Færsluflokkur: Bloggar
Ekki líkur á sykursýki
29.5.2008 | 19:48
Ég skrapp í Safeway í dag (okkar Hagkaup) að kaupa egg og mjólk og þar var þá hjúkrunarkona sem bauð upp á blóðsykursmælingum. Ég nota mér alltaf svona tækifæri til að tékka á heilsunni svo ég settist niður og rabbaði við hana. Hún sagði mér að blóðsykurinn mætti helst ekki vera lægri en 4 og alls ekki hærri en 7. Ég reyndist vera með blóðsykur 4,3 og fékk hrós frá hjúkrunarkonunni. Hún sagði að það væri greinilegt að ég hreyfði mig reglulega og borðaði hollan mat. Ég spígsporaði rígmontin í burtu, ánægð með sjálfa mig, og reyndi að hugsa ekki um það að ég er nú hálfgerður sykurgrís og borðaði síðast í gær stóran kanelsnúð með frosting. Kannski leyfir fótboltinn það að ég fái mér af og til sætindi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Unnusta eða kærasta?
29.5.2008 | 16:00
Ég er nokkuð viss um að hún er eingöngu unnusta hans ef þau eru trúlofuð. Þannig hef ég alla vega alltaf skilið orðið. Þangað til er hún kærasta hans.
Annars líst mér vel á að karlinn sé kominn með nýja dömu og það ríka. Hann ætti því ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því að hún sé á eftir peningunum hans - sem nú eru öllu minni en áður en hann hitt Heatherkvendið. Og hún er 47 sem er örlítið nær Paul í aldri.
Hvað varð annars um Roseanne Arquette? Allt búið?
![]() |
Mætti með nýju unnustuna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þetta er auðvitað hundfúlt
28.5.2008 | 20:14
Það sem mér finnst mest skítt við þetta er að Flugleiðir munu halda áfram að fljúga í vetur á alla staðina á austurströndinni (New York, Boston, Orlando, Halifax) en hætta einu flugunum sem fara öllu lengra (Minneapolis, Toronto). Sumir munu líklega benda á að það sé vegna þess að flugin á austurströndina séu styttri og að fleiri nýti sér þessar leiðir. Það er auðvitað rétt.
Fyrir okkur hér í vestanveðri Könöndu er þessi breyting hræðileg því hún gerir það að verkum að það er ekki mögulegt að fljúga heim á einum degi. Íslensku vélarnar lenda vanalega um fimm leytið og síðustu vélar dagsins fljúga yfirleitt á vesturströndina á svipuðum tíma. Því er ekki séns að ná tengiflugi. Stundum er hægt að ná flugi til Seattle en þá eru síðustu rúturnar til Vancouver löngu farnar og ef maður á ekki bíl þá er ekki hægt að keyra heim að loknu flugi. Þetta þýðir t.d. fyrir mig að ég þarf alltaf að kaupa mér hótelherbergi og gista yfir nótt, hvort sem væri í Seattle eða Boston/New York.
Flug í gegnum Toronto hefði breytt öllu því þeir fljúga miklu seinna til Vancouver, og Minnepolis virkar oft vel, sérstaklega t.d. fyrir þá sem búa í Winnipeg.
Ég er að vonast til þess að komast heim um jólin. Það gæti orðið ódýrast fyrir mig að fljúga með Air Canada yfir nóttina til London (beint flug héðan) og skipta svo yfir í vél til Íslands. Ef ég flýg með Iceland Express þá hefur Icelandair þar með alveg misst viðskiptin við mig og svo held ég að sé um marga þá sem fljúga heim héðan.
Skil ekki af hverju þeir þurfa að fljúga bæði til Boston og New York. Það er innan við klukkutímaflug þar á milli og ég get ekki ímyndað mér að Boston bjóði upp á tengiflug sem New York hefur ekki. Þeir hefðu frekar átt að halda Minneapolis leiðinni eða jafnvel Toronto. Báðir þessir staðir hafa gott tengiflug og oft á staði sem erfiðara er að ná til frá New York.
Ókei, ókei. Ég er aðallega bara fúl hérna af því að þetta er óþægilegt fyrir mig og aðra Íslendinga í Kanada og ég er ekkert að hugsa um fjárhag Flugleiða. Þeir geta auðvitað gert það sem þeim sýnist og sem þeim hentar og það þýðir ekkert fyrir mig að væla. Ég tek því til baka allt um það að þeir ættu að gera eitthvað annað og læt bara standa að ég hefði gjarnan viljað að þeir gerðu þetta öðru vísi.
Annars skil ég ekki af hverju þetta er tilkynnt svona seint. Þeir hljóta að vera löngu búnir að ákveða þetta því ég fékk tilkynningu um það fyrir alla vega viku, ef ekki er lengra síðan.
![]() |
Icelandair dregur úr ferðaframboði í vetur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Lögreglan í lestinni
28.5.2008 | 17:29
Ég fór í matarboð í gærkvöldi til Jönu. Óðinn var í burtu svo við héldum smá kvennakvöld - bara Jana, Maggý, Julianna og ég. Það var voðalega notalegt.
Jana býr í Surrey svo það er löng leið heim. Maggý keyrði mig á lestarstöðina (og hafði sótt mig þangað fyrr um daginn) og eftir það tók við um hálftíma lestarferð og svo um hálftíma strætóferð (stundum tekur hún lengri tíma ef umferð er mikil).
Ástæða þess að ég ákvað að minnast á þessa ferð er sú að strax á fyrstu stöð komu inn lestarstarfsmenna að athuga hvort allir væru búnir að borga. Lestarkerfið hér byggist að sumu leyti á heiðarleika. Þ.e. maður þarf að borga í lestina en ekki er nauðsynlegt að ganga í gegnum hlið eða sýna lestarmiðann að öðru leyti. Í staðinn koma starfsmenn af og til í lestina til að athuga hvort maður er búinn að borga. Því er í rauninni hægt að taka sénsinn því ekki er oft tékkað, en á móti kemur að ef maður er tekinn í lestinni án löglegs fargjalds þá er sektin há.
Í gær komu sem sagt menn inn til að tékka og var ég auðvitað róleg yfir því enda með strætókort sem háskólanemendur við UBC og SFU fá sjálfkrafa (allir fá kort hvort sem þeir vilja eða ekki og við borgum í staðinn rúma $20 á mánuði, sem er ekki nema um fjórðungur af því sem kortið kostar á almennum markaði). Maðurinn kemur að mér og horfir lengi á kortið mitt. Kannski af því að myndin á því var tekin þegar ég byrjaði í UBC og þar er ég með drengjakoll og alls ekkert lík mér í dag. En hann gerði nú enga athugasemd, lét mig fá kortið til baka og hélt áfram til annarra í vagninum.
Þegar búið var að sjá til þess að allir hefðu borgað (ég hef ekki enn orðið vitni að því að einhver hafi verið ólöglega í lestinni) komu báðir mennirnir til baka og stóðu beint fyrir framan mig á meðan þeir biðu eftir því að lestin stoppaði á næstu stöð. Ég virti þá fyrir mér og var sérlega starsýnt á teiserbyssurnar sem báðir höfðu í beltunum og mér varð hugsað til allra teiser-atvikanna sem hafa komið upp á undanförnu ári. En það tók mig smá tíma að átta mig á því hvað var skrítið hér. Bíddu, venjulegir lestarstarfsmenn hafa ekki teiserbyssur. Þetta var lögreglan!!! Síðan hvenær er lestarlögreglan í því að athuga hvort maður borgar í lestina? Vanalega er það gert af venjulegum lestarstarfsmönnum.
Ég hef ekki hugmynd um hvort eitthvað annað var í gangi þarna. Þetta var á þriðjudagskvöldi og því ólíklegt að þeir hafi átt von á miklum drykkjulátum eða öðrum vandræðum. Voru þeir að leita að einhverju? Er eitthvað í gangi? Og í því ljósi, af hverju starði maðurinn svona lengi á kortið mitt áður en hann lét mig fá það aftur?
En mikið rosalega var eitthvað langt í fattarann hjá mér þarna. Eins og það hafi ekki verið augljóst á fötunum og áletruninni 'police' að þetta voru lögreglumenn. Svona er það annars. Af því að þeir voru að sinna störfum almennra lestarstarfsmanna þá hugsaði ég ekki einu sinni út í það að þetta væru lögregulemenn, fyrr en ég sá bölvaðar byssurnar.
Við þetta má bæta að á síðasta ári hafa komið upp alla vega þrjú tilfelli þar sem lestarlögreglan notaði teiserbyssur á farþega sem voru með læti. Í a.m.k. einu tilfelli virtist það réttlætanlegt en í hinum tveim hefði mátt leysa málin á annan hátt. Það er það sorglega við byssurnar. Þótt af og til komi upp tilfelli þar sem notkun þeirra virðist nauðsynleg þá virðast hin tilfellin enn fleiri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Styttist í nýju vinnuna
26.5.2008 | 20:00
Nú er bara vika þangað til ég byrja í nýju vinnunni og í dag fékk ég bréf frá þeim með helstu upplýsingum um fyrstu dagana. Ég þarf að mæta með ýmis skjöl, svo sem passann minn, ökuskírteini, sjúkrasamlagsskírteini, o.s.frv. Ég mun þurfa að skrifa undir alls konar skjöl, tala við lögreglumann til að tryggja að ég sé enginn glæpamaður, o.s.frv. Svo verð ég send á tveggja daga námskeið þar sem mér verður kennt allt um fyrirtækið og leikana, ég verð send í kynnisferð um bygginguna, þjálfuð í þeirri tækni sem ég mun þurfa að nota, o.s.frv.
Ég þarf að vera mætt á mánudagsmorguninn klukkan átta. Æ æ æ æ æ. Vanalega vakna ég ekki fyrr en klukkan átta í fyrsta lagi. Og hér er ég ekki að tala um að skella mér á hjólið eða fimm mínútna strætóferð. Nei, það tekur mig að minnsta kosti klukkutíma að komast þetta með strætó og ég þarf að gefa mér rúman tíma þennan fyrsta morgun til að vera viss um að ég mæti á svæðið tímanlega. Æ æ, ég mun þurfa að vakna klukkan sex!!!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Skemmtileg afslöppunarhelgi
26.5.2008 | 07:28
Helgin sem er að líða var voðalega notaleg og skemmtileg eins og síðasta helgi.
Í gær, laugardag, fór ég í siglingu með Akemi vinkonu minni og vinum hennar, Brad (eða hét hann Brent?), Paul og Nicole. Brad á bátinn, þessi fíni seglbátur, svipaður á stærð og bátur Martins (míns fyrrverandi) og rúmaði hann okkur fimm ágætlega.
Það var reyndar ekki mikið siglt. Við tókum smá túr inn í False Creek og héldum svo vestureftir en fórum ekki langt áður en ankeri var kastað og marraði báturinn bara út fyrir ströndinni og við gæddum okkur á veitingum sem við Akemi höfðum komið með. Sumir þömbuðu bjórinn en þar sem ég er ekki mikil bjórdrykkjumanneskja þá lét ég nægja að borða osta og vínber og sötraði á púnsi, lítið sterkara en maltöli. Er ekki sérlega gefin fyrir áfengið eins og vinir mínir vita.
Við héldum til baka um kvöldmatarleytið, ætluðum að skutla Nicole af okkur og fara svo eitthvert áfram en enduðum á því að sitja í bátnum fram í myrkur. Skruppum upp á bryggju og fengum okkur almennilega að borða á veitingastað á Granville island en sátum svo áfram niðri í bát í klukkutíma í viðbót eða svo. Þetta varð því um 12 tíma ferð þótt ekki væri öllum þeim tíma eytt í siglingu...ok, engum tíma var í raun eytt í siglingu. Alla vega ekki með segli.
Í dag tók ég morgninum rólega heima hjá mér og eftirmiðdagurinn varð svo enn rólegri. Hitti Mark niðri í English Bay og við lágum þar til klukkan sjö og ýmist spjölluðum, lásum eða dottuðum. Ja, ég dottaði kannski ekki en það lá við. Um kvöldmatarleytið fór Mark til fundar við kunningja sinn og ég fór heim og hélt áfram að slappa af.
Sannkölluð afslöppunarhelgi. Enda kannski eins gott, um næstu helgi verð ég á ráðstefnu og á mánudaginn þar á eftir byrja ég að vinna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þvílík snilld sem YouTube er
23.5.2008 | 08:38
Internetið er dásamlegt og YouTube er eitt það sniðugasta sem þar hefur komið. Maður getur fundið næstum því allt þarna. Og þetta virkar dásamlega þegar maður er að reyna að útskýra eitthvað fyrir fólki.
Í kvöld lá ég í símanum - meira og minna allt kvöldið. Var í miðri Ljótu Bettýju þegar Marion hringdi frá Vicoriu og við spjölluðum heillengi saman. Við höfum alltaf hist tvisvar í viku, að minnsta kosti, undanfarin tvö ár, þannig að það er svolítið skrítið nú þegar hún er flutt yfir í eyju. Maður verður að láta símann duga. En það er eins gott að hún fái sér Skype því langlína er ennþá dýr.
Á eftir henni hringdi Mark og eftir langar umræður um hvaða leikmenn Vancouver ætti að fá í skiptum fyrir Sedin bræðurna sendi ég hann í háttinn eftir fyrirlestur um Eurovision. Hann lofaði að kíkja á íslenska lagið á YouTube. Stuttu seinna hringdi hann aftur og vildi vita hvaða íslenska lag hann ætti að horfa á. Við leit komu nefnilega líka upp ýmis lög úr undankeppninni. Þetta leiddi til langrar Eurovisionumræðu og nú veit Mark allt um stigagjöfina, kalkúnann Dustin frá Írlandi, Pál Óskar frá 1997 og ísraelska sigurlagið frá 1978, Hallelujah. Og af því að hann var kominn í kennslustund um evrópska menningu þá fékk hann líka að horfa á brot úr handbolta (Kanadamenn hafa ekki hugmynd um hvað handbolti er), hafði aldrei séð þá íþrótt áður. Ég hafði einhvern tímann áður reynt að útskýra fyrir honum út á hvað handbolti gengur en það var miklu gagnlegra þegar hann gat bara skoðað þetta á YouTube. Sjón er sögu ríkari segja þeir.
Auðvitað leiddi þetta til hokkígláps og hápunkturinn var þegar Brad May skoraði vinningsmarkið gegn Boston í framlengingu 1993 og sá sem lýsti leiknum varð svo geggjaður að hann gargaði upp yfir sig May day, May day. Hlustiði bara:
Ja það sem tíminn getur liðið. Við hættum loks þessu kjaftæði og ég fór og horfði á afganginn af Ljótu Bettýju (sem ég tók auðvitað upp svo ég missti nú af engu). Og svo...í stað þess að fara í háttinn...þá fór ég að blogga. Væri nú ekki nær að fara að sofa?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Þriggja landa Júróvisjónpartý
22.5.2008 | 21:21
Ég var í súper Júróvísjón partýi. Sat fyrir framan tölvuna og horfði á keppnina á meðan ég talaði við pabba og mömmu í símanum og skrifaðist á við Rut á sama tíma (hvort tveggja í gegnum Skype). Ég lít því svo á að ég hafi verið í fínu fjögurra manna Júrópartýi. Rut sendi meira að segja kartöfluflögur á liðið, eða mynd af kartöfluflögum, og svo þegar þær dugðu ekki þá náði ég mér í kók og kínverska smárétti og borðaði á meðan ég fylgdist með úrslitunum.
Til hamingju Ísland. Nú er bara að sjá hvernig fer á laugardaginn (nema ég ætla að sleppa því og fara frekar á seglskútu um sundið).
![]() |
Ísland áfram í Eurovision |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fékk ósk mína uppfyllta
22.5.2008 | 19:06
Ég er svo hamingjusöm í dag. Á blaðamannafundi í morgun tilkynnti Mike Gillis, nýi framkvæmdastjóri Vancouver Canucks, að hann hafi framlengt samninginn við Alain Vigneault þjálfara til ársins 2010. Við fáum því að hafa AV áfram í tvö ár í viðbót. Ég er í skýjunum yfir þessu enda hafa margir talið undanfarið að Gillis hafi viljað ráða sinn eigin þjálfara í stað þess að halda Vigneault sem ráðinn var af Dave Nonis, fyrirrennara Gillis. En Gillis er greinilega greindarnáungi og ákvað að halda Vigneault sem auðvitað er frábær þjálfari þrátt fyrir að liðið hafi ekki náð að komast í úrslitakeppnina. Þar má um að kenna endalausum meiðslum varnarmanna og því að sóknarmennirnir voru einfaldlega ekki nógu góðir. Nú er að vona að Gillis fái tvo til þrjá góða sóknarmenn í liðið og þá munum við gera usla í deildinni næsta vetur.
Ég á annars von á rólegum degi hjá mér. Hann hefur svo sannarlega byrjað rólega. Las Vancouver Province við morgunverðarborðið, las svo moggann á netinu, síðan spjallsíðu Canucks til að sjá viðbrögðin við þjálfaramálum (sumir eru jafn hamingjusamir og ég, aðrir brjálaðir - það eru hálfvitarnir). Nú ætla ég að læra og reyna að klára undirbúning fyrir ráðstefnuna sem haldin verður hér eftir rúma viku. Ég ætla að reyna að funda einu sinni enn með Hotze vegna þessa. Er búin að ræða málin ítarlega við Lísu.
Plön eru annars um áframhaldandi skemmtilegheit. Ég ætla að draga Mark með mér á fótboltaleik á morgun. Við ætlum að fara og sjá Vancouver Whitecaps spila á móti Seattle Sounders. Á laugardaginn fer ég svo í siglingu. Einn vinur Akimi á seglbát og hann ætlar að sigla með okkur um svæðið. Það ætti að vera yndislegt enda umhverfið ekkert smá dásamlegt. Ég mun pottþétt hafa myndavél með í för (með eða án skjátu) og svo mun ég sýna ykkur afraksturinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Myndir úr kajakferð
22.5.2008 | 00:16
Ég þyrfti að eignast vatnshelda skjátu fyrir myndavélina mína svo ég geti tekið hana með á ströndina, í kajaka og á aðra báta án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að hún blotni. En af því að ég á ekki svoleiðis þá lét ég nægja að taka litla einnota filmumyndavél með mér í kajakferðina um helgina. Ekki eru nú gæðin mikil. Svo er heldur ekki hægt að fókusa almennilega og myndirnar virðast sumar hreyfðar. Annars er ekki alltaf auðvelt að taka myndir í kajak, sérlega ef maður ætlar að taka þær afturfyrir sig.
Ég set samt sem áður nokkrar myndir hérna inn, þar á meðal eina mynd af Mark þar sem hann er alls ekki í fókus en umhverfið er svo flott að ég varð að hafa hana með.
Ég verð að taka fram að þótt Mark sé mjög stór og ég hálfgert kríli þá er nú stærðarmunurinn á okkur ekki sá sem virðist vera á þessum myndum. Rosalega virðist ég annars lítil þegar ég stend þarna innan um alla bátana og ekki hjálpar að myndin er tekin niður á við. En það þýðir ekkert að kvarta. Ég er bara ekki stærri en þetta.
P.S Skil ekki af hverju síðustu myndirnar tvær eru svona óskírar. Þær eru ekki svona í öðrum forritum, og hinar myndirnar eru ekki svona. Ég er búin að setja þær inn nokkrum sinnum en fæ þetta ekki til að virka. Þið verðið bara að giska á smáatriðin sem sjást illa.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)