni og hérumbil blokkeraði aðganginn, og var þar að auki með bílinn í gangi. Skrifstofan mín er beint fyrir ofan og maður fær því eiturgufurnar inn. Ég var að hugsa um að berja á gluggana og skipa manneskjunni að annað hvort færa sig eða drepa á bílnum, en nennti ekki að standa í leiðindum svo snemma morguns.

En mikið rosalega leiðist mér svona tillitsleysi.

Annars er ég búin að fá algjörlega nóg af dónaskap og sjálfselsku í umferðinni í Reykjavík. Þegar ég róa mig mun ég kannski blogga um það. En er samt ekki slæmt að Stórreykjavíkursvæðið með um 200.000 manns skuli hafa mun lélegri umferðarmenningu en Vancouver sem hefur þrjár milljónir?


Vetrarhjólreiðar

Ég var að skipta um fararskjóta - lagði fallega Loius Garnier hjólinu mínu og tók fram gamla Trek fjallahjólið. Nú þegar er farið að fyrsta er ekki gott að vera á örmjóum dekkjum. Í morgun var t.d. svo hvasst að sjórinn gekk yfir göngustíginn á Sæbrautinn og fraus síðan þar og myndaði þar með heilmikið svell. Þá var ég ánægð með að vera komin yfir á fjallahjólið. En auðvitað er þetta svoítið eins og að fara af Bens yfir á gamlan Skoda - eins og þeir voru þegar Tékkarnir smíðuðu þá. Ég finn til dæmis fyrir því í lærunum í dag - miklu þyngra einhvern veginn að stíga hjólið. Annars var ég búin að sakna þessa Trek hjóls mikið í Kanada - allt þar til ég fékk Lois Garnier hjólið. Þegar ég flutti út fyrir tólf árum ætlaði ég nefnilega bara að vera í eitt ár. Svo ég keypti mér bara ódýrt - og þar af leiðandi tiltölulega lélegt - Bonelli fjallahjól. Ég var aldrei hrifin af því. Fannst það þungt og stíft og gírarnir voru aldrei þægilegir. Ef maður var til dæmis byrjaður að hjóla upp brekku og ákvað þá fyrst að gíra niður, var undantekning að það tækist. Helst þurfti sem sagt að skipta um gír áður en brekkan hófst. Óþolandi. Og á slíkum stundum hugsaði ég með hlýju til Trek hjólsins. Enda var það ákaflega gott hjól þegar ég keypti það fyrir sirka fjórtán eða fimmtán árum. En svo flutti ég til útlanda og skildi hjólið eftir hjá bróður mínum. Þar hefur það staðið - í garðinum hans - í alls kyns veðri og vindum í tólf ár. Ryðgað eftir því. Í vor lánaði ég frænku minni hjólið og hún lét taka það aðeins í gegn svo hægt er að nota það, en þetta er ekki sama dásamlega hjólið og ég keypti á sínum tíma. Það er hjólum ekki hollt að búa úti allan ársins hring. 

En talandi um hjólreiðar - alveg er það óþolandi hvað ökumenn bifreiða sína hjólreiðamönnum litla tillitsemi. Í dag var ég að hjóla niður Ægisgötuna, eins og flesta daga, og var einhvers konar grafa stopp á veginum þannig að bílarnir sem komu á móti mér þurftu í raun að skipta yfir á mína akrein til að komast fram hjá henni. Hefði ég verið á bíl hefði ég átt sjálfsagðan rétt og hinir hefðu þurft að bíða þar til ég var komin fram hjá gröfunni. En af því að ég var hjólandi þá hikuðu ökumenn bílanna ekki við að fara fram hjá gröfunni á minni akrein og þvinga mig út á kant. Algjörlega óásættanlegt. Ég átti fullan rétt. 

Í gær hjólaði ég heim eftir að fór að rökkva. Kom í ljós að batteríin voru búin á afturljósinu svo ég ákvað að hjóla heim eftir gangstéttum en ekki á götunni, svona öryggisins vegna. Í Laugardalnum fór ég því yfir götuna á gangstétt eins og gangandi vegfarendur. Bílstjóri á leið í vesturátt götuna stoppaði til að hleypa mér yfir. Ég komst út á eyju á miðju götunnar en treysti mér ekki til að fara alla leiðina yfir því bíll kom á töluverðri ferð vestanfrá og virtist ekki ætla að stoppa. Þetta var gömul kerling og þegar hún kom að gangbrautinni hægði hún á sér en hélt þó óhikandi yfir gangbrautina án þess að stoppa. Og ef einhverjum dettur í hug að hún hafi bara ekki séð mig af því að afturljósið vantaði þá passar það auðvitað ekki þar sem það snéri hvort eð er frá henni. Framljósið sneri í hennar átt og hægri ermin á jakkanum mínum er að auki með 'Vancouver 2010' skrifað með endurskinsmerki. Ég var því mjög vel upplýst þarna.

Hitt er annað mál að hjólreiðamenn eru hræðilegir með að fylgja umferðareglum. Það er efni í annað blogg. 


Í leikhúsi

Þegar ég var í menntaskóla fór ég á allar leiksýningar sem LA setti upp, eða alla vega vel flestar, og að sjálfsögðu allar sýningar LMA. Svo flutti ég til Reykjavíkar og fékk valkvíða og fór hér um bil aldrei í leikhús. Ætli ég hafi ekki séð kannski fjórar sýningar á þeim níu árum sem ég bjó þar. Átti svo sem aldrei mikinn pening en held það hafi meira verið bara það að úrvalið í Reykjavík var of mikið fyrir svona malarbarn eins og mig (Reykjavík er sem sagt malbikið en Akureyri mölin - enda var gatan okkar ekki malbikuð fyrir en ég var komin á unglingsárin).

Í Kanada fór ég heldur ekki mikið í leikhús. Fór reyndar á þrjú tilraunastykki fyrsta árið mitt þar því ég fékk miða á góðu verði og skemmti mér vel en það skilað sér samt ekki í fjölgun leikhúsferða. Fór reyndar á barnasýningu á múmínálfunum og svo skellti ég mér á balletsýningu hjá Royal Winnipeg Ballet - ekki af því að ég sé svo hrifin af ballett heldur vegna þess að þetta er næsbesti ballethópur N-Ameríku og mér fannst ég yrði hreinlega að fara. Var reyndar heppin - verið var að sýna nýjan ballett byggðan á Dracula og ég skemmti mér því konunglega. Í Vancouver fór ég aðeins einu sinni í leikhús og sá þá Rent í litlu áhugamannaleikhúsi. Fór aldrei í stóru leikhúsin. Einu skiptin sem ég fór í slík hús var til að fara á tónleika og svo einu sinni á óperusýningu. Töfranflautan sett upp eins og hún væri um indjána.

En núna er ég búin að fara tvisvar í leikhús í vikunni. Fór á Fólkið í kjallaranum um síðustu helgi og svo Svartur hundur prestsins í kvöld. Fannst báðar sýningarnar æðislegar. Og mikið rosalega eigum við góða leikara. Allir leikararnir stóðu sig með prýði - í báðum stykkjunum. En að öðrum ólöstuðum verð ég að segja að Kristbjörg Kjeld stóð upp úr. Mikið svakalega er hún góð leikkona, og það sem hún er falleg líka. Ilmur var auðvitað meiriháttar eins og hún er alltaf og sömu sögu má segja um Þröst Leó. En eins og ég sagði þá voru allir leikararnir sannfærandi og ekki sá ég veikan punkt. Það tók reyndar smá tíma að venjast ýkta stílnum í Svörtum, en um leið og það vandist naut ég verksins í botn.

Það er annars merkilegt að þessi tvö verk eiga margt sameiginlegt. Bæði fjalla þau um fjölskyldur í krísu þótt misjafnt sé hvernig tekið er á málum. Í báðum er forsagan mikill hluti en tvær ólíkar aðferðir notaðar til að sýna hana. Í báðum verkum er leyndarmál sem kemur fram á mismunandi hátt og hefur mismunandi áhrif á fólkið. Í báðum verkum er tónlist töluvert notuð. Og segja má að í báðum verkum sé tekist á við málin og hlutirnir dregnir fram í dagsljósið og margt sagt sem áður hafði verið grafið.

Stærsti munurinn á verkunum, fyrir mig alla vega, var sá að mér fannst ég alltaf nokkurn veginn vita hvar ég hefði Fólkið í kjallaranum, þótt ég vissi ekki endilega hvað gerðist næst, en í Svörtum hundi prestsins vissi ég aldrei hvar ég hefði söguna. Hvað verið væri að segja okkur, hvað væri nákvæmlega að gerast. En það var ekki galli. Það hélt mér á sætisbrúninni. Samræður voru góðar í báðum verkum og býsna sannfærandi en Svartur fær þó A+ fyrir hnitni. Ég átti það til að grenja úr hlátri yfir ýmsu sem kom út úr persónunum. Má kalla þetta svarta kómedíu? Fólkið var meira dramatík með fyndnum atriðum. Maður gat hlegið að mörgu en leikritið gerði sig ekki út fyrir að vera fyndið. Eða alla vega held ég ekki. Enda þurfti þess ekki.

Mér fannst leikstjóra Fólksins takast alveg ótrúlega vel að skipta á milli tíma. Maður var aldrei í vafa um í hvorn tímann var verið að vísa, nema rétt í byrjun. Virkilega vel gert.

En ef einhver á handritið að Svörtum hundi prestsins vildi ég gjarnan fá eintak af ræðu Steingerðar um málvísindi. Sem málvísindakona var ég auðvitað yfir mig hrifin af þeirri ræðu (þótt hún hafi sennilega átt að vera háð að einhverju leyti).


Hugleiðingar um hraðahindranir

Ég er að reyna að átta mig á því hvernig hraðahindranir eiga að virka á Íslandi. Ég hef alltaf haldið að þær væru settar til þess að koma í veg fyrir að fólk keyrði of hratt, og samkvæmt mínum skilningi er 'of hratt' sem sagt yfir hámarkshraða. En þannig virðist þetta ekki vera - alla vega ekki hér í 104. Leyfilegur hraði í Álfheimum og á Langholtsvegi er 50km á klukkustund. En hraðahindranirnar á þessum tveim götum eru þannig hannaðar að ekki má keyra hraðar en á 30 ef maður vill ekki eiga á hættu að skemma bílinn. Hvernig stendur á því að ef leyfilegur hraði er 50 að hraðahindranirnar krefjast þess að maður keyri ekki hraðar en á 30? Ætti hraðahindrunin ekki að vera í samræmi við leyfilegan hraða? Bara spyr.

Nýtt orð fyrir 'app' - 'notra'

Á sunnudagsmorguninn var ég í viðtali hjá Sirrý á Rás 2 og talaði þar um enskuslettur. Skipti í tvo hópa þeim slettum sem eru alveg óþarfi af því að til eru ágæt íslensk orð sömu merkingar, og hinum sem notuð eru vegna þess að orð vantar í íslenskuna. Ég tók sem dæmi um hið síðarnefnda orðið 'app' sem notað er um smáforrit í snjallsíma, iPad og fleira. Ekkert gott íslenskt orð er til um þetta og engar hugmyndir hafa komið fram sem teljast mega nýtilegar. Orðið er svo sem ekki slæmt. Það rímar við orðið happ, það beygist upp á íslenskan máta, fær meira að segja ö í fleirtölu svo hljóðvarpið er í fullri notkun. En samt líkar þetta ekki öllum og kannski skiljanlega - það hljómar svolítið undarlega.

Eftir að N1 fór að auglýsa öppin sín með setningunni: 'Appaðu þig í gang' varð óánægjan enn meiri og hafa margir kvartað. Til dæmis skrifaði Eiður Guðna ágæta grein um málið og í framhaldi af því hafði Pressan.is samband við Íslenska málstöð í leit að betra orði. Þar var þeim sagt eins og er að ekkert gott íslenskt orð sé til um fyrirbærið og ákveðið var að auglýsa eftir orði.

Ég er í orðanefnd máltækni á Íslandi og við ræddum þetta orð fyrr í sumar. Þar kom samstarfskona mín Sigrún Helgadóttir með uppástunguna 'notra'. Það er veikt kvenkynsorð og beygist væntanlega: notra, notru, notru, notru. Og í fleirtölu: notrur, notrur, notrum, notra (ætti í raun að vera notrna en þetta n í eignarfalli, fleirtölu veikra kvenkynsorða er stundum ónothæft). Þetta myndi að sjálfsögðu ekki hjálpa N1 og þeirra auglýsingaherferð enda nota þeir orðið þar sem sagnorð en ekki nafnorð og fylgja þar enskri nýyrðasmíð þar sem hægt virðist að búa til sagnir úr hvaða nafnorði sem er. Slíkt er ekki eins frjálslegt í íslensku.

En sem sagt, orðið 'notra' er ein uppástungan og að mínu mati sú langbesta. Ef á að taka upp nýyrði fyrir 'app' þá myndi ég segja að það ætti hikstalaust að vera orðið 'notra'. Spurningin er samt eftir sem áður sú sem ég nefndi í útvarpsþættinum: Er það orðið of seint? Er appið orðið of sterkt í máli okkar?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband