Færsluflokkur: Íþróttir

Vetrarólympíuleikarnir 2018 í Pyeonchang

Borgin Pyeonchang í S-Kóreu mun halda Vetrarólympíuleikana 2018. Aðeins þurfti eina umferð í kosningu til þess að velja og ég held það sé bara í fyrsta sinn sem það gerist. Hreinan meirihluta þarf til að fá leikana og vanalega þarf tvær umferðir. Kóreumenn þóttu líklegastir fyrir kosninguna í dag enda hafa þeir tvisvar áður boðið í leikana og töpuðu í bæði skiptin naumlega. Þeir töpuðu með einungis fjórum atkvæðum gegn Sochi þegar kosið var um leikana 2014 og með þremur atkvæðum fyrir Vancouver þegar kosið var um leikana 2010. Heppni fyrir mig að þeir unnu ekki.

Kóreubúar eru geysilega sterkir í skautaíþróttunum (nema hokkí) og stóðu sig með afbrigðum í Vancouver. Þeir hafa einnig verið á uppleið á snjóbrettum og frjálsum skíðagreinum (freestyle skiing - man ekki hvað það kallast á íslensku), en minna ber á þeim í alpagreinum og norrænum greinum. En þeir eiga ábyggilega eftir að standa vel að þessum leikum.

Ég horfði á auglýsingamyndböndin fyrir borgirnar þrjár og fannst athyglisvert að það var eins og Kóreumenn hefðu farið í skóla hjá VANOC (Vancouver Olympic and Paralympic Organizing Committee). Myndbandið var keimlíkt myndbandinu sem við sýndum sjálfboðaliðum okkar þegar þeir komu í fyrsta viðtal og lagið sem spilað var undir hljómaði ekki ólíkt heldur. Mér finnst þetta bara gott mál. Sýnir að þeir læra af þeim bestu!


Þetta dettur bara allt saman

Er þetta ný árátta hjá fótboltaþjálfurum og -leikmönnum að koma sögninni 'detta' inn í öll viðtöl? Var að lesa grein í Fréttablaðinu um sigur KR á FH (sem ég er sátt við enda gamall Vesturbæingur - nú er ég hverfislega séð Þróttari) og þar sagði þjálfari KR, Rúnar Kristinsson: "Við féllum aðeins til baka eftir að fyrsta markið datt fyrir okkur...." Þegar svo var talað við Ólaf Pál Snorrason leikmann FH sagði hann: "Þetta datt bara með þeim í kvöld..." Og þetta segir hann rétt eftir að hann hafði sagt: "Mér fannst við eiga meira skilið út úr þessum leik og sumt féll bara ekki með okkur..." Hvers lags málleysa er þetta? Markið datt. Þetta datt með þeim. Er sem sagt sögnin 'detta' tískusögnin í ár? Sögnin 'falla' virðist ekki passa eins illa þarna inn enda talað um að falla í farveg o.s.frv. - en detta! Kannski er þetta annars bara eðlilegt. Fótboltamenn eru sídettandi, oft af ásettu ráði, og kannski er þessi sögn bara öllum svona ofarlega í huga þess vegna. Hún dettur bara inn þegar síst skyldi! Mikið sakna ég þess annars að spila fótbolta. Vildi að hér væri áhugamannadeild eins og í Vancouver.

Tek annars eftir að þá sjaldan sem ég blogga þessa dagana þá skammast ég í íþróttamönnum eða íþróttafréttamönnum. Það er svo sem ekkert skipulagt. Er ekki í neinni herferð gegn þeim (var reyndar í herferð um að þeir skrifuðu um hokkí), bara hefur verið þannig að sumt pirrar meir en annað. Er annars orðin leið á því að skammast í blogginu. Ætla að reyna að skrifa bara um skemmtilega hluti, og skrifa oftar. Á samt áður en að því kemur eftir að skammast pínulítið út af almennri umferðarmenningu, og þá sérstaklega fólki sem tekur ekki tillit til annarra. Geri það bráðum og hætti svo að skammast.


Í guðana bænum vakniði moggamenn

Og enn er ekki minnst á hokkí á íþróttafréttasíðu mbl.is. Þrátt fyrir að um stærstu keppni íþróttarinnar sé að ræða. Skammist ykkar íþróttafréttamenn blaðsins. Það tæki ykkur tvær mínútur að finna úrslitin og setja þau á síðuna og þið nennið því ekki eða hafið ekki áhuga. Og áður en þið segjið að ég geti bara gert það sjálf þá bendi ég á að það sé auðvitað óþarfi. Ég vakti í nótt til að horfa. En það gerðu það ekki allir og fólk ætti að geta fengið svona fréttir í sínu íslenska blaði og ættu ekki að þurfa að leita í erlend.

Fyrir þá sem áhuga hafa þá fór leikurinn 1-0 fyrir Vancouver Canucks með marki Lapierre í þriðju lotu svo staðan í einvíginu er nú 3-2 fyrir Vancouver. Næsti leikur er á mánudagskvöldið í Boston og Vancouver getur unnið bikarinn með sigri þá. Annars verður hreinn úrslitaleikur í Vancouver á miðvikudagskvöld.


Þakkir til íþróttafréttadeilda sjónvarpanna

Það má ekki bara skammast þegar illa er gert heldur verður líka að hrósa þegar vel er gert. Sagt var frá Stanley keppninni í hokkí bæði á fréttum Stöðvar 2 og RÚV. Reyndar voru úrslitin ómöguleg en aðalatriðið var að sagt var frá þeim.

Hins vegar fann ég ekkert um þetta á mbl.is eða visi.is. Það merkilega er að sjónvarpsstöðvarnar þurfa að taka tíma frá öðru til að segja hokkífréttir á meðan vefmiðlarnir hafa hérumbil endalaust pláss en sjá samt ekki sóma sinn í að segja frá úrslitum í hokkí. Báðir miðlar hafa samt ennþá sérdálk á forsíðu íþróttafrétta helgaðan enska boltanum, sem síðast þegar ég vissi var búinn þetta leiktímabilið.

Sem sagt, það er mikilvægara að segja frá vangaveltum um leikmannaskipti í enska boltanum en er að segja frá mikilvægustu hokkíleikjum í heimi. Og já, ég meina mikilvægustu leikjunum. Það vita allir sem fylgjast með hokkí að Stanley bikarinn er mikilvægari en heimsmeistaratitillinn (sem þýðir næstum ekkert í hokkí enda bestu mennirnir aldrei með) og jafnvel mikilvægari en Ólympíutitilinn. Spyrjið hvaða leikmann sem er hvaða bikar þeir myndu vinna og ég lofa ykkur að svarið yrði Stanley bikarinn.

Sjónvörpin standa sig vel, nú er að sjá prent og vefmiðlana fylgja á eftir. 


Opið bréf til íþróttafréttamanna fjölmiðlanna

Kæru íþróttafréttamenn. Ég veit að þið viljið helst ræða um íþróttir sem innihalda bolta og að ykkur er meinilla við að segja frá nokkru öðru, en pökkur er mjög svipaður bolta og eins og í flestum boltaleikjum gengur íþróttin út á að koma pökknum í net andstæðingsins. Þessi íþrótt kallast hokkí og hefur verið stunduð á Íslandi í áratugi þótt hópurinn þeirra sem stunda hana sé enn lítill.

Þessi íþrótt er reyndar mikilvæg í sögu Íslendinga því það var hópur Íslendinga í Kanada sem vann fyrstu gullverðlaunin í hokkí á Ólympíuleikum. Merkilegur árangur sem fáir virðast vita um. 

Þá er spilað Íslandsmót í hokkí og eru meira að segja fjögur karlalið, sem er nú hreinlega 100% fjölgun frá því fyrir ekki svo mörgum árum. Ekki allar íþróttagreinar geta státað að slíku. Þá fjölgar einnig bæði konum og börnum sem stunda íþróttina.

Besta hokkíið er leikið í N-Ameríku, í NHL deildinni. Þar er spilað um Stanley bikarinn og sú keppni stendur einmitt yfir núna. Í gær var leikinn fyrsti leikurinn í úrslitunum. Það voru Boston Bruins, eitt upphaflegu sex liðanna í deildinni, og Vancouver Canucks, sem aðeins tvisvar áður hefur komist í úrslitarimmuna. Ég var að horfa á Stöð 2 og þar var ekki minnst einu orði á þennan leik. Hins vegar var minnst á að í kvöld færi fram leikur í NBA deildinni. Sem sagt, það var mikilvægara að minnast á leik sem ekki hefur verið leikinn en að segja frá úrslitum leiks sem leikinn var í gærkvöld. Ég fann ekki orð um þennan leik á mbl.is og visir.is. Það verður gaman að sjá nú í kvöldfréttum RÚV hvort minnst verður á leikinn þar. Þeir hafa nú ekki mikið talað um hokkí hingað til.

Þið haldið kannski, kæru íþróttafréttamann, að enginn fylgist með hokkí á Íslandi? Það er ekki rétt. Hópur manns kemur til dæmis saman á pöbbum borgarinnar, um miðja nótt, til að horfa á þessa leiki. Þá er ég viss um að allir þeir sem spila hokkí á Íslandi fylgjast með hokkí. Allt þetta fólk vildi gjarnan að íþróttinni þeirra væri sýndur þó ekki væri nema snefill af athyglinni sem boltaíþróttir fá. Ég er ekki að fara fram á að þið séuð alltaf með fréttir úr NHL deildinni, en þetta núna er rimman um Stanley bikarinn. Bestu lið í heimi eru að keppa. Það hlýtur að vera einhvers virði, eða hvað? 

 


Spjaldaglaður dómari eyðileggur möguleika okkar á sigri í deildinni

Við stelpurnar í Presto spiluðum okkar athyglisverðasta leik um helgina. Fyrir leikinn vorum við í fyrsta sæti okkar riðils en liðið sem við spiluðum á móti var í öðru sæti og átti leik til góða. Við urðum að vinna þennan leik til að vinna deildina. Við töpuðum 3-1 fyrir liðinu síðast og spiluðum þá ekki mjög vel.

Fyrir leikinn lagði þjálfarinn mikið upp úr því að við byrjuðum vel því liðið hefur átt það til að vera lengi í gang og stundum vöknum við ekki alveg fyrr en við erum komin einu eða tveim mörkum undir og þurfum þá að berjast til baka. Það hefur vanalega tekist en á móti eins sterku liði og þessu er slíkt ekki gott. Þetta tókst og við byrjuðum af kappi. En undir lok fyrri hálfleiks dró til tíðinda. 

Hitt liðið, Mudslide, var í harðri sókn og boltinn skoppar af vellinum (lélegum gervigrasvelli) og í hendur varnarmanns okkar. Dómar flautar umsvifalaust og kallar á vítaspyrnu, en að auki gefur hann varnarmanninum rautt spjald. Ég hef spilað í þessari deild í sjö ár og hef aldrei áður séð rautt spjald gefið. Ekki einu sinni fyrir verstu brot, og aldrei fyrir hendi. Það er rétt að dómarinn hefur rétt til þess að gefa rautt spjald en hann þarf þess ekki. Enginn annar dómari í deildinni gefur rautt fyrir hendi. Þetta er fjórða deild kvenna. Geymið rauðu spjöldin fyrir brot. Hann tautaði eitthvað um að honum þætti fyrir því en hann yrði að gera þetta. Bull. Þær skoruðu úr vítaspyrnu og staðan 1-0. Við þar að auki manni færri.

Við héldum hins vegar áfram að spila frábæran leik en komumst ekki í  margar sóknir þar sem miðjan þurfti að spila hálfgerða vörn og því var erfitt að koma boltanum til framherja, sem þar að auki voru tveir á móti fjórum varnarmönnum í hinu liðinu. 

Þegar um tíu mínútur voru eftir að  leiknum skaut Adrienne í okkar lið fallegum bogabolta að markinu sem stefndi í bláhornið hægra megin. En einhvern veginn náði markmaðurinn að koma hönd á boltann og þar sáum við flottustu markvörslu í fjórðu deild kvenna síðastliðin sjö árin. Ótrúlegt að hún skyldi ná þessu. En þar með var ekki búið. Einn af okkar miðjumönnum hafði komið hlaupandi að markinu þegar Adrienne skaut og var að reyna að stoppa sig á rennblautum vellinum. Var hálfdettandi þegar markmaðurinn hleypur að henni á eftir boltanum sem hún hafði þá rétt varið, og miðjumaðurinn okkar dettur beint fyrir framan markmanninn sem þá dettur um liggjandi miðjumanninn. Það var augljóst okkur öllum sem horfðum að miðjumaðurinn okkar var að reyna að stoppa sig og rann. Hún var ekki að reyna að taka markmanninn. En dómarinn sá þetta ekki svo og aftur fór rauða spjaldið á loft. Skil ekki af hverju. Ég veit ekki hversu oft hefur verið verr brotið á mér en þetta án þess að nokkuð spjald sé gefið. Og ef hann vildi senda skilaboð hefði hann getað gefið gult spjald. Í staðinn sendi hann okkur tvo menn niður og með níu leikmenn gegn ellefu varð erfiðara að verjast og hitt liðið náði að skora. 2-0 tapaður leikur, allt fíflinu dómaranum að kenna.

Og hér er það sem gerir þetta merkilegt. Í sjö ára sögu liðsins höfum við nú fengið tvö rauð spjöld og fjögur gul. Rauðu spjöldin tvö og tvö af fjórum gulum spjöldum komu frá sama dómaranum. Og hann hefur aðeins dæmt leikina okkar tvisvar. Sem þýðir að hann hefur gefið að meðaltali tvö spjöld í leik á meðan aðrir dómarar hafa gefið tvö spjöld samtals á sjö árum. Er ekki eitthvað að þessum reikningi?

En með þessum leik duttum við niður í annað sætið og vonin um sigur í deildinni að engu. Reyndar hefst núna úrslitakeppnin sjálf og þar munum við spila gegn lélegri liðum þar sem við vorum í fyrsta sæti þegar raðað var í riðla, og eigum því þokkalega möguleika á að komast langt. NEma hvað við þurfum að spila án þeirra tveggja leikmanna sem fengu rautt. 


Æsispennandi hokkíleikur

Í gærkvöldi fór ég á minn annan hokkíleik á vertíðinni. Ég myndi fara oftar ef ekki væri svona dýrt á leiki. Reyndar finnst mér að liðið mitt, Vancouver Canucks, ætti að gefa mér ársmiða á leiki sína, og helst taka mig með á útileiki, því ég hlýt að vera nokkurs konar lukkudýr. Ég hef ekki séð tapleik með liðinu síðan ég sá þá tapa fyrir Nashville 3-0, fyrsta nóvember 2007. Síðan þá hef ég séð eina níu eða tíu leiki og þeir hafa allir unnist. Í gær leit út fyrir að ég væri búin að missa hokkíheppnina því liðið var einu marki undir þegar um tuttugu sekúndur voru eftir af leiknum en þeir náðu að jafna og unnu svo í vítakeppni.

Fyrir þá fáu hokkíaðdáendur sem hugsanlega lesa þetta ætla ég að segja aðeins frekar frá leiknum.

Leikið var gegn Anaheim Ducks, fyrrum Mighty Ducks of Anaheim (eins og í Disney myndinni), og þeir hafa alltaf verið erfiðir viðureignar. Liðið er skipað stórum og sterkum nöglum sem lengi hafa vaðið yfir mína menn. Þeir unnu 4-1 í fyrstu viðureign fyrr í haust og þeir komu sterkir til leiks í gærkvöldi, þrátt fyrir að hafa leikið kvöldið áður í Edmonton. Aðeins voru liðnar fimm mínútur að leiknum þegar hinn ógurlegi Corey Perry skoraði fyrir Anaheim. Hann er einn þeirra sem mest hafa slengt mínum mönnum til og frá og er alltaf ógn. Þetta mark kom reyndar gegn gangi leiksins því Vancouver lék virkilega vel í fyrsta leikhluta og ég held þeir hafi átt tvöfalt fleiri skot á mark en Anaheim. En markmaðurinn hjá Anaheim lék vel, og líka var einhver ónákvæmni hjá mínum mönnum. 

Sem betur fer lét mitt lið þetta ekki á sig fá og Ryan Kesler sem sífellt verður betri skoraði jöfnunarmark þegar einn leikmaður Anaheim sat í boxinu. Við erum efst eins og er hvað snertir mörk skoruð manni fleiri. Það var ekki búið að setja markið upp á töfluna eða tilkynna hver skoraði þegar Jeff Tambellini, sonur fyrrum aðstoðarframkvæmdastjóra liðsins skoraði annað markið. Ég held það hafi verið ellefu sekúndur á milli marka. Svona getur hraðinn verið mikill í hokkí. Þannig var haldið í fyrsta hlé.

Í öðrum leikhluta hélt stórsókn Vancouver áfram en því miður dugði það ekki til því Joffrey Lupul, nýkominn til baka eftir bakaðgerð, skoraði jöfnunarmark Anaheim og sautján sekúndum fyrir annað leikhlýt skoraði Selanne þriðja mark Anaheim. Luongo hefði átt að hafa þetta. Hann á að vera einn besti markmaður deildarinnar en hefur ekki verið upp á sitt besta undanfarið. Því er kannski um að kenna að hann vinnur nú  með nýjum markmannsþjálfara sem hefur verið að breyta stöðu hans ofl. Kannski lagast þetta þegar hann er búinn að venjast breytingunni. 

Í þriðja hluta kom Anaheim að Vancouver úr öllum áttum. Ég held að Vancouver hafi varla átt skot að marki fyrstu tíu mínúturnar. Og á þeim tíma náði varnarmaðurinn Cam Fowler að skora fjórða mark Anaheim og staðan orðin 4-2. Ekki leit þetta vel út. Ég var farinn að halda að ég þyrfti að horfa á minn fyrsta tapleik í rúm þrjú ár. En þá kom skrítið mark. Þjóðverjinn CHristian Ehrhoff, einn fárra Þjóðverja í NHL deildinni, skaut þrumuskoti að  marki, beint í grímu markmannsins, McElhinney. Þetta var þvílíka skotið að markmaðurinn greip um andlitið (ja, eða eiginlega grímuna) og beygði sig niður, nema hvað pökkurinn lenti hjá Daniel Sedin sem vippaði honum yfir markmanninn og staðan orðin 4-3. Kannski ekki gaman að skora þannig en ekkert því að gera. Ég veit ekki hvaða reglum hokkíið fylgir á Íslandi. Í alþjóðlegum reglum sem t.d. gilda á Ólympíuleikum og öðrum stórmótum er leikurinn stoppaður ef markmaður fær hart skot í höfuðið en NHL reglur eru ekki þannig. Þar er það dómarans að ákveða hvort á að stoppa eða ekki. Í þessu tilfelli fékk dómarinn ekki einu sinni tækifæri til að stoppa leikinn því mark Daniels kom varla nema sekúndubrotum eftir að pökkurinn hitti markmanninn. Þetta gerðist svo hratt.

Markmaðurinn fór út af og nýr kom inná. Sá var reyndar aðalmarkmaður liðsins, Jonas Hiller, en honum hafði líklega verið gefið frí þetta kvöld til að hvíla hann þar sem þeir spiluðu kvöldið áður. Varamarkmaðurinn spilar oft annan leikinn þegar spilað er tvö kvöld í röð enda er álagið miklu meira en t.d. í fótboltanum. Oftast eru t.d. spilaðir þrír til fjórir leikir í viku og stundum kannski fjórir leikir á sex dögum.

En sem sagt, staðan var orðin 4-3 en ekki nema kannski átta mínútur eftir af leiknum. Vancouver sótti hart en Anaheim barðist vel. Þegar um tvær mínútur voru eftir fór maður að fylgjast með Luongo í markinu en í svona stöðu tekur þjálfarinn markmanninn vanalega út af til að hafa sex sóknarmenn taka sénsinn á því að skora jöfnunarmark. Þetta gekk þó ekki vel því Anaheim pressaði á og ekki er hægt að taka markmanninn út þegar pökkurinn er á eigin helmingi. Loks náðu mínir menn pökknum og ruku upp ísinn. Luongo rauk útaf og sóknarmaður kom inn. Ekki var nema um mínúta eftir. Þeir pressuðu vel en varnarmaður Anaheim náði pökknum og sendi hann endilangan niður eftir ísnum. Hann missti af markinu og dæmd var ísing. Feisoff var tekið á helmingi Anaheim. Þrjátíu sekúndur. Sem betur fer erum við með besta feisoff liðið í deildinni, vel yfir 60%, og náðum því pökknum. Hann er sendur fyrir markið, þar er barist og Kesler skorar sitt annað mark kvöldsins. Staðan er 4-4.

Farið er í framlengingu sem ekki var mjög markverð og loks í vítakeppni. Ekki gott mál. Vancouver hefur aldrei staðið sig sérlega vel í vítaskotum. Vigneault velur vanalega þá sem eru búnir að standa sig vel í leiknum svo Tambellini fékk að fara fyrstur og hann skorar fallegt mark. Og það var allt sem gerðist í vítakeppninni. Daniel Sedin og Ryan Kesler klikkuðu báðir fyrir okkur og enginn Anaheim manna náði að skora. Svo við fengum fullt hús stiga og sigurganga mín gengur áfram.

Ég veit ekki hvort þetta virkar en hér má sjá mörkin tvö sem komu með ellefu sekúndna millibili: http://video.canucks.nhl.com/videocenter/console?catid=0&id=86677

 


Það er ekki leikið á næturnar í NBA deildinni

Ég vildi óska að blaðamenn hættu að vísa til íþróttaviðburða í N-Ameríku þannig að þeir gerist á næturnar. Skilja þessir menn ekki hvernig tímamismunur virkar? Við hér vestra erum á eftir ykkur í tíma. Það þýðir að þótt komin sé nótt á Íslandi er ekki endilega nótt vestan við Atlantshafið. Ég get lofað ykkur því að íþróttaviðburðir eiga sér ekki stað á næturnar. Yfirleitt er leikið á kvöldin, oftast klukkan sjö eða átta. Ísland er kannski miðja alheimsins hjá blaðamönnum Morgunblaðsins en ég fullyrði að svo er ekki í NBA körfuboltanum. Þessi leikur sem talað er um fór fram í gærkvöldi, ekki í nótt. Punktur og basta og hlýðið nú.
mbl.is Fjórða tap Lakers í röð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðar fréttir

Gott að heyra að gamli Arsenal maðurinn Robert Pires skuli vera kominn til baka í ensku úrvalsdeildina. Fyrir tæpum mánuði bárust þær fréttir að fimmtudeildarliðið Crawley Town hefði áhuga á leikmanninum og það var ákaflega skemmtilegt að sjá viðbrögð Arsène Wenger við þeim fréttum, en Pires hefur verið að æfa með Arsenal undanfarið. Wenger sagði að þetta væru stærri fréttir en samningur Rooneys við ManU. sem segir kannski meira um það hvað Wenger fannst um Rooney fréttina. Set hér inn bút úr viðtalinu við Wenger – aðallega vegna þess að mér finnst svipurinn á honum óborganlegur. Þar að auki er alltaf gaman að sjá Wenger glotta.


mbl.is Pires genginn í raðir Aston Villa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ritgerð, fótbolti, hokkí...

Ég hef sett mér markmið fyrir mánudaginn: doktorsritgerðin í heild sinni verður send á dómnefndina mína. Greyin, það þýðir að næstu daga þurfa þau að lesa tæpar 250 síður í merkingarfræði. Og ritgerðin er bara 250 síður vegna þess að ég nota leturstærð 11 og hef aðeins eitt og hálft línubil. Ég er að reyna að bjarga trjám með því að þjappa þessu saman. Og nei, ég má ekki nota eitt línubil. Það eru takmörk á uppsetningu.

Ég er enn að bíða eftir athugasemdum frá tveim kennurum mínum en er að vona að ég fái þær á morgun svo ég geti tekið þær til greina áður en ég sendi þeim uppkastið á mánudaginn. Annars er ýmislegt sem ég þarf að laga á morgun og mánudagsmorguninn áður en ég get sent þetta út, en ekkert óyfirstíganlegt.

Síðan tekur við bið, sem ég get reyndar notað í að laga formúlurnar í ritgerðinni, en í raun er samt ekki margt sem ég get gert annað. Þegar ég fæ ritgerðina til baka frá þeim öllum mun ég taka til greina lokaathugasemdir og svo er þetta sent til utanaðkomandi dómara (sem ég veit ekki hver er) og sá mun segja til um það hvort ritgerðin sé tilbúin í vörn eða ekki. Sá fær fjórar til sex vikur og á meðan get ég aðeins beðið. Það er tími sem ég ætla að nota í afslöppun, lestur bóka, líkamsrækt, svefn...mikið hlakka ég til.

Okkur stelpunum í Presto gengur vel í vetur. Við erum búnar að spila sjö leiki og höfum unnið sex og tapað einum. Við sitjum í öðru sæti með sömu stigatölu og liðið í fyrsta sæti en markahlutfallið er aðeins lakara hjá okkur. Munar tveim mörkum. Við eigum hins vegar enn eftir að spila á móti neðsta liðinu í deildinni en þær hafa nú þegar gert það, svo kannski getum við bætt stöðu okkar þar.

Hokkíliðinu mínu, Vancouver Canucks gengur líka vel þessa dagana og í kvöld unnu þeir Detroit Red Wings, sem er með betri liðum í deildinni. Þetta var sjötti sigur minna manna í röð og þeir eru nú í efsta sæti í norðvestur riðlinum og í þriðja sæti vesturdeildarinnar. Ah, það er svo miklu skemmtilegra þegar vel gengur.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband