Hið skeikula minni

Það er alveg merkilegt hvað maður man í raun lítið af ævi sinni og einnig hversu skeikull minnið í raun er. Tvisvar sinnum í sumar hef ég farið með rangt mál þegar ég tala um skíðaferil minn. Ekki að ásettu ráði heldur einfaldlega vegna þess að minnið var verra en ég hélt. Í mörg ár hef ég nefnilega staðið í þeirri trú að öll mót í mínum aldursflokki hafi meira og minna farið á sömu leið fyrstu þrjú árin sem ég keppti á skíðum: Stína Hilmars í fyrsta sæti, Laufey Þorsteins í öðru sæti og ég í þriðja sæti. Óbreytt röð, öll mót, frá því ég var átta ára. Mig minnti að ég hefði fengið fyrsta silfrið svona ellefu ára og unnið fyrsta mótið tólf ára. Þetta segir minnið mitt. Jafnvel þótt til sé mynd af mér á efsta palli þar sem ég er augljóslega ekki orðin tólf ára. En einhvern veginn hunsaði ég það bara.

Stöllur á palli

En svo um daginn, þegar ég var á Akureyri hjá mömmu og pabba, fór ég eitthvað að skoða gömlu verðlaunapeningana mína. Þeir eru enn allir uppi á vegg í gamla herberginu mínu. Ég fann silfurpening frá fyrsta keppnisári mínu. Akureyrarmót átta ára stúlkna. Ég get engan veginn munað eftir þessu. Ég var sannfærð um að ég hefði aldrei náð hærra en þriðja sæti fyrr en ég var tíu eða ellefu ára. En samt vann ég þennan silfurpening. Og ég fann meira. Ég fann tvo gullpeninga í tíu ára flokki stúlkna. Stórsvig í bæði skiptin. Og þar sem ég geri ekki ráð fyrir að ég hafi gengið um og stolið peningum hinna stelpnanna hlýt ég að hafa unnið þessi mót. Og það passar líka við þessa mynd af mér á verðlaunapalli þar sem ég er svo lítil að ég er minni en stelpurnar á lægri pöllunum. (Set þessa mynd hér inn þótt ég hafi einhvern tímann áður sýnt hana.) En samt get ég ekki munað eftir þessu. Og hér er ekki einu sinni um neikvæðar minningar að ræða svo ég get ekki haldið því fram að þarna hafi ég bælt minningarnar. Ég er greinilega bara svona hrikalega gleymin. 


Snillingurinn Chomsky

þegar ég hóf háskólanám, tæplega tvítug að aldri, valdi ég íslenskuna því ég ég ætlaði að verða blaðamaður. En strax á fyrstu dögunum féll ég fyrir málvísindunum og þeir sem hafa eitthvað fylgst með þessu bloggi mínu vita væntanlega hvernig það fór. 

Ég heillaðist sérstaklega að setningafræði, enda setningagerð íslenskunnar mjög áhugaverð, og þar að auki voru þá þrír frábærir setningafræðingar innan íslenskudeildar svo maður lærði af snillingum. Ég lærði fljótlega um kenningar Chomsky's og stöðu hans innan málsvísinda, sérstaklega innan setningafræðinnar. Þar er hann hálfgerður guð - alla vega á austurströnd Bandaríkjanna. Staða hans er ekki alveg eins sterk á vesturströndinni. Ég hreifst af honum eins og svo margir aðrir og þá sérstaklega Government and Binding kenningakerfinu. Þar er margt alveg frábært. Hins vegar hef ég aldrei almennilega meðtekið Minimalist program sem hann kom fram með eitthvað í kringum 1994. Það er bara ekki eins heillegt kerfi eins og GB var. En kannski er það aðallega af því að ég lærði það aldrei eins vel.

Í UBC skipti ég yfir í merkingarfræðinnar og þar gætir Chomsky's ekki mjög. Til dæmis er aðeins ein tilvitnun í hann í doktorsritgerðinni minni sem er ólíkt meistararitgerðinni þar sem hans gætti alls staðar. En þrátt fyrir að hann sé ekki eins mikilvægur innan merkingarfræðinnar þá hef ég aldrei hætt að meta það sem hann hefur gert fyrir málvísindin.

Mér þótti það líka skrítið þegar ég var á spjalli við fólk í Vancouver sem ekki var í málvísindum, en sem vissi ekki bara hver Chomsky var heldur hafði líka lesið efni eftir hann. Þar var þá auðvitað um stjórnmálaskrif hans að ræða enda ekki á færi allra að lesa málfræðina hans. Ekki einu sinni málfræðinga. Þegar bókin Barriers kom út var stofnaður leshringur við HÍ þar sem fólk kom saman vikulega og stautaði sig í gegnum ritið. Stjórnmálaskrif hans eru auðmeltari og það átti reyndar líka við um fyrirlestrana tvo sem hann flutti í dag. Þarna er þó kannski aðallega um að ræða mun á málvísindum annars vegar og stjórnmálum hins vegar.

Það var annars magnað að fá tækifæri til að hlusta á hann í dag. Sértaklega að fá tækifæri til að hlusta á hann fjalla um málvísindi en hann gerir æ minna af því og talar æ meir um stjórnmál. En fyrirlestur hans um stöðu og viðhorf Bandaríkjanna var alveg meiriháttar líka. Hann dró um athyglisverðar samstæður.

Já, svona snillingar eru ekki á hverju strái. 


mbl.is Fyrri 11. september og síðari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slæmt ár í sögu hokkísins

Árið 2011 hefur ekki verið hokkímönnum hliðhollt. Í janúar framdi Bandaríkjamaðurinn Tom Cavanagh sjálfsmorð og í maí lést Kanadamaðurinn Derek Boogaard eftir að hafa blandað saman áfengi og oxycodone. Í ágústmánuði framdi svo annar Kanadamaður, Rick Rypen, sjálfsmorð eftir að hafa þjást af þunglyndi síðastliðin tvö ár. Hann lék með liðinu mínu, Vancouver Canucks, en hafði rétt samið við hið endurnýjaða lið Winnipeg Jets. Nokkrum dögum síðar lést þriðji Kanadamaðurinn, Wade Belak, einnig fyrir eigin hendi. Það er annars merkilegt að þrír af fjórum þessa leikmanna spila ekki bara í sömu deild heldur spila þeir allir sömu stöðu. Þeir eru allir svonefndir 'enforcer' - sem sagt slagsmálahundarnir. Þetta eru þeir Boogard, Rypen og Balak. Mikið hefur því verið rætt um það undanfarið hvort þetta sé tilviljun. Eða hafa endalausar barsmíðar enn meiri áhrif en viðurkennt hefur verið. Hitt er líka mögulegt að þeir sem eru viðkvæmari fyrir séu líklegri til að spila sömu stöðu. En sennilega er það tilviljun að þessir þrír fara á svipaðan hátt á svo stuttum tíma. Allir þrír látast yfir sumartímann þegar hokkí er ekki í gangi.

Á meðal þeirra sem létust í flugslysinu í Rússlandi var Slóvakinn Pavol Demitra sem lék með Canucks í hittifyrra. Ég sá hann oft spila og hann var virkilega góður leikmaður. Sérstaklega fór hann á kostum með liði Slóvakíu á Ólympíuleikunum síðustu. Ég sá meðal annars leik þerra gegn Rússum og ég hef aldrei séð Demitra leika eins vel. Hann átti konu og ung börn, eins og ábyggilega flestir þeir leikmenn sem létust í flugslysinu í dag. Tollurinn á þessu ári er því orðinn hár. Þrír hafa fallið fyrir eigin hendi og heilt lið lætur lífið í flugslysi. 

Þetta er fjórða áfall Vancouver Canucks á aðeins þremur árum. Sumarið 2008 lést ungur og efnilegur leikmaður, Luc Burdon, í mótorhjólaslysi. Hann var efnilegasti varnarmaður liðsins og miklar vonir voru bundnar við hann. Ári síðar missti annar leikmaður, Taylor Pyatt, unnustu sína í bílslysi. Og nú í sumar falla frá bæði Rick Rypien og Pavol Demetra. Fjögur svona stór áföll eins hokkíliðs á þremur árum hlýtur að teljast óvenulegt.   

Já, þetta er svo sannarlega sorglegur dagur í heimi hokkís, og yfirhöfuð, og jafnast á við það þegar Manchester liðið lést, einnig í flugslysi. En þetta er reyndar ekki í fyrsta sinn sem hokkílið deyr í flugslysi. Í janúar 1950 fórst flugvél með 19 manns um borð. Innanborðs var hokkíliðið VVS Moskva sem var lið sovéska flughersins. Þarna létust allir liðsmenn liðsins, nema tveir. Vsevolod Borbrov svaf yfir sig og missti af fluginu og Viktor Shuvalov var meiddur. Árið eftir gengu fjölmargir leikmenn til liðs við liðið, þar á meðal margir af bestu  mönnum annarra liða, og vori síðar vann liðið sovétbikarinn.

Árið 1986 létust svo fjórir kanadískir leikmenn þegar rútan sem þeir voru í lenti í árekstri. 

Hugur minn er með fjölskyldum þessa manna


mbl.is Heilt íshokkílið fórst í flugslysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búin að skila ritgerðinni

Í dag eru liðin tólf ár síðan ég flutti til Kanada. Þá ætlaði ég aðeins að vera þar í eitt ár og kenna Kanadamönnum íslensku en úr þessu teygðist og þegar til kom varð ég fjögur ár í Winnipeg og tæp átta í Vancouver.

Nú má eiginlega segja að þessu Kanadaævintýri sé lokið því þótt ég hafi flutt heim fyrir fjórum mánuðum þá kláraðist ekki kaflinn fyrr en í gær þegar ég skráði mig í útskrift frá UBC enda hafði ég kvöldið áður lokið við doktorsritgerðina, skilað henni og fengið samþykkta. Náminu er því lokið, ég orðin doktor (þótt ekki opinberlega fyrr en útskrift í nóvember) og ég hef fengið kvöld og helgar aftur í mínar hendur.

Nú mun ég geta sofið heila helgi án þess að vera með samviskubit. Ég get setið heima á kvöldum og horft á sjónvarpið eða lesið, nú eða farið út að hlaupa, í heimsókn til vina, eða hvað annað sem mér dettur í hug. Ég get farið í langa fjallgöngu sem tekur heilan dag af því að ég þarf ekki að læra. Ég get leyft mér að fara til Akureyrar án þess að hafa áhyggjur af því að ég ætti að vera að skrifa ritgerðina. Það er eins og ég hafi fengið lífið til baka. Hingað til hefur það verið í biðstöðu.

Í dag er fyrsti dagurinn í nýjum kafla lífs míns. 


Á lokasprettinum

Ég blogga ekkert þessa dagana. Ástæðan er sú að ég er á lokasprettinum við að klára ritgerðina og það er meiri vinna en mann grunar. Ég veit ekki hvað er búið að segja mér oft að það tekur alltaf lengri tíma að klára en maður reiknar með, og samt reiknar maður aldrei með nógu. Ég gerði ekki nóg í sumar. Var þreytt þegar ég kom heim úr vinnunni og krafsaði eitthvað í þetta en gerði aldrei nóg. Nú þegar ég verð að klára (önnin er búin í lok mánaðarins svo ég hef innan við mánuð) vinn ég við þetta baki brotni, fram á kvöld alla daga og allar helgar. Er farin að þrá frí. Og þar með hef ég ekki meiri tíma til að blogga. Vildi bara vita að ég væri ekki horfin undir stein.

Á útihátíð

Nú er verslunarmannahelgin að ganga í garð með tilheyrandi fylleríum, brekkusöng, ótímabundnum þungunum o.s.frv. Þetta er búið að vera svona í tugi ára en þó hefur eitt breyst frá því ég var unglingur. Aldur þeirra unglinga sem fá að fara á útihátíð hefur hækkað. Ég fór á útihátíð fjórtán ára. Í Atlavík. Þá var það algengt að unglingar færu og hérumbil allir vinir mínir og jafnaldrar fóru á þjóðhátíð. Aðeins ein af vinkonum mínum fékk ekki að fara. Við vorkenndum henni ógurlega. En foreldrum okkar var ekkert vel við þetta. Það þurfti að tuða og nauða og beita öllum brögðum áður en leyfi fékkst. Og við vinkonurnar fengum ekki að fara fyrr en ákveðið var að foreldrar Siggu vinkonu minnar myndu keyra okkur á staðinn, hjálpa okkur við að koma fyrir og sækja okkur svo að útihátíð lokinni. Þar að auki myndu þau vera á Egilsstöðum alla helgina svo stutt væri að fara ef eitthvað kæmi uppá. Við gengum að þessu fúslega enda skipti öllu að fá að fara.

Það var ekki bara að þetta væri útihátíð og þarna yrðu alls kyns hljómsveitir, þar á meðal Stuðmenn sem ég dáði og dýrkaði á þessum tíma, heldur var það sem skipti mig öllu máli koma Ringo Starr. Ég var gífurlegur Bítlaaðdáandi og búin að vera það síðan ég var tíu eða ellefu ára, og ég ætlaði ekki að láta Ringo koma til landsins án þess að fá að sjá hann. Enda var það þess virði. Þótt hann hefði bara spilað örfá lög (eins hvers staðar las ég þrjú en ég man bara eftir Johnny B Goode) þá var bara svo mikil upplifun að sjá hann. Utan við Ringo og Stuðmenn var þarna hljómsveitakeppni sem hljómsveitin Fásinna vann. Ég veit ekki hvort þeir héldu eitthvað áfram en man þó að þar var ákaflega myndarlegur rauðhærður maður. Ég man lítið eftir hinum hljómsveitunum en skilst þó að bæði Dúkkulísur og Greifarnir hafi veirð þarna. Það er nú býsna merkilegt svona eftir á að hyggja. Ég man aðallega eftir því að hafa staðið á risastóru sviðinu og hlustað í undran á tónlistina. 

Þetta var stórkostleg útihátíð.Alls konar gullkorn urðu til sem maður getur enn vísað til eins og þegar ég bað Mæju vinkonu okkar eitthvert hádegið um bita af súkkulaðinu hennar. Hún horfði þá á súkkulaðið í smá tíma og sagði svo raunamædd: Já en...það minnkar alltaf. Þar með var það útrætt og ég fékk engan bita.

Það var líka ákaflega fyndið fannst okkur þegar við hittum Elvu og Mæju fyrsta morguninn. Þær höfðu komið með rútunni frá Akureyri og akkúrat á þessum klukkutíma eða svo þegar myrkur er í ágúst. Þær voru því að býsnast við að koma upp tjaldi í svarta myrkri. Um morguninn finnst þeim eins og fólk sé alltaf eitthvað að detta á tjaldið þeirra eða alla vega svona að slá í það. Þetta var víst eins og á umferðamiðstoð. Enda kom í ljós að þær höfðu tjaldað á miðjum göngustíg.  

Í annað skipti gerðist það að þegar við Sigga komum að tjaldinu okkar var búið að leggja annað tjald ofan á okkar tjald. Við tókum það bara af og héldum í burtu. Síðar um daginn þegar við vorum aftur við tjaldið okkar kom til okkar strákur. Hann spurði: Heyrðu, var tjald ofan á ykkar tjaldi hérna í morgun? Já, sögðum við. Hann svaraði þá: Já fyrirgefðu, en sko, þetta er nefnilega karlmannstjald og það vildi endilega komast uppá kvennatjald.

Ýmislegt annað gerðist og var sagt sem ástæðulaust er að nefna í þessu bloggi. 

Málið var reyndar að við Sigga drukkum ekki og það munar held ég gífurlega að unglingarnir séu edrú þegar þeir fara á útihátíð því miklu fleira getur gerst þegar fólk er drukkið en þegar það er með fullu ráði. Ég held til dæmis að flestar nauðganir sem fara fram á svona hátíðum hafi með drukkið fólk að gera. Kannski ekki allar, en flestar. Enda kannski flestir drukknir á þessum hátíðum. Hjá okkur var það nú samt staðreynd að við mættum þarna bláedrú, vorum bláedrú, og skemmtum okkur konunglega. Við þurftum ekkert áfengi til að skemmta okkur. Því ætti það líka að hafa verið nauðsynlegt? Þarna voru einhver þúsund manns (mig minnir að það hafi verið 3000 eða 4000), frábær tónlist, dásamlegt umhverfi...getur maður beðið um meira?

Aaaaah, Atlavík 84. Þú munt seint gleymast. 


Kanínuótti

Mér er ákaflega illa við kanínuna Berta sem birtist í auglýsingum Ergó frá Íslandsbanka. Og samt er þetta bara kát, græn kanína:

 
Og af hverju er mér svona illa við græna kanínu? Af því að í hvert inn sem hún skoppar upp á skjáinn hjá mér kemur í hug kanínan úr myndinni Donny Darko, og allir þeir sem sáu myndina vita að kanínan var holdgervingur geðveiki Donny's og sú sem fékk hann til að gera illvirkin. Kanínurnar eru ekkert líkar nema þær ganga á tveim fótum:
 
Og nei, ekki allar kanínur vekja hjá mér hroll. Svo framarlega sem þær halda sig á fjórum fótum er þetta í lagi.
 
 
 

Tölum endilega íslensku

Í þessari slúðurfrétt um Ashley Cole stendur:

Hún segir að Ashley hafi ekki hugmynd um hvernig eigi að tríta konur.

Ég vil benda mbl.is á 29. grein fjölmiðlalaganna þar sem segir:

Fjölmiðlaveitur skulu eftir því sem við á efla íslenska tungu. 

Sögnin 'tríta' er ekki til í íslensku og það er til skammar að vefmiðill sem tengist fyrrum blaði allra landsmanna skuli lúta svo lágt að láta svona sjást á (skjá)prenti. Manneskja sem ekki hefur betra vald á íslenskri tungu en þetta á ekki að starfa sem blaðamaður.

Hvernig er það annars, er stétt prófarkalesara útdauð? Finnst fjölmiðlum ekki lengur nauðsynlegt að skrifa fréttirnar á góðri íslensku? Ef svo er, eru þá ekki fjölmiðlarnir að bregðast hlutverki sínu og skyldum? Skyldurnar eru einmitt mjög skýrt sett fram í fyrstu setningu 29. greinar fjölmiðlalaga sem skráð er hér að ofan. Það er ekki að efla íslenska tungu að skrifa tríta. Þetta er forljót sletta sem er ekki einu sinni nauðsynleg. Það er ekki eins og okkur vanti íslensk orð. Hér mætti t.d. skrifa: Hún segir að Ashley hafi ekki hugmynd um hvernig koma eigi fram við konur. Mér finnst fyrirgefanlegt að nota enska slettu þegar ekkert gott íslenskt orð er til um fyrirbærið en í svona dæmum er hreinlega engin afsökun.

Það virðist vera orðið alveg leyfilegt í blöðum að þýða fréttir beint úr ensku án þess að leggja neitt í þýðinguna sjálfa. Slorblaðið Séð og heyrt er besta dæmið um þetta. Þar er enginn metnaður fyrir góðri íslensku og lesa má setningar eins og að þessi og hinn 'púlli dressið' algjörlega. Mér finnst endilega að þeir tali líka um að tana og deita, eða er ég farin að rugla við það sem ég heyri frá gelgjunum í heita pottinum?

Ég bjó tólf ár í enskumælandi landi og ég geri mér fyllilega grein fyrir að það skín stundum í gegnum það sem ég segi og skrifa. (Ég er að vinna í að laga þetta og geri ráð fyrir að þetta batni þegar ég er búin að vera hér aðeins lengur.) En ég held svei mér þá að ég sletti mun minna en fjöldi Íslendinga sem aldrei hefur búið erlendis. Munurinn er kannski líka sá að þegar ég sletti er það ýmist óvart eða af því að ég finn ekki íslenska orðið, en margir hér sletta af því að þeir halda að það sé flott. Það skal enginn segja mér að fólkið sem segist vera að tana muni ekki hvernig á að segjast vera í sólbaði.

Munið kæru landar: Það er ekki hallærislegt að tala íslensku. 


mbl.is Ashley Cole svaf hjá flugfreyju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björninn ógurlegi

Ég sá einmitt minn fyrsta og eina Grizzly björn í Yellowstone þjóðgarðinum fyrir átta árum. Var þá í öruggri fjarlægð enda björninn ekki aðeins hinum megin við gljúfur heldur einnig langt uppi í hlíðinni. Ég sá glampa á eitthvað gyllt, greip kíkinn og viti menn, grizzly björn. Ég var í skýjunum enda æðislegt að sjá dýr í sinni eiginlegu náttúru en ekki í dýragörðum. Þetta var held ég daginn eftir að ég sá minn fyrsta björn (fyrir utan nokkra Bjössa sem ég hef þekkt um ævina)en sá var svartbjörn og hann sá ég miklu nær. Í sömu ferð sá ég líka úlf sem ekki var síður magnað, fyrir utan auðvitað sléttuúlfa, vísunda, alls kyns hreindýr og frændur þeirra, o.s.frv. En birnirnir og úlfurinn voru hápunkturinn.

Þegar maður er á göngu í bjarnalandi er það regla númer eitt, tvö og þrjú að búa til mikinn hávaða, hvort sem er með því að syngja, kalla eða hengja á sig bjarnarbjöllu. Það er ekkert verra en að koma birni að óvörum, nema einmitt það að koma birni með húna að óvörum, sem var einmitt það sem gerðist í þessu tilviki sem frétt mbl segir frá. Eins og aðrar skepnur gera birnir allt það sem þeir geta til að vernda húna sína og þeir myndu yfirleitt ekki ráðasta á menn nema þeir teldu sér ógnað. Það er mjög sjaldgæft að birnir ráðist á menn í leit að mat. Í einni göngunni sem ég fór í í Yellowstone var skilti við upphaf stígsins þar sem sagt var að ónvenju mikið væri um birni á svæðinu og því skyldu allir skrá sig í bók áður en þeir héldu á fjallið og eins væri nauðsynlegt að vera með bjarnarbjöllu. Þegar við skráðum okkur voru aðeins tvö nöfn í bókinni fyrir þennan daginn, og samt mættum við fjölda manns á leiðinni. Ég skildi aldrei af hverju þetta fólk skráði sig ekki inn. Það er nú ekki svo erfitt og er öryggisatriði. Ef maður skilar sér ekki þá er farið að leita. Einnig fannst mér merkilegt að við mættum aðeins einum hóp með bjöllu. Hvað er fólk að hugsa? Vill það láta ráðast á sig? Það hefði nú verið í lagi ef fólkið hefði þá sungið eða gert eitthvað til að vekja á sér athygli en við gengum fram á nokkra hópa sem við heyrðum ekkert í fyrr en við gengum næstum í flasið á þeim. Hvað ef við hefðum verið björn? Þetta með sönginn er svo sem auðvelt í upphafi ferðar en ég veit af reynslu að stundum er maður orðinn of þreyttur í lok langrar göngu að maður vill bara labba einn með hugsunum sínum og talar kannski ekkert eða lítið við samferðamenn sína. Þá kemur sér nú vel að vera með bjölluna hangandi á sér sem sér um þetta fyrir mann.

Það er annars fyndið að enska orðið 'grissly' og þar af leiðandi íslenska þýðingin 'grábjörn' vísa til grárra hára sem finnast í feldi bjarnarins, en auðvitað er hann ekkert grár. Grizzly birnir eru af ætta brúnbjarna enda er hann brúnn og jafnvel gylltur, alla vega í sól. Þessi sem ég sá var gylltur. Það er því mjög skrítið að vísa í brúnan björn sem grábjörn. Sagan segir annars að vísindamaðurinn sem gaf birninum latneska heiti sitt hafi misskilið orðið grizzly sem grisly en það þýðir ógurlegur eða hræðilegur - sem mér finnst reyndar passa betur en grizzly - grár. Björninn ógurlegi er nefnilega virðulegt of flott nafn sem hæfir þessari fallegu en ógnvekjandi skepnu. 

  


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vetrarólympíuleikarnir 2018 í Pyeonchang

Borgin Pyeonchang í S-Kóreu mun halda Vetrarólympíuleikana 2018. Aðeins þurfti eina umferð í kosningu til þess að velja og ég held það sé bara í fyrsta sinn sem það gerist. Hreinan meirihluta þarf til að fá leikana og vanalega þarf tvær umferðir. Kóreumenn þóttu líklegastir fyrir kosninguna í dag enda hafa þeir tvisvar áður boðið í leikana og töpuðu í bæði skiptin naumlega. Þeir töpuðu með einungis fjórum atkvæðum gegn Sochi þegar kosið var um leikana 2014 og með þremur atkvæðum fyrir Vancouver þegar kosið var um leikana 2010. Heppni fyrir mig að þeir unnu ekki.

Kóreubúar eru geysilega sterkir í skautaíþróttunum (nema hokkí) og stóðu sig með afbrigðum í Vancouver. Þeir hafa einnig verið á uppleið á snjóbrettum og frjálsum skíðagreinum (freestyle skiing - man ekki hvað það kallast á íslensku), en minna ber á þeim í alpagreinum og norrænum greinum. En þeir eiga ábyggilega eftir að standa vel að þessum leikum.

Ég horfði á auglýsingamyndböndin fyrir borgirnar þrjár og fannst athyglisvert að það var eins og Kóreumenn hefðu farið í skóla hjá VANOC (Vancouver Olympic and Paralympic Organizing Committee). Myndbandið var keimlíkt myndbandinu sem við sýndum sjálfboðaliðum okkar þegar þeir komu í fyrsta viðtal og lagið sem spilað var undir hljómaði ekki ólíkt heldur. Mér finnst þetta bara gott mál. Sýnir að þeir læra af þeim bestu!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband